Tilraunavefurinn
miðvikudagur, janúar 31
  Hvað kostar þingsæti?
Athyglisverð pæling um prófkjör hjá séra Baldri Kristjánssyni.
 
laugardagur, janúar 27
  Að innan
Bolvíkingurinn Kristján Jónsson, íþróttafréttamaður og eilífðarstúdent, skrifar oft svona færslur sem hann kallar Orðrétt (svona eins og ég gerði einu sinni í síðustu viku) þar sem hann hefur eftir nýleg ummæli úr fjölmiðlum sem vakið hafa athygli hans. Í tilbrigði við slíka færslu um daginn skrifaði Kristján á síðuna sína www.bolviskastalid.blogspot.com:

„Móðursystir mín Dr. Sjöfn Kristjánsdóttir afgreiddi nýaldarliðið eftirminnilega í svona þremur setningum í fréttatíma RÚV á miðvikudagskveldið. Málið um einhverjar hreinsanir varðandi þarmana og Sjöfn var spurð hvaða áhrif þetta hefði þar sem hún er sérfræðingur í meltingarsjúkdómum: "Í besta falli gerist ekkert og fólk skaðast ekki á þessu. Í versta falli skaðast það mikið á þessu." Hressandi að einhver skuli koma í sjónvarpið án þess að tala út um rassgatið á sér, á tímum þegar pólitískur rétttrúnaður er allt lifandi að drepa."

Í bloggfærslu um sama efni og af sama tilefni, þ.e. umfjöllun Kastljóssins um þarmahreinsanir, bætti blaðamaðurinn, íslenskukennarinn og ævisöguritarinn Hlynur Þór Magnússon um betur og skrifaði þetta:

„Leiðin að hjarta mannsins liggur í gegnum magann, var einu sinni sagt. Í Kastljósinu var fjallað um nýtt tilbrigði við þetta gamla stef: Leiðin að buddu náungans liggur í gegnum rassgatið."
(http://maple123.blog.is/blog/maple123/)


Og til að gæta sanngirni og fjalla ekki bara um þá sem gagnrýna þessar innanhreinsanir, heldur líka um þá sem mæla með þeim heilsunnar vegna, bæti ég þessu við: Um daginn sendi mamma mér tveggja síða úrklippu úr dagblaði með viðtali við móðursystur Grétu minnar þar sem ekkert var annað til umfjöllunar en efni og aðferðir sem fólk notar til að hreinsa á sér þarmana. Á tveimur síðum! Og þetta las ég allt saman.
 
  Beint í bloggerinn úr Júró
Lögin í kvöld voru nú heldur ekkert sérstök. Ekki frekar en í síðustu viku. Ég er þó á því að þjóðin hefði ekki þurft að skammast sín fyrir Von og Eiríkur Hauksson söng náttúrulega óaðfinnanlega eins og hans var von og vísa. Lagið sem hann flutti er líka ágætt.

Einn söngvaranna í kvöld var Hjalti sem söng með þungarokksveit á Ísafirði, hún hét Urmull og gaf meira að segja út plötu. Og svo var gamall sambýlingur minn af heimavistinni í Menntaskólanum á Ísafirði þarna meðal lagahöfunda. Sá heitir Trausti og er úr Önundarfirðinum. Hann samdi einmitt lagið sem Regína Ósk söng svo glæsilega í undankeppninni í fyrra. Ekki grunaði mig á þeim tíma sem við vorum þarna á vistinni að hann ætti eftir að verða afkastamikill og virtur dægurlagahöfundur. Ég vissi reyndar að hann spilaði á hljómborð en hann var nú ekkert að flíka því.
 
  Þorrablót
Við Gréta vorum á þorrablóti í Aratungu í gærkvöldi. Þetta var þrælskemmtilegt blót. Við sameinuðumst í trogi (sem reyndar var bara bastkarfa) með Öglu og Kalla. Að þessu sinni var framkvæmd blótsins í höndum sóknarbarna Skálholtssóknar. Nefndin skilaði greinilega góðu starfi. Skemmtiatriðin voru vel útfærð og mörg hver þrælsniðug. Deilurnar á Skálholtsstað voru fyrirferarmiklar í skemmtidagskránni, þótt ekki hafi verið skotið neitt sérstaklega föstum skotum. Ballið á eftir var mjög gott, eins og alltaf þegar Tungnamenn skemmta sér. Hljómsveitin Saga Class lék fyrir dansi.
 
fimmtudagur, janúar 25
  Orðrétt
„Þorsteinn Pálsson setur fram skemmtilega greiningu í Fréttablaðinu í dag sem byggir m.a. á því að Samfylkingin sé að taka yfir hlutverk Framsóknarflokksins sem miðjuflokkur í íslenskum stjórnmálum. Það ríkti ekki stjórnfesta hér, skv. útleggingu Þorsteins, fyrr en á dögum Halldórs Ásgrímssonar. Fram að því að hann tekur við Framsókn var Framsókn alltaf á leið til vinstri í hægra samstarfi en á leið til hægri í vinstra samstarfi. Þess vegna varð engin stjórnfesta fyrr en Halldór tók við og með mínum orðum: Hélt til hægri í hægra samstarfi. Það sem henti Halldór hins vegar, og nú er ég enn hættur að vitna í Þorstein, er að Halldór sem utanríkisráðherra hreifst af samstarfi þjóða og samvinnu og vildi taka upp þráðinn þar sem Jón Baldvin missti hann eftir inngönguna í EES og knýja í alvöru dyra hjá Evrópusambandinu, en það hefði hiklaust verið heilladrýgst fyrir þjóðina.

Þetta var hins vegar meira en íhaldsöflin í Framsókn og Sjálfstæðisflokki þoldu og Hornfirðingurinn vinur minn var sendur í útlegð. Þess vegna þurfa menn eins og Guðmundur Ólafsson að ræða um okurvexti, okurálagningu, fákeppni, gegndarlausa vinnuviku og Guð veit hvað."

Séra Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Þorlákshöfn
http://baldurkr.blog.is/blog/baldurkr/



Þetta er mjög athyglisvert hjá sr. Baldri. Það er ekki oft sem fólk þorir að lýsa því yfir opinberlega að það styðji Evrópusambandsaðild. Sjálfur er ég mikill prinsipp-maður og er þess vegna annarrar skoðunar en séra Baldur hvað varðar Evrópusambandsaðild. Mér finnst við hreinlega vera að sýna baráttu þeirra sem höfðu í gegn stofnun lýðveldisins Íslands lítilsvirðingu með því og kasta frá okkur sjálfstæðinu sem við þó höfum ótvírætt. En það eru náttúrulega engin rök í málinu. Þetta er bara rómantík. Ég hef nákvæmlega ekkert vit á hagfræði og sáralitla þekkingu á stofnunum Evrópusambandsins. En Jón Baldvin, og meira að segja Halldór, vita alveg um hvað þeir voru að tala.
 
miðvikudagur, janúar 24
  Um bloggtíðni
Þegar annríkið er yfirdrifið gæti ég átt það til að sjá á eftir tíma til að skrifa bloggfærslu. Þegar ég hef ekkert sérstakt að gera blogga ég líka duglega, eins og til að mynda um síðustu helgi. En þegar verkefnin, hvort sem þau tengjast vinnunni, tómstundunum eða fjölskyldunni, eru í svona hæfilegu jafnvægi, þá blogga ég sjaldan. Þessi vika hefur bara verið svona venjuleg. Alveg nóg að gera en ekkert meira en það.

Reyndar hafa krakkarnir, bæði Perla María og Hringur, verið lasin alla vikuna og ekki farið á leikskólann. En Gréta hefur sinnt þeim alla dagana. Það hefur verið svo mikið um veikindi og annars konar forföll hjá kollegum mínum að ég hef viljað vera til staðar í vinnunni. Það hefur jú ekkert verið að mér.
 
sunnudagur, janúar 21
  Fréttir
Harmdauði í heimspressunni.
Þettu eru fréttir!
 
laugardagur, janúar 20
  Júróvísjón
Mér finnst gott hjá Sjónvarpinu að hafa undankeppni fyrir Júróvísjón. Þetta getur verið skemmtilegt sjónvarpsefni. En lögin þóttu mér slök þetta fyrsta undanúrslitakvöld. Svo slök að að þetta náði því ekki að verða skemmtilegt sjónvarpsefni. En samt... lagið hans Þormars Ingimarssonar þótti mér ágætt og það var lang, lang, langbesti flutningur kvöldsins. Söngsándið var eitthvað slakt í kvöld, sérstaklega á Hreimi þegar hann söng. Ef ég verð heima við næstu laugardagskvöld ætla ég að fylgjast með þessu. Vonandi verður þetta betra næst.
 
  Kynþokkinn í Koti
Maður sem ég þekki, og sumir lesenda síðunnar þekkja líka, hefur síðustu misseri gert út á fáránleika í klæðaburði sem og í hár- og skeggvexti og fíflagang í framkomu. Hann ekur um að gömlum og ljótum jepplingi, sést á götum höfðuborgarinnar í rifnum ljósbláum eða bleikum joggingbuxum sem hann girðir ofan í litaða ullarsokkana, þröngum prónapeysum í sauðalitunum (einnig rifnum), sem hann hefur líklega fengið úr fataskáp afa síns, og bombsum. Mér hefur fundist hann hálfhallærislegur til fara þegar ég hef hitt upp á síðkastið og jafnvel hlægilegur. En konurnar eru annarrar skoðunar. Hann var tilnefndur í gær, á sjálfan bóndadaginn, í árlegri kosningu Rásar 2 á kynþokkafyllsta karli landsins og var svo sérstaklega nefndur til sögunnar af dómnefnd sem skipuð var fjórum íslenskum konum sem tákngervingur hins karlmannlega íslenska kynþokka.
 
föstudagur, janúar 19
  Oddur Nordstoga

Ég heyrði fyrst um Odd Nordstoga í þættinum Norrænt á sem Guðni Rúnar Agnarsson, bróðir hans Hilmars Arnar, hefur séð um á Rás eitt í mörg mörg ár. Svo keypti ég mér plötuna sem hann sló í gegn með í Noregi þegar ég var þar á námskeiði fyrir rúmu ári. Þetta er frábær plata, heitir Luring. Nú er komin ný plata. Ég finn hana ekki á Íslandi og vefverslanir sem versla með plötur í Noregi vilja ekki senda plöturnar úr landi. Ég hafði því bara uppi á umboðsmanni gæjans og bað um að mér yrði send plata til Íslands. Ég lofaði í leiðinni að spila músíkina hans út um allt land. Ég fékk svar alveg eins og skot. Umbinn hafði verið á Íslandi með öðrum listamanni sem hann hefur einnig á sínum snærum, sjálfa Sissel. Hann lofaði að senda mér plötu.

Það þarf náttúrulega varla að taka það fram að ég bíð enn og geri mér satt best að segja ekki miklar vonir um að diskurinn komi til mín með þessum leiðum.

Skoðið endilega þetta fréttaskot frá Verdens gang, viðtal og tóndæmi frá Oddi. Þetta er flottur gæi, venjulegar lagasmíðar útsettar í kántrí- og þjóðlagastíl með munnhörpu og banjóum, Harðangursfiðlum og fleiru fíneríi.
 
  Bloggleikur með musik
Fann þennan leik þegar ég var að njósna um gamla nemendur af Skaganum. Ég gaf mér tíma til að leik mér. Hér eru reglurnar niðurstaðan hjá mér. Ætli hún eigi ekki að segja eitthvað um mig og líf mitt. Það eru nú fyndir punktar í þessum niðurstöðum.

1. Opnaðu iTunes
2. Ýttu á shuffle
3. Ýttu á play
4. Skrifðu nafnið á laginu og listamanninn hjá hverri spurningu
5. Þegar þú færð nýja spurningu ýttu þá á næsta lag
6. Ekki svindla og þykjast vera töff?


Opnunaratriði: Einn, tveir, þrír - Mannakorn
Þegar þú vaknar: Tengja - Skriðjöklar
Fyrsti skóladagurinn: Ræðupúlt örlaganna - Einar Már Guðmundsson
Að verða ástfanginn: The Blower´s daughter - Damien Rice
Slagsmálalag: Sholem Velt der Gantser - The Strauss Warschauer Duo
Árshátíð: T (Lag frá Dr. Gunna úr kvikmyndinni Gemsum)
Lífið: Better Man - Robbie Williams
Taugaáfall: Grænland - Bubbi
Að keyra: Clarinet Yontev - Klezmatics
Flashback: Oalo - Þórir
Að taka aftur saman: Let me entertain You - Robbie Williams
Brúðkaup: Kirkjumúsík (þekki ekki lagið) - Diddú og einhver blandaður kór
Fæðing barns: Hósíanna - Geir Harðar
Lokabarátta: Passíusálmur # 39 (Um ræningjans iðrun) Megas og hljómsveit í Gamla bíói 1985)
Dauðaatriðið: Araber Tants - Klezmatics
Jarðarfararlag: Richard Cory - Simon & Garfunkel
Lokalag (credit listi): Vetur við Gullfiskatjörn - Anna Halldórsdóttir
 
  Flinkur ukuleleleikari
Multiinstrumentalistinn Hjörtur Hjartarson sendi mér þessa slóð. Hér er um að ræða vídeó af ukuleleleikara að leika lag eftir Harrison. Þetta er flinkur strákur. Annað verður ekki sagt. Skoðið þetta endilega.
 
 
Var ég einhverntíma búinn að skrifa um hljóðvilluna hjá Perlu Maríu þegar hún kallar fóstrurnar í leikskólanum forstofur?

Það mjög fyndið að heyra hana gera það.
 
  DBS
DBS. Voru það ekki reiðhjól?

DBS stendur hér fyrir hljómsveitina sem ég er núna að undirbúa tónleika með (DjassBand Suðurlands). Þessir tónleikar verða á Rauða húsinu á Eyrarbakka, einu glæsilegasta veitingahúsi sem ég hef heimsótt, föstudagskvöldið 2. febrúar n.k.
DSB mun þarna flytja jassskotin lög og kántrí. Söngkonurnar Kristín og Bryndís syngja megnið af lögunum, en Bergsveinn heitir svo piltur sem mun einnig stíga á stokk. Ég þekki ekki nema fornöfnin á sumum þeim sem leika með hljómsveitinni svo ég læt vera að tíunda hverjir leika með henni. Það kemur bara þegar plakatið verður tilbúið.

Nema hvað, einn í sveitinni er Bolvíkingur að hálfu. Hann heitir Róbert Dan og er sonur Bergmundar heitins Kjartanssonar. Ég hafði séð nafnið hans á póstlista vegna æfinganna og grunaði einhvern veginn strax að svona væri í pottinn búið. Svo sá ég manninn og efaðist ekki lengur. Hann er bara yngri útgáfan af Jomma. Spurði nú samt, og jú jú. Bingó!

Ég hef trú á að þetta verði skemmtilegir tónleikar.
 
miðvikudagur, janúar 17
  Gömul hús í Bolungavík (frh.#7)
Rétt hjá Vinaminni stóð þegar ég var púki lítið tvílyft hús. Það var nákvæmlega þar sem Jón Friðgeir og Margrét búa núna, við Traðarstíg - á milli Þorláks annars vegar og Magga og Bella hins vegar. Þar bjó fullorðin kona. Ég man ekki í augnablikunu hvað hún hét. Ég man hins vegar hvað mér þótti leiðinlegt þegar ég sá stráka vera að kasta steinum í það og brjóta í því rúðurnar. Það var eftir að húsið var orðið autt og til stóð að rífa það. En mér þótti nú samt óþarfi að brjóta glerið.
 
mánudagur, janúar 15
  Blogg að vestan
Hlynur Þór er farinn að blogga á Moggablogginu. Það þykja mér gleðileg tíðindi. Það er gaman að lesa texta eftir menn sem kunna vel með málið að fara. Fáir menn fara betur með íslenskt mál en Hlynur Þór. Ég er búinn að líta einu sinni á síðuna hans og ég ætla að heimsækja hana aftur.
 
  730
Reyðfirðingurinn Helgi Seljan er farinn að blogga og hann skrifar dásamlega pistla um ýmislegt og oft koma æskustöðvarnar og mannlífið þar við sögu. Ég mæli með blogginu hans. Maður kannast við þessar stemningar. Það var snjallt hjá honum að nota póstnúmer staðarins fyrir lén á blogginu. Ég vildi að mér hefði dottið það í hug á sínum tíma.
 
  Gömul hús í Bolungavík (frh.#6)
Húsið þeirra Pálma Karvels og Steinu Hrauna á Vitastíg er svo glæsilegt að maður áttar sig ekki á því hversu gamalt það er. Mér skilst að það hafi í lengri tíma verið eina húsið þetta ofarlega í bænum. Móðuramma mömmu, Anna Skarphéðinsdóttir, (langamma Önnu Svandísar og Baldurs Smára svo einhverjir séu nefndir) átti það hús um tíma. Það heitir einhverju flottu nafni sem er aldrei notað um það, gott ef það var ekki hreinlega Vinaminni. Þetta hús stendur á afskaplega lítið áberandi stað. Það blasir alls ekki við manni. Sem er hálfgerð synd, því þau Pálmi og Steina hafa virkilega vel staðið að öllum þeim endurbótum sem þau hafa gert á því á síðustu árum.
 
  Lennon, Jesus og Loftur

Meðan ég var að ganga frá eldhúsinu eftir kvöldmatinn í gær var Hákon á fjarstýringunni á sjónvarpinu og nam staðar á Sirkus þar sem Lennon var að spila tónleika með stóru bandi. Mé sýndist á textanum sem kom á skjáinn á eftir tónleikunum að þetta væru tónleikar frá árinu 1972, en félagi Orri var að blogga um þetta líka og hann heldur að þetta hafi verið með allra síðustu tónleikum sem Lennon spilaði.

Orri tók eftir að annar trommarinn hafi verið Jimmy Keltner. Mér sýndist ég aftur á móti sjá Jesú Krist spila á rafmagnsbassa! Eða var það Loftur bassaleikari í 5. herdeildinni og Hrauni? Honum svipaði alla vega til þeirra beggja.
 
sunnudagur, janúar 14
  Hver er Víkarinn?
Það varð Bolvíkingur á vegi mínum í leikhúsinu í dag.
Hvar var það?

Fyrsta vísbending:
Nöfn okkar hafa oft heyrst sögð saman, en þá hefur sjaldnast verið átt við okkur, heldur allt annað fólk í útlandinu.
 
  Leikhús og musik
Við feðgar, ég og Hákon, fórum snemma á ról í dag. Við rétt höfðum það út úr þorpinu því það hafði snjóað og skafið í skafla í nótt. Þjóðvegurinn var aftur á móti heflaður og fínn. Ferðinni var heitið á Selfoss. Ég var að fara á hljómsveitaræfingu. Djassband Suðurlands er að setja saman dagskrá á Rauða húsinu á Eyrarbakka. Í þetta skiptið ætla þeir ekki aðeins að spila jass og jassskotið popp heldur á líka að spila kántrí og kántrískotið popp. Ég var sem sagt kallaður inn í þann lið dagskrárinnar, ýmist til að strömma kassagítar, plokka mandólín og spila á munnhörpu. Þarna mun ég í fyrsta skipti spila opinberlega á krómantíska munnhörpu. Það er töluvert mikið flóknara en að spila á þessar hörpur sem ég hef alltaf spilað á, en það er líka mögulegt að spila fleiri tóna og það er einmitt þess vegna sem ég ætla að reyna þessa hörpu nú: Mig vantaði tóna.

Mér líst bara vel á þetta verkefni. Ég hef ekki spilað með neinum þessara hljóðfæraleikara eða söngvara sem þarna troða upp áður, nema Guðmundi fiðlara. Það er gott að kynnast þessum hljóðfæraleikurum á svæðinu og koma sjálfum sér á framfæri. Svo hef ég haft svo gaman af kántríi síðan Norah Jones og hinir stórkostlegu hljóðfæraleikarar sem spila með henni opnuðu huga minn fyrir þeirri gerð tónlistar.

Stundum langar Hákon með mér á æfingar. Hann má það ekki alltaf, en stundum kemur hann með mér. Í þetta skiptið nennti ekki að fara með. Reyndar þekkir hann einn spilafélagana því fiðlukennarinn hans er þarna innan borðs. En hann sem sagt beið eftir mér heima hjá afa sínum og ömmu á Selfossi. Þegar æfingin var búin fórum við til Reykjavíkur og sáum leikrit í Þjóðleikhúsinu. Hann fékk miða á leikritið Sitji guðs englar í afmælisgjöf. Þetta var ljómandi skemmtileg sýning.
 
föstudagur, janúar 12
  Málarasaga

Síðastu tvö eða þrjú skiptin sem ég hef tekið þátt í að mála Bjarnabúð hef ég alveg sloppið við að mála þakið. Það er nýtt járn á því núna sem ekki þarf að mála alveg strax. En hérna áður fyrr var það talsvert mál að vinna á þessu gríðarlega bratta þaki. Hér er ein saga af því.

Einhverju sinni þegar við Jónas Pétur vorum að mála þakið á Bjarnabúð með pabba kom þar að Alli málari og fór að mana okkur strákana að hlaupa eftir mæninum á milli skorsteinanna tveggja. Það eru á að giska 5 metrar á milli þeirra. Hann sagði að það hefðu þeir leikið sér að málararnir í gamla daga. Það var merki um hugrekki, mikla fótafimi og jafnvægislist, fyrir nú utan að vera sönnun þess að maður væri laus við lofthræðslu, sagði Alli og glotti. Að vel athuguðu máli var ákveðið að láta slíkar glæfralistir eiga sig og fengum við Jónas Pétur að heyra hvers konar gungur við værum nú að þora ekki.

Meðan þeir stóðu þarna og grobbuðu sig bræðurnir; Alli málari og Halli málari, fórum við Jónas að reyna að sjá þá fyrir okkur, unga og fríska menn, á þessum hlaupum þarna eftir mæni hússins. Við fylltumst skelfingu. Höfðu mennirnir ekkert hugsað? Voru þeir algjör fífl? Þetta hefur verið svo mikil fífldirfska hjá þeim feðrum okkar að tilvist okkar beggja var greinilega ótrúleg guðs mildi.

Þá skaut minningu upp í kollinn á öðrum okkar. Hún sýndi mynd af flaggstöng sem hafði alltaf verið á mitt á milli skorsteinanna (og margir muna sjálsagt eftir). Hvarf nú mesti hetjublærinn af sögunni um téð hlaup málaranna eftir þakmæninum. Okkur frændunum létti stórum. Við vorum þá eftir allt saman ekki svo miklar gungur og feður okkar ekki algjör fífl.
 
miðvikudagur, janúar 10
  Gömul hús í Bolungavík (frh.#5)
Bjarnabúð er alltaf flott. Að mínu áliti er hún langflottasta gamla húsið í bænum. Ég er náttúrulega ekki alveg hlutlaus þegar kemur að svona mati. Þetta hús tengist móðurfjölskyldu minni töluvert. Bjarnabúð er ekki bara þessi miðhæð sem hefur að geyma skrifstofur og verslunina. Risið er flott og kjallarinn aldeilis magnaður. Ég þekki mig ágætlega í húsinu. Kom þangað stundum þegar ég var krakki. Stundum með ömmu, stundum með mömmu. Pabbi vann þarna veturinn sem ég byrjaði í skóla. Ég man vel eftir því. Svo hefur Bensi frændi haft sans fyrir því að halda því við. Þess vegna hef ég nokkrum sinnum málað þetta hús. Það hefur alltaf verið gaman af því. Það verður svo ofsalega fallegt á eftir.

Bæði mamma og Biggi frændi hafa sagt mér margar sögur þar sem sögusviðið er þetta hús eða nánasta umhverfi þess. Þau fæddust held ég örugglega bæði í þessu húsi. Þeir afi og Biggi töluðu aldrei um Bjarnabúð heldur kölluðu þeir húsið Sameinuðuna. Ég hef líka heyrt húsið nefnt Bjarnabæ. Upphaflega var það verslunarhús fyrir fyrirbæri sem hét Sameinuðu dönsku verzlanirnar eða eitthvað álika. Ég held að húsið hafi verið þess tíma einingahús, þ.e. að það hafi komið nánast fullsmíðað og því komið fyrir þarna á Mölunum einhvetntíma í kringum 1920. Ég veit það ekki nákvæmlega, en ég reikna með að móðir mín muni innan skamms færa inn nákvæmar upplýsingar um það hér í athugasemdadálkinum. Bjarni langaafi minn var umboðsmaður þeirrar verslunar sem fyrst átti húsið, en síðar stofnaði hann í húsinu eigin verslun og þar er enn verslað. Þar fást t.a.m. bækur, ritföng, öll matvara og reglulega flott og vönduð föt á alla fjölskylduna.

Ég veit um mann sem til skamms tíma viðaði að sér upplýsingum í þeim tilgangi að skrá verslunarsögu Bolungavíkur. Ég veit ekki hvernig honum miðar með það verkefni eða hvort hann hefur enn heilsu til að sinna því. En sú saga verður örugglega einhverntíma skrifuð.
 
laugardagur, janúar 6
  Myndir
Myndirnar af áramótadansleiknum á Stuðeyri eru komnar úr ritskoðun. Nokkrar sluppu gegnum síuna. Gjöriðisvovel.
 
  Gömul hús í Bolungavík (frh.#4)
Manga Hall húsið er farið. Mér fannst eins og það hafi staðið annað hús á þeirri torfu, þarna innan við salthúsið. En það var bara vitleysa í mér. Ég fór að spyrjast fyrir um þetta um daginn. En það voru tvær íbúðir í þessu pínulitla húsi og það bjugga þar tveir gamlir Magnúsar. Þangað kom ég stöku sinnum inn í litla forstofu þegar ég var að hjálpa frænda mínum, Rúnari Arnarsyni, við að bera út Morgunblaðið.
 
föstudagur, janúar 5
  Gömul hús í Bolungavík (frh.#3)

Hótelið er nýbúið að rífa. Það hefur nú sjálfsagt einhverntíma þótt flott hús, þótt ég muni ekki eftir því þannig. Ég held að afi hafi fæðst þar. Þar voru Sævar og Baddý með sjoppu í innri endanum þegar ég var krakki. Á sumrin fylltist þar allt af slorlyktandi unglingum í pásum og kaffitímum frystihússins. Valið stóð á milli þess að kaupa nestið í Bjarnabúð eða á Hótelinu. Ætli ég hafi ekki verið svona sirka 12 ára þegar þau hættu að versla þarna Sævar og Baddý. Það var liður í þroskaferli drengs í Víkinni að vera þarna staddur þegar eldri krakkarnir komu þarna í pásunum. Þarna lærði maður ýmislegt: sitthvað um samskipti unglinganna, orðbragð þeirra og varð vitni af takmarkaðri virðingu sumra þeirra fyrir peningunum sem þeir mokþénuðu af og sólunduðu svo nokkrum mínútum eftir útborgun í sælgæti og spilakassa hinu megin götunnar.

Það voru svo herbergi uppi. Í mínu ungdæmi bjó þar verkafólk sem kom til að vinna í fiski á sumrin. Ég man t.a.m. eftir Hugrúnu þar. Einn kennarinn minn í Kennó, Torfi, sagði mér að hann hafi búið þar í tvö sumur og sjálfur Bubbi segist hafa búið þarna.

Í ytri endanum bjuggu bræðurnir Kitti Sali og Bjarni Sali.
 
  Öxnadalsheiði
„Með þumalputtann úti á brúnni við Varmahlíð. Á Akureyri þú bíður svo falleg je je"!

Það var jam-session í Bolungavík meðan ég var þar í jólafríinu. Það var á dagskrá sama kvöld og ég var að spila í Kjallaranum. Ég lét aðeins sjá mig þarna áður en ég mætti á Kjallarann. Var með munnhörpurnar í vasanum og saug einn blús. Það slapp alveg. En svo lét ég plata mig í að taka Öxnadalsheiðina eftir Gunnar Hjálmarsson. Það var heldur slappt hjá mér. Það var sá gjörningur sem hreppstjórinn var að vísa til í kommenti hér á undan. Ég reyndi svo að bæta fyrir skaðann með því að taka Sóla eftir sama höfund sem fyrsta lag á prógramminu í Kjallarnum.

Það hefur verið eitthvert samgönguþema í gangi hjá Grími. Hann er nýbúinn að spila Óshlíðarlagið í sjónvarpinu, þarna vildi hann spila með mér Öxnadalsheiðina. Hvað næst? Highway til hell, Maracass Express, Reykjanesbrautin, Þjóðvegur 66 .....???.
 
þriðjudagur, janúar 2
  Heima
Við vorum að koma heim til okkar eftir jólafrí vestur á fjörðum. Heimferðin gekk ákaflega vel.
Takk fyrir okkur pabbi og mamma og þið hinir frændur og vinir.
 
  Vonbrigði
Ekki fattaði ég nú Skaupið. Margir sem ég hef hitt og eru á mínu reki, eru hrifnir. En ég er eins og gamla fólkið - fannst þetta leiðinlegt skaup. Ég sofnaði meira að segja yfir því! Önnur vonbrigði upplifði ég svo í gærkvöld þegar ég horfði á myndina Strákarnir okkar. Ég hafði hlakkað svo til að sjá hana loksins. Ég skildi kynninguna sem myndin fékk á sínum tíma þannig að um grínmynd væri að ræða. Það var fjarri því að þetta væri grínmynd. En hún tekur svo sem á kýlum í þjóðfélaginu, eða þau eru þarna til sýnis, En mér fannst ekki nógu djúpt stungið á þeim til að það vekti verulegan áhuga. Nema sagan hafi einfaldlega verið of stutt eða ómerkileg til að heil kvikmynd gæti orðið skemmtileg utan um hana.
 
mánudagur, janúar 1
  Fálki á Óshlíðinni

Við stoppuðum til að taka myndir af þessum fálka sem sat á ljósastaur inn í Seljadal. Við vorum að koma heim úr stuðinu á Suðureyri. Þetta var ljómandi gott ball og góð hljómsveit!

Myndir á síðunni.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]