Tilraunavefurinn
laugardagur, maí 31
  Úrslitin
Lagið mitt, Saman á sjó, sem B-Vaktin flutti í Sjómannalagakeppninni, hlaut ekki náð fyrir eyrum þjóðarinnar. Hún valdi lagið Faðminn eftir Þröst Sigtryggsson, fyrrum skipherra, við texta Kristjáns Hreinssonar. Raggi Bjarna syngur það lag. Mér skildist á Guðna Má Henningssyni, dagskrárgerðarmanni á Rás 2, í útsendingunni á fimmtudaginn, að Faðmurinn hefði hlotið 60% atkvæðanna. Með öðrum örðum - þeir Þröstur og Kristján burstuðu þetta. Í öðru sæti var Siggi prestur með lagið Fullur sjór af síld. Þorvaldur Halldórsson, Gylfi Ægisson og hljómsveitin Miðaldamenn fluttu það. Í þriðja sæti var Hljómsveitin Roðlaust og beinlaust með Sævar Sverrisson fremstan í flokki. Lagið þeirra heitir Mamma. Lagið mitt, rokklagið Heima og skemmtarapopplagið sem heitir Ég sms af sjónum sendi ráku lestina. Ég veit ekki hver röð þeirra var. Vona samt að lagið mitt hafi hlotið fleiri atkvæði en skemmtarapoppið, því það lag þótti mér slakt. En þessi þrjú efstu lög í kjörinu skáru sig víst úr og fengu miklu betri kosningu en hin þrjú.

Ég er ekkert fúll yfir því að lúta í lægra haldi fyrir Ragga Bjarna. Mér finnst mér það lag ágætt. En flutningur Sævars á laginu sem varð í þriðja sæti hefði ég haldið að myndi skila því lagi lengra. Sævar í fantagóður rokksöngvari og fer gríðarlega vel með þetta lag. Þessi tvö lög voru líka þau best unnu, þegar litið er til upptökunnar og heildarhljómsins. Ég fílaði ekki lagið hans Sigga, en rokklagið fannst mér ágætt.

Ég notaði trommulúpu við upptökuna á laginu mínu, þ.e. að ég púslaði saman trommutöktum sem ég átti í taktbanka í tölvunni hjá mér. Þetta púsluspil gekk aldrei upp hjá mér, en ég lét það standa og spilaði á öll hin hljóðfærin ofan á þetta ónothæfa púsl. Lagið dettur úr öllu grúvi hvað eftir annað á þessum tæpu þremur mínútum sem það er. Ég verð að laga það.Ætli næsta skref hjá mér verði ekki að kasta þessari útgáfu af laginu, laga textann aðeins betur til, ráða mér upptökumann , góðan trommara, jafnvel fleiri hljóðfæraleikara og taka þetta upp í almennilegri útgáfu. Það er eina leiðin til að losna við lagið. Ef ég geri þetta ekki verð ég mánaðarlega að dunda mér við að gera nýja og nýja version af þessu blessaði lagi. Þá er nú tímanum betur varið í að búa til ný lög. Það verður að klára svona hluti. Ég var alls ekki ánægður með útkomuna á þessu hjá mér. Annars held ég að þetta atriði hafi ekki ráðið úrslitum í þessari keppni. En ég vil gera þetta þannig að ég sé sjálfur ánægður með það.
 
  Nýjar myndir

Perla María í heimsókn hjá Matta
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Nokkrar nýjar myndir á myndasíðunni.

Hér er mynd af Perlu Maríu þar sem hún er í heimsókn hjá Matta smíðakennara. Það kennir ýmissa grasa í gróðurhúsinu hans á Ekru í Laugarási.
 
  Af Hringi Karlssyni, veikindum og kryddi
Nú er klukkan þrjú aðfararnótt laugardagsins 31. maí og Hringur Karlsson var að sofna aftur eftir að hafa vaknað fyrir um rúmri klukkustund. Hann er veikur. Það er einhver magapest og hann hefur verið að kasta upp.

Í gær var hann hressari. Á leiðinni heim úr sundi gengum við feðgar eftir malar- og moldarslóðanum sem liggur heim til okkar og kallast gata. Hún hafði verið rykbundin fyrr um daginn og hafði barnið orð á því að það væri greinilega búið að krydda götuna. Hann hafði séð þegar kryddbíllinn kom og kryddaði bílastæðið við leikskólann. Og það var kryddbíllinn sem lét jörðina hristast svona líka heiftarlega þarna um miðjan dag í gær.
 
föstudagur, maí 30
  Umfjöllun á Netinu um bolvíska bifreið
Þetta er að verða frægasta bifreið sem bolvískur ökumaður hefur ekið um dagana.
Fjallað er um hann á heimasíðu íþróttafréttamanns Mbl. Það má mikið vera ef ekki verður útbúinn sérstakur mótorsport-kálfur innan í Moggann sem fréttamenn íþróttadeildarinnar tileinka þessari bifreið og þeim ökumönnum sem hafa ekið honum síðustu áratugina.
 
fimmtudagur, maí 29
  Arnór í landsliðinu
Mikið fannst mér ánægjulegt að fylgjast með knattspyrnumanninum Arnóri Smárasyni koma inn í sínum fyrsta A-landsleik í gær. Arnór var nemandi í umsjónarbekknum mínum á Skaganum þannig að ég þekki hann og veit þess vegna að hann er búinn að stefna að landsliðssæti mjög lengi og er búinn að leggja mikið á sig til að verða þetta góður í fótbolta. Hann var því að uppskera í gær. (Nú akkúrat í þessu ríður þessi líka svakalegi jarðskjalfti yfir svæðið - ég er með hálfgerða sjóriðu.) Ég held að Arnór eigi eftir að spila fleiri landsleiki. Hann er svo metnaðargjarn að ég trúi því ekki að hann láti staðar numið hér.

Arnór tengist Bolungavík ekki neitt. En Anna Sólveig, stóra systir hans, er kona Sigurjóns Jónssonar (Gunnu á Gili og Jóns Vignis Hálfdánssonar frá Hóli). Og svo var kærastinn hennar Stefaníu frænku hans Sigurjóns í hægri bakverðinum í leiknum í gær - og mér fannst hann nú vera með betri mönnum liðsins í þetta skiptið.
 
þriðjudagur, maí 27
  Vinsældakosningar
Er nokkuð að marka vinsældakosningar eins og þá sem nú fer fram á Rás 2 í keppninni Sjómannalag ársins?
Verður sá ekki sigurvegari sem hefur verið duglegastur að senda vinum og fjöldkyldu tölvupóst með hvatningu um að kjósa lagið hans? Ég reikna með því. Ég ætlaði að vera svaka duglegur að plögga en eftir að ég heyrði hin lögin hætti ég alveg við það. Ég veit ekki hvort lagið mitt er eitthvað verra en önnur lög í úrslitunum en tveir söngvaranna flytja lögin alveg frábærlega, þeir Raggi Bjarna og Sævar Sverris. Vinnsla þeirra laga er líka virkilega pro, á meðan mitt er tekið upp í skólastofu með Garage band forritinu og skólahljóðfærum. Þannig að mér fyndist varla verðskuldað að sigra. En svo heyrði ég í fólki í gær sem var mér ósammála. Því fannst lagið sem Raggi syngur, og mér líkar svo ágætlega við, bara vera eins og öll hin sjómannalögin sem hann söng í gamla daga. Því fólki líkað það bara alls ekki. Þessi skoðun breytti viðhorfi mínu aðeins. Kannski er fólk ekkert að pæla í sömu hlutum og ég pæli í þegar það hlustar á þessi lög. Því er ég farinn af stað með svolítið plögg. Sendi nokkrum einstaklingum tölvupóst og tilkynnti hvar væri hægt að hlusta á lögin og ég hringdi og benti ritsjórum síðunnar www.víkari.is á lagið og þar er búið að skrifa frétt um lagið mitt. Svo var hringt í mig rétt í þessu og mér bent á að vestfirski fréttavefurinn www.bb.is væri búinn að nirta sömu frétt hjá sér. Þá síðu lesa mörg hundruð manns á dag.

Og svo er ég svo lánsamur að þekkja Magnús Pálma. Hann vinnur í Glitni og þar eru mörg hundruð tölvur sem hægt er kjósa úr. Ég nefni Magnús Pálma sérstaklega því mér er svo minnisstæð framganga hans í að hjápa Herberti Guðmundssyni, sem hafði verið söngvari KAN, hljómsveitar okkar Bolvíkinga. Herbert leitaði eftir stuðningi bolvískra krakka við að koma laginu hans, Can´t walk away, inn á vinsældarlista Rásar 2. Bolvísk ungmenni lögðust mörg á árarnar með Herberti og hringdu og hringdu og hringdu og komu laginu á toppinn, fyrst íslenskra laga. Ég man ekki lengur töluna á símtölum Magnúsar Pálma í vinsældarlistann, en þau voru mörg. Magnús - fjölpóstur á vinnufélagana- núna!
 
  Biskupstungnablogg
Ég setti tvo tengla hérna á síðuna um daginn. Tengla þar sem Tungnamenn blogga. Nú rakst ég á einn Tungnamanninn enn og sá bloggar á moggabloggi. Það er kjarnakona frá Torfastöðum, Drífa Kristjáns, sem lætur gamminn geysa hér. Hún situr í sveitarstjórn hérna í Bláskógabyggð þannig að það má væntanlega lesa á síðunni hennar um ýmiss hagsmunamál sveitarfélagsins. Drífa syngur með mér Skálholtskórnum.
 
mánudagur, maí 26
  Veiði- og fiskvinnsluferillinn
Það þurfa ekki líða nema nokkur ár til viðbótar frá þessu beitningakvöldi okkar Gumma og þá verður þessi helvítis bali endanlega horfinn úr sögunni en sagan stendur sjálfsagt eftir. Sagan af drengnum sem vandaði sig svo mikið við að þræða loðnu á króka og leggja línu í bala að á endanum, þegar hann loksins hafði lokið verkinu, þá uppgötvast að hann hafði ekki beitt einn einasta krók. Heldur bara vandað sig við að gera ekki neitt. Geriði bara grín þarna! Ég er ekkert sár! Það mætti nú fylgja sögunni að ég beitti fleiri bala dagana á eftir. Að vísu ekki marga bala á dag. En hraðinn jókst - aðeins. Það átti vissulega ekki við mig að beita - ég var betri að mála, en ég kláraði það verk sem ég hafði ráðið mig til að leysa af hendi og beitti alla þá daga sem ég hafði ráðið mig til þess starfs. En þetta var í páskafríinu 1987 og við Gummi höfðum unnið fyrstu 5 daga þess í íshúsinu, svo þetta varð ekki langur starfsferill. Síðan hef ég aldrei unnið við veiðar eða fiskvinnslu.

Ég hef kosið að líta þannig á þessa sögu að hún staðfesti aðeins það að ég sé vandvirkur til allra verka. Það hefði Pollianna líka gert.
 
  Lagið mitt er í úrslitum
Lagið sem ég samdi og sendi í Sjómannalagakeppni Rásar 2 komst í úrslit keppninnar og verður leikið þar í vikunni og eins má heyra það og hin lögin í úrslitunum á síðu Popplandsþáttarins á vef Ríkisútvarpsins. Það heitir Saman á sjó. Hljómsveitin B-Vaktin flytur lagið. Eigum við ekki bara að segja að þetta sé b-vaktin í áhöfn Dagrúnarinnar eitthvert sumarið? Hvað segiði um 1989? Er það ekki gott ár? Hljómsveitin B-vaktin er frá Bolungavík, hver einasti meðlimur hennar er borinn og barnfæddur Bolvíkingur. Þetta eru allt þaulreyndir sjómenn og röskir beitningamenn að auki.

Hljómsveitin telur reyndar ekki nema einn meðlim og hann hefur satt best að segja enga reynslu af sjómennsku. En förum nú ekkert að bera það á torg alveg strax. En hann er sannarlega Bolvíkingur.

Ég bið ykkur, lesendur bloggsíðu minnar, um að heimsækja vefinn www.ruv.is/poppland og finna þar tengil Sjómannlagakeppninnar. Hlustið á lagið og ef ykkur líkar það þætti mér vænt um að þið gæfuð því atkvæði ykkar í kosningu hlustenda á Sjómannalagi Rásar 2 árið 2008.

Ég er búinn að heyra hin lögin. Ég spái Ragga Bjarna sigri. Það er bein tenging í huga manns milli Ragga Bjarna annars vegar hins vegar sjómannalags. En mér skilst að 40 lög hafi verið send inn svo það er nú út af fyrir sig ásættanlegt að koma laginu í 6 laga úrslit. Mér sýnist gamall sóknarprestur okkar Bolvíkinga, Siggi Ægis, líka eiga lag í keppninni.

Fyrst gerði ég textann þannig að það var sungið um að gerast háseti annað hvort á Heiðrúnu ÍS frá Bolungavík eða Höfrungi þriðja frá útgerð HB & Co á Akranesi. En þegar ég fór að vinna í textanum og laga hann að íslenskum bragfræðivenjum gekk hvorugt alveg upp. Það voru orðin of mörg H þegar ég þurfti að koma fyrir orðunum háseti, Höfrungur, Haraldur og HB. Hins vegar er það bara staðreynd að nöfn skipstjóranna á Heiðrúnu, Einars og Jóns Eggerts, byrja ekki á H. Þannig að á endanum varð vísan svona:

Gætir þú elskað mig ennþá
ef ég nú færi aftur á sjó.
Ég verð háseti á Hugrúnu ÍS
með Hávarði, - og skaffa þá nóg.


Svona er þetta allt saman rétt og eftir kúnstarinnar reglum. Hins vegar bulla ég svolítið síðar í textanum þegar ég geri Hugrúnu að nútíma frystitogara með ljósabekk og gufubaði fyrir áhöfnina. En það er óneitanlega skemmtilegt að ímynda sér hana þannig. Svo vantaði mig þriggja atkvæða nafn á einhver fiskimið og mundi ekki eftir neinu. Þá stakk Helga Á. (konan í næsta húsi og vinnufélagi) upp á álfkonumiðum. Helga á einstaklega létt með að setja saman vísur. Ég bar undir hana nokkrar breytingatillögur sem ég var með að textanum og hún aðstoðaði mig við að velja úr þeim og fínisera þær aðeins til. Henni fannst það svo tvírætt að sjóarinn ætlaði sér að fiska á álfkonumiðum. Ég efast nú um að álfkonumið séu til í sjónum við Íslands strendur en Eyktarás var heldur ekki til þótt við syngjum um hann í Þingvallalaginu þeirra Jónasar og Jóns Múla, -ekki fyrr en hann varð gata í Reykjavík. Það er því ekki útilokað að Álfkonumið verði einhverntíma fengsæl fiskimið eða bara gata í Bolungavík.

Í textanum koma fyrir línur þar sem mig langaði að vitna í flotta línu úr gömlu sjómannalagi. Muniði þessa um það þegar öldurnar kinnunginn kyssa. Sá koss er sem sagt endurgoldinn í þessu lagi. Loksins, loksins.

Allir að hlusta (og kjósa!).
Myndirnar eru báðar af togaranum Hugrúnu ÍS 7.
 
sunnudagur, maí 25
  Einfalt og töff
Ég var að keyra bílinn minn eftir Sæbraut í henni Reykjavik síðastliðið föstudagskvöld og það var eitthvert leiðinlegt lag á Rás 2 svo ég svissaði yfir á Rás 1. Þá var þar í gangi lagið Video killed the Radio star í mjög einfaldri útgáfu. Það var aðeins kassagítar go tvær raddir. Mér fannst þetta flott. Hélt fyrst að þetta væri Sprengjuhöllin. Svo kom nú reyndar á daginn að þetta voru Haraldur Freyr og Heiðar Örn úr Botnleðju að syngja út útvarpsþáttinn sinn Pollapönk. Svo hlustði ég á þáttinn núna áðan og er enn á því að þeir hafi farið vel með þetta gamla lag. Heiðar Örn hefur sönginn vel á valdi sínu og beitir röddinni á skemmtilegan hátt.
 
föstudagur, maí 23
  Megas um fótboltann
Ég er að hlusta á tónlist. Megas syngur.
Þá rifjast upp samtal sem ég átti við hann um ensku knattspyrnuna.
Einhverstaðar í samtalinu:

Megas: „Ég hef aldrei skilið þennan áhuga íslenskra karlmanna fyrir breska boltanum. Breski boltinn hefur enga tengingu við okkur Íslendinga. Og svo þykjast menn hér vera stuðningsmenn liða frá einhverjum stöðum eins og Manchester og Liverpool. Maður gæti kannski skilið þetta ef við værum að tala um Hull eða Grimsby. Einhverjar borgir sem tengjast okkur þó alla vega á einhvern hátt."
 
  Nýir tenglar
Ég hef sett inn nýja tengla af síðu minni. Þar ber fyrst að nefna tengil Bagglútssíðuna. Nú þarf ég ekki lengur að fara fyrst á síðu Kristjáns Jóns til að komast inn á Baggalút. En ætli ég kíki ekki samt á síðu Kristjáns við og við bara svona til að lesa það sem hann skrifar og til að lauma mér inn á síður þeirra Hlyns Þórs og Dr. Gunna. Þar getur verið gaman að lesa.

Jæja, svo kynni ég fyrir ykkur, kæru frændur og vinir í Bolungavík og nærsveitum, sveitunga mína hér í Biskupstungunum. Það er frændur sem heita Skúli Sæland og Páll Magnús Skúlason. Þeir blogga báðir og eru vel ritfærir menn. Ég veit fyrir víst að þeir lesa þessa síðu en þeir geta ekkert í leiknum skemmtilega Hver er Víkarinn. Í pistlum þessara tveggja nákvæmnismanna og sómapilta kynnist þið uppsveitahúmornum og fáið í kaupbæti innsýn í líf hinnar dæmigerðu Uppsveitafjöldkyldu. Eða þannig sko.

Tenglarnir eru hér hægra megin á síðunni. Skúli er Sælands og Páll er tenór og fleira.

Og svo er ég auðvitað búinn að fjarlægja tengilinn á síðu Orra vinar míns, þar sem hann er búinn að henda henni. Nú ætlar hann að krefja okkur um greiðslur fyrir að vilja lesa það sem hann skrifar og gerast rithöfundur. Þá verður hann að venja sig af því að nota orð sem ég skil ekki. Nýrótískur er ekki fyrsta orðið sem Orri hefur skráð á bloggið sitt og ég hef ekki skilið.

Þaðernefnilegaþað!
 
  Lítið stuð á Selfossi
— ÞJÓÐBLOGG —
Ein vísa um evrópskan ófögnuð
HJÁLMAR JÓNSSON FRÁ BÓLU
bola.blogfrenzy.dk

Þið einföldu déskotans ömurðarflón
sem örvingluð sitjið og starið
á glitskrúðugt úrkynjað evróvisjón
uns allt ykkar skynbragð er farið.

(www.baggalutur,is - 23/5 2008)


Það var hringt í mig í gær fljótlega upp úr fjögur og ég beðinn að spila í Eurovisionpartíi í Hvítahúsinu á Selfossi. Ég hafði svo sem alveg tök á því. Átti að hefja leik strax eftir útsendinguna í Sjónvarpinu og leika og syngja til eitt. Það er skemmst frá því að segja að það mætti ekki kjaftur í Hvítahúsið. Og ég sem hafði eytt dágóðum tíma í að rifja upp nokkra júróslagara og prenta út júrótexta, læra nýja íslenska lagið og laga það að kassagítar og barritónrödd. En úr því ég var kominn á Selfoss skellti ég mér bara á pöbbinn og sá trúbador spila. Svoleiðis hef ég ekki séð eða heyrt árum saman. Þessi kallar sig Siffa og ég bara kunni vel að meta það sem hann var að gera. Endaði náttúrulega með því að hlaupa út í bíl eftir mandólíninu og tók með honum nokkur lög fyrir svo til tómum sal. Það var sem sagt lítið stuð á Selfossi þetta kvöldið.
 
miðvikudagur, maí 21
  Endurheimt

Ég hef endurheimt stelpurnar mínar. Gréta og Perla María voru að koma heim frá Svíþjóð. Þær fóru til að heimsækja ömmu Grétu sem býr á Skáni. PM hefur frá ýmsu að segja. T.d. því að það vaxa bleik og fjólublá blóm á sumum trjám í útlöndum og kóngurinn í Svíþjóð heitir Kalli eins og ég.
 
  Upptaka
Eftir hádegið slæptist ég í vinnunni og í stað þess að vinna nokkuð lék ég mér við að taka upp lag sem ég samdi fyrir nokkru. Ég hætti ekki fyrr en það var komin einhver mynd á þetta hjá mér. Þá brenndi ég útkomuna á disk og sendi í Sjómannalagakeppni Rásar 2. Ég þykist vera mjög mikill sjóari í þessum texta. Og það er vísað í heimahagana og líka á Skipaskaga. Það er hljómsveitin B-vaktin sem flytur lagið. Mér finnst það svo frystitogaralegt nafn. Lítur ekki út fyrir að það séu meðlimir áhafnar einhvers togara sem skipi hljómsveit með nafni eins og því? En ég er bara einn í hljómsveitinni. Ég samdi lagið og textann, púslaði saman trommulúpum, spilaði píanó og hljómborðsbassa, munnhörpur og gítara, söng og raddaði, hljóðblandaði og skilaði geisladiski með laginu á í eigin persónu í Útvarpshúsið. Auðvitað hefði ég viljað gera þetta betur en frestur til að skila laginu rennur út á morgun og svo átti ég erindi til Reykjavíkur í dag.

Ef lagið mitt kemst í úrslit þessarar keppni fer það í spilun innan skamms og þið sem þekkið mig munuð þekkja það á djúpu barritónröddinni og vísununum í útvegssögu Bolungavíkur og Akraness.
 
  Skemmtilegar myndir
Skemmtilegur myndir úr grásleppuróðri frá Bolungavík.
 
  Queen á Selfossi


Í gærkvöldi var okkur Hákoni var boðið að fara á lokaæfingu/forsýningu á heilmiklu sjóvi sem verður á Selfossi í kvöld. Þetta voru Vortónleikar Kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands. Stjórnandi kórsins er Stefán Þorleifsson, sem er líka skólastjóri Tónkjallarans, tónlistarskólans sem ég hef verið að kenna við í vetur. Í þetta sinn gerði Stebbi þetta öðruvísi en áður. Hann var með hljómsveit á sviðinu og rokksöngvarann Magna Ásgeirsson í einsöngshlutverki. Viðfangsefnið: Valin lög ensku hljómsveitarinnar Queen.


Tónleikarnir verða í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi. Þar var búið að koma fyrir risastóru ljósa- og hljóðkerfi. Sándið var ágætt og krafturinn í bandinu skilaði sér prýðilega út í sal. Hljómsveitin DBS skilaði sínu fullkomlega. Það var greinilegt að strákarnir eru búnir að liggja yfir þessu verkefni í nokkurn tíma, því þetta er ekki auðveldasta tónlistin að spila. Í bandinu eru Stefán sjálfur á píanó, Robbi Dan á bassa (eina tengingin við Bolungavík sem ég kom auga á í gær - hann er barnabarn Kjartans gamla Guðjónssonar), Trausti Einarsson á gítar, Stefán Þórhalls (Á Móti Sól) á trommum og einhver bráðefnilegur unglingur á gítar líka. Hér er mynd af þessari hljómsveit (og mér sjálfum).

Magni var pottþéttur í sínu og kórinn massívur, kraftmikill og bara góður. Svo var þarna sópransöngkona, Gyða Björgvinsdóttir. Hún söng The Show must go on þannig að maður fékk gæsahúð og hún átti spretti í We are the Champions sem mér fundust alveg hreint frábærir. En í fyrsta sinn sem hún kom fram á sviðið söng hún dúett með Magna í Under pressure og það virkaði alls ekki hjá henni. Spurning hvort það lag verði nokkuð með í kvöld. En öll hin lögin virkuðu og voru vel flutt í alla staði.

Bandið tók nokkur lög með Magna, án kórsins. Það var vel gert hjá þeim. T.a.m. tóku þeir Tie your mother down af gríðarlegum krafti. En ég fékk í sjálfu sér ekkert út úr því að sjá hljómsveit covera Queen lög á tónleikum, en þegar kórinn var sviðinu var einhver flötur á flutningi laganna sem var forvitnilegur og ánægjulegt að fá að upplifa hann.


Stebbi Þorleifs, Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands, hljómsveitin DBS, Magni og Gyða og EBé hljóðkerfi fá bestu þakkir frá mér fyrir góða tónleika og ég óska þeim góðs gengis í kvöld. Ég hvet alla til að skella sér á Selfoss í kvöld og verða vitni að þessum fínu tónleikum. Mér skilst að hægt sé að fá miða hér: www.midi.is.
 
mánudagur, maí 19
  Agnið virkaði ekki
Fiskifærðingurinn beit ekki á agnið. Hann er þá ekkert í gúgglinu.
 
  Í þessu boxi mínu


Gréta á geisladisk með lögunum úr undankeppni Eurovision sem hún hlustar stundum á í bílnum. Þá syngjum við stöku sinnum með, t.d. í laginu eftir Dr. Gunna, Ís í boxinu mínu. Hringur stoppar okkur alltaf af og leiðréttir textann sem við förum með. Í meðförum hans, og hann syngur þetta oft, er textinn svona:

Viltu vera í þessu boxi mínu?
Kúlan í brauðforminu.
Kaupi mér ís með gulli og hrísgrjón.
Viltu vera ísinn minn?
 
sunnudagur, maí 18
  Gildra/tilraun/sjónarmið
Eftir bloggrúnta þessarar viku langar mig að gera tilraun. Mig langar til að vita hvort Magnús Þór Hafsteinsson, bæjarfulltrúi Frjálslyndaflokksins á Akranesi skrifi athugasemd við þessa færslu. Ég hef nefnilega fengið á tilfinninguna að þegar nafn hans er í umræðunni, eins og raunin hefur verið síðustu daga, gúggli hann því oft á dag og leiti uppi bloggfærslur þar sem hann svo ver sig í athugasemdakerfunum. Þetta er nú virðingarvert. Ég sá að Hlynur Þór var að hnýta í hann og eins Grímur bæjó og Magnús Þór gerir vart við sig á athugasemdakerfunum skömmu eftir að færslarnar eru birtar og þar ver hann sig með kjafti og klóm.

Ég hef svolitla samúð með honum. Það er ekki allt skítkastið sem Magnús Þór má þola þessa dagana jafnmálefnalega framreitt. Hlynur Þór og Grímur kunna sig nú, en það á nú ekki við um alla hina bloggarana. Mér finnst MÞH spyrja spurninga sem búast hefði mátt við að einhver myndi spyrja og vissulega er skylda hans sem bæjarfulltrúa, ef hann telur einhvern vafa leika á að sveitarfélagið sé í stakk búið til að ráða við verkefnið, að sjá a.m.k. til þess, að eins stór aðgerð og til stendur að fara út í á Skaganum, sé þá alla vega vel undirbúin, - allra vegna - líka fólksins sem er að koma. Hins vegar hlýtur eins stór aðgerð og móttaka flóttafólks að vera vel undirbúin og þar af leiðandi að þola að bornar séu fram spurningar um framkvæmdina. Það bara hlýtur að vera.

Gangi ykkur vel með verkefnið Skagamenn.
 
  Vestlendingar á Suðurlandi
Ég sé í sunnlenskum hérðasfréttablöðum að tvö skólasystkini mín úr Fjölbraut á Akranesi eru orðin embættismenn sveitarfélagsins Árborgar. Kata Georgs er umhverfis-eitthvað og Borgar Axelsson (sem ég held að hljóti að vera sá Borgar sem hékk meðal Borgnesinganna undir stiganum) er starfsmannastjóri eða eitthvað slíkt.

Ég hef ekki hitt þau enn. En ég hef annað slagið rekist á Helenu litlu systur Leifs gítarleikara Óskarssonar. Hún býr á Selfossi, en ég held hún vinni í Reykjavík.
 
laugardagur, maí 17
  Heimkoma

Eins og það hlýtur að vera gaman að fara í tónleikaferð til útlanda hljóta menn að vera orðnir þreyttir eftir langan tíma í rútu og sándtékkum. Nú ættu félagarnir í hljómsveit Arnar Elíasar að vera komnir heim til Íslands eftir Kanadatúrinn.
 
miðvikudagur, maí 14
  Að semja sjálfur
Einhverjar bestu línur úr texta sem saminn er um leið og hann er sunginn heyrði ég rétt í þessu. Það var 5 ára dóttir mín sem söng hástöfum:

Ég skal bjóða þéééééér í hjarta mitt
svo ég geti dreeeeeeeheepið þig.

Þetta er jafnvel enn betra en það sem Davíð Þór söng í bílnum hjá mér um daginn:

Ögmundur Jónasson
ber á sig body lotion.
 
  Í 1. sæti á Billboard
Ég rakst á bloggfærslu hjá Þorgeiri, framkvæmdastjóra Sinfóníunnar og Ljótum hálfvita (ég þekki hann ekki - ég bara rataði inn á bloggsíðu hans af síðu Ylfu Mistar, sem hefur starfað með honum í áhugaleikfélaginu Hugleik, sem Árni Björnsson, þjóðháttafræðingur sagði mér í óspurðum fréttum úr höfuðstaðnum að væri eina leikfélagið, að atvinnuleikhúsunum meðtöldum, sem gerði nokkuð af viti er tengdist leiklist í henni Reykjavík. Og Ylfu Mist þekki ég ekki heldur - en hún á heima í Bolungavík og þess vegna finnst mér kannski eins og ég þekki hana og auk þess verslum við Gréta oft við svo almennilegan mann sem er giftur föðursystur hennar og spyr okkur iðulega frétta að vestan og getur spjallað þessi ósköp um heimsóknir sínar til Bolungavíkur. Og Árna Björnsson þekki ég ekki heldur - en við höfum einu sinni unnið saman að tónlistarflutningi á kvöldvöku sem tileinkuð var Bellman - sem Árni þekkir betur en flestir Íslendingar).

Jæja, þetta var nú útúrdúr. Í bloggfærslu Þorgeirs þessa var hann að benda á heimasíðu sem tengir saman dagsetningar og lagið sem var á toppnum á Billboard vinsældarlistanum. Þannig gat ég t.a.m. komsit að því að Billy Preston var á toppnum 1. júlí 1973 með lagið Will it go around in circles.

Þorgeir spyr lesendur hvort þeir viti hvert þeirra lag sé. Ég er að hugsa um að stela þeirri hugmynd frá honum og biðja ykkur sem nennið að gefa ykkur tíma til að gá að þessu um að láta þess getið hér á athugasemdakerfinu hvaða lag sat á toppi listans daginn sem þið fæddust.
 
mánudagur, maí 12
  Baggalútur
Það eru sérstakir tímar sem við lifum á. Fyrir nokkrum árum var Baggalútur heimasíða nokkurra háskólanema sem notuð þann vettvang til að vera sniðugir. Svona þróaður menntaskólahúmor. Nú, nokkrum árum síðar, er Baggalútur svo miklu meira. Þessir piltar halda t.a.m. úti hljómsveit sem hefur innan sinna raða bestu hljóðfæraleikara íslensku poppflórunnar og þar að auki virðast þeir hafa greiðan aðgang að öllum mestu snillingunum á sviði hljóðfæraleiks. Þeir hafa einn besta upptökumanninn, einn flinkasta og sniðugasta textasmiðinn, góða lagahöfunda og söngvara sem verður betri og betri með hverju laginu sem þeir senda frá sér. Og þeir virðast vinna vel saman. Nýjasta lagið þeirra (sem er hægt að heyra á síðunni þeirra) hefur þessa flottu strengjaútsetningu og er æðislega skemmtilega hljóðblandað.
 
sunnudagur, maí 11
  Hákon Karlsson og Hjölli

Tveir fiðlarar
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Hákon var að syngja með Barnakórnum á aðventutónleikum í Skálholti. Hjörleifur Valsson var að spila á fiðluna. Okkur finnst að það þyftri að mynda þessa merku fiðluleikara saman.

Annars er Hákon staðráðinn í að hætta að læra á fiðlu. Við foreldrar hans erum búnir að gera flest sem hægt er að gera til að halda honum í tónlistarnámi. Okkur finnst alveg synd að hann skuli ekki hafa meiri áhuga en raunin er. Hann er nefnilega mjög músíkalskur og þegar hann æfir sig vel spilar hann virkilega vel á fiðluna. En nú hafa allir gefist upp á að þrátta um æfingar og vandvirkni. Það verður ekkert fiðlunám næsta vetur.

Ég er nú aðeins rólegri yfir þessu núna heldur en í fyrra, þegar okkur tókst að tala hann til og mamma hans mútaði honum til að halda áfram tónlistarnáminu. Núna er hann sko farinn að leika sér að því að spila bæði á gítar og trommur. Hann hefur lítið fyrir því og finnst það skemmtilegt. Þá er tilgangnum náð. Það á að vera gaman að leika tónlist.
 
  Gömul mynd


Skemmtilegur þessi skanni.

Þessar myndir eru greinilega teknar eitthvert föstudagskvöldið veturinn 1994-1995. Þær eru teknar í eldhúsinu í risíbúð við Skaftahlíð í Reykjavík. Þar var stundum tekið í gítar eftir fótbolta með kennaranemum. Við Björgvin vinur minn erum í miklum fíling, sennilega að byrja á Starman eftir Bowie þarna á annarri myndinni. Á hinni myndinni er Bjöggi örugglega að leika uppáhaldslagið mömmu hans, það er eftir Ben E. King, en þó ekki Stand By Me. Leiðin hefur svo líklega legið upp í Kennó á bjórkvöld. Það var stuð stöku sinnum á námsárunum, en lítið hefur maður nú étið!
 
  Polka alpina
Í framhaldi af skrifum hér í síðustu viku um tónlist til að hreyfa sig í takt við í heilsurækt bendi ég á lag sem mér þætti alveg kjörið í þeim tilgangi, til dæmis til upphitunar.
 
  Sýrður
Mjöf fyndin bloggfærsla Hlyns Þórs Magnússonar, blekbónda á Reykhólum
 
  Vorið
Það er merkilegt hvað vorið er fyrr á ferðinni undir Eyjafjöllunum en annars staðar hér á Suðurlandi. Ég var á ferðinni um helgina, var að spila austur á Klaustri. Það er komin spretta í túnin undir Fjöllunum. Annars verður nú græni liturinn meira áberandi dag frá degi út um allt þessa dagana. Í fyrravor átti ég líka erindi þarna austur um þetta leyti og þá tók ég eftir þessu sama. Vorið kemur fyrst undir Eyjafjöllunum og þess vegna er það kannksi ekkert skrítið að bóndinn á Þorvaldseyri skuli alltaf vera fyrstur að hefja slátt.
 
föstudagur, maí 9
  Spáin
Spáin er ekki byggð á neinu nema þefskyninu.
Ég hef ekki séð leik í deildinni í nokkur ár utan einhverja þrjá eða fjóra í sjónvarpinu í fyrra. Ég les fréttirnar á Fotbolti.net og held með ÍA. Svona er spáin mín í ár.

Keflavík fer í úrslit í bikarnum.
Bjarni Guðjónsson í ÍA verður valinn besti leikmaður mótsins.
Hörður Sveinsson í Keflavík skorar flest mörkin.
Guðjón Baldvinsson í KR verður valinn efnilegastur.
Jón Vilhelm Ákason í ÍA á eftir að spila sig inn í a-landsliðið á þessu ári.
Ingvi Sveinsson í Þrótti nær ekki að skora í ár.
Hjörtur Hjartarson í Þrótti lætur verja frá sér vítaspyrnu í 1. umferð.
Guðjón Þórðarson í ÍA verður dæmdur í leikbann síðsumars.
Þjálfari Fram verður rekinn á tímabilinu.
KR mun finna taktinn og tapar ekki leik í júlí og ágúst.

1. KR
2. VALUR
3. FH
4. ÍA
5. FYLKIR
6. KEFLAV
7. ÞRÓTTUR
8. BREI
9. FJÖLNIR
10. GRIND
11. FRAM
12. HK
 
  Eiríkur les þeim pistilinn
Eiríkur Guðmundsson, fyrrverandi orgelleikari hljómsveitarinnar Net frá Bolungavík, er einn umsjónarmanna útvarpsþáttarins Víðsjár á Rás 1. Hann flutti eftirtektarverðan pistil í upphafi þáttarins í dag. Áður hefur hann fjallað um æskustöðvarnar í þessum þáttum og fyrir nokkrum árum fór það eitthvað fyrir brjóstið á sumum Víkurum. En í þetta skiptið særir hann sennilega engan Bolvíking, en sveitarstjórnarmenn í Reykjavík fá á baukinn.

Hlustið endilega.
 
fimmtudagur, maí 8
  Bahama
Veðurguðirnir eru að gera allt vitlaust með laginu Bahama sem er algjör límheilaklessa. Hrikalega grípandi viðlag. Ég fatta ekki hvað það er við lagið sem gerir það að verkum að maður lærir það utanað við fyrstu hlustun og fær það á heilann. Þetta er ekkert merkileg lagasmíð, margsamin og textinn er algjört bull, meira að segja illa gerður, a.m.k. svona út frá fræðilegu sjónarmiði. Samt sem áður lærði ég hann allan eftir að hafa heyrt hann einu sinni í útvarpinu. Það er eitthvað við lagið sem er svona gott. Krakkarnir í skólanum syngja þetta daginn út og inn og mér tekst að fá ALLA til að syngja með í samsöng þegar ég spila það.Frá 1. bekk og upp úr! Hérna heima syngur Hringur, 4 ára, viðlagið eins og ekkert sé. Er þetta sumarsmellurinn?

Einn samkennari minn sagði mér frá því að áhuginn í landafræðitíma þar sem verið var að læra eitthvað um Vestur-Indíur hefði aukist í bekknum hans þegar krakkarnir föttuðu að Bahama væri þar.
 
  Mugison í BB
Vefsíðan BB.IS segir enn og aftur fréttir af Mugison. Nú er það einhver rithöfundur sem er að bera lof á hljómsveitina sem er nú á túr með Queens of the stone ages um Kanada. Hann er mjög hrifinn eins og lesa má á síðunni hans.
 
miðvikudagur, maí 7
  Bjössi rifjar upp sögur af veiðum
Skemmtilegt endurlit hjá Bjössa prestsins.
Ég man einmitt vel eftir þessum töffurum hlaupandi um grjóthleðslurnar með veiðistangir, húkkur og jafnvel laxasólgleraugu og húkka upp ufsa, bleikur og rauðmaga. Boggi, Belli og Raggi Sæsa voru snillingar í þessu.
 
  Fermingarveisla
Ingólfur kom loksins með nafnið á Víkaranum sem ég hitti í fermingarveislu Margrétar frænku minnar Hallgrímsdóttur, frá Miðhúsum. Það var Egill Hraunbergs, sviðsstjóri í Iðnskólanum í Reykjavík og fyrrverandi vinnumaður á Miðdal. Fermingarbarnið er yngsta barn Halla Guðfinns og Þrúðu konu hans. Í veislunni hitti ég bæði Deddu systur Ketilríðar ömmu minnar og Stefaníu Ósk, systur Kristjáns Karls afa míns. Ætli ég hafi ekki hitt þær síðast í fermingarveislunni minni fyrir 21 ári.
 
þriðjudagur, maí 6
  Búmm búmm búmm
Af bloggi Dr. Gunna:
„Tvær plötur inn í mér vilja komast út. "Dr. Gunni með öllu mjalla", stuðplata, fremur akkústísk, dáldið eins og Beach Boys' Party á köflum, en líka rafmagn. Varla minna en fimmtán lög. Hlýt að koma henni út á þessu ári, það er ekki eftir neinu að bíða. Hin platan er "Dr. Gunni á bretti" (vinnuheiti). Fjörutíu mínútna plata sérhönnuð til átaka í rækt, bara búmm-búmm-búmm. Stefni á hana á næsta ári. Svo er heimildamynd inn í mér líka. Annað hvort gerir maður hana eða ekki. "

Ef Gunni gerir búmm búmm búmm plötu gæti hún svo sem orðið skemmtilegri en allt búmm búmm búmm sem hingað til hefur verið gert í heiminum öllum. Búmm búmm búmm tónlist til að dansa við fer svo í fínu taugarnar á mér að ég get ekki með nokkru móti látið mér líða öðruvísi en illa þegar hún berst mér til eyrna. Þetta er alveg skelfileg hömlun. Fyrir nokkrum árum tók ég mig til að keypti mér nokkra tíma í spinning hjá Kidda kafara á Skaganum. Ég kunni ágætlega við hreyfinguna, æfingarnar og Kiddi var góður kennari. En tónlistin var búmm búmm búmm og mér leið aldrei öðruvísi en illa - ekki einu sinni þolanlega - alltaf illa. Einu sinni setti hann hraðan polka í gang. Þá fílaði ég mig vel. En það var bara einu sinni þetta eina lag.

Ef einhver tónlist fengi mig á hlaupabretti væri það fjörugir polkar og rælar. Ég skokka stöku sinnum og þá hef ég Balkan-músík í eyrunum.

Öðruvísi búmm búmm búmm:
http://www.youtube.com/watch?v=CYryevHIZGw&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=aJq44fxBfns
http://www.youtube.com/watch?v=nRhAQ8aDFUI
http://www.youtube.com/watch?v=NJBFzsAa6CM&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=htF0DPsy6oA&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=aPTNYJXCdXE&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=tTv6CAmCO8I&feature=related
http://www.youtube.com/watch?v=aFkPEZMFs8g&feature=related
 
  Hún á afmæli í dag
Ég man eftir fleiri afmælilsdögum bekkjarsystkina minna en bara Gumma Hrafns.
Ég man að Dóra frænka mín Óskars á afmæli í dag. Tilraunavefurinn sendir henni kveðju í tilefni dagsins.
 
  Hver er Víkarinn (önnur vísbending)?
Þessi Víkari starfar sem sagt við gamla og virðulega stofnun í Reykjavík. Þar er hann sviðsstjóri.
Fyrir ofan skrifborð eitt í Bolungavík eru tveir myndarammar með myndum af unglingum sem einhverntíma störfuðu á þeim „vinnustað". Þessar myndir hafði ég oft fyrir augunum þegar ég var púki sjálfur. Þarna er mynd af þessum frænda mínum, skælbrosandi. Þar er líka mynd af Bjarna móðurbróður mínum, Jóni Guðna frá Sólbergi, Gumma Bern, Agnari Gunnarssyni og nokkrum fleiri strákum.

Hver er Víkarinn?
 
mánudagur, maí 5
  Hver er Víkarinn?
Jæja, ég fór í fermingarveislu frænku minnar í gær. Þar voru einhverjir Víkarar. Sumir þeirra hafa einhverntíma áður verið fórnarlömb í þessum leik en ekki þó sá sem ég spyr um í dag.

Þessi Víkari er frændi minn.
Hann er líka frændi, Jennýjar bekkjarsystur minnar, Magga og Bella, Rögga pensils og Mörthu Kristínar (sem svaraði rétt síðast).
Fyrir nokkrum árum hóf hann byggingu einbýlishúss í Bolungavík. Mig minnir að það hafi hann ekki klárað sjálfur, en húsið reis þó og í því býr bolvísk fjölskylda.
Hann starfar við gamla og virðulega stofnun í Reykjavík. Þarf örugglega að sitja marga fundi en vinnur sjálfsagt mest við skrifborð og tölvuskjá.
Hann á nokkur systkini, bæði bræður og systur. Aðeins eitt þeirra býr nú í Bolungavík.
 
föstudagur, maí 2
  Pylsa með öllu eftir Einar Benediktsson
Þú húðlita bjargráð, þú innyflum útfyllta sin;
undirlögð margræðum sósum, á laukstráðu beði.
Af algleymisfögnuði langþráðum logar mitt gin
er ljúkast um enda þér titrandi varir, af gleði.


Þetta háfleyga ljóð yrkir Baggalútur (líklega Bragi Valdimar frá Hnífsdal) fyrir hönd Einars Benediktssonar.
Af síðu Baggalúts 3/5 2008
 
  Slideshow
Eins og ég sagði frá hér um daginn er ég að fara á spennandi námskeið til Kaliforníu í sumar. Nú var verið að senda mér þessa slóð sem sýnir myndir sem teknar voru á samskonar námskeiði sem haldið var í fyrrasumar.

Það er rétt að vara ykkur við því að þetta er þungt niðurhal. Tekur svolítinn tíma.
 
fimmtudagur, maí 1
  Hver er Víkarinn (önnur vísbending)?
Þessi fyrrum hafsent í meistaraflokki UMFB í fótbolta skokkaði alla jafna fram völlinn þegar færi gafst að kasta boltanum langt inn á vítateig mótherjanna. Þetta var einhverntíma á árunum eftir 1980. Kannski 81 og 82 - eitthvað svoleiðis. Annars er þessi Víkari ekki þekktur fyrir fótbolta. Nokkrir honum skyldir eru það hins vegar.

Hann spilar á gítar og hefur, eins og hann á kyn til í báðar ættir, gaman af því að syngja. En hann spilar líklegast ekkert fyrir aðra en sjálfan sig. Þegar hann kemur vestur veit ég að hann tekur oftast lagið með einum frænda sínum þar, einum alhressasta Víkaranum. Meirihluti Bolvíkinga eru skyldir þessum umrædda manni.

Hann átti stórafmæli snemma á þessu ári.
 
  Útskrift

Perla María og félagar
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Perla María var útskrifuð úr leikskólanum Álfaborg í dag.
Hún verður reyndar í skólanum næstu tvo mánuðina. En svo er leikskólagöngunni lokið!

Nýjar myndir á myndasíðunni.
 
  1. maí 2008

Til hamingju með 35 ára afmælið Gummi Hrafn.
 
  Geymt en ekki gleymt
Ég sit við tölvuna og er að hlusta á þátt á Rás 2 frá því um síðustu helgi. Þetta er þáttur Freys Eyjólfssonar Geymt en ekki gleymt og platan sem hann er að taka fyrir í þetta skiptið er Sturla Spilverksins. Frábær plata. Ég reyni að hlusta sem oftast á þennan þátt. Þessi þáttur er svo skemmtilegur vegna þess að Valgeir Guðjónsson er svo skemmtilegur þegar hann talar um Spilverkið. Það er svona hans barn og honum þykir bersýnilega vænt um það. Þessi tiltekni þáttur finnst mér líka skemmtilegur vegna þess að Freyr leyfir sér að hafa hann mjög nördalegan. Við sem nennum að hlusta á íslenska poppið með öllum líkamanum (eins og Valgeir myndi eflaust orða það sjálfur) erum hrfin af því þegar nördinn í okkur er fóðraður með svona stöffi. Geymt en ekki gleymt er ekki alltaf svona nördalegur. Stundum dettur þátturinn í að vera enn einn tónlistarsagnfræðiþátturinn a la Jónatan Garðarsson.

Minni mitt er svo hræðilega gott þegar kemur að svona stöffi sem ég hef einhverntíma heyrt sagt að nú rifjast upp fyrir mér annar svona þáttur sem var gerður um þessa plötu snemma árs 1997 og var sendur út, sennilega um páskana það ár. Ég hlustaði á hann í kjallaranum á Sólbakka við Austurveginn á Selfossi, þar sem ég bjó þá. Þar búa nú Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld, Bjarni Harðarson, alþingismaður og synir þeirra. Ég man þáttinn eins og ég hafi verið að hlusta á hann í gær - hvert orð. Einkennilegt þetta minni í okkur. Þetta get ég munað en að muna hvernig orð eru skrifuð á ensku tekur mig stundum mörg ár. Ég hef til að mynda verið að skrifa San Francisco nokkrum sinnum síðustu daga og það ætlar aldrei að lærast hvernig á að stafsetja það!

Það má segja um þennan gamla útvarpsþátt um Sturlu að fyrir mér sé hann geymdur en ekki gleymdur. Ég þarf svo að skrifa meira um þann vinsæla útvarpsþátt seinna. Annars var ég að skrifa um hann í gestabókinni á bloggi Dr. Gunna um daginn.
 
  On tour

Mugibandið er á túr um Kanada. Davíð Þór situr ekki auðum höndum á ferðalaginu og bloggar og tekur bæði ljósmyndir og kvikmyndir. Meira líf á Mugison síðunni en nokkru sinn áður. Það er linkur á síðuna hér til hægri.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]