Veiði- og fiskvinnsluferillinn
Það þurfa ekki líða nema nokkur ár til viðbótar frá þessu beitningakvöldi okkar Gumma og þá verður þessi helvítis bali endanlega horfinn úr sögunni en sagan stendur sjálfsagt eftir. Sagan af drengnum sem vandaði sig svo mikið við að þræða loðnu á króka og leggja línu í bala að á endanum, þegar hann loksins hafði lokið verkinu, þá uppgötvast að hann hafði ekki beitt einn einasta krók. Heldur bara vandað sig við að gera ekki neitt. Geriði bara grín þarna! Ég er ekkert sár! Það mætti nú fylgja sögunni að ég beitti fleiri bala dagana á eftir. Að vísu ekki marga bala á dag. En hraðinn jókst - aðeins. Það átti vissulega ekki við mig að beita - ég var betri að mála, en ég kláraði það verk sem ég hafði ráðið mig til að leysa af hendi og beitti alla þá daga sem ég hafði ráðið mig til þess starfs. En þetta var í páskafríinu 1987 og við Gummi höfðum unnið fyrstu 5 daga þess í íshúsinu, svo þetta varð ekki langur starfsferill. Síðan hef ég aldrei unnið við veiðar eða fiskvinnslu.
Ég hef kosið að líta þannig á þessa sögu að hún staðfesti aðeins það að ég sé vandvirkur til allra verka. Það hefði Pollianna líka gert.