Sungið á plötu

Ég var að koma heim úr Skálholti. Það var verið að taka upp með Skálholtskórnum í kvöld. Flott tónlist eftir Róbert Abraham, Hjálmar R. og eitthvað eitt alveg eldgamalt. VIð vorum með gesti í þessari session. Organistinn Kári Þormarr úr Fríkirkjunni og nokkrir karlar sem við þekkjum sem komu í þessi lög til að veita okkur liðsinni. Þar var trompetleikarinn Jói, sem spilar oft með okkur á hátíðum, Örlygur, tónskáldið, sem spilar með okkur í danshljómsveitinni og samdi eitt flottasta tónverk sem kórinn hefur sungið á starfsárinu, Haukur í Mástungu, drunubassi af Skeiðunum, sem hefur sungið með okkur áður, og unglingurinn Hjörtur Freyr, sem er mikið efni í músíkant og magnaður söngvari (bara 16 ára!). Við höfðum líka björtustu sóprana sveitarinnar, Selmu og Ósk með okkur, önnur er 16 ára og hin litlu eldri. Georg tæknimaður tók upp. Hann hefur verið afar þægilegur.
Það er gaman að vera búinn að þessu. Þetta hefur verið æft á milli stórverkefna í allan vetur. Þessi kirkjukór æfir sig aldrei fyrir venjulega messu, bara fyrir hátíðir, jarðarfarir og einhver svona sérstök tilefni í kirkjunni. Annars æfum við fyrir þessi stærri verkefni, eins og frumflutning einhverra verka, tónleika og upptökur! Ég hefði ekki trúað að það gæti verið svoan gaman að syngja og starfa í kirkjukór. En nú er fyrsta starfsárið mitt eiginlega að verða búið. Það verður eitthvað aðeins að gera í sumar, en annars er frí fram á haust. Það er kærkomið. Ég held að Gréta sé nú fegin. Það er búið að vera nóg að gera hjá kirkjukórnum nú upp á síðkastið.