Tilraunavefurinn
sunnudagur, júní 25
  Nýjar myndir

Perla í Slakka
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Það eru nýjar myndir á myndasvæðinu mínu. Þangað er hægt að komast með því að smella á þessa mynd af Perlu Maríu.
 
  Opnunin
Sýning Grétu í Slakka opnaði í gær. Það var nokkur fjöldi við opnunina og ég held bara að flestir hafi skemmt sér vel. Við buðum upp á léttvín og smárétti og enduðum með dansiballi þar sem ég fékk tvo félaga mína úr Bleki & byttum, til að spila slagarana með mér.

Sýningin verður svo áfram opin í Slakka í einn mánuð.
 
  Boltablogg #2

Ég í UMFB dressinu
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Þegar ég var loksins að ná þessu með hlutverk varnarmannsins og orðinn sæmilegur í fótbolta vildi svo til að liðið okkar í Bolungavík var óvenju gott og ég komst sjaldan í liðið og var meira eða minna allt sumarið varamaður. Það var alveg ægilegt, því ég hafði æft vel um veturinn og var loksins að komast upp á lagið með að að spila fótbolta eins og maður og mér fannst sjálfum að lítið annað hefði þurft til að slípa mig til en að ég spilaði nokkra leiki. Árið áður hafði ég tekið nokkrum framförum í liði sem var ekki eins sterkt því okkar bestu menn léku þá á Ísafirði. Þá var ég ýmist sweeper eða miðjumaður. Sumarið eftir þetta sumar með góða liðinu skipti ég yfir í annað lið, lið á Ísafirði sem var skipað strákum sem ekki voru nógu góðir til að komast í aðalliðið þar og körlum sem voru hættir að nenna að æfa á fullu. Þar voru frábærir varnarmenn, og ég í þessu fína formi og kominn með sjálftraustið og leikskilninginn sem ég hafði ekki fengið að njóta árinu áður. Þá spilaði ég á miðjunni og átti nokkra leiki þar sem ég stóð mig vel.

Ég skoraði ákaflega fá mörk fyrir Bolungavík, kannski þrjú eða fjögur í einhverjum Vestfjarðamótum eftir nokkur ár í félaginu. En með nýja liðinu setti ég þrjú í mínum fyrsta leik og svo man ég að mér leið ákaflega vel í leik á Ísafjarðarvelli þar sem ég tók eftir að nokkrir fyrrverandi liðsfélagar mínir úr Víkinni voru komnir að horfa á. Karlar sem höfðu ekki haft nokkra trú á mér sáu mig eiga skínandi leik og leggja upp mörk og færi fyrir félaga mína. Undir lok þessa sumars skoraði ég svo flott mark með vinstrifótarskoti frá vítateigslínu á móti Bolungavík á vellinum á Skeiði. Það var ljúft að sjá á eftir boltanum yfir Pétur Magg í markinu og í netið. Og í brekkunni var fólk sem hafði ekki séð mig gera neitt þvílíkt í leik með Víkurum. Þetta var svona uppreisn æru fyrir allar mínúturnar á varamannabekknum í Víkinni.

Næsta fótboltablogg verður um sumarið með Fire høje idrætsforening í Nørup, Ny-Nørup, Vandel og Randbøldal í Danmörku. Þá get logið eins og ég vil, en það ætla ég ekki að gera.
 
laugardagur, júní 24
  Sirkus og sýning

Hákon & Gabríel voru á sirkusnámskeiði í Waldorf skólanum í Lækjarbotnum alla síðustu viku. Í gær var svo sýning. Hér er mynd frá henni og á myndasíðunni okkar verður fljótt hægt að sjá fleiri myndir.

Svo opnar málverkasýning Grétu í kvöld. Þar ætlum við líka að taka myndir og setja eitthvað á vefinn. Reyndar stendur alltaf til að gera heimasíðu handa henni og það er búið að redda hugbúnaði í það og léni (meira að segja lénum) og öllu. Það þarf bara að fara gefa sér tíma í þetta. Ég er búinn að kalla á nokkra félaga til að taka í hljóðfæri með mér við opnunina í kvöld. Það verður örugglega gaman.

Við Hilmar vorum að spila í gærkvöldi í flottri veislu í Laugarási. Það gekk prýðilega hjá okkur, var líklega best heppnaðasta dinnes session okkar hingað til. Fólkið var ánægt með okkur. Þarna skemmtu Jónas Þórir, Egill Ólafsson og Bergþór Pálsson. Mikið ofboðslega eru þeir góðir. Við létum nú líða smástund eftir að þeirra atriði lauk þangað til við byrjuðum aftur á okkar.
 
miðvikudagur, júní 21
  Boltablogg #1
Þá er ég búinn að spila fyrsta fótboltaleikinn þetta sumarið. Við í Biskup lékum í Bikarkeppni Sunnandeildarinnar gegn FC Flóa og skíttöpuðum. Eitthvað hefur liðið okkar slappast því við unnum tvo leiki við þessa gaura í fyrrasumar. Ég er í slæmu formi, en byrjaði í stöðu varnartengiliðar í 4-5-1 leikkerfi. Það er staða sem hentar mér ágætlega, ég spilaði þar í allt fyrrasumar og megnið af tímabilinu mínu í Danmörku var ég annar tveggja miðjumanna. Þá var ég góðu formi og gat hlaupið um völlinn þótt ég færi náttúrulega hægt yfir. Núna stend ég bara á miðjunni og sendi hina miðjumennina út um allan völl og rölti svo annað slagið í vörnina til að passa svæði sem ákafir varnarmenn hafa skilið eftir. Ég lét skipta mér útaf áður en fyrri hálfleikur var úti, Mér hafði gengið sæmilega. Ég skipti mér svo inn á síðustu 10 mínúturnar í hafsentinn og var alveg úti að aka.

Þegar ég æfði fótbolta af aðeins meiri alvöru var ég oftast í vörn. Ég veit ekki af hverju það var. Sennilega þótti gott að ég er frekar hávaxinn og mér gekk vel að skalla bolta. En ég var oft stressaður að spila í vörninni. Mér leið ekki alltaf vel þar og ég var sjaldan að spila vel. Ég er náttúrulega seinn á mér og það þarf oft að taka spretti í vörninni. Þegar ég var grannur var ég samt seinn á mér (það hefur nú ekki lagast við þessi 15 - 20 kíló sem hafa bæst á mig síðan ég var að æfa fyrir 10 árum).

Ég var lengi að ná tökum á því að gera hlutina rétt í vörninni. Það er kúnst að dekka rétt, snúa rétt og vera nógu nálægt þeim leikmönnum sem maður er að gæta. Mér fannst ég aldrei spila virkilega vel nema þau ár sem við vorum með lélegt lið því þau ár lék ég ekki endilega í vörn og þegar við vorum með B-lið var ég oft á miðjunni. Það var eitt árið. Ég hef sennilega ekki þótt nógu góður með boltann á tánum til að menn hefðu trú á því að ég gæti spilað annars staðar á vellinum en í vörninni. Það er margt sem mig skorti alltaf til að verða góður í fótbolta. Það helsta var hugarfarið, hraðinn og boltatækni. En ég hafði sitthvað annað til brunns að bera, því þótt ég hafi aldrei orðið góður í fótbolta þá var ég ekki hlægilega lélegur, bara ekki nægilega kappsamur og alltof hægur.

Næsta boltablogg verður um þau fáu augnablik á knattspyrnuferli mínum á Vestfjörðum sem ég gat eitthvað.
 
þriðjudagur, júní 20
  Legend vs. Legend
Þegar ég kenndi fyrst við grunnskóla var ég að kenna tónmennt heima í Víkinni. Eitt af því sem ég man eftir frá þeim kennslustundum er að í 4. bekk voru tveir hressir strákar sem voru búnir að velja sér idol í tónlistinni. Þeir voru báðir músíkalskir þessir gæjar. Þeir körpuðu mikið um það hvort idolið væri meira töff og gerðu sér far um að vita eitt og annað um þessi idol og fræða mig og bekkjarsystkinin um þau. Svo kunnu þeir nokkur lög og svona - ægilegir töffarar.

Ég gat nú vel skilið hrifningu annars þeirra, en hinn fattaði ég nú ekki alveg. Ég gaf náttúrulega ekkert uppi um það hvað mér fannst um þessi goð þeirra en ég gerði í því að ýta undir þennan áhuga þeirra á tónlist. Á milli kennslustunda höfðu þeir aflað sér nýrrar þekkingar um goðið sitt og deildu henni með öðrum, sem voru nú misáhugasamir um þennan fróðleik.
Það sem mér fannst svo skrítið við þetta karp þessara vina var að idolin þeirra voru eldgamlir og löngu dauðir kallar.

Nú eru þessir guttar orðnir svolítið eldri en ég var þegar ég var að kenna þeim. Ætli þeir séu enn aðdáendur Lennon og Elvis?
 
  Sýning og útvarpsviðtal
Gréta ætlar að fara að sýna í dýragarðinum í Slakka í Laugarási. Það á að opna á laugardaginn og sýna í einn mánuð. Ef þið eigið leið um Suðurland hvet ég ykkur til að koma við í Slakka, bæði til að skoða sýningu Grétu og lika til að sjá dýrin og þá glæsilegu aðstöðu sem Helgi Sveinbjörns í Slakka er búinn að byggja þar upp.

Það var viðtal við Grétu vegna þessarar sýningar í Svæðisútvarpi Suðurlands núna áðan. Það hlýtur að fara á vefinn bráðum. Þetta var bara gott viðtal. Mér fannst henni takast vel að ræða um þetta og segja frá sjálfri sér og vinnunni við listina.
 
sunnudagur, júní 18
  733
Þessi færsla er sú 733. síðan ég byrjaði að blogga.

Þjóðhátíðardagurinn fór þannig að framan af degi var ég í mestu rólegheitum meðan Gréta var alveg á fullu. Svo fórum við bæði í dólið en um kvöldið hófst törnin hjá mér. Það var spil á Klettinum og svo partíspilerí á Flúðum. Ég var ekki kominn heim fyrr en klukkan 4. Það er alveg synd að vera staddur hérna og horfa á yfir að Flúðum og sjá nánast hvað er í matinn hjá íbúunum þar en þurfa að aka þennan svakalega krók til að komast þangað. Það er nefnilega um tvær stórar ár að fara og þær eru ekki brúaðar nema á stöku stað. Þetta var smábíltúr hjá mér.

Í dag hefur Gréta verið að vinna í skúrnum. Ég hef eytt deginum með litlu börnunum og við heimilisstörf.

Lifið heil.
 
laugardagur, júní 17
  17.06
17. júní er mikill hátíðardagur. Mér finnst samt helgin aðeins vera farin að skafast utan af honum. En það má vera vitleysa í mér - kannski er þetta eitthvað sem fylgir aldrinum (ég ætti þá ekki langt að sækja það - afa fannst held ég bara allt hafa horfið til verri vegar frá því sem það var í gamla daga!). Ég man eftir nokkrum hátíðarhöldum heima í Víkinni.

Maður hljóp náttúrulega alltaf víðavangshlaupið um morguninn. Pabbi vann fullorðinsflokkinn, það var bara hefð. Ég var hins vegar lengi að hlaupa og er enn. Ég á samt einhver verðlaun fyrir víðavangshlaupið á 17. júní en það eru ekki gullmedalíur. Aðalhátíðardagskráin var svo á íþróttavellinum á Skeiði. Á þeim árum sem ég er að alast upp voru þetta nánast einu notin af þeim íþróttavelli. Þarna voru leikir og skemmtiatriði, ræðuhöld og kórsöngur og fleira skemmtilegt fyrir alla fjölskylduna. Einu sinni man ég eftir Bessa Bjarnasyni að skemmta. Hann var þá fúlskeggjaður og það var grátt í skegginu. Ég man að í atriðinu hans skreið hann á vellinum. Það var alltaf tilhlökkun í manni fyrir 17. júní.

Þegar ég fór að stálpast kom ég stundum fram á þessari hátíð, en það var ekki fyrr eftir að hætt var að nota völlinn á Skeiðinu. Ég hef komið fram á 17. júní hátíðarhöldum í Bolungavík syngjandi með gítar, bæði einn og í litlum hópum, einu sinni kom ég með rokkhljómsveitina KY frá Ísafirði, en þá var ég söngvari þeirrar sveitar. Það var í íþróttahúsinu. Ég man líka eftir skemmtilegu giggi með Venna vini á sjúkrahústúninu á Ísafirði á 17 júní. Við höfðum það hlutverk að sitja í /standa á grasinu í frábæru veðri og skemmta Ísfirðingum með söng og gítarspili. Það var þrælskemmtilegt og ágætlega borgað. Í fyrra gerði ég eitthvað svipað þegar við spiluðum þrír félagar á sólpallinum á Kaffi Kletti fram á nótt í hreint æðislegu veðri.

Ég veit ekki alveg hvað verður á dagskrá hjá okkur í dag en við munum alla vega fara með krakkana í skrúðgöngu og skátatívolí, í kaffisamsæti Kvenfélagsins í Aratungu og sennilega líka í grillveisluna á Klettinum í kvöld. Það var alla vega búið að mælast til þess að ég mætti þangað með hljóðfæri framan á vömbinni. Nú svo er búið að bjóða okkur í veislu í næstu sveit þar sem ég veit að verður mikið stuð, en ef við ætlum þangað þarf að tryggja sér barnapíu og það er ekki létt á þessum degi.

Veðrið er ekki eins gott og það var á þjóðhátíðardaginn í fyrra en hann hangir þurr...... enn.
 
  Töff

Bolvíkingurinn Birgir Olgeirsson er að fjalla um það á blgginu sínu að Bruce Willis sé svo mikill töffari. Einhver kommentar um að hann sé mesti töffari allra tíma. Jú, jú það má vel vera að Bruce sé töffari, en málið er bara að við af minni kynslóð tökum ekki mark á fólki sem ætlar að gera Bruce Willis að einhverjum töffara þegar það er sjálft svo ungt að það man ekki eftir hljómsveitinni Langi Seli og Skuggarnir. Nei það getur enginn maður verið úrskurðaður mesti töffari allra tíma fyrr en búið er að bera töffaraskapinn saman við töffið í Langa Sela í denn. Hann var töff!
 
  Trommað

VIð Hilmar skutumst með tölvuna til Reykjavíkur í dag og tókum upp trommuleik á plötuna sem við erum að vinna í þessa dagana. Eins og sjá má á myndinni fengum við mann úr besta klassa til að taka að sér að slá á trommurnar. Hann var ekki lengi að þessu. Það er mikill tímasparnaður fólginn í því að fá til svona verka fólk sem kann þau. Þetta var góð session.

Á heimleiðinni komum við við í veitingasal í Ölfusinu og spiluðum einn dinner. Alltaf eitthvað að gera í músíkinni!
 
föstudagur, júní 16
  Hverjir lesa?
Það er mjög skemmtilegt við félagsheimilið Aratungu að þar er rekið mötuneyti. Þangað koma þeir sem vinna á hreppsskrifstofunum, í skólanum, sundlsauginni og mjög margir iðnaðarmenn sem eru að vinna í hverfinu og borða hádegismatinn saman. Eins stór fjölskylda. Ég borða stundum þarna.

Þannig var það í gær. Þá kemur nýi oddvitinn til mín og spyr mig hvort ég hafi sofið vel. Það kom svolítið á mig af því að um nóttina hafði ég verið að skrifa færsluna hérna svolítið neðar um kjarkleysi og skammtímahugsun stjórnvalda í sveitinni. Mér fannst hann vera mjög vakandi. Var hann virkilega að lesa bloggið mitt?

Nei, hann var þá bara svona hugulsamur að spyrja um heilsu Hrings, sonar míns, sem var í aðgerð vegna eyrnabólgu. Við höfðum rætt þetta nokkrum dögum áður. En ég varð náttúrulega að segja honum frá bloggfærslunni og sendi honum svo slóðina í tölvupósti. Kannski það verðir bara komin vegur til mín á morgun og lóðin sléttuð og tyrfð?



P.s. Reyndar er klukkan á blogginu mínu alveg kolvitlaus, svo það er ekkerrt að marka tímasetninguna á því hvenær ég á að hafa bloggað.
 
  Skúrir
Gróðraskúrir

Það gengur á með gróðraskúrum í Tungunum og hefur gert um allnokkra hríð. Sennilega í um vikutíma. Allt er orðið grænt og fallegt svo langt sem augað eygir. Það eygir reyndar ekkert sérstaklega langt í þessari muggu. Ef ég er sannur Tungnamaður verð ég að halda því fram að í Laugardalnum og austur í Hreppi sé ekki orðið nærri eins grænt og þar sé alltaf verra veður en hér. Svo ég tali nú ekki um Grímsnesið. Uss, bara!


Aðrar skúrir

Heima í Bolungavík standa bílskúrar eins og gengur og gerist víða. En það sem er merkilegt er að sumt gamla fólkið hefur orðið skúr í kvenkyni. „Ertu að mála skúrina gæskurinn?", gæti ég hafa heyrt einhvern segja segja.
 
fimmtudagur, júní 15
  Minning um hurð
Það er ekki bara ég sem nota hluti sem aðrir hafa ætlað að kasta, eins og hellurnar sem ég er að leggja. Ég man að fyrir útidyrunum heima á Holtastíg 12 var gömul og ljót hurð. Óli málari hafði verið að skipta henni út fyrir nýja.
 
  Bloggflakk - flott stílbragð
Af vef Orra, vinar míns (http://orri.org/), rataði ég inn á vef Hörpu, sem kennir við gamla skólann minn (http://harpa.blogg.is/). Þau fjalla afskaplega opinskátt um sjúkdóma sem eru að herja á þau (það er svolítið í tísku núna í bloggheimum - er það ekki bæði til merkis um hvað miðillinn kallar fram einlægni í okkur sem bloggum og það að fólk virðist vera orðið duglegra að fjalla um einhverja tiltekna lífsreynslu í þeirri von að hún komi öðru fólki að gagni? Og það finnst mér falleg hugsun). Af vefnum hennar Hörpu rataði ég inn á vefinn sem þú kemst inn á með því að smella á fyrirsögnina. Þar er á ferðinni ofboðslega þróaður persónulegur stíll. Þegar ég las fyrstu færsluna hljómaði rödd og talandi Páls Ásgeirs í höfðinu á mér. Þetta passar svo vel saman, þ.e. þessi texti og rödd höfundarins og talandi. Magnað!

Annars er þessi vefur Hörpu alveg jafnskemmtilegur og þeir aðrir vefir sem hún hefur haldið úti. Hún er skörp kona og skelegg. Kennari með stóru kái.
 
miðvikudagur, júní 14
  Pirraður karlinn
Eins og það er ágætt að búa hérna í þessari yndislegu sveit, Biskupstungunum, og fólkið er yndislegt og hefur tekið okkur vel, er ég ekki alltaf ánægður með stjórn sveitarfélagsins. Ég er svo sem ekki mikið inni í sveitarstjórnarmálunum og ekki mikið vit á´þeim, en sumt snýr að mér og það er meira og minna allt í molum. Þetta góða fólk sem ræður hérna, virðist skorta kjark á ýmsum sviðum. Hér ríkir svo gamaldags hugsunarháttur um sumt að ég á varla orð til að lýsa því. Það eru ákveðnar skyldur sem hvíla á opinberum þjónustustofnunum eins og sveitarfélögum og þeim skyldum verða þau að gegna alveg sama hvort þröngt er í búi eða ekki. Stundum þarf líka að hugsa stórt og langt fram í tímann og það er oftar en ekki ódýrari leið en sú að vera sífellt að bjarga sér með einhverjum skítareddingum sem geta þegar til allt kemur til alls verið ógeðslega dýrar og menn sjá þá eftir á hversu heimskulegt það var að hafa ekki þorað að stíga skrefið til fulls.

Ég hef verið að leggja hellur hérna fyrir utan hjá okkur. Þessar hellur fékk Gréta gefins. Hún þekkir mann sem vinnur við svona hellulagnir og hann var að skipta út hellum á einhverju bílaplani og átti að losa eigandann við þessar gömlu hellur. Þær eru flestar alveg nógu góðar fyrir mig. Bensi bróðir Grétu lánaði okkur vörubíl og Atli bróðir minn ók bílnum hingar austur og sturtaði hellunum á lóðina hjá okkur. Nú verður fínt hjá okkur, eða svona, það er reyndar ekki nema götuslóði hérna og ég býst svo sem ekkert við því að sveitarfélagið fari að leggja götur hérna. Ef þið ætlið að heimsækja mig þurfið þið að fara mjög varlega í götunni, bæði þar sem er slitlagsrönd og þar sem mölin og drullan tekur við.

Ef þessi slóði væri hluti af því vegakerfi sem Vegagerð ríkisins hefur umsjón með væri skilti þar sem ekið er inn á hann og á því stæði 4x4 og það væri sett tilkynning í Útvarpið um að hér væri eingöngu fært jeppum og öðrum vel útbúnum bílum. Aðalgatan í þorpinu er skilgreind sem þjóðvegur í þéttbýli þannig að Vegagerðin sér um lagningu þess vegar og viðhald hans og hún er sæmileg að aka. Önnur mikilvægasta umferðaræðin i plássinu, er ekkert skárri en gatan hér. Þar aka álíka margir bílar á dag og um Vitastíginn heima í Víkinni eða Laugabraut á Skaganum. Þetta er alveg til háborinnar skammar! Það er ekkert malbik í þorpinu. Það er bundið slitlag á þessari þjóðbraut, á stóra bílastæðinu við Félagsheimilið Aratungu og sundlaugina og bílastæðinu við bensínsjoppuna Bjarnabúð. Svo er 10 metra löng einbreið rönd af bundnu slitlagi í þessari götu sem við búum við (þessi rönd er reyndar svo slitin og holótt að það ekki hægt að komast um hana öðruvísi en að slíta dempurunum á bílnum aðeins í hvert sinn) og það er þannig rönd líka í götunni hérna fyrir ofan okkur, sem er þónokkuð skárri.

Ég skil ekki svona pólitík. Ég veit alveg að það svívirðilega dýrt að leggja vegi og malbika þá, en það er bara hluti af því að reka sveitarfélag sem skipuleggur byggingalóðir og selur þær. Okkur sem búum hérna kemur það bara ekkert við hvort það er dýrt eða ekki dýrt. Þetta á bara að vera til staðar, rétt eins og vatnsveitan og skólpið. Það er ekki hægt að byggja upp jákvæða ímynd staðarins sem spennandi kost til að setjast að á eða eyða tíma í sem ferðamaður þegar þessir hlutir eru ekki í lagi. Svona íbúðarhverfi úti í sveit á að líta vel út. Það á að líta glæsilega út. Það eru 25 til 30 ár síðan önnur sveitarfélög gengu frá þessum málum. Þessi sveit er í harðri samkeppni við Hrunamenn og Grímsnesinga um fólk til búsetu og/eða byggingu sumarbústaða. Hrunamenn eru komnir mörgum skrefum á undan okkur í leggja götur og gangstéttar. Þeir eru reyndar bara nýbúnir að taka við sér, en það er nóg, þeir hafa forskot á okkur. Á Borg í Grímsnesi er verið að byggja nýtt íbúðahverfi. Grímsnesingar eiga nóga peninga til að hafa þessi mál í lagi og ég trúi ekki öðru en að þau verði í lagi þar. Það sést eiginlega hvergi nema hér að menn byggi hús inni í þéttbýli áður en búið er að leggja þangar allar lagnir, götu og gangstétt. Meira að segja Laugvetningar hafa steypt gangstéttar og lagt malbik fyrir mörgum, mörgum árum.

Mig grunar að þeir sem ráða hérna í sveitinni vilji alveg standa betur að þessum málum, en þeir eru bara gungur. Þeir eru svo hræddir um að fólkið á sveitabæjunum verði reitt vegna þess að peningar sveitarfélagsins fari í framkvæmdir í þéttbýlinu. Ég held að þeir sem ráðstafi fé sveitarfélagsins þurfi ekkert að vera þjónusta bændurna betur en okkur hina íbúa sveitarinnar, því það er þeirra hagur eins og minn að þéttbýlið í sveitinni verði huggulegt og aðlaðandi (og svo er það nú þannig að þótt búin séu mörg stór og glæsileg þá hafa bændurnir komið sinum skattamálum þannig fyrir að sveitin fær nú minnst af þeim gjöldum sem þeir greiða!).

Ég hef séð á myndum héðan úr Reykholti að umhverfið hefur tekið á sig nýja og bætta mynd frá því sem það var áður. Ég hef séð 17 ára loftmynd þar sem hverfið er eitt drullusvað og gróðurinn er ekki orðinn eins hár og myndarlegur eins og hann er í dag. Þetta hefur batnað, en nú eru breyttir tímar og fólkinu fjölgar, hér er orðið til þorp. Það verður að þjónusta fólkið.

Ég á ekkert að leggja þessar hellur hérna hjá mér. Ég veit ekki einu sinni hvort ég má það. Þegar ég flutti hingað inn var ég vitni að samtali talsmanns húseigandans og húsbyggjandans og oddvita sveitarfélagsins sem leigir húsið um að húseigandinn myndi fá frest til að ganga frá lóðinni þar sem komið var svo langt fram á haust. Fresturinn var ákveðinn fram til næsta vors. Svo hefur verið stirt á milli þessara tveggja aðila og þá kemur sér ekki vel að vera gunga og þora ekki að setja húseigendunum stólinn fyrir dyrnar og þá lendi ég og allir hinir sem búa í samskonar húsum og ég, 9 fjölskyldur, í þvi að hér gerist ekkert í þessum lóðamálum og við megum vaða drulluna upp að hnjám, sætta okkur við sískítuga bílana okkar og dunda okkur við daglegan sandmokstur innan dyra. Við höfum rekið á eftir þessu og kvartað og kveinað, bæði við Gréta og aðrir íbúar, en ekkert gerist. Stundum er okkur lofað einhverju, en það hefur aldrei staðist. Mig grunar reyndar að málið með þetta allt saman sé eitthvað svolítið öðruvísi en ég fæ að vita af. Það gæti líka verið að húseigandanum beri engin skylda til að ganga frá húslóð sem stendur við götu sem er í raun og veru engin gata. Ætli það gæti legið þannig í þessu að fyrst þurfi sveitarfélagið að leggja þokkalega götu áður en það getur krafist þess að gengið verði frá lóðunum? En hvernig sem í þessu liggur er alla vega alveg ljóst að ég á ekki að þurfa að gjalda fyrir þetta. En það geri ég og ég er orðinn helvíti fúll vegna þess.

Ég man þegar það var verið að steypa gangstéttina heima á Holtastíg (mig minnir reyndar að ég hafi skrifað um þetta áður). Þá var Jónsi Kristnýjar að vinna við þetta og einhver annar á hans reki. Ég man að ég var að spjalla við þá um fótboltann á HM svo þetta hefur verið 1982. Það sem ég man eftir þessu móti var að það var haldið á Spáni og markvörður Ítala var Paolo Rossi og hann var mjög góður (unnu þeir ekki þetta mót?). Svo man ég að í búningsklefanum í Félagsheimilinu, eftir leikfimitima, einhverntíma um haustið, var Gummi Hrafn að herma eftir þjálfara Argentínumanna og þóttist keðjureykja. Rúnar, og þeir hinir strákarnir einhverjir, föttuðu djókinn en ég hafði ekki fylgst betur með þessu HM en svo að ég varð bara þykjast skilja þetta og hló líka. Ha, ha.
 
þriðjudagur, júní 13
  9 ára
Þegar ég var púki ætlaði ég náttúrulega að verða heimsfrægur leikari, tónlistarmaður eða kvikmyndaleikstjóri. Auðvitað. Og þótt ég ætti góða vini sem ég eyddi miklum tíma með, eins og Halla Pé og Pétri Pé, þá lék mér oft einn. Mér fannst það fínt. Ég hafði auðugt ímyndunarafl og gat leikið mér einn með Playmo karla og hlustað á plötunarnar þeirra pabba og mömmu. Ég æfði mig líka með badmintonspaða fyrir framan spegilinn og var ýmist gítarleikari, bassaleikari eða söngvari. Ég spilaði líka fótbolta einn. Það var hentugt. Ég vann yfirleitt.

En aftur að heimsfrægðinni. Einhverju sinni þegar ég var á leið í skólann var ég að dunda mér við að taka viðtal við sjálfan mig. Ég lék sjónvarpsmann sem tók viðtal við mig, heimsfræga og dáða listamanninn, sem var kominn heim á æskustöðvarnar til að sýna veröldinni úr hverskonar umhverfi hann kemur þessi mikli listamaður. „Hér er Miðstrætið, það var mín sjávargata þegar ég gekk í skólann. Þetta er hann, þetta stóra hús þarna við enda þessara gangstíga." Þegar ég er í miðju viðtali gengur unglingsstúlka fram á mig og truflar mig. Ég fór allur í kerfi, því viðtalið fór ekki fram í hálfum hljóðum. Ég man að hún glotti og brosti til mín. Henni hefur þótt ég stórskrítinn og það er svo sem ekkert fjarri sanni.

Þessi stelpa stytti sér leið um lautina þar sem húsið sem Einar og Gauja létu byggja síðar, stendur nú. Og ég kom auga á hana þegar hún birtist allt í einu milli húsgaflsins á gula húsinu sem er neðst í lautinni og stendur við Miðstrætið og Bjarni frændi minn Aðalsteinsson reisti og var lengi bústaður starsmanna Vélsmiðjunnar (Helgi Braga býr þar nú) og girðingarinnar hjá Kitta Gilsa og Sæju. Þar varð í eina skiptið maður vitni að viðtali við mig í fjölmiðli um ævistarf mitt og uppvöxtinn í Víkinni.

Hver haldiði að þessi stúlka hafi verið?
 
mánudagur, júní 12
  Dekkið frá Jóni Friðgeiri
Ég er að spá í að útbúa sandkassa á lóðinni hjá mér eða eitthvað slíkt fyrir krakkana mína að leika sér í. Þess vegna rifjaðist þetta upp fyrir mér.

Það var þannig heima á Holtastígnum að bak við húsið, þar sem dyrnar af kjallaranum og þvottahúsinu eru, var gamalt og ónýtt dekk af skurðgröfu sem pabbi hafði fyllt af sandi og ég lék mér í. Pabbi hafði fengið þetta dekk hjá langstærsta byggingafyrirtækinu í Bolungavík, JFE. Það hafði sennilega verið skipt um dekkjagang á gröfunni hjá Óla Óla og pabbi verið sniðugur og fengið að eiga eitt gamla dekkið. Þetta var mér sagt þegar ég var smápúki og ég held að það hafi verið þess vegna sem mér var alltaf hlýtt til Jóns Friðgeirs. Mér fannst hann svo góður maður. Hann hafði gefið mér dekkið.
 
sunnudagur, júní 11
  Hellulagt i rigningunni
Við höfum verið að leggja hellur fyrir framan húsið hjá okkur. Þetta er óttalegt puð. Nú er orðið miklu huggulegra fyrir utan hjá okkar og við vonumst til að minna berist af sandi inn á gólf hjá okkur en gerði áður.

Það er búið að hellirigna í Tungunum í dag.

Ég skrapp í Skálholt í dag og söng með kórnum við eina fermingarmessu. Svo er nú eitthvað svolítið framundan í spileríi. Það er fínt að hafa eitthvað svolítið að gera á þeim vettvangi. Það er yfirleitt svo ofboðslega gaman!
 
laugardagur, júní 10
  Breytingar í starfi
Á síðustu dögum hefur verið óskað eftir starfskröftum mínum í tveimur skólum. Á öðrum staðnum í kennarastöðu í, á hinum staðnum í stjórnunarstöðu. Ég er barasta nokkuð upp með mér. Ég ætla nú ekki að hlaupa á þetta. Samt ætla ég að breyta til á næsta skólaári, en ég verð áfram að kenna við sama skólann. Ég ætla að hvíla mig á því að vera umsjónarkennari og kenna íslensku, tónmennt og valgreinarnar tónlist og myndbandagerð. Svo ætla ég að gerast nemandi sjálfur og læra nótnalestur og hljóðfæraleik eða söng.
 
föstudagur, júní 9
  Þessir dagar
Nú eru síðustu dagarnir í vinnunni fyrir sumarfrí. Ég er í skólanum núna að taka til í skrifborðinu og gera skýrslur yfir hitt og þetta sem gerst hefur í vetur. Svo bíða hellur heima hjá mér eftir því að vera lagðar í stétt.

Hringur fór í aðgerð vegna eyrnabólgu í gær. Hann fékk rör í eyrun. Þetta er í annað sinn sem hann fær þau. Mér sýndist honum líða miklu betur í morgun. Hann er búinn að vera pirraður og erfiður undanfarið, bæði dag og nótt. Nú hressist hann væntanlega.

Perla María málar og litar og skrifar stafi allan daginn út og inn. Hún er orðin mjög fær.

Hákon leikur sér mest úti og þá er fótboltinn vinsælasti leikurinn. Hann hefur alltaf einhverja stráka til að leika við sem er eins gott, því honum finnst ekki eins gaman að leika sér þegar hann er einn. Vinsælasti innileikurinn núna er að velja lög á geisladiska og brenna. Svo er hlustað og hlustað.
 
  Góðir fótboltamenn
Ég hef lítið fylgst með fótbolta upp á síðkastið. Meðan ég bjó á Skaganum fylgdist ég mjög vel með ÍA liðinu og fyrir vestan tók ég alltaf á einhvern hátt þátt í starfinu í kringum fótboltann, ef ég var ekki að spila sjálfur. Svo hef ég nú líka farið á völlinn að sjá Valsmenn þegar Danni hefur verið með. Nú er hann illa meiddur og spilar ekki svo ekki dregur hann mig á völlinn. Það er líka svolítið langt að fara héðan úr Biskupstungunum. En ég ætla á einhvern leik í sumar og taka Hákon með.

Það gengur illa hjá Skagamönnunum núna. Ég sá þá spila í sjónvarpinu um daginn. Það var ekkert spes. Ég hef líka séð önnur lið í þessum leikjum sem hefur verið sjónvarpað. Það er nú aldrei að marka þetta því að fara á völlinn er allt annað og betra. Það eru nokkrir leikmenn sem hafa vakið athygli mína fyrir góðan leik. Það eru meðal annarra þessir:

Jónas miðjumaður í Keflavík. Mér líst vel á hann.

Birkir Sævarsson sem núna spilar sem hægri bakvörður í Val. Ég hef oft séð hann spila þegar ég hef farið til að horfa á Danna. Þá var hann ýmist frammi eða úti á kanti. Hann lítur miklu betur út í bakverðinum.

Guðmundur Benediktsson í Val er að spila gríðarlega vel.

Bjarni Guðjónsson í ÍA. Frábær leikmaður.

Davíð Þór Viðarsson miðjumaður í FH.

Viktor Bjarki í Víkingi.

Ég veit ekki hvort þetta eru bestu spilararnir í deildinni fram til þessa því ég hef ekki séð þá spila nema í sjónvarpinu og þá bara voðalega lítið. En miðað við hvernig þeir virka á skjánum hjá mér hljóta þeir að vera góðir.

Nú byrjar HM í dag. Ég á von á góðu móti. Ætli Englendingarnir komi bara ekki öllum á óvart og vinni þetta? Steven Gerrard verður maður mótsins.
 
miðvikudagur, júní 7
  50 ára Bubbi
Ég var, eins og svo margir íslenskir strákar, mikill aðdáandi Bubba Morthens. Ég hef nú enn nokkuð gaman af sumu sem hann gerir og hlusta oft á gömlu plöturnar hans. Í mestu uppáhaldi eru Sögur af landi, Das Kapital, Fingraför, Kona og Hvíta hliðin á svörtu (ljóðaplatan). Maður spilaði Bubba alveg upp til agna hérna í denn og svo var gott á unglingsárunum að æfa gítarfimina á lögunum hans.

Ég sá tónleikana hans í gærkvöldi. Mér var skemmt. Besta bandið finnst mér vera nýjasta bandið hans, Stríð og friður. Þeir ná vel saman og hljóma virkilega eins og hljómsveit. Í gær fannst mér unaður að sjá Das Kapital, þar sem Mikki og Jens fóru á kostum. Þá var óborganlegt að sjá og heyra Þorstein Magnússon í þetta góðu formi. Hann spilaði eitt lag í hljómsveit með mér í vetur og hann var æðislegur þá, en núna var hann í enn betra formi - virkilega góður. Diddú var skemmtileg og svo var Bubbi sjálfur hress og bara eins og hann hefur alltaf verið. Mér var skemmt.

Ég hef einu sinni leikið á tónleikum þar sem Bubbi kom líka fram. Það var áður en hann snéri endanlega baki við ólöglegum vímugjöfum. Ég talaði ekkert við hann, enda var það öllum ljóst þegar hann gekk í salinn baksviðs að þar var kóngurinn mættur og hluti af hirðinni með. Maður fór ekkert að trufla kónginn!
 
þriðjudagur, júní 6
  Frí
Fjölskyldan hefur verið á faraldsfæti um hvítasunnuhelgina. Við komumst ekki af stað fyrr en seinnipartinn á föstudag. Þá lá leiðin norður á Strandir, þar sem krakkarnir skiptu um bíl, en pabbi og mamma höfðu ekið frá Bolungavík á móti okkur og þau höfðu krakkana hjá sér yfir helgina. Við Gréta fórum aftur á móti norður til Akureyrar. Við dvöldum í höfuðstað Norðurlands og skemmtum okkur mjög vel. Það voru viðbrigði að vera barnslaus en það var sannarlega mikils virði. Þetta er fyrsta fríið okkar saman síðan von var á Hákoni. Þá fórum við í útilegu. Þetta var næs.

Við lánuðum vinum okkar, sem eru að byggja sér íbúðarhús hérna í Reykholti, húsið okkar á meðan við vorum á ferðalaginu.
 
fimmtudagur, júní 1
  Það er algjör vitleysa
Þið munið eftir laginu eftir Jóhann G. sem Ruth söng um skaðsemi reykinga.

Í tilefni af reyklausa deginum, sem var víst í gær, var þetta lag spilað í síðdegisþættinum á Rás 2. Það er mjög skemmtilegt atriði í þessu lagi, alveg undir lokin á því, þegar það heyrist mikið hóstað í bakgrunni. Þetta eru mjög mikil hóstaköst sem auka á boðskap textans þarna rétt á meðan lagið fade-ar út. Kynnar þáttarins voru að velta því fyrir sér hver það væri sem hóstaði þessi ósköp. Mér fannst það skemmtileg pæling. Ég hefði getað farið að velta einhverju slíku fyrir mér.

Veit þetta einhver lesandi? Hver hóstar í laginu Það er algjör vitleysa að reykja?

Ég myndi giska á Magnús Kjartansson. Jafnvel þá Magnús Kjartansson og Pálma Gunnarsson. Ég hef ekki hugmynd um það, veit ekki einu sinni hverjir sjá um undirleikinn í þessu lagi. En það gætu hafa verið þessir tveir. Það er meira að segja nokkuð líklegt að þeir hafi komið nálægt þessum hóstaköstum. Það væri gaman að fá úr þessu skorið. Þekkir einhver einhvern sem þekkir einhvern sem gæti hafa verið viðstaddur þessar upptökur á hóstaköstum í Hljóðrita í Hafnarfirði árið nítjánhundruðsjötíuogeitthvað?
 
  Afmæli
Nei, vá!
Það er kominn 1. júní.
Til hamingju með daginn Anna Svandís.
 
  Góður bolur...

...hjá stráknum!
 
  Sungið á plötu

Ég var að koma heim úr Skálholti. Það var verið að taka upp með Skálholtskórnum í kvöld. Flott tónlist eftir Róbert Abraham, Hjálmar R. og eitthvað eitt alveg eldgamalt. VIð vorum með gesti í þessari session. Organistinn Kári Þormarr úr Fríkirkjunni og nokkrir karlar sem við þekkjum sem komu í þessi lög til að veita okkur liðsinni. Þar var trompetleikarinn Jói, sem spilar oft með okkur á hátíðum, Örlygur, tónskáldið, sem spilar með okkur í danshljómsveitinni og samdi eitt flottasta tónverk sem kórinn hefur sungið á starfsárinu, Haukur í Mástungu, drunubassi af Skeiðunum, sem hefur sungið með okkur áður, og unglingurinn Hjörtur Freyr, sem er mikið efni í músíkant og magnaður söngvari (bara 16 ára!). Við höfðum líka björtustu sóprana sveitarinnar, Selmu og Ósk með okkur, önnur er 16 ára og hin litlu eldri. Georg tæknimaður tók upp. Hann hefur verið afar þægilegur.

Það er gaman að vera búinn að þessu. Þetta hefur verið æft á milli stórverkefna í allan vetur. Þessi kirkjukór æfir sig aldrei fyrir venjulega messu, bara fyrir hátíðir, jarðarfarir og einhver svona sérstök tilefni í kirkjunni. Annars æfum við fyrir þessi stærri verkefni, eins og frumflutning einhverra verka, tónleika og upptökur! Ég hefði ekki trúað að það gæti verið svoan gaman að syngja og starfa í kirkjukór. En nú er fyrsta starfsárið mitt eiginlega að verða búið. Það verður eitthvað aðeins að gera í sumar, en annars er frí fram á haust. Það er kærkomið. Ég held að Gréta sé nú fegin. Það er búið að vera nóg að gera hjá kirkjukórnum nú upp á síðkastið.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]