Tilraunavefurinn
föstudagur, desember 30
  Heimilistónar

Heimilistónar
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Við feðgarnir lékum nokkur jólalög í jólaboðinu á jóladag hjá afa Gilla og ömmu Þóru. Þetta er efnilegur dúett. Kannski það fjölgi í hljómsveitinni eftir því sem árin líða. Ég ætla nú að vona það en maður veit ekki hvar áhugi barnanna liggur. Þau hafa alla vega gott af því að leggja stund á tónlistarnám. Ég vildi að ég hefði verið duglegri við það á sínum tíma, nóg fékk nú tækifærin til þess. En mikið andsk... gat maður vanrækt þetta!
 
  Kringluferð og bíó
Við erum búin að hafa það svo næs heima að mér var farið að leiðast. Því stakk ég upp á Reykjavíkurferð í gær. Það hefur ekki gerst áður að ég hafi átt frumkvæði að slíkri reisu. Við fórum aðeins í Kringluna. Það var margt fólk í Kringlunni. Þegar við vorum komin þangað inn bauð ég Grétu í veðmál. Hvort yrði fyrsti maðurinn sem gæfi sig á tal við okkur Bolvíkingur, Akurnesingur eða einhver sem tengdist okkur fjölskylduböndum? Það var ekkert lagt undir en ég veðjaði á Bolvíking, Gréta á Skagamann. Og viti menn. Fyrstur til að stoppa og spjalla var maður sem ég þekkti þegar ég var strákur og kynntist svo aftur síðar í Menntó og umgengst svolítið á þeim árum. Þetta var Jón Yngvi, sem Bolvíkingar muna eftir síðan hann bjó í húsi afa míns og ömmu á Vitastíg 8 í Víkinni. Við hittum líka Hildi Karen og Mummu Lóu, Einar Harðar, Bjögga og Dögg Láru og fleira fólk.

Seinni partinn fóru Gréta, Hákon og Perla María í bíó. Þau sáu Draumalandið í Regnboganum. Við Hringur fórum til Hjöddu ömmusystur hans og Guðrúnar. Krakkarnir voru alsælir með bíóferðina. Um kvöldið bauð ég Guðrúnu með mér að sjá A little trip to heaven. Þegar ég var sestur inn í bíósalinn fór ég að rifja upp hvenær ég hafði farið í bíó seinast. ég er ekki alveg viss. ég hef farið með Hákoni á tvær til þrjár reiknimyndir þegar við bjuggu á Skaganum. En síðast þegar ég fór í bíó í Reykjavík var þegar ég fór með Grétu haustið 1999 og við sáum Ocseans elleven.

Mugison gerir tónlist við A little trip to heaven (reyndar eru lögin ekki öll eftir hann, t.d. ekki titillagið) og hefur fengið eintómt hól fyrir. Mig langaði að sjá og heyra. Mér líkaði þessi mynd bara nokkuð vel. Það þarf að sjá hana aftur til að átta sig betur á karakterunum. Það er mikil pæling í þeim og þeir eru vel útfærðir. Ég átta mig ekki alveg á því hvort aukapersónurnar eiga sér hliðstæður annars staðar, t,d, í Biblíunni. Ein aðalpersónan er bersýnilega frelsarinn. Tónlistin er ekki sjálfstætt element í sögunni, heldur hefur hún fyrst og fremst þann tilgang að magna upp ákveðna spennu og keyra myndina áfram því sagan fer ákaflega hægt af stað. En þótt myndin sé góð á hún langt í land með að toppa myndina sem nú gengur manna á milli hér í sveitinni og ber heitið Saa som i himmelen. Þar á hver einasti karakter sér hliðststæðu í guðspjöllunum. Þar er tónlistin í hlutverki nýs guðspjalls, nýs boðskapar. Þar er hörð gagnrýni á kirkjuna sem stofnun en samt er myndin bara fyndin og skemmtileg persónusaga. Sænskt snilldarverk síðan í fyrra eða hitteðfyrra. Ef þið sjáið þess mynd í búð skuluð þið endilega kaupa ykkur hana.
 
fimmtudagur, desember 29
  Spilakvöld
Í gær var hljómsveitaræfing hjá Bleki og byttum. Í fyrsta sinn var frumsamið lag tekið fyrir. Þetta var einhver erfiðasta sessjón sem ég hef komist í. Örlygur, sá sem leikur á píanó og klarinett hjá okkur, er útlært tónskáld og útsetjari. Lagið hans, Þriðji í þurrki, er svo mikil hljómasúpa og mikil krómatík að hann hefur sennilega notað allar nóturnar á hljómborðinu. Og við þetta var hann að kenna okkur gítaristunum hljómana. Nú kom að notum allt það sem ég lærði á 7 tíma námskeiðinu hjá Magga Hávarðar þegar ég var 16 ára. Þá lærði ég á einu bretti dimmsjöundir, stækkaðar níundir, sus-hljóma, plúshljóma og hvað þetta heitir nú allt saman. Það hefur nú oft komið sér vel að kunna skil á þessu en aldrei áður hefur þetta nýst allt saman í einu og sama laginu!

Eftir æfinguna var haldð heim til mín þar sem við héldum Opna Bleks og byttu mótið í Popppunkti. Í fyrstu umferð unnu Hermann og Örlygur nokkuð öruggan sigur. Í seinni umferðinni höfðum við sigur ég og Andri Hilmars.
 
miðvikudagur, desember 28
  Arnfinnur að rappa

Arnfinnur að rappa
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.

 
  Ljómur undir leiðslu av Johannes Rahe
Jólini 2005
Góði Karl!
Eg ynski tær og familju tíni eini gleðilig jól og eitt vælsignað nýár! Eg sendi tær geisladisk við kóri mínum. Tað er ikki so vilt, sum Abbababb men vónandi dámar tær føroyskan kársang! Tað var gaman at vera í Bergen!
Bestu kvøðjur,
Arnfinnur.


Já haldiði að ég hafi ekki fengið sendan færeyskan geisladisk (sem færeyingar kalla reyndar flögu) með þessu skeyti í gær. Þetta er rosalega falleg útgáfa og ágætar upptökur. Það besta er lögin eru öll færeysk og sungin á færeysku. Það er gaman að eiga svona. Arnfinnur var með mér á kennaranámskeiði í Bergen í haust. Þar flutti hann síaðsta kvöldið frumsaminn rapptexta sem minnti einna helst á færeyskan dans því hann var alla vega fimm mínútur að flytja hann. Þetta var svona annáll fyrir þá daga sem námskeiðið stóð yfir. Svo stjórnaði hann dansi seinna um kvöldið og söng og spilaði á gítarinn og sagði sjóarasögur úr íslenskum höfnum. Ég gaf honum disk með Abbababb. Hann er greinilega að borga fyrir sig.
 
þriðjudagur, desember 27
  Plöturnar
1 Trabant - Emotional
2 Sigur Rós - Takk
3 Emilíana Torrini - The Fisherman's woma

Dr. Gunni var að gera topplista yfir plötur sem komu út á árinu. Þessar voru efstar og ég á þær allar. Ég er reyndar ekki búinn að hlusta á Sigur Rós enn, hún var í einum pakkanum. Svo á ég ekki nema eina aðra plötu á þessum 25 plötu lista doktorins. Það er Baggalútur, en ég er heldur ekki farinn að hlusta á hana. Svo á ég mjög fína plötu Orra Harðar, sem doktorinn setur ekki á listann hjá sér. Ég fíla mjög vel þessar plötur með Trabant og Emilíönu.

Ég var að vafra á mandólínslóðum í dag og fann jassútgáfu af Heims um ból leikna á eitt mandólín. Ég er nú ekki þroskaðri hlustandi en það að þrátt fyrir að hafa hlustað í þrígang á þetta heyri ég ekki nema á einum stað í sirka eina sekúndu hvaða lag er þarna á ferðinni. Hann getur verið sérstakur jassinn. Mér finnst eiginlega meira gaman að horfa á jasshljómsveit leika en að hlusta á hana án þess að sjá hvað er um að vera.
 
  Andvökur
Það er eitthvað svo jólalegt að sofa út alla morgna. Því er nú ekki alveg að heilsa hjá mér þessa dagana. Ég vakna alla morgna fyrir allar aldir. Það var þó óvenjuslæmt í morgun. Þá vaknaði Hringur klukkan 5:30 og ég fór á fætur til að sinna honum. Svo sofnaði hann fljótlega aftur en ég gat ómögulega fest blund. Þetta er agalegt. Svo fer ég náttúrulega að geyspa og verða leiðinlegur svona um kvöldmatarleytið. Ég þoli ekki þegar þetta gerist, en það er leiðinlega oft.
 
mánudagur, desember 26
  Fiðlarinn að æfa jólalögin

Fiðlarinn að æfa jólalögin
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Við vorum með skemmtiatriði í jólaboðinu í gær. Spiluðum saman þrjú jólalög og eitt uppklappslag. Þessi strákur er efnilegur fiðlari en mætti vera viljugri að æfa sig heima. Það sama má sjálfsagt segju um flesta tónlsitarnemendur. Ekki satt?
 
  Aðfangadagskvöld

Aðfangadagskvöld
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Mamma var að biðja um myndir frá okkur. Hér er ein mynd sem var tekin á aðfangadagskvöld. En svo gæti ég svo sem tekið upp á því að setja fleiri inn á myndvefinn.
 
  Fyrsti stjórnmálapistill ársins
Sumarið 1999 var ég í Danmörku í vikutíma. Ég átti að vera viðstaddur mixeringu plötunnar okkar í Abbababb sem var gerð í stúdíóum þarna úti. En fyrst og fremst fór ég til að kynna mér aðstæðurnar og ganga frá lausum endum varðandi fluting okkar Grétu og Hákonar til Engelsholm sem voru fyrirhugaðir nokkrum vikum síðar. Mér til aðstoðar var Peder Kraack, vinur okkar Grétu, sem var að kenna í Grunnskólanum í Bolungavík veturinn á undan. Í Viborg, þar sem Peder bjó, fórum við á tónleikakrá til að hlusta á einhverja blúshunda. Þá kemur maður upp að mér og heilsar en segir svo ekkert meira, tekur sér bara stöðu þarna við hliðina á mér með ölkrús í hendi og fylgist með hljóðfæraleikurunum. Ég sé að Peder, sem er mikill frjálshyggjumaður, fer allur að iða og segir mér svo að maðurinn sem standi þarna við hliðina á mér muni verða næsti forsætisráðherra Danmerkur. Þetta var greinilega hans maður, formaður Venstre, Anders Fogh Rasmussen. Og Peder hafði rétt fyrir sér, það leið ekki ár þangað til kosið var í Danmörku og Danir breyttu til og fengu hægrimanninn úr Venstreflokknum sem forsætisráðherra. Og það hefur hann verið síðan. En nú breytist það sjálfsagt næst þegar verður kosið.

Ætli það gerist einhverntíma á Íslandi að Íslendingar breyti til og kjósi aðra til valda en þá sem hafa setið lengi á valdastóli? Já, það mun örugglega gerast einhverntíma. En það mun örugglega ekki gerast næst þegar kosið verður. Davíð sá fyrir því. Með því að færa Framsóknarflokknum forustu ríkisstjórnarinnar í tvö ár fyrir kosningar á silfurfati hefur hann komið framsóknarmönnum í þá stöðu að lítist fólki ekki á það hvernig haldið hefur verið á málum í landinu undanfarið kjörtímabil mun það kenna forystuflokknum um og ekkert þrá heitar en að fá sjálfstæðismenn aftur í forystu. Ég spái að þeir muni vinna stærsta kosningasigur í sögu lýðveldisins.

Og þá keyra þeir vagninn alveg á kaf. Það er svoleiðis með okkur, við verðum að fá okkur fullsödd áður en við föttum að eintómir mjólkurgrautar gera okkur ekki gott. Það þarf meiri fjölbreyttari úrræði og mismunandi áherslur í hugmyndafræðina. Það þarf jafnvægi í þetta eins og annað. Það er löngu tímabært að breyta til. En ég spái því sem sagt að vegna þess að Davíð gaf eftir stólinn þá hafi hann frestað þessum óumflýjanlegu breytingum um fjögur til átta ár. Þannig að sú ákvörðun hans að hætta í stjórnmálum verður sennilega sú ákvörðun á hans sjórnmálaferli sem mest áhrif mun hafa á líf fólksins í landinu.

Og einn spádómur enn: Í næstu kosningum nær Framsóknarflokkurinn þremur mönnum inn á þing. Einum hér á Suðurlandi, einum í Norð-austur kjördæmi og einum í Kraganum. Hann mun ekki þurrkast út (eins og væri náttúrulega eðlilegast), bara næstum því.
 
laugardagur, desember 24
  Skata i sveitinni
Halli Guðfinns bauð okkur í skötu í hádeginu í gær. Ég fór með stóru krakkana með mér en Gréta var heim og Hringur svaf á meðan. Það var fjórréttað í skötuveislunni á Miðhúsum. Það var vel kæst soðin skata, það var bragðmild tindabkkja, það var orginal saltfiskur og svo hnausþykkur kaldur grjóni með þeyttum rjóma í eftirrétt. Ég hef yfirleitt borðað skötuna á Þorláksmessu en það hef ég ekki gert vegna þess að mér finnist hún svo góð heldur kann ég vel við þennan sið og geri sem sagt mitt til að viðhalda honum. En í gær kunni ég barasta ágætlega við skötuna. ég lét vaða í þessa sterku skötu og líkaði bara vel. Er trixið ekki bara að setja nógu mikinn hnoðmör út á fiskinn og kartöflurnar og að reyna að hafa smjörlagið á rúgbrauðsneiðinni a.m.k. jafnþykkt brauðsneiðinni? Ég sparaði alla vega ekki þennan fína mör sem Halli hafði sjálfur hnoðað. Hann bar sig mjög fagmannlega að matseldinni. En sjálfur hafði hann náttúrulega ekki alist upp við að borða kæsta skötu frekar en annan mat sem bragð er af. Þarna var fólkið á bæjunum tveimur á Miðhúsum og Guðmundur Ketill og svo kom Hjalli Gunn og fjölskylda. Það var gaman þessu.
 
  Fjólubláa hjólið
Einn eftirminnilegasti aðfangadagur æsku minnar er aðfangadagurinn þegar ég eyddi nokkrum tíma í að koma hjóli sem Halldóra litla systir fékk að gjöf frá pabba og mömmu fyrir í bílskúrnum og skipuleggja plottið hvernig því yrði komið fyrir inni í húsinu án þess að hún yrði þess vör. Árið er 1985 eða 1986. Að ég skyldi fá að vera með í þessu nostri og leyndói hefur greinilega skipt mig máli því annars myndi ég ekki eftir þessu. Það eru einmitt svona hlutir sem börn elska að fá að vera ábyrg fyrir og þykir merkilegt að vera treyst fyrir. Ég er samt að pæla hvað það var sem gerðí það að verkum að mér þótti þetta svona áhugavert. Ég held ég viti það. Þetta hjól var nefnilega ekkert venjulegt reiðhjól. Þetta var sko á þeim árum þegar það þótti barasta vera svakalega mikið lán að eiga frændur í fraktsiglingum. Og við systkinin áttum því láni að fagna. Þá var til dót í útlöndum sem ekki var til á Íslandi. Er það ekki alveg búið? Erum við ekki í fararbroddi í að éta tískuna upp eftir Kananum? En aftur að hjólinu. Þetta var amerískt reiðhjól með BMX-lagi, en það var engu að síður stelpulegt. Það var tvílitt, hvítt og pastelfjólublátt. Ég var alla vega sannfærður um að það væri eina svona hjólið á landinu. Jón Óli keypti það í Bandaríkjunum. Hann var á Hofsjökli á þessum árum.
 
  Rafmagnsleysi
Á aðfangadag 1989 fór rafmagn af bænum (einu sinni sem oftar) og hljómsveitin Gröðu gítarnaglarnir sat öll við kertaljós í herberginu mínu á Holtastígnum og samdi jólalag. Textinn fjallaði um það sem var mest að plaga meðlimi þessarar hljómsveitar alla tíð, ágenga stelpu. Mamma var í eldhúsinu eitthvað að fást við mat og ég man að boðskapurinn fór ekkert sérstaklega vel í hana.

Seinna rak þessi hljómsveit gistiheimili í Reykjavík sem hýsti eingöngu veðurteppta Vestfirðinga og þar var yfirleitt fullbókað.

Gunni vinur minn á Skaganum laug því einhverju sinni að Kiddu rokk þegar þau voru í kringum fermingu að það hefði slegið út rafmagninu á heimili hans og maturinn eyðilagst. Fjölskyldan hefði haft snarl á aðfangadagskvöld. Kidda er svo góðhjörtuð, má ekkert illt sjá eða heyra, að hún var að leggja af stað til hans með nýjan jólamat þegar hann hringdi til að leiðrétta sig.
 
fimmtudagur, desember 22
  ADSL
Loksins, loksins.
Þegar við fluttum í sveitina var ákveðið að hafa góða nettengingu heima. Svo var það barasta ekkert í boði hér í afdölum. Síðan hafa liðið mánuðir. Svo gerðist það fyrir 4 mánuðum að tengingin kom hérna í hverfið. Þá stóð bara þannig á að ég tímdi ekki fá mér tenginguna. En nú er ég búinn að eiga mjög sannfærandi eintal við sjálfan mig um hversu mikilvægt það sé heimilinu að vera með góða tengingu. Það er alltaf hægt að sannfæra sjálfan sig þegar á að kaupa það sem mann langar í. Ég hef haft virkilega fína ljósleiðara tengingu í vinnunni sem ég hef notað og misnotað á allan hátt. Nú þarf ég ekki að gera mér ferð í skólann til að taka við tölvupósti með ljósmynd eða framkvæma millifærslu í netbankanum á skemmri tíma en 30 mínútum. Voða er þetta fínt. Og ekki versnar það eftir áramótin þegar Rúv og Skjár 1 verða líka farnir að sjást án snjókomunnar. Þá ætla ég líka að skoða að sjá líka norrænar stöðvar.

Ég er orðinn svo mikill sveitamaður að ég er farinn að skrifa um ADSL tengingu eins og hún sé nýjung. Að lesa þetta er sjálfsagt svipað og það var fyrir okkur kennara á Vesturlandi sem vorum saman á kennaraþingi að Varmalandi fyrir nokkrum árum og hlustuðum á konu úr Menntamálaráðuneytinu halda fyrirlestur um notagildi tölvunnar og Netsins fyrir kennara. Hún hefði fengið meiri athygli blessuð konan hefði hún verið 10 árum fyrr á ferðinni. Þetta voru gamlar fréttir og frekar hallærislegar. En í sveitinni hérna hjá okkur er ADSL ekki til staðar nema bara fyrir þá sem búa hérna í kringum símstöðina við Aratungu. Hinir eru í gervihnattasambandi eða með gömlu símalínuna sem er sumstaðar svo gömul og úr sér gengin að hún ræður engan veginn við gagnaflutning. Fólk hefur hætt í fjarnámi vegna þess og hún Sigríður í Arnarholti segist meira að segja vera fljótari að sækja sér hross í hagann, leggja á hann og ríða í bankann en að nota netbankann til að borga reikninga.

Þessi færsla er fyrsta færslan á ADSL að heiman.
 
þriðjudagur, desember 20
  Kominn í frí
Sjaldan hef ég verið því eins feginn að vera kominn í frí. Langþráð jólafrí er hafið. Í dag var jólatrésskemmtun í skólanum og svo var líka skemmtun hjá Hringi og Perlu Maríu í leikskólanum. Þar spilaði ég jólalögin á gítarinn á meðan starfsfólk leikskólans söng og leiddi börnin hringinn í kringum jólatréð. Svo kom jólasveinn og spurði hvort hann væri kominn í Kálfaborg. Hann átti auðvitað við Álfaborg, en þetta þótti bráðsniðugt.
 
sunnudagur, desember 18
  Jólahlaðborð
Það var hörkustuð á Hótel Geysi í gærkvöldi. Ég var þar að spila á mandólín og að syngja svolítið. Fyrst spiluðum við Hilmar Örn dinnermúsik og svo bættist Hemmi í Byttunum í hópinn og við kýldum upp stuðuð í svona pöbbastemningu og smá danserí. Ég held ég hafi aldrei áður leikið á hljóðfæri svona lengi í einu. Það eru að myndast blöðrur á fingurgómum vinstri handar. Það er bara rugl að plokka stífa strengi frá hálfátta til tvö! Ég veit ekki hvað ég var að pæla.

Gréta og konur þeirra Hilmars og Hemma, Hófí og Emma, fóru með okkur uppeftir, fengu sér að borða og höfðu það næs.
 
  Fjarstýrður kaggi
Hákon fékk fjarstýrðan bíl í afmælisgjöf frá afa Gilla og ömmu Þóru. Þetta er stór kappakstursbíll sem kemst á 30 km. hraða á klst. Það er ekki hægt að prófa svoleiðis bíl heima þar sem fjölskyldan býr í 100 fm og tvö smábörn hlaupa á eftir tryllitækinu, rífa það upp og stíga ofan á það. Þá er heppilegt að pabbi skuli vinna í skólanum, þar sem stórir gangar eru eins og hannaðar kappakstursbrautir. Við erum í skólanum núna. Ég var að ganga frá einkunnaskráningu og er að fara að klippa tvær til þrjár bíómyndir sem á að frumsýna á bekkjarkvöldi á morgun. Það náðist ekki að klára þetta og ég ætla að draga hópana að landi. Svo eru tveir vinnudagar eftir, þá er komið jólafrí hjá mér. Ég ætla svo að nota svona hálfan dag einhverntíma til að ganga betur frá stofunni minni og einn dag í að útskrifa fólkið sem var hjá mér á gítarnámskeiðinu. Mig langar að eiga svona síðasta tíma með öllum þátttakendunum og senda þá frá mér með gott veganesti.
 
þriðjudagur, desember 13
  Jólagjöfin í ár
Ef þið smellið á titil færslunnar verður ykkur færð jólagjöf á silfurfati. Þetta á eftir að gleðja ykkur.
 
  Leynivinurinn
Hæ, mikið rosalega skemmti ég mér vel um helgina. Það var alveg hrein unun að syngja með kórnum í Skálholtskirkju. Þvílíkur hljómburður! Gestir létu vel af dagskránni og gengu ánægðir út fullir jólagleði. Frábær dagur!

Nú er leynivinaleikur í gangi hjá okkur í skólanum. Það var líka svona í fyrra á aðventunni. Þá bað ég um tillögur hér um gjafir sem ég gæti gefið og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Það má líka koma með tillögur núna. Ég er búinn að vera frekar mikill nirfill hingað til svo ég verð að enda þetta með stæl.

kv. Jólaálfurinn
 
laugardagur, desember 10
  Aðventutónleikar í Skálholtskirkju
Þá er stóri dagurinn runninn upp. Dagurinn sem búið er verið að undirbúa síðustu vikurnar. Ég er í fyrsta sinn að taka þátt í alvörukórverkefni. Ég syng bassarödd í Skálholtskórnum. Þetta er risastórt verkefni. Mikil dagskrá sem bæði er fjölbreytt og skemmtileg. Þarna munu syngja þrír kórar úr sveitinni, tveir einsöngvarar og sjö hljóðfæraleikarar. Auk þess koma að tónleikunum tvö tónskáld sem samið hafa verk sérstaklega fyrir þetta tilefni. Tónliekarnir fara fram í dag klukkan 17:00 og aftur í kvöld klukkan 20:00.
 
föstudagur, desember 9
  Afmæli
Það eru tuttuguogeitthvað börn heima mér núna. Ég ætla að drífa mig og sækja Perlu Maríu og Hring á leikskólann og skella mér með í fjörið. Hákon varð 8 ára 7. desember.
 
þriðjudagur, desember 6
  Þar er hugurinn
Hjördís mágkona mín og Birkir svili minn eru í Boston með unga dóttur sína sem þarf að gangast undir mikla hjartaaðgerð seinna í dag. Hugurinn er hjá þeim.
 
sunnudagur, desember 4
  Matargerð
Í gærkvöldi buðum við gestum í mat. Krakkarnir fóru í hina götuna og voru þar í pössun meðan við elduðum og borðuðum þessa líka fínu rétti. Við buðum upp á gæs sem Örvar mágur minn hafði skotið í Vopnafirði. Það kom ekki nema eitt hagl í ljós og það var ég sem beit í það. En rétturinn var mjög vel heppnaður. Nú var ég að mæta í skólann til að undirbúa aðeins næstu viku. Nú kom Perla María með mér. Hún er að lita. Hringur sefur en Hákon er að hjálpa til við að baka fyrir afmælisveilsuna hans, sem verður í næstu viku. Hann verður 8 ára.
 
fimmtudagur, desember 1
  Skólastofusaga
Um daginn ákvað ég að byrja skóladaginn í 5. bekk á að bera stafrófið, sem nemendur mínir hafa verið að vinna með, saman við nótnastrenginn og hljómborðið. Í kjölfarið fór ég að fiska eftir helstu tónskáldum mannkynsögunnar. Ég var að fiska eftir Bach, því ég hafði sögu af honum sem mig langaði að segja þeim. Jæja, það komu uppástungur. Fyrst Mozart og svo gall í einum á fremsta bekk: „Heitir ekki einhver Ringo Starr?"
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]