Tilraunavefurinn
þriðjudagur, október 3
  Þrjár staðreyndir um hlutdeild mína í Íslandsmeistaraliði Vals og ferli besta leikmanns deildarinnar

#1 Ég er fyrsti (mögulega annar) knattspyrnuþjálfari Andra Rúnars Bjarnasonar sem kjörinn var besti leikmaður efstu deildar karla 2017. Þegar ég sat í stjórn Knattspyrnudeildar Ungmennafélags Bolungavíkur 1998 tókst mér ekki strax að finna þjálfara fyrir yngstu iðkendurna. Það var því ekkert annað að gera en að taka þetta að mér sjálfur. Ég þjálfaði 7. flokk og 6. flokk í um það bil tvo mánuði þangað til hægðist um í frystihúsinu og Gummi Sig gat tekið við af mér.

#2 Ég var í stjórn Knattspyrnudeildar Ungmennafélags Bolungavíkur þegar Rajko Stanisic markvörður og Nenad miðherji komu til félagsins frá heimalandinu (sem mig minnir að sé Serbía). Rajko er enn á Íslandi og er markmannsþjálfari Vals.

#3 Þegar frændi minn lék með Val fór ég eitt sinn með honum heim til liðsfélaga hans til að horfa saman á fótboltalandsleik. Frændi kynnti mig og sagðist fá frá mér punkta og ráðleggingar um leik sinn sem hann hlustaði á og nýtti sér stundum. Liðsfélaginn vildi tékka á visku minni og spurði mig hvað mér þætti um framistöðu hans sjálfs á vellinum. Ég, eins óþarflega hreinskilinn eins og ég get verið, sagði honum að mér þætti hann alls ekki nægilega góður miðvörður, en það var staðan sem þjálfarinn vildi endilega að hann léki. En svo bætti ég því við að ég teldi hann eiga framtíðina fyrir sér í stöðu vinstri bakvarðar. Þar þætti mér hann virkilega góður, svo góður að hann gæti í fullri alvöru náð þeim tökum á þeirri stöðu að hann myndi komast í landsliðið. Þetta var Bjarni Ólafur Eiríksson sem skömmu síðar var orðinn vinstri bakvörður í landsliðinu og atvinnumaður í fótbolta. Bjarni Ólafur var einn albesti leikmaður Íslandsmótsins í ár.
 
laugardagur, september 23
  Mynd af mér í ljótum buxum
Það er langt síðan nokkuð var síðast var skrifað hér. Tilefnið nú er minning um sumarið 1991 og hún tengist ljótum joggingbuxum.

Gréta birti mynd af mér á Facebook sem hún tók líklega sumarið 1991. Ástin blómstraði. Um mitt sumar flutti Gréta inn á heimili foreldra minna. Hún vann í frystihúsinu, ég var auðvitað í málningarvinnu. Um líkt leyti fengum við pabbi Jónas frænda til okkar í vinnu. Hann var hressandi viðbót í gengið og það var oft gaman hjá okkur. Þetta sumar spilaði ég stundum með bassaleikaranum Bjarna Ketils á barnum heima í Víkinni og á Vagninum á Flateyri og eitthvað á Ísafirði líka. Þetta gekk allt vel og lífið var dásamlegt. Eitt skyggir þó á minninguna um sumarið 1991. Það sumar var eitt þriggja vonbrigðasumra á knattspyrnuferli mínum í meistaraflokki.

Þessar buxur eru úr upphitunargalla knattspyrnuliðs Bolungavíkur 1991. Þetta var aðalbúningur okkar í varamannabekkjarráðinu sumarið 1991. Þar sátum við allir smart og í stíl frændurnir; ég, Rúnar og Jónas Pétur, með Magnúsi Pálma, Stebba og Gumma Birgis og fylgdumst með tveimur lélegum fótboltaliðum spila í roki og rigningu á malarvöllum hér og þar um landið.

Ég reyni að finna leið til að birta myndina með færslunni.
 
sunnudagur, desember 27
  Ný tilfinning - Viðkvæmi listamaðurinn
Það er fáránleg tilfinning sem kemur yfir mig stundum þessi misserin sem ég er önnum kafinn við kynningu á plötunni minni og eiginlega alveg heltekinn af því verkefni. Ég elska það þegar fólk lýsir velþóknun sinni eða hrifningu á plötunni fyrir mér eða hrósar mér fyrir einhverja tiltekna þætti verksins. Ég hef líka gaman af því að heyra af því ef einhver er ósáttur við eitthvert atriði eins og tiltekna útsetningu eða bara segist ekki líka við svona tónlist. En ég þoli illa að fá ekki áheyrn eða þegar ég fæ ekki að tilheyra. Ég er ógurlega viðkvæmur fyrir því núna. Nú birtast listar yfir plötur ársins 2015 og ég er ekki á þeim. Ég verð bara sár, - í alvöru. Það er náttúrulega fáránlegt viðbragð en þannig er það nú samt. Arnar Eggert nefnir mig ekki á nafn, samt er hann hrifinn af þjóðlagaskotinni músík, kántrí og rokki og ég daðra nú við þetta allt á plötunni. Ég er hreinlega móðgaður. Dr. Gunni nefnir mig ekki á nafn. Ég veit að hann er nú ekkert á þessari línu í músíkinni en hann hefur vit á því hvað er vel gert og hvað ekki og þess vegna hefði mér þótt vænt um að fá að vera með á hans lista. Björn Jónsson mundi reyndar eftir mér og tók fram að platan mín hefði komið til greina á 10 plötu listann hans, en hún komst ekki þangað inn. Mogginn, Fréttatíminn og Fréttablaðið hafa ekki birt gagnrýni um plötuna þrátt fyrir að hafa fengið hana til áheyrnar og eignar á útgáfudaginn í lok október. Ég þoli það ekki. Ég vil tilheyra.

 
föstudagur, desember 25
  Það eiga ekki allir gleðileg jól
Síðan í gærmorgun hefur hugurinn leitað til góðs fólks sem ég þekki sáralítið en kynntist svolítið þegar ég bjó á Akureyri í gegnum starf mitt í Naustaskóla og í gegnum foreldrasamfélagið í árgangi Hákonar míns í Lundarskóla. Það missti drenginn sinn í bílslysi fyrir 3 dögum, 18 ára frískan, góðhjartaðan og skemmtilegan pilt. Ég held að hann hafi átt kærustu og ég hugsa líka til þess hve hún á erfitt núna. Þetta fólk mun ekki eiga gleðileg jól. Það er útilokað.
 
miðvikudagur, desember 23
  Símtal
Frændi minn einn hefur einhverja þá fegurstu baritónsöngrödd sem ég þekki. Hann er mjög músíkalskur. Mér þótti mikið til þess koma þegar ég var púki þegar hann var einhversstaðar með gítarinn framan á sér og söng. Ég hef lítið hitt þennan frænda minn síðan ég var krakki en hann hringdi nú samt í mig í fyrradag til þess að segja mér álit sitt á nýju plötunni sem hann hafði keypt af mér í vikunni á undan. Hann er rosalega hrifinn af plötunni svo það var auðvitað gaman að heyra í honum. Hann veit líka vel hvað hann er að tala um. Ég man að hann var hrifinn af fyrri diskinum og hringdi líka í mig eftir að hafa hlustað á hann. Mér þykir virkilega vænt um að hann skyldi hafa hringt og naut þess að spjalla við hann um músík, gítara, texta og fleira svoleiðis.
 
miðvikudagur, október 28
  Gutti skólastjóri
Eftir að hafa starfað sem kennai í tvö ár fylgdi ég Grétu minni til Danmerkur þar sem hún var í myndlistarnámi. Þar vann ég verkamannsstörf, sem var svo sem ágætt, en samt saknaði ég kennarastarfsins. Ég brann í skinninu. Ég fékk útrás í tölvupóstsamskiptum við vini mína, kennarana Jón Pál og Björgvin Ívar. Fljótlega færðust öll okkar skrif í þann farveg að skilgreina okkar hugmynd um það hvernig frábær skólastjóri starfaði. Þetta endaði með því að ég tók ákvörðun um að þegar ég flytti aftur til Íslands skyldi ég starfa undir skólastjóra sem hefði það orð á sér að vera frábær skólamaður, hvetjandi leiðtogi, öflugur liðsstjórnandi og fyrirmynd kennaranna sem hann starfaði með. Við leituðum að þessum skólastjóra og fundum hann í Grundaskóla á Akranesi. Það var þess vegna sem við settumst að á Akranesi árið 2000. Mig langaði að vera í liði Gutta. Það að ég hafði verið í Fjölbrautaskólanum á Akranesi og þekkti þar svolítið af fólki hafði ekkert að segja um þá ákvörðun.

Gutti var frábær leiðtogi. Hann lagði á mann mikla ábyrgð, gerði miklar kröfur til manns í starfi, en um leið lagði hann á mann traust og frelsi til þess að starfa eins og manni þótti sjálfum best. Hann hvatti mann til dáða þegar mann datt í hug að reyna einhverja sérstaka aðferð eða þegar maður fór af stað með einhverja tilraun í kennslu eða fyrirkomulagi. En hann skipti sér ekkert af því hvernig maður fór að. Hann vildi líka að við kennararnir ynnum saman að sem flestu sem við tókum upp á bralla. Við kenndum í teymum. Vissulega veitti Gutti okkur ráð, en það var helst bara þegar maður óskaði eftir þeim. Hann spjallaði mikið við okkur á kennarastofunni. Var félagi okkar. Það var ómetanlegt að eiga hann að þegar spjót stóðu að okkur frá bæjarbatteríinu. Hann þekkti það allt saman út og inn og tók alltaf afstöðu með okkar málstað. Eins þegar eitthvert ósætti kom upp í okkar hópi, eins og gat gerst þar sem dýnamíkin var stundum töluverð, þá gat maður alveg treyst hans leiðbeiningum um sættir og lendingu málanna. Og þegar þurfti að vinna í allra erfiðustu málunum sem umsjónarkennarar lenda í var hann eins og klettur á bak við mann og hjálpaði manni við að undirbúa sig fyrir fundi. Starfsmannaferðir gerði hann skemmtilegar og aðra viðburði utan skólatíma sömuleiðis. Gutti var ekkert alltaf að standa í undirbúningi slíkra viðburða, það gerðu aðrir, en hann var búinn að koma hlutunum þannig fyrir að vinnustaðurinn gekk eins og tölva sem hann hafði forritað. Magnaður skólamaður, traustur og öruggur, skemmtilegur og hvetjandi. Frábær skólastjóri. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að starfa með Gutta og hef reynt að taka mér hann til fyrirmyndar um ótalmargt í mínu starfi sem kennari.

Einu sinni réð Jón Páll vinur minn mig til þess að mála fyrir sig í íbúð sem hann var nýfluttur inn í. Þá var hann í stjórnunarnámi í Kennaraháskólanum. Þetta er mjög eftirminnileg vinnutörn. Ég spartslaði, pússaði, sópaði, málaði á meðan Jón spurði mig hverrar spurningarinnar á fætur annarri og skráði hjá sér svörin. Allar spurningarnar snérust um það hvað Gutti gerði við þessar eða hinar  aðsæðurnar, hvernig hann hefði verið vanur að bregðast við hinu og þessu.... o.s.frv. Gutti er fyrirmyndin sem skólastjórar ættu allir að fylgja.

Minningin um góðan dreng lifir.
 
þriðjudagur, júlí 28
  Sumarstarfið og sumarfríið
Í sumarfríinu hef ég tekið nokkra daga i frí, en svo hef ég líka verið að vinna að plötunni, mætt marga daga í stúdíóið, og ég hef líka verið að spila nokkuð í veislum og á böllum. Hér er myndband af flutningi mínum á lagi sem verður á plötunni, auðvitað í allt öðruvísi útgáfu þar.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]