Tilraunavefurinn
þriðjudagur, febrúar 28
  Öskudagur og maskar
Á morgun er öskudagurinn. Krakkarnir fara allir á öskudagsskemmtun. Litlu börnin með leikskólanum og Hákon á skemmtun fyrir eldri börnin í íþróttahúsinu. Við þurfum að muna eftir að taka myndir af krökkunum og setja á myndasíðuna.

Ég á nokkrar minningar um öskudaginn í Bolungavík í gamla daga. ég man enu sinni eftir því að slegið hafi verið sælgæti úr tunnu á skólavellinum. Það var Jónas Pétur, frændi minn, sem átti höggið sem varð til þess að tunnan gaf sig loksins. Ég var ferlega ánægður með hann. Fannst mjög merkilegt að þekkja svona hetju. Ekki man ég eftir að við hefðum verið mikið að syngja. Við létum bara nægja að klæða okkur upp og ganga svo í hús úr húsi og sníkja gotterí. Þetta gerðum við ekki aðeins á öskudagskvöld heldur að kvöldi bolludags og sprengidags líka. Þetta er kallað að maska fyrir vestan. Ætli það sé ekki enskusletta? Þetta er enn við líði í Víkinni. Þetta er algjör plága fyrir blessaða íbúana.

Hér í Tungunum komu einhverjir krakkar og sungu fyrir okkur í fyrra. En það var nú lítið eins og gefur að skilja í sveitinni.
 
  Enn af tónleikunum
Það er aldeilis lof sem við fáum sem stóðum að tónleikunum í Hallgrímskirkju á laugardaginn. Mér skilst að í DV í gær hafi verið mjög jákvæð umfjöllun. Hana hef ég reyndar ekki séð. Ég hlustaði aftur á móti á upptöku úr Víðsjá á Rás 1 frá í gær. Tónleikagagnrýnandi þáttarins var á tónleikunum og var svona líka frá sér numinn af fögnuði yfir þessum flutningi. (Hann minntist reyndar ekki á framistöðu mína, hvernig sem stendur nú á því!) Hann var hrifnastur af Passíusálmum nr. 15, 25 og 46 og svo af flutningnum og útsetningunni á sálminum gamla, Hærra minn guð til þín. Ég bendi áhugasömum á að hlusta á þetta á vefnum www.ruv.is, smellið á 27. febrúar á dagatalinu og svo á Víðsjá.

Það sem mér fannst skemmtilegast að spila var einmitt þetta sama. Ég var með áberandi línur á mandólínið í sálmi nr. 15 og átti sólóið í félagi við altblokkflautu. Í 25. sálmi bar Guðmundur gítarleikari undirleikinn uppi með guðdómlegu kassagítarströmmi og í 46. sálmi tók hann sóló sem var brilljant. Í þessum gamla sálmi við texta Matthíasar Jochumsonar gerðu þeir Megas og Hilmar Örn útsetningu sem var tilvísun til langfrægasta flutnings þess lags. Því þegar Titanic sökk lét hljómsveitarstjóri skipshljómsveitararinnar hana leika þennan sálm í miðju óðagotinu og frá hefur verð sagt að þetta heyrðist til nærstaddra skipa og þar var fólk sem öfundaði þá mikil ósköp farþegana á Titanic fyrir það að hafa það svona huggulegt í kvöldkyrrðinni. Já, þeir félagar létu okkur hljóðfæraleikarana sem sagt sökkva laginu. Á tímabili lét þetta alls ekki svo vel í eyrum, en þannig átti það einmitt að vera.
 
  Ég & Grautó
Í færslunni hér að framan var fjallað um Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði. Húsið sem hýsti þann skóla varð seinna Tónlistarskóli Ísfirðinga. Þá kom ég þangað nokkrum sinnum til að æfa saman einhver bönd. Einhverntíma með Sigga Sam og Hemma Snorra. Við spiluðum þrír af einhverju tilefni. Við höfðum allir verið meðlimir í bekkjarbandinu okkar í MÍ þegar við vorum í 1. bekk.

Í þessu húsi, nánar tiltekið í kjallaranum, æfði líka hljómsveitin KY sem við Venni Jobba stofnuðum 92. Þar voru líka Palli EInars og Jón Geir, sem núna leikur á trommur í Ampop (er það skrifað svona?). Það var mjög gaman að vera í þeirri hljómsveit en ég eyðilagði eiginlega alla möguleika hennar á að verða eitthvað. Ég var nefnilega það fífl að vera svo mikill Víkari að mér fannst vera þörf fyrir krafta mína í fótboltaliði UMFB. Það reyndist svo vera mesti misskilningur. En vegna þess hversu samviskusamlega ég stundaði fótboltann mætti ég ekki á æfingar hjá hljómsveitinni fyrr en eftir að fótboltaæfingum var lokið. Þetta band hafði alla burði til að gera miklu stærri hluti. En við spiluðum eitthvað aðeins og vorum alveg sæmilegir. Ég man eftir hinu árlega og víðfræga balli á Suðureyri 16. júní ásamt Gallileó, 17. júní í Íþróttahúsinu í Víkinni og á Tónleikum í Félagsheiminu í Hnífsdal. Þetta band lifði áfram eftir að ég var farinn suður á Skagann. Þá komu í hana í minn stað söngvarinn Eiríkur Sverrir og gítarleikarinn Rúnar Óli. Ég sá þá og heyrði einu sinni á Silfurtorgi. Þeir voru góðir, miklu þéttari en þegar ég var í bandinu, en það hafði samt engin þróun orðið. Þetta var áfram sama metnaðarlausa kóver-sullið og það hafði verið.

Svo kom ég einu sinni í Húsmæðraskólann til að heimsækja Ödda frænda þar sem hann var með aðsetur fyrir One man bandið Mugison.
 
mánudagur, febrúar 27
  Húsmæðraskólinn Ósk
Ég sit á skrifstofu foreldra minna og hef fyrir augunum nemendaspjaldið frá Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði 1968. Ég segi nú bara: Í þá daga kunnu konur að greiða sér!
 
  Heima í Víkinni
Þá er bloggað frá Bolungavík. Ég skrapp hingað vestur fyrir helgi, skildi börnin eftir hjá pabba og mömmu, flaug sjálfur aftur til Reykjavíkur. Þar var ég þangað til í gær. Nú komumst við ekki alveg strax vegna þess að það er þoka á Ísafirði. Við höfum haft það gott hérna.

Tónleikarnir gengu vel á laugardaginn. Það var troðfull kirkja og flutningurinn heppnaðist með ágætum. Seinni tónleikarnir verða í Skálholtskirkju laugardaginn fyrir páska, 15. apríl.
 
miðvikudagur, febrúar 22
  Æfing
Það var æfing hjá Píslasveitinni hgans Megasar í gærkvöldi.

Oft hef ég undrast hversu oft það hefur gerst hvað rétt slarkfær hljóðfæraleikari eins og ég er hefr oft komist í að spila með einstöku hæfileikafólki. En þessi hljómsveit slær nú samt öllu við. Þetta má enginn láta fram hjá sér fara. Þvílíkir kontrastar! Rödd Megasar vs. barnaraddir, varðeldamunnhörpuspil vs. strengjakvartett, tveir afar ólíkir gítarleikarar og svo framvegis. Þetta verður flott!
 
sunnudagur, febrúar 19
  Emelia Rakel fær heimsokn itl Boston
Hvað haldiði? Sandra Dögg, Bensi og Gilli á Sólbakka skruppu til Bandaríkjanna á fimmtudaginn. Þau fóru til að heimsækja Hjördísi, Birki og Emelíu Rakel á barnasjúkrahús í Boston. Þar hafa þau verið síðan í byrjun desember. Emelía Rakel fæddist með mikinn hjartagalla sem verið er að lagfæra. Það hefur gengið svona upp og ofan og álagið á hana og foreldran verið mikið. Ég veit að þeim líkar það vel að fá þessa heimsókn. Vonandi fer nú að styttast í að maður fari að hitta þau.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá læt ég það fylgja hérna með að Bensi og Hjördís eru systkini Grétu og Gilli er pabbi hennar. Hjördís og tvær dætur, Söndru Dögg og Emelíu Rakel. Pabbi þeirra er Birkir, mikill ágætispiltur úr Grindavík. Sandra er stelpan sem var hjá okkur milli hátíðanna. Hún er svo til jafngömul Hringi.

Ef þið smellið á fyrirsögn færslunnar komið þið inn á heimasvæði Emelíu Rakelar á Barnalandinu. Þar er gestabók sem hefur verið skrifað í mörg þúsund sinnum á síðustu vikum.
 
laugardagur, febrúar 18
  Kóræfing og knattspyrna
Þetta árið hefur kirkjan ákveðið að Brynjólfs Sveinssonar, biskups í Skálholti, verði minnst með sérstökum hætti. Haldin verður Brynjólfshátíð. Klerkarnir og ýmsir fræðimenna hafa hist og rifjað upp þætti úr lífi hans og starfi. Á Jólatónleikum Skálholtskórsins var frumflutt lag eftir Hreiðar Inga við texta eftir Brynjólf og besta vin hans (eða þannig!), séra Daða Halldórsson. Og þessir tónleikar þar sem Passíusálmar Hallgríms Péturssonar og Megasar verða fluttir eru liður í Brynjólfshátíðinni. Svo þegar vorar verður frumflutt tónverk, Brynjólfsmessa. Það verða þrír kirkjukórar sem syngja messuna saman; Skálholtskórinn, Kirkjukór Grafarvogskirkju og Kirkjukór Keflavíkurkirkju. Tónskáldið er Gunnar Þórðarson.

Í dag verður fyrsta æfingin þar sem kórarnir æfa saman. Það er æfingadagur í Skálholti. Eins og á hljómsveitaræfingunni síðasta laugardag verð ég að hætta áður en henni lýkur til að komast á Selfoss á fótboltamót. Núna eru það Hákon og félagar í 6. flokki sem leika.
 
fimmtudagur, febrúar 16
  25. febrúar

Megas og Passíusálmarnir
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Ég mæli eindregið með þessari dagskrá. Ég er svo lánsamur að fá að taka þátt í að flytja þessa sálma í þetta skiptið. Það eru búnar að vera þrjár góðar æfingar hjá hljómsveitinni og ég hef tekið þátt í einni og hálfri. Þessir hljóðfæraleikarar eru æðislega færir og þessi hljóðfæraskipan er virkilega spennandi. Dagskráin verður svo flutt aftur í Skálholti 8. apríl.
 
laugardagur, febrúar 11
  Sunddeildin og læknirinn
Við Bolvíkingar fengum nýja og æðislega flotta sundlaug árið 1977. Ég man ekki eftir því. En það eru til myndir í albúmi heima sem er ansi skemmtilegar. Þannig var að íþróttakennarinn í Víkinni þá var Kristján Möller, strákur frá Siglufirði. Mamma var að vinna á Bæjarskrifstofunni og hljóp undir bagga með að sjá þessum strák fyrir einni heitri máltíð á dag. Þannig varð það að Kristján varð heimagangur hjá okkur. Svo náði hann sér nú í konu úr götunni okkar þannig að við hittum Kristján oft enn þann dag í dag. Hann varð fyrstur til að verða þjálfari sundliðsins hjá UMFB. Myndin í albúminu heima var tekin af Kristjáni að næturlagi, þar sem hann, íklæddur Adidas íþróttagalla, stingur sér í sundlaugina fyrstur allra.

Það voru hörkuduglegir krakkar í fyrstu hópunum sem kepptu fyrir UMFB í sundi. Kristján hætti og við tók frændi minn úr Reykjavík, Auðun Eiríksson. Auðun er mjög hress og skemmtilegur maður. Hann var líka í fæði heima. Hann bjó nú heima fyrst en seinni árin kom hann bara í hádeginu og sumar helgar og var með okkur. Undir stjórn Auðuns fór sunddeildin á skrið. Í því liði voru krakkar sem nú eru alveg að verða fertugir, eins Elín Harðar, Silla Péturs, Inga Maggý, Kristján Sveins, Jónas Pétur, Gunnar Haukur, Gunni Garðars og einhverjir fleiri. Einhverntíma fann einhver úr þessum hópi fyrir eymslum í öxl og ákveðið var að hann myndi hitta lækninn til að fá bót meina sinna. Það var ómögulegt að hafa slasaðan liðsmann - þetta varð að laga.

Pétur læknir tók á móti sjúklingnum og byrjaði að spyja hann út í það hvað amaði að honum. Jú, það var öxlin. „Og hvenær finnurðu helst fyrir þessum óþægindum væni?", spurði læknirinn. Sundmaðurinn sagði að það væri þegar hann væri að synda baksund. Þá var antisportistinn, læknirinn okkar, snöggur að finna lausn á þessum vanda og sagði með sinni skemmtilega nefmæltu röddu: „Nú, vertu þá ekkert að synda baksund!"

Ég vona að læknar handbolta- og fótboltalandsliðsins beiti öðrum aðferðum til að hressa upp á skjólstæðinga sína!
 
  Allt þarf að gerast á sama tíma
Í dag verður alveg brjálað að gera hjá mér. Ég fer í Hafnarfjörð á hljómsveitaræfingu með Píslasveitinni sem leikur undir þegar Passíusálmarnir verða sungnir af Megasi og Kammerkór Biskupstungna. En af því að ég er að fara þarna yfir heiði ætla ég að þeytast um allan bæ fyrir æfingu og afhenda myndir og gjafabréf sem Gréta þarf að koma til skila. Ég er mjög spenntur að fara á æfinguna, þetta er flott músík og frábærir hljóðfæraleikarar sem ég fæ að spila með í þetta skiptið. En það er fúlt að ég get ekki klárað æfinguna því ég þarf að vera mættur á Selfoss löngu áður en henni lýkur. Ég ætla að stýra knattspyrnuliði Tungnamanna í 3. flokki á innanhússmóti HSK.
 
fimmtudagur, febrúar 9
  Góða nótt

Góða nótt
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Í kringum tveggja ára aldurinn var Hákon minn stundum svo þreyttur á kvöldin að hann sofnaði fram á borðið í kvöldmatartímanum. Nú er verið að prófa að taka miðdegislúrinn af Hringi og í kvöld sofnaði hann við eldhúsborðið. Þetta er svo sætt. En maður veit ekki alveg hvað maður á af sér að gera á þessum tíma sem yfirleitt fer í að svæfa hann.
 
miðvikudagur, febrúar 8
  Frumkvæði #4
Af því að handboltalandsliðið var að keppa á Evrópumótinu datt mér í hug enn ein sagan í flokkinn um frumkvæði barnanna í Víkinni í þá daga þegar ég var að alast þar upp. Það var nefnilega þannig um nokkurra ára skeið að stundaður var handbolti í íþróttahúsinu í Árbæ í Víkinni. Það voru reyndar leiknir handboltaleikir við vígsluathöfnina á húsinu. Þá varð íþróttaiðkandi í fyrsta sinn fyrir meiðslum í húsinu þegar Kiddi kommi í liði bæjarstjórnarinnar fór af fullmiklum ákafa í gegnumbrot á vörn þeirra Víkara (annarra) sem einhverntíma höfðu spilað handbolta. Mig minnir að í því liði hafi þeir verið meðal annarra Kalli Gunn bróðir Kristins, Olli og Dóri Jón. Svo slösuðust nokkrir fleiri í íþróttahúsinu þarna á fyrstu dögunum sem það var opið og Pétur læknir var snöggur að gefa húsinu nafnið Slysheimar. Hann þóttist alltaf hafa lítinn skilning á þessu sprikli fólksins (kannski ég laumi hér inn sögum af því seinna).

En.... Þannig var að einhverntíma, sennilega í kringum eitthvert stórmótið í handboltanum, langaði mig afskaplega mikið að leggja stund á þetta sport. Mér þótti líklegt að ég svona eins og ég var skapaður; hávaxinn með langa handleggi, gæti hugsanlega átt einhverja von um geta eitthvað í þessari grein. Ég fór á fund Björgvins Bjarnasonar sem var formaður UMFB og fór þess á leit við hann að hann yrði mér innan handar um að koma á handboltatímum fyrir unglinga í húsinu. Svo fórum við strákarnir á fullt að leita okkur að þjálfara og að endingu fór það svo að Rögnvaldur benti okkur á mág sinn sem var frá Akureyri en hann hafði víst spilað handbolta. Þetta var Jónas Ottósson, kærasti Ingunnar Sveins. Jónas var mjög góður þjálfari. Hann lét okkur æfa af eins mikilli alvöru og hægt var miðað við að æfa einungis tvisvar í viku og keppa eiginlega ekki neitt. Ég styrktist alla vega heil ósköp í þessu og við tókum allir miklum framförum í handbolta.

Okkur tókst svo annað slagið að fá fótboltaklíkuna á Ísafirði til að keppa við okkur. Það var mesta furða hvað þeir voru viljugir að koma úteftir og spila við okkur, en þeir kunnu náttúrlega ekki mikið í handbolta því þetta voru einu skiptin sem þeir komust í snertingu við þá íþrótt.
 
þriðjudagur, febrúar 7
  Flutningur passíusálmanna í tveimur kirkjum

Flutningur passíusálmanna í tveimur kirkjum
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Unglingarnir okkar í Tungunum ætla að syngja með Megasi síðar í mánuðinum í Hallgrímskirkju. Verkefnið er liður í Brynjólfshátíð. Það á að halda tónleika í Hallgrímskirkju og svo aftur í Skálholti á föstunni. Það eru náttúrulega Passíusálmar sem á að flytja. En Hallgrímur Pétursson mun hafa sent Ragnheiði Brynjólfsdóttur eitt þriggja eintaka af sálmunum á sínum tíma. Þannig að þeir hafa alltaf verið til í Skálholti. Það verður hljómsveit í verkefninu og í vor var búið að ráða mig í hana. En svo breyttist það á tímabili þegar til stóð að gamalt rokkband kæmi með kommbakk að þessu tilefni. Hins vegar verður ekki af því og það er búið að fá svakalega flott lið í bandið. Ég vona að ég fái að vera með í einhverjum sálmanna. Ég er alla vega kominn með nótur í hendurnar og gamlar upptökur í tölvuna. Þesso mynd var tekin í fyrravor þegar Ólafur Kjartan söng tvo sálma með kórnum í Austurbæjarbíói.
 
mánudagur, febrúar 6
  Frekar snúið gigg
Við lentum í frekar snúnu verkefni við Hilmar á laugardagskvöldið. Við vorum að spila dinnermúsík á Hótel Geysi og svo var búið að tala um að við myndum halda uppi smá kráarstemmningu eftir matinn. Málið var að í stórum sal var fólk frá tryggingafyrirtæki úr Reykjavík með þorrablót. Frekar kúltiveruð samkoma með fólki á breiðum aldri, karla og konum. Fólkið var búið að vera þarna allan daginn og ætlaði að gista yfir nóttina og hafa það virkilega notalegt. Þau höfðu útbúið sönghefti og í hópnum var ágætishópur af vönu söngfólki. Í litlum sal var 12 manna steggjapartí. Blindfullir náungar sem höfðu verið að sturta í sig allan daginn. Og á milli þessara hópa sátum við og spiluðum eitthvað sem átti að höfða til beggja hópanna.

Þetta fór ágætlega af stað. Svo stóðum við nú bara upp frá hljóðfærunum og tókum með okkur gítara inn í salinn og spiluðum undir söng fólksins með söngheftin. Þá var ekki annað hægt en að bjóða steggjunum upp á eitthvað svipað. Þá vandaðist nú málið. En ég vissi fyrir að þarna yrði steggjapartí svo ég var búinn að búa mig undir að þurfa að taka Bubbalög. Þannig reddaðist þetta nú þannig að allir fóru ánægðir heim.

Að endingu yfirgáfu nú steggirnir geimið en tryggjararnir héldu áfram að skemmta sér. Við kveiktum á söngkerfinu og spiluðum fyrir dansi ásamt gestunum sem höfðu haft með sér hljóðfæri. Mér fannst þetta barasta vel heppnað hjá okkur.
 
sunnudagur, febrúar 5
  Breytingar
Ég fór að ráðum Baldurs Smára og breytti aðeins hjá mér útliti síðunnar. En það hefur ýmislegt breyst fleira en það sem ég vildi ða breyttist þannig að síðan verður eitthvað í mótun næstu daga. Mér sýnist vanta kommentin inn þótt ég teldi mig hafa stillt það allt saman áðan. Ég þarf að fitka svolítið meira og heyra í einhverjum góðum tölvumanni til að hjálpa mér. Ég opnaði vefinn sjálfur á sínum tíma, en fékk svo fyrrverandi vinnufélaga minn í Grundaskóla, gæðablóðið, Bolvíkinginn og gromsarann Sigurjón Jónsson, til að hressa upp á þetta hjá mér. Bara svona að láta þá vita sem hafa heimsótt vefinn lengi því hann hef aldrei breyst neitt fyrr en nú. Mér væri nú illa í ætt skotið ef ekki væri hægt að ganga að því vísu að allt sé eins og það hefur alltaf verið.
 
laugardagur, febrúar 4
  Gefðu mér ráð
Ég er að spá í útlit síðunnar. Það er eitt sem mig langar að lagfæra.
Kann einhver að laga þetta með bilið milli fyrirsagnar efstu færslunnar og textans?
Þetta verður svo ofboðslega stórt hjá mér.
 
föstudagur, febrúar 3
  Blístur
Hákon sonur minn er síblístrandi. Það getur verið pirrandi en ég reyni að láta það ekki fara í taugarnar á mér því ég trúi því að honum geti varlað liðið illa á meðan hann blístrar öllum stundum. Mér finnst blístrið vera svona kæuleysislegt hljóð þess sem er áhyggjulaus og sáttur við lífið. Blístrið í Hákoni er orðið að miklum ávana. Ég varð vitni að því um daginn þegar ég var að þjálfa krakkana hérna í fótbolta að Hákon kemur með boltann á tánum upp kantinn á frekar rólegri siglingu (hann hefur fengið snerpuna frá mér!) og það eru þrír púkar að reyna að ná af honum boltunum en á meðan blístrar hann lagstúf (hann hefur því miður líka fengið keppnisskapið frá mér!). Nú situr hann inni í herbergi og er að leika við litlu systur sína í Play stadion leik og hann blístrar lag sem hann er að æfa á fiðluna þessa dagana: Nú blikar við sólarlag. Á fiðlunni spilar hann það í A dúr en hann blístrar það hálftóni neðar.
 
fimmtudagur, febrúar 2
  Á leið í prentun og innrömmun

Á leið í prentun og innrömmun
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Gréta var að fara suður í Hafnarfjörð með þessa sendingu. Nú velur Ari innrammari úr þessu myndir sem hann fjölfaldar, sker til, rammar inn og selur gjafavöruverslunum. Gréta fær líka hjá honum einhver eintök af hverri mynd handa sér og selur hérna heima, í Bjarnabúð og víðar svo sem. Sumir fá sem sagt unik myndir, sumir annað eintakið af tveimur eða þremur en aðrir verða að sætta sig við að til eru 49 alveg eins myndir og þeir eiga.
 
  Frumkvæði barna og unglinga #3
Það var þegar ég var í 7. bekk, sem þá var þriðji síðasti bekkurinn (eins og núverandi 8. bekkur) að krakkarnir í Víkinni héldu íþróttahátíð sem var ætluð elstu nemendum grunnskólanna á norðanverðum Vestfjörðum. Þetta hlýtur að hafa gengið vel hjá þeim. Alla vega fannst okkur sem vorum í stjórn Nemendafélags skólans árið eftir alveg sjálfsagt að halda þessa hátíð aftur þá. Þessi hátíð er enn haldin og á líklega 20 ára afmæli í ár.

Svona til gamans langar mig að geta þess hverjir sátu í þessari stjórn: Formaður var Valdi Sigurlaugar, ég var gjaldkerinn, Íris Oddbjörns var þarna og Elísabet Finnboga. Fimmti maður hefur sennilega verið Imba systir Elísabetar, þó man ég það ekki.

Við í stjórninni skipulögðum þessa hátíð og bárum alla ábyrgð á að fjármagna hana og að sjá til þess að hún skilaði hagnaði. Við fengum aðstoð frá íþróttakennaranum hvað varðaði ýmislegt í íþróttahúsinu og skólastjórinn reddaði okkur kennurum í gæslu yfir allan daginn. Svo höfðum við kennara til að leita til sem var tilbúinn að aðstoða okkur við þessi félagsmál en sú aðstoð var ekki mikið notuð. (Þið sem fóruð í fýlu við Gunnar Bjarna fyrir að velja ykkur ekki í liðin í handbolta og fótbolta verðið að fyrirgefa honum það því hann fékk mig í að velja fyrir sig í liðin. Það opinberast hér með!)

Árið þar á eftir var ég formaður Nemendafélagsins og þá var hringt heim og ég átti samtal við konu á Ísafirði sem ég gleymi aldrei. Hún var að leggja til að við létum niður falla þann lið í keppni skólanna sem var kallaður KROPPAKEPPNI. Þá komu tveir fulltrúar úr hverjum skóla, einn af hvoru kyni, fram á sundfötum og samanburðardómnefnd (sem við í Nemendafélaginu skipuðum) valdi aðalkroppana. Mér fannst þessi kona vera alveg snarrugluð og skildi ekkert hvað hún var blanda sér í málið. Ég, sem annars var annálaður fyrir kurteisi og prúða framkomu, reif bara kjaft við hana og varði þennan keppnislið með öllum tiltækum (ó)rökum.

Ég hef stundum hugsað til þess síðar og undrast það hvað maður gat verið ofboðslega vitlaus (og ef þú fréttir af þessum skrifum mínum, þú sem varst danskennari á Ísafirði og forstöðumaður Sponsins (heitirðu ekki Dagný Björk?), þá bið ég þig að afsaka hvað ég var tregur til að vilja skilja sjónarmið þitt og þrjóskur og þver og ég vona að ég hafi ekki verið dóni við í símann, - núna veit ég betur). En spáið í foreldrasamfélaginu í Víkinni að líða þetta: Að fólk á aldrinum 13-15 ára væri að berstriplast í einhverjum skólasal í samanburðarkeppni hvert við annað um líkamsbyggingu þess. Á þessum árum voru foreldrar ekkert mikið að skipta sér af því sem við krakkarnir vorum að gera og þessa sögu set ég hérna með undir þessum lið til að sýna ykkur að þetta frjálsræði sem við nutum var ekki alltaf af hinu góða. Það er ýmislegt gott við það fyrirkomulag sem nú er allsstaðar við líði með umsjónarmann félagslífins í grunnskólanum með nefið ofan í öllu sem gert er af frumkvæði nemendanna, foreldrarölti og frímínútnavakt.

En hvers vegna ætli danskennaraskvísan hafi hringt í mig? Af hverju hringdi hún ekki í skólastjórann eða íþróttakennarann? Eða ætli það hafi virkilega átt sér stað að þessir aðilar hafi vísaði henni með erindið til 15 ára bólugrafins strákgutta í Milletúlpu?
 
miðvikudagur, febrúar 1
  Frumkvæði barna og unglinga #2
Á yngra ári í 4. flokki höfðum við strákarnir ekki þjálfara. Stebbi Andrésar var á eldra árinu og mjög áhugasamur um íþróttir. Hann tók að sér að vera í forystu fyrir okkur í flokknum. Hann tók ábyrgð á innanhússæfingum okkar um veturinn og það var hann sem skráði okkur á Íslandsmót í Reykjavík. Það var hann sem skipulagði fjáröflun okkar fyrir ferðinni, stóð fyrir því að við sjálfir keyptum okkur búninga. Hann reddaði fararstjóra til fararinnar til Reykjavíkur (þar sem sumir foreldrar vildu ekki senda okkur eina í bæinn - enda voru þeir með okkur strákar úr 5. flokki, Halli Pé og Emmi) og liðstjóra sem bjó í Reykjavík. Stebbi var einn á eldra ári og við frændurnir, ég og Rúnar af yngra ári. Fyrir sunnan gekk svo Jónas Vil í skaftið eftir að við höfðum lesið í blöðunum morguninn fyirr mót að nýjar reglur tækju gildi og að 5 leikmenn yrðu inni á vellinum í einu og þar af einn markvörður.

Þetta hefði ekki verið hægt nema af því að strákur á 14. ári tók af skarið og kom sér og félögum sínum þangað sem við áttum að vera af brjálæðislegum dugnaði á tímabili þegar enginn nennti að sinna knattspyrnumálum í Víkinni nema hann.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]