Tilraunavefurinn
föstudagur, apríl 30
  Hákon á ferðalagi
Pabbi hringdi í gærkvöldi og bauð Hákoni að koma og vera hjá þeim gömlu hjónunum um helgina. Mér finnst það alveg frábært að hann skuli loksins vera farinn einn vestur. Nú fær hann að vera einn með þeim alla helgina; enginn pabbi, mamma, Perla María, Andrea eða Jakob Freyr. Hann fór af stað í bíl með Alla föðurbróður mínum og Mummu Lóu í dag, verður í Bolungavík seint í kvöld.

Heppinn!
 
  Hljómsveitin í Rein
Svana var að skrifa í Gestabókina. Hún býr í London.

Einu sinni vorum við saman í hljómsveit sem hét, ef ég man rétt, Alþýðukvartettinn eða Hinn íslenski alþýðukvartett. Ég stofnaði það band og langaði að gera svona órafmagnaða hygge-hljómsveit, það varð ekki mikið úr því hjá okkur. Í kvartetti þessum voru, auk mín og Svönu, gítaristinn Orri Harðarson og bassaleikarinn Hrannar Örn Hauksson. Ég man að við lékum á samkomu hjá Alþýðubandalaginu á Akranesi í félagsheimilinu Rein við Suðurgötu. Ég man líka að Orri hafði verið beðinn um að skemmta en kynnti hljómsveitina með því að segjast vera svo mikill sósíalisti að hann hefði ekki getað hugsað sér að spila einn heldur kallað á vini sína til að vera með í spilverkinu!
 
fimmtudagur, apríl 29
  Vilborg
Ég mæli með pistlunum sem Vilborg skrifar á heimasíðu knattspyrnudeildar ÍA.
Þessa dagana er hún að fjalla um hvaða kostir prýða hvern og einn leikmann liðsins.
 
miðvikudagur, apríl 28
  Innanhússbreytingar
Eins og hér hefur fram komið er Bræðraborgin þriggja hæða hús. Þegar Gréta var farin að finna ferlega mikið til í skrokknum á meðgöngunni pökkuðum við borðstofunni niður í geymslu og fluttum svefnherbergið úr risinu niður í stofuna, svo hún losnaði við að ferðast mikið í stiganum. Þannig höfum við búið undanfarna mánuði. Það hefur verið þröngt um okkur. Í gærkvöldi var þessu öllu snúið við aftur. Stofan er aftur orðin stór og fín, reyndar mun rúmbetri en áður þar sem borðstofuborðið er enn í geymslunni, og svefnherbergið er aftur orðið að svefnherbergi.

En hvað þetta er skemmtilegt blogg.............................. NOT!!!!!

Ég verð að fara að finna upp á nýju þema. Svona eins og skákþemanu um páskana. Einhverju mjög bolvísku. Hvað gæti það verið?
 
þriðjudagur, apríl 27
  Söngpróf
Þá hef ég lokið 1. áfanga söngnáms í tónlistarskóla. Búinn með 1/3 hluta námsins. Það er ekki víst að framhald verði á. Það hefur verið útilokað að sinna þessu almennilega eftir að fjölskyldan stækkaði.

En prófið fór svona fram:

Söngæfingar
Þrjú undirbúin söngverk
O cessate di piagarmi eftir Scarlatti
Kall sat undir kletti eftir Jórunni Viðar
Lindin eftir Eyþór Stefánsson
Eitt lag sem prófdómarinn valdi handa mér
Fine knacks for ladies
Eitt lag sem ég valdi sjálfur að flytja
Það átti að vera lag í öðrum stíl en þeim sem lögin í námskrá tónlistarskólanna hfeur að geyma. Ég söng lag eftir eitt af mínum uppáhaldstónskáldum, Valgeir Guðjónsson. Það er af þeirri frábæru plötu Lög unga fólksins með Hrekkjusvínum. Þetta er lagið Ævintýri. Auðvitað spilaði ég svo sjálfur undir á gítar.
Nótnalestur
Ég fékk nótur á blaði og las. Svo átti ég að syngja þær. Ég var nú svo óöruggur í þessu verkefni að ég gat ekkert spáð í styrkleikabreytingar eða takt. Þetta var meira eða minna vitlaust hjá mér.

En í heildina gekk þetta bara vel og það var gaman að hafa gert þetta. Ég á eflaust eftir að fara aftur í tónlistarskóla. En það verður ekki strax og ekkert endilega söngnám.

Kv.
Kalli
 
sunnudagur, apríl 25
  Hljómsveitir
Kristján Jóns er í færslu sinni í dag að velta fyrir sér hljómsveitanöfnum. Þau geta verið skemmtileg. Ég hef verið í nokkrum hljómsveitum. Fæstar þeirra hafa nú borið merkileg nöfn, en þessu man ég eftir:

H4
Stella & the heartbreakers
And then they were two & Kalli Hallgrímsson
Pick-ís (Það var Pixies-skotið band)
Abbababb
Einræningjarnir
Gröðu gítarnaglarnir
Víkurbandið
Grænjaxlar

Abbababb hefur gert plötu en GRÆNJXLABANDIÐ er langskemmtilegasta bandið á þessum lista. Þar var leikin tónlist sem er mér að skapi og hlutverk mitt var fjölbreytt og skemmtilegt.
 
  Stiginn upp á loft
Við búum í Bræðraborg við Heiðargerðið á Akranesi. Þetta er þrílyft hús með steyptum kjallara og plötu þar ofan á en þar fyrir ofan er Bræðraborg timburhús. Á milli hæðanna eru brattir stigar sem við viljum ekki að Perla María sé að þvælast í og reynum þess vegna að hindra aðgang hennar að þeim með öllum ráðum.

Nú er svo komið hindrunin frá hæðinni og upp í risið, þar sem svefnherbergin eru, er engin veruleg hindrun fyrir hana lengur, hún skríður yfir hana og getur vel hlaupið upp stigann. Börn eru fljót að læra á stiga en við þorum ekki enn að láta hana vera eina í stiganum. Því getur það verið annasamt að gæta sífellt að stiganum og því hvort stelpan sé nokkuð að sýna efri hæðinni áhuga þar sem hún leikur sér niðri.

Kalli
 
laugardagur, apríl 24
  Íslandsmótið í fótbolta 2004
Spá mín

1. ÍA
2. Keflavík
3. Fylkir
4. KR
5. FH
6. Fram
7. Grindavík
8. KA
9. ÍBV
10. Víkingur
 
  Selfoss og Manchester
Nú sit ég í tölvustofunni í Grundaskóla. Klukkan er hálftólf og ég hef setið hér á rassinum síðan klukkan 8:00. Sem betur fer er þetta góður stóll sem ég sit á. Ég hef lokið því sem ætlaði mér í vinnu við skólablaðið. Nú liggur leiðin heim og þaðan austur á Selfoss. Planið er að horfa á leik Manchester og Liverpool á einhvjur pöbb á Selfossi með Birki svila mínum. Svo ætlum við að hitta sellóleikarann í kirkjunni seinnipartinn. Hákon hlakkar mikið til að fara á Selfoss til afa og ömmu.

Það verður gaman að sjá fótbolta, ég hef lítið sem ekki neitt fylgst með boltanum í vetur. Manchester hefur víst ekki gengið of vel.
 
föstudagur, apríl 23
  Sumardagurinn fyrsti
Við fórum góðan rúnt í gær. Ókum á Þingvelli um Mosfellsheiði. Þar hittum við Atla bróður og Jakob Frey og Hákon fór í bílinn með þeim. Frá Þingvöllum lá leiðin niður í Grímsnes og austur í Reykholt í Biskupstungum. Svo var ekið niður á Selfoss og svamlað í lauginni þar og endað í mat hjá Gilla og Þóru.

Komum seint heim. Það getur verið strembið að ferðast svona með ungabarn. Það þarf að stoppa reglulega.
 
fimmtudagur, apríl 22
  Reglulegt krútt af manni
Ég var að ræða við séra Gunnar í gærkvöldi. Við ætlum að hittast á laugardaginn þar sem hann ætlar að fylla út skýrslur vegna skírnar og nafngjafar sonarins.

Hann var að segja mér frá styrkveitingum Jóhannesar í Bónus í síðustu viku. Gunnar lét þau orð falla um stórkaupmanninn að hann væri reglulegt KRÚTT af manni.

Kalli
 
miðvikudagur, apríl 21
  Hlustunaræfing
Ég er að kenna dönsku í tveimur 10. bekkjum. Nú er ég í dönskutíma í 10. GSH. Það er hlustunaræfing í gangi. Við tókum hana í KH bekknum í gær. Þetta er æfing frá samræmda prófinu frá í fyrra. Krakkarnir eiga ekki orð yfir hvað þetta er létt. Það líst mér vel á, ef þeir fara með því hugarfari í prófið í vor rúlla þeir því upp.

Það er nefnilega nokkuð til í því sem þau segja. Það er ofboðslega takmarkaðar kröfur sem gerðar eru um færni í dönsku að loknu námi í grunnskóla samanborði við t.d. ensku og íslensku. Ég kenni líka íslensku í þessum sömu bekkjum. Í þeim fögum (þ.e. ensku og íslensku) fara kröfurnar sívaxandi og samræmdu prófin í þeim fögum eru orðin miklu, miklu, miklu erfiðari en þau próf sem lögð voru fyrir nemendur fyrir áratug síðan eða svo.
 
  Veikindi
Perla María hefur verið með hita síðustu tvo daga. Sá stutti er heldur ekki allt of hress. Hann vakir á nóttunni og grætur þessi líka ósköp. Þannig að við höfum haft vaktaskipti á næturna og vakið til skiptis yfir guttanum (og stundum PM líka).

Svona er þetta, það var enginn sem sagði að það ætti að vera auðvelt að annast börn sín.
 
mánudagur, apríl 19
  Áfangapróf í söng
Ég var að koma úr tónlistarskólanum. Prófið sem ég er búinn að skrá mig í og ég hélt að yrði í maí, verður á þriðjudaginn í næstu viku. Ég þarf að læra eitt lag og átta texta. Það verður nóg að gera. Svo er valverkefni sem ég á líka eftir að ákveða hvert verður. Ég er þó búinn að ákveða að syngja lag í öðrum tónlistarstíl en lögin í námskránni. Ætli það verði ekki Tom Waits, Dylan, Megas eða Spilverkið?
 
sunnudagur, apríl 18
  Viðtal
Í dag hef ég með gripið í að skrifa viðtal við Jóhönnu Karlsdóttur lektor í KHÍ. Þetta viðtal tóku stelpur sem eru að skrifa með mér skólablaðið Púlsinn. Jóhanna mjög skemmtileg kona og Guðmundur maður hennar mikill öðlingur.

Ég gef ykkur, ágætu lesendur Tilraunavefsins, innsýn í líf kennarans:

Það var einn nemandi sem var alltaf  í skóm sem ég þurfti að reima á hann þegar hann fór út í frímínútur. Hann var vanur að segja við mig: ,,Geturðu reimt?“ Og ég var alltaf að leiðrétta hann: „Þú átt að segja;: Geturðu reimað!“ Svo fór ég bara að hrista hausinn þegar hann spurði hvort að ég gæti reimt. En svo einu sinni stóð hann svona dálítið vandræðalegur fyrir framan mig, mundi greinilega ekki alveg hvernig hann átti aftur að segja þetta. En svo kom það: ,,Jóhanna, geturðu rumið?“
 
  Góð ráð
Mig langar að þakka þeim bekkjarsystrunum Halldóru systur og Erlu Kristins fyrir hollráð í sambandi við næsta útspil mitt í leynivinaleiknum.

Kv.
Kalli
 
  Vinaspegill
Í gær var ég á kóræfingu og fór aðeins að pæla í texta eins lagsins. Það er þjóðlag og heitir Vinaspegill. Eftir smápælingar sá ég að þetta væri tilvalin sending til leynivinarins. Nú hef ég heimfært textann upp á viðkomandi kennslukonu og ætla að senda henni á mánudaginn.

Hér er niðurlagið:

Seint mun vífi vinafátt,
vinir þess þeir hafa átt
í hennar návist happadrátt,
hendir slíkt ei alla.
Guð oss veiti gæfu þá
góðum dyggðum máttu ná,
vil ég láta vísnaskrá
vinaspegil kalla.
 
föstudagur, apríl 16
  Leynivinur
Það er leynivinaleikur í gangi í vinnunni. Þetta finnst mér alltaf erfitt. Mig skortir svo oft hugmyndir til að sýna leynivininum þann hug sem honum ber. Reyndar bar vel í veiði hjá mér fyrsta daginn. Þá skrapp ég heim í hádeginu. Þegar ég var nýsestur við skyrát var bankað og úti stóð Hulda Hildibrands, stelpa sem leigir í kjallaranum hjá okkur. Með henni var Hildibrandur faðir hennar, hákarlsverkandi í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Nú þeim var náttúrulega boðið inn og við spjölluðum svolítið. Þegar þau svo kvöddu okkur rétti Hildibrandur mér vænan og vel kæstan hákarlsbita. Nú ég skar náttúrulega flís af góðgætinu handa leynivini mínum.

Daginn eftir hafði leynivinurinn skorið bitann niður og skilið eftir á öllum samverustöðum starfsmanna í skólanum.

Í morgun sendi ég leynivininum svo góðgæti úr Brauða- og kökugerðinni. Og í dag setti ég saman disk með nokkrum vinalegum lögum sem ég fann inni í tölvunni minni.

Hafa lesendur hugmynd að næsta útspili?

Sá sem á að gleðja mig í þessum leynivinaleik fer mjög dult með vinarþelið. Ég hef í það minnsta enn ekki komið auga á sendingar hans.
 
  Sögur
Þegar gamall bekkjarbróðir minn kom í heimsókn um daginn rifjuðum við upp skemmtilegar sögur. Meðal þeirra sem komu við sögu voru Guðjón Kristinsson, Hallgrímur frændi minn Guðfinnsson, Ægir, Bjarki, Pétur Ottesen, Pétur Pé, Haddi Gunn og Borghildur.
Meðal þess sem var rætt var sund, farangur, svefnpoki, ferðalög og tjaldbotn.
 
fimmtudagur, apríl 15
  Samræmd próf
Lokaundirbúningurinn er hafinn. Nemendur mínir eru að fara í samræmd próf í byrjun maí. Þessa dagana taka þeir extra vel eftir og spyrja óvenju mikið út í námsefnið. Það er fjör.
 
miðvikudagur, apríl 14
  Frændur & fleira
Þeir voru flottir í Atinu, Öddi & Muggi.

Hingað kom svo annar frændi minn í dag. Sá var að skoða húsið mitt með það í huga að kaupa það.

Og hvað haldiði? Þegar ég kom heim úr vinnunni í gær var bara Gummi Hrafn mættur í heimsókn. Mikið hafði ég rosalega gaman af að hitta hann og þykir vænt um að hann skyldi hafa komið. Við áttum góðar stundir hérna á Akranesi fyrir þetta 12-13 árum síðan, fyrir nú utan árin þar á undan heima í Víkinni.

Það eru 15 ár síðan árgangur 1973 brautskráðist úr Grunnskóla. Það hefði nú verið tilefni til endurfunda hjá gamla bekknum mínum. En slíkt hefur nú ekki verið rætt. Það er ótrúlega lítil stemmning yfir okkur. Það kemur vonandi seinna.

 
  Riddarinn
Riddari g1-f3
 
 
 
  HANNES!!!!
Hvernig er það með þig Hannes Hlífar, þorirðu ekki að tefla við mig?

Ég endurtek upphafsleik minn: peð e2-e4.
 
  Herbert & Hollywood
Jú, jú, þetta var alveg rétt svar hjá Atla & Önnu Svandísi.
Svarið við síðustu getraun er Hollywood og Herbert Guðmundsson.
 
  Næsti leikur
Eitthvað stendur á Hannesi Hlífari.
Það hefur ekkert heyrst frá honum.
 
mánudagur, apríl 12
  Íslandsmeistari
Hannes Hlífar Stefánsson vann Íslandsmeistaratitil í skák í dag.

Næsta verkefni Hannesar Hlífars verður að tefla opinbera blindskák við mig hér á síðunni.
Ég hef hvítt og leik kóngspeði e2-e4. Hannes Hlífar svarar á morgun. Í viðtali við Baldur Smára á skáksíðunni www.drottningarforn.is/blindskak/sikileyjarvorn nú um pákana sagðist Hannes Hlífar búast við stuttri skák. Henni myndi jafnvel ljúka með færri en 15 leikjum. Við skulum nú sjá til með það!

Kallarov
 
  Danni
25 ára í dag!
 
  Eitt svar komið
Atli & Anna Svandís hafa svarað spurningunni.
Ætli þau hafi svarað rétt?
Hvað finnst ykkur?
Er þetta svar líklegt til að vera rétt svar?
 
föstudagur, apríl 9
  Bókmenntagetraun
Hver er höfundur þessa texta
& hvaða orð ætti að standa þar sem ég hef eyðu?


If you´re going down
Down to ________________
Better belive in yourself
Cause nobody will
Everybody want´s to see they´re
Name´s up in the lights.


Svarið í gestabókina.

 
  Tilraunavefurinn...
... er ekki lengur eintómt ömmublogg.
 
  Föstudagurinn langi
Það er víst óhætt að segja að dagurinn hafi byrjað snemma. Perla María vaknaði rétt fyrir fimm í morgun. Þá var hún bara klár fyrir nýjan dag og var alls ekki á þeim buxunum að fara að leggja sig aftur. Nú ég fór náttúrulega á fætur með henni og við dunduðum okkur eitt og annað fram eftir morgni.

Ég hef verið að vinna í dag. Er þetta ekki týpískt? Búinn að vera að drepast úr leti, hangi heima í feðraorlofi á virkum dögum en fer svo að vinna á sjálfan föstudaginn langa.

Púlsinn er að taka á sig mynd sem ég er að verða sáttur við.

Tengdamamma kom til okkar og er hjá Grétu og krökkunum núna meðan ég er hérna í skólanum að sinna blaðinu. í kvöld ætlum við að borða saman.

Á morgun er brúðkaup & á sunnudaginn matarboð hjá Atla bróður. Það er nóg að gera.
 
fimmtudagur, apríl 8
  Skák #4
Síðasta skáksagan, í bili a.m.k., er úr Sjómannastofunni. Þetta er fræg saga sem margir hafa sagt mér. Sjálfur var ég ekki vitni.

Á skákæfingum var rólegt yfirbragð. Þeim mönnum sem sátu að tafli var sýnd sú virðing að reynt var að stilla fíflalátum í hóf. Meira að segja Stebba Andrésar tókst að fylgja þessum reglum (alla vega þegar einhverjir hinna fullorðnu skákforkólfa voru viðstaddir og það voru þeir nú yfirleitt. (Ég minnist þess ekki að Ingólfur hafi sótt skákæfingar!)
Hér kemur sagan af því þegar þögnin var rofin.

Einn þeirra sem sóttu skáæfingar hvað harðast var Sigurður Magnússon, eldri bróðir Bobba Jónasar og Gróu. Siggi var hann alltaf kallaður en síðar fékk hann heldur leiðinlegt viðurnefni sem pabba hans og frænda hafði verið gefið, og fáir, ef nokkur, vissi hvernig var tilkomið. Hann var kallaður Siggi goggur.

Siggi er jafnaldri stóru bræðra okkar vinanna, mín og Halla Pé, og ég man ekki annað en hann hafi verið fínn náungi. Mér skilst að hann hafi haft jafnaðarlund en átt til að reiðast snögglega og alveg svakalega mikið þegar þannig lá á honum. Og það var einmitt það sem gerðist einu sinni á skákæfingu í Sjómannastofunni.

Siggi með yfirburðastöðu í skák gegn Ragga Sæsa. Kemur þá Sæbjörn, pabbi Ragga, ágætur skákmaður, til að fylgjast með skák sonarins. Siggi missir þá gjörunna skák úr höndunum á sér og Raggi nær að sauma að honum. Hvort Siggi hefur grunað Sæbjörn um að segja Ragga til eða hvort nærvera hans hefur einfaldlega haft svo stressandi áhrif á hann veit ég ekki. En hitt hefur mér verið sagt að hann hafi roðnað og tútnað af bræði, staðið upp og öskrað: ÞEGI ÞÚ ÞARNA SÆSI SKÍTARÆSI!
 
  Mest spilað í dag
1. Poke a Pal Mugison
2. Pet Mugison
3. Happy song Jóna Palla
4. Á eyðieyju Dr. Gunni
5. O cessate di piagarmi Cecilia Bartoli
 
  Heimsóknadagur
Fyrst kom Berglind vinkona Grétu með tvö barna sinna. Hún býr að Hrútafelli undir Eyjafjöllunum þannig að hún er ekki tíður gestur hér. Svo komu mamma og pabbi, amma og Halldóra systir og hennar fjölskylda. Maður skellti í súrmjólkurvöfflur málarans.

 
  Skák #3
Það er löng færsla þetta skiptið!

Ég er ekki mikill keppnismaður. Hef ekki skapið sem menn þurfa að hafa til að ná langt í íþróttum. Ég spila eftir reglunum, særi engan og er til friðs innan vallar og utan. Það er ekki rétta hugarfarið til árangurs og hefur aldrei skilað mér neinu. Einu sinni svindlaði ég þó í skák. Ég veit ekki af hverju ég man eftir því atviki. Það getur verið að samviskubitið nagi mig. Ég hélt ég væri að tefla við upprennandi snilling en komst að því, sjálfum mér til skelfingar, að ég var líklega lélegasti skákmaðurinn sem nokkurntíma hafði teflt í Bolungavík.

Eins og áður hefur verið greint frá var stundum teflt heima hjá Halla Pé. Þá sat annar lelikmaðurinn yfirleitt í langa, bláa sófanum í sjónvarpsherberginu, taflið var á sófaborðinu og andstæðingurinn sat á alveg sérstakri pullu handan borðsins. Við þetta sama borð var líka spilað rommí í gríð og erg og á tímabili Sinclair Spectrum tölvuleikurinn (meira um það síðar kannski).

Einhverju sinni þegar við Halli höfðum verið að tefla, við höfum verið svona 13-14 ára, kemur litli frændi Halla í heimsókn. Hann heitir Kristján og er Jónsson. Kristján leit upp til Halla frænda. Það gerðu reyndar allir púkarnir sem umgengust okkur, enda var Halli mikill íþróttamaður og stóð sig sérstaklega vel í fótbolta og á skíðum. Og hann var líka ágætur í skák. Nú, ég bíð Kristjáni litla náttúrulega í skák. Þarna hlaut að vera kominn andstæðingur sem ég gæti unnið. Hann er fjórum árum yngri en ég, hefur verið innan við tíu ára aldur þegar þetta var.

Það er ekki liðið langt á skákina þegar ég finn að strákurinn kann miklu meira en ég í skák. Það dregur úr áhuga mínum á leiknum og ég hálfskammast mín fyrir að vera svona ægilega vitlaus að geta ekki haft þennan smástrák undir. Ég fer að veita andstæðingi mínum athygli. Hann er gríðarlega einbeittur á svipinn, skynjar líklega kunnáttuleysi mitt, en trúir sjálfsagt ekki að svona stór strákur geti verið þetta lélegur í skák. Hann er svo einbeittur að hann er meira að segja hættur að aðgæta hvort Halli frændi sé ekki örugglega að fylgjast með skákinni og því hvernig hann er að ná yfirhöndinni.

Til að reyna að bjarga andlitinu og gera gott úr þessari vandræðalegu stöðu sem ég er kominn í ákveð ég að gera tiltraun á guttanum og prófa að svindla á honum. Mér dettur ekki annað í hug en að svona undrabarn í skák taki strax eftir því þegar andstæðingurinn hættir að leika eftir reglum leiksins. En Kristján litli er svo einbeittur að leikfléttum sínum að hann tekur ekkert eftir því þótt skyndilega hafi ég báða biskupana á hvítum reit og leiki riddara þvert yfir borðið. Og það er sama hversu stórtækur ég gerist í svindlinu í þeim eina tilgangi að koma upp um mig, ekki tekur Kristján eftir neinu. Hann er þá ekki eins ofsalega klár og ég var farinn að halda að hann væri - það er bara ég sem er svona rosalega vitlaus!

Stundum skilur Kitti litli reyndar ekkert í stöðunni sem komin er upp á borðinu, klórar sér í höfðinu og setur upp svip sem aðeins getur verið á þessu eina andliti: Svipinn Eitthvað er nú bogið við þetta! Ég les hugsanir hans: Hvers vegna í ósköpunum hlær Halli frændi sínum skræka rómi að stöðunni á borðinu? Hafði Halli komið auga á sigurmöguleika sem hann sjálfur hafði misst af? Eitthvað er nú bogið við þetta!

Það er langt liðið á daginn þegar strákurinn loksins þorir að láta sér detta í hug að ég hafi verið að spila með hann.

Ég skil vel, eftir að hafa rifjað þetta svona vel upp, að samviskubitið hafi nagað mig öll þessi ár. Ekki nóg með að ég hafi ekki leyft stráknum að njóta yfirburðanna og rænt hann sigurgleðinni, heldur hafði ég líka leikið mér að sakleysi barnsins. Það var ekki fallega gert.

Kalli

 
  Enn af frændanum
Það má lesa á gestabókinni að Halldóra systir heldur að Baldur Smári sé skákfrændinn í götunni. Hann verður hrifinn af þessu. Hann hefur eflaust verið seigur í skákinni en getur varla hafa verið svo góður í skák þegar ég var 8 ára að ég hafi litið upp til hans og ákveðið að prófa að mæta á skákæfingar. Þá var hann 5 ára!

Halldór Grétar var sá sem menn horfðu til í skákdeildinni. Hann var sko góður!
 
miðvikudagur, apríl 7
  Þyngd
Nýfæddur sonurinn var vigtaður áðan. Hann hefur þyngst um 700 gr. á einni og hálfri viku.

Ég hef þyngst um 15-17 kg. síðan ég flutti hingað á Akranes sumarið 2000. Er orðinn alveg helmassaður!

Við erum duglegir feðgarnir!
 
  Skákmaðurinn
Þið haldið þó ekki að duglegi skákmaðurinn
sem var bæði frændi minn og nágranni heiti Danni?

Aaaahhahahhahahhahahah...... ehehehehehe..... ahahaha!!!!!!!!!

Hann var góður þessi!
 
  Púlsinn
Púlsinn, Skólablað Grundaskóla, er í vinnslu.
Ég sit við tölvu í skólanum og á von á ritnefndinni á vinnufund. Við erum búin að velja efnið í blaðið og búin að vinna slatta af því, nú þarf að ganga frá þessu til prentunar. 10. bekkurinn hefur verið að safna auglýsingum í blaðið. Þetta verður fínt blað.

 
þriðjudagur, apríl 6
  Skák #2
Þegar ég var að alast upp í Bolungavík var þar mikil skákmenning. Karlar eins og Daði Guðmunds, Magnús Sigurjóns og Unni bróðir hans, Sæsi (skítaræsi) og fleiri voru duglegir við að halda æfingar og halda uppi leiðsögn og starfi í skákdeild UMFB. Af minni kynslóð bar Magnús Pálmi höfuð & herðar yfir alla, en það voru fleiri ágætir að tefla. Ég man t.a.m. eftir Stebba Andrésar, Kristjáni Ágústi & Símoni.

Ég mætti á tímabili á skákæfingar. Þær voru á laugardögum klukkan eitt og fóru fram í Sjómannastofunni á efri hæð Félagsheimilisins. Það hefur kannski verið að frumkvæði vinar míns, Halla Pé, að ég fór að mæta. Hann var ágætur í skák og við tefldum stundum heima hjá honum. En kannski hefur það líka haft sitt að segja að ein helsta skrautfjöður UMFB á skáksviðinu á þessum árum er frændi minn & nágranni í þokkabót. Hann var í hópi alfærustu unglinga landsins í íþróttinni og ætli mér hafi ekki þótt það til fyrirmyndar.

Ég var alveg vonlaus skákmaður. Ég gat eiginlega ekki neitt. Ég man meira að segja eftir að hana reynt að fella Friðrik Ólafsson á heimaskítsmáti þegar stórmeistarinn kom í heimsókn og tefldi fjöltefli á skákæfingu. Glætan!

Ég hef ekki tekið miklum framförum í þessu síðan ég var níu ára. Það er skákforrit í tölvunni minni sem mér hefur ekki enn tekist að snúa á. Ég hef ekki einu sinni komist nálægt því að vinna skák á þeim tveimur mánuðum sem eru liðnir síðan tölvan kom í hús.
 
  Skrítið partí hjá Sirrí
Ég skrifa ekki Y eða Ý þegar ég hef val um annað! Mér finnst asnalegt að hafa tvö tákn yfir sama hljóðið. Eftri þrjúhundruð ár man enginn hvað -y-/-ý- var!

Kalli
 
mánudagur, apríl 5
  Skák
Skákin er frábær leikur. Ég hef ákveðið að hafa skákþema á síðunni fram að páskum. Segja skáksögur úr Bolungavík. Þar munu koma við sögu Kristján Jónsson stál; frændi hans & vinur minn, Halli Pé og stórmeistarinn Friðrik Ólafsson.
Fylgist með!

Fyrsta frásögnin verður birt á morgun, 6. apríl.
 
  5. apríl
Amma mín fæddist í Bolungavík þennan dag árið 1923.
 
  Getraun
Það er orðið langt um liðið síðan ég hafði getraun á síðunni.
 
  Þvílíkar heimsóknir
Já það eru ekki ónýtir gestir sem vefurinn hefur fengið. Fyrir utan þær góðu konur, Stínu Halldórs og Dóru systur mína, hafa þar kvittað einn færasti hljóðupptökumaður, útsetjari, kompóser og gítarleikari þjóðarinnar, skemmtilegasti maðurinn í frændgarðinum og næsti forseti lýðveldisins Íslands!

Vá maður!!!!

Við höfðum líka gesti í heima í Bræðraborg í dag. Fyrst kom Jón Skafti fóstri minn og Björk dótturdóttir hans. Þau tóku Hákon með sér og þau Björk léku sér saman í allan dag. Þá kom Anna Svandís; svo feðgarnir af Rauðalæknum: Bjarki og Bjöggi og kærastan, Dögg Lára. Síðast komu vinkonur Grétu úr Mosó: Herdís og Agla og þær höfðu með sér eina dóttur hvor. Allir höfðu með sér gjafir og glöddu okkur með nærverunni.

Sirrí, takk fyrir drenginn.

Kalli
 
sunnudagur, apríl 4
  Hljómsveit Papamug
Mér finnst leiðinlegt að geta ekki orðið frænda mínum að liði með undirleik á festivalinu á Ísafirði um páskana. Það verður spennandi að fylgjast með því hverjir verða fyrir valinu í þessa hljómsveit sem ég trúi að vestfirskir hljoðfæraleikarar keppist um að komast í.

Kalli
 
  Heimsókn og söngkeppnin
Atli og Jakob Freyr komu í gær og voru hjá okkur fram á kvöld. Það var ljómandi skemmtilegt að fá þá. Við sáum Söngkeppni framhaldsskólanna.

Mér fannst Biggi Olgeirs standa sig gríðarlega vel. Var alveg handviss um að hann yrði í einu af þremur efstu sætunum. Hins vegar bjóst ég við öðrum í hinum tveimur sætunum. Mér fannst Elsa Jó sem söng fyrir FVA nokkuð góð og stelpa sem söng fyrir Kvennó. En skemmtilegast var náttúrulega að fylgjast með strákunum í hljómsveitinni þegar óborganlegi trúbadorinn frá Hornafirði var að flytja sitt númar. Þeir áttu mjög bágt með sig, af skiljanlegum ástæðum.

Já sei sei já,
Kalli
 
laugardagur, apríl 3
  ANOTHER ONE BITES THE DUST
John Deacon, bassaleikari hljómsveitarinnar Queen var eitt fyrsta tónskáldið sem ég kynntist í Tónlistarskóla Bolungavíkur. Og það var klerkurinn í plássinu, hinn rómaði sellóleikari, Sr. Gunnar Björnsson, sem stóð fyrir þeirri kynningu.

Ég og æskuvinur minn, Pétur Pétursson, vorum einhverju sinni að rifja upp námið okkar í Tónlistarskólanum í Bolungavík. Þá mundum við eftir þessu frábæra atviki.

Við lærðum á blokkflautur hjá Önnu Kjartansdóttur og svo fór Pétur á klarinett hjá Óla málara og ég á píanó hjá Óla líka. Seinna lærðum við hjá Davíð Ólafs, ég á trompet og Pétur áfram á klarinettið. Okkur leiddist þetta á seinni stigum. Fyrst var gaman, það var þegar við vorum enn á blokkflautunni. Þá voru hóptímar og mikið stuð.

Þáttur í náminu var tónfræði. Þegar við vorum átta ára fór sú kennsla fram í Þróttarhúsinu, sem svo er kallað. Það hús átti trésmiðjan Þróttur (Daddi & Siggi Elí) og í kjallaranum voru þeir með verkstæði. Efri hæðina leigðu þeir bænum og var hún á þessum árum notuð undir hluta kennslurýmis Tónlistarskólans. Séra Gunnar kenndi tónfræðina.

Við Pétur fórum að rifja upp ýmislegt sem við mundum eftir úr þessum tónfræðitímum með séra Gunnari. Við mundum eftir því að hann var að kenna okkur að telja taktinn. Ein aðferðin sem hann notaði var að ganga um allt húsið leikandi á gítar og við vorum í einni halarófu á eftir honum og stöppuðum taktinn í hverju skrefi og sungum með, lög eins og Gamla Nóa (2/4) og Í Bolungavíkinni (3/4). Þetta var mikið stuð. Þarna voum við Pétur einu strákarnir og svo voru þarna Gunna Jóna, Birgitta, Ragnhildur, Helga Svandís, Ragna Lilja og einhverjar fleiri stelpur á okkar aldri.

Annað sem sr. Gunnar gerði og mér finnst algjör snilld var að reyna að finna efni við okkar hæfi. Hann hefur alveg örugglega ekki undirbúið þessar kennslustundir, heldur treyst á að detta eitthvað sniðugt í hug á staðnum. Þegar komið var að hinni algengu taktskiptingu 4/4 byrjaði hann á að klappa taktinn og fá okkur með sér í það. Svo stappaði hann líka niður fótunum og við hermdum eftir. Svo fór hann að syngja:

Are you ready hey are you ready for this?
Are you hanging on the edge of your seat?
Out of the doorway the bullets rip
To the sound of the beat yeah!!!!!

Þá söng hann bassalínuna:
dara da da da, dara, da da da da daaa
dara da da da, dara, da da da da daaa

Og svo:

Another one bites the dust
Another one bites the dust
And another one gone and another one gone
Another one bites the dust
Hey I'm gonna get you too
Another one bites the dust

dara da da da, dara, da da da da daaa
dara da da da, dara, da da da da daaa!!!!!!


Með kveðju,
Kalli

 
  Nafnið
Í gestabókinni má lesa um hugmynd Orra Harðarsonar um nafn á drenginn. Hann vill að hann heiti Björgvin Orri, í höfuðið á kærum vinum mínum. Þegar Gréta var ólétt af Hákoni, fyrir 7 árum, fannst þeim þetta svo flott & ungskáldlegt nafn. Þetta eru hvort tveggja falleg nöfn og það er líka seinna nafn Bjögga, Ívar; en þetta eru ekki nöfn sem við höfum hugsað okkur að drengurinn beri.

Í huga okkar eru tvö nöfn sem við erum bæði afskaplega hrifin af. Við ætlum að gefa stráknum annað þeirra. Við þurfum bara að finna út hvort nafnið við fellum okkur betur við. Það verður leyndarmál hver þessi nöfn eru, a.m.k. þangað til annað þeirra hefur sannarlega orðið fyrir valinu.

Sr. Gunnar mun sennilega ekki spila á stóra gítarinn við skírnina. Ég var að spá í að spila sjálfur á gítar undir sálminum. Hann tók vel í það. Ég gerði það þegar Perla María var skírð og fannst það koma skemmtilega út. Annars hefði verið töff að sjá Gunnsa í hempunni og með kragann, með sellóið á bakinu, skvetta vatni á gæjann, grípa svo bogann og telja í Air á G streng eftir Bach!
 
föstudagur, apríl 2
  1. apríl
Marsbúinn




Þetta er ljóð úr bókinni Ljóðasmygl og skáldarán eftir Andra Snæ. Mér finnst það flott; stutt og fyndið.
 
  Gestabókin
Komin er upp ný gestabók á síðunni. Ég hvet ykkur til að skrá ykkur í hana. Ég hef svo gaman af því.

Ég þakka Sigurjóni Jónssyni fyrir að sjá um að koma gestabókinni upp aftur. Það er eins og mig minni að hann eigi afmæli 1. apríl og hafi þess vegna orðið 26 ára í gær. Til hamingju með það Sigurjón.

Kv.
Kalli
 
  Skírn á Sefossi
Það hefur verið ákveðið að slá tvær flugur í einu höggi og skíra Karlsson og Birkisdóttur (og Hjördísar) saman. Athöfnin mun fara fram á Selfossi laugardaginn 8. maí. Sr. Gunnar Björnsson ætlar að annast verkið. Hann skírði mig í Bolungavík í september (held ég!) 1973.

Afi Gilli og amma Þóra eru voðalega ánægð með þetta fyrirkomulag. Þau ætla að annast veislu fyrir aðstandendur barnanna. Við erum náttúrulega afar þakklát fyrir það. Ég held að þeim líði vel með að geta orðið að liði með þessum hætti.

Hvað ætli snáðinn eigi svo að heita?

Kv.
Kalli
 
  Fyrsta baðið
(Litli) drengurinn okkar fékk að fara í bað í fyrsta sinn. hann var baðaður í balanum sem Perla María er böðuð í. Honum var komið fyrir á eldhúsborðinu. Drengurinn er einfaldlega of langur til að þægilegt sé að baða hann í vaskinum í eldhúsinu eins og gert var við Perlu Maríu í fyrstu skiptin.
 
fimmtudagur, apríl 1
  Dreamweaver
Maður er búinn að verða sér út um þetta fína forrit til að búa til eigin heimasíðu. Mig langar að gera kynningarsíðu fyrir myndlist Grétu. Málið er bara að ég er algjör rati í þessum efnum og kann ekkert á þetta rosalega fína forrit. Það bara gerist ekki neitt hjá mér. ÉG verð að leita eftir aðstoð til að koma mér af stað.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]