Tilraunavefurinn
mánudagur, júlí 31
  Veiði

Veiðimaður
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Við feðgarnir enduðum góðan dag á því að skella okkur í veiði. Við náðum 3 fiskum á land, en bara einn var nógu stór til að við teldum hann ætan. Það var þessi urriðatittur sem Hákon heldur þarna á.

Þetta var mikill fjölskyldudagur. Fyrst fórum við öll í sund, þá öll í bíó á Selfoss, við borðuðum í skógi í Grímsnesinu og svo stungum við Hákon af eftir kvöldmat.
 
sunnudagur, júlí 30
  Bíltúr á nýja bílnum

Bræðurnir
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
VIð skruppum á Akranes í gær. Gréta tók með sér mynd sem Skagamaður hafði séð á sýningunni í Slakka og keypt af henni. VIð bönkuðum upp á á tveimur stöðum án þess að nokkur kæmi til dyra. Við hittum samt fólk sem við þekkjum, fyrst Ingþór og Jóhönnu og svo Orra Harðar.

Á leiðinni heim stoppuðum við í Botnsdal og grilluðum og fórum í smá gönguferð. Krakkarnir sofnuðu svo á leiðinni yfir Lyngdalsheiðina.
 
föstudagur, júlí 28
  Sumar í sveitinni
Það er búið að vera súld hjá okkur Uppsveitamönnum síðustu tvo daga. Ég hef verið að mála og hef verið að stilla verkefnin af eftir veðrinu, - unnið í skjóli og reynt svo að sæta lagi milli skúra. Í dag virðist ætla að gefa á þakið. Ég er farinn út. Bless.
 
sunnudagur, júlí 23
  Helgin
Okkur Grétu var boðið í brúðkaup og veislu til Reykjavíkur í gær. Krökkunum dreifðum við út um allt, Hringur var hjá Bensa í nýja bústaðnum í Kjósinni, Perla María hjá Guðrúnu frænku í Sólheimunum og Hákon í Skálholti. Í dag söng ég við ægilega hátíðlega messu í Skálholti. Veðrið er búið að vera alveg meiriháttar gott. Þetta var mjög skemmtilegt þarna í Skálholti í dag. Eftir að það var allt yfirstaðið drifum við okkur í Kjósina og borðuðum með Bensa og Önnu, Hjördísi og Guðrúnu og öllum krökkunum. Það var fallegt að aka þessa leið um Þingvelli í svona góðu veðri.

Ísland - langbest.
 
föstudagur, júlí 21
  Boltablogg #3
Ég fór að æfa fótbolta þegar við bjuggum úti í Dk. Ég hafði ekkert verið í fótbolta þá í tvö og hálft ár. Þetta var svona liður í að hressa upp á sjálfan mig, mér var farið að leiðast svo að þekkja ekki fólkið í kringum mig. Þannig virkaði þetta nú mjög vel, það var strax bjartara yfir manni eftir að maður var farinn að kinka kolli til einhverra í bænum þegar maður skrapp út í Brugsen. En þetta var svona félag sem hafði heimili í Ny Nörup en með því spiluðu strákar frá Nörup, Vandel og Randböldal líka. Og svo komu einn og einn brottfluttur með. Liðið hafði fínan þjálfara, Benny. Hann var frá Vejle. Hann tók með sér einn kall sem hafði spilað sem atvinnumaður í Vejle þegar þeir gátu eitthvað og varð Danmerkurmeistari 79 og 83 held ég. Hann rak eigin lögmannsskrifstofu og var fremur upptekinn, en hann mætti stundum á æfingar og oftast í leiki A liðsins. Þetta var hann John sem spilaðí ýmist djúpt á miðjunni eða sem hafsent. Hann er besti fótboltamaður sem ég hef verið í liði með. Þó var hann fertugur þegar við spiluðum saman.

Hjá þessu félagi voru þrjú lið. Eitt sem lék í Seriu 3, annað í Seriu 5 og þriðja liðið í Seriu 6. Ég var í Seriu 5 liðinu, en spilaði líka einn leik með Seriu 6 liðinu og á tímabili var ég í Seriu 3 liðinu, en þá var ég stundum varamaður og bað að lokum um að þurfa ekki alltaf að fara í leiki með því liði, til að getað spilað heila leiki með lakara liðinu. Ég var nú bara í þessu til að hafa gaman af því. Það var nefnilega þannig að ef maður hafði leikið með því liði félagsins sem var best statt í deildunum, gat maður ekki leikið með öðru liði hjá félaginu í sömu umferð. Þannig var það líka að ef maður, einhverra hluta vegna, missti af leik hjá liðinu, þá mátti maður spila með lakara liði félagsins í sömu umferð. Þannig stóð á þessum eina leik hjá mér í Seriu 6.

Á sama tíma og ég fór að æfa fótbolta skipti ég um starf. Ég fór að vinna hörkuvinnu í kjötvinnslu og áður en margar vikur voru liðnar höfðu runnið af mér 8-10 kíló og ég var fljótur að komast í sæmilegt form. Ég var samt áfram seinn á mér. En ég náði ágætis tengslum við þessa stráka og gekk bara vel að ná upp fyrra formi eftir þetta langa hlé frá fótbolta. Og þetta var eiginlega það eina sem ég gerði fyrir sjálfan mig því ég var svo slæmur af sinaskeiðabólgu í höndunum að ég gat ómögulega spilað á hljóðfæri. Þannig að ég gat einbeitt mér nokkuð vel að þessu sprikli með fótboltaliðnu. Og þetta hálfa tímabil hjá mér þarna úti (svo flutti ég heim) er sennilega það besta sem ég náði að gera í fótbolta.
 
  Nýr bæjarstjóri
Það var verið að ráða Grím nokkurn Atlason bæjarstjóra, heima í Bolungavík. Hann er fjórði maðurinn til að gegna því starfi. Fyrsti bæjarstjórinn var Guðmundur heitinn Kristjánsson, svo var það Óli málari og nú síðast Einar Pé. Þá þekkti/þekki ég alla. Grím þennan þekki ég ekki. Ég var nú svolítið hissa á þessari ráðningu þar sem svo margir umsækjenda höfðu menntun á sviði fjármálaumsýslu, sem Grímur hefur ekki.

En ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að Grímur þessi sé starfinu vaxinn. Ég hef einu sinni talað við hann. Þá hafði ég gleymt magnaranum mínum uppi á sviði á tónleikum sem hann stóð fyrir að halda í Austurbæjarbíói, og ég hringdi í hann og bað hann að líta eftir honum fyrir mig. Hann var mjög liðlegur og ég fékk magnarann aftur. Þarna voru að spila svona helmingur allra starfandi dægurtónlistarmanna landsins, svo það var þröngt á þingi. Hann er lipur í mannlegum samskiptum, það veit ég því að á þessu sömu tónleikum söng Kammerkór Biskupstungna, 30 unglingar. Ég tók sérstaklega eftir því hvað Grími og starfsfólki hans tókst vel að umgangast krakkana. Það er ekkert smámál að taka á móti svona hópi við þessar aðstæður. Nú er svo er Grímur í hljómsveit með Ísfirðingunum Kristjáni Frey og Gumma Halldórs og ég veit að þeir myndu hvorugur nenna að vera í bandi með einhverjum délum. Þetta hlýtur að vera fínn náungi.
 
  Sumarverslun
Það er mikið um verslun þessa dagana. Ég keypti mér kassagítar um daginn. Hann er amerískur, af Guild gerð. mjög góður. Nú á ég tvo kassagítara. Í gær var svo keyptur fjölskyldubíll. Hann er gráblár. Nú á ég tvo bíla.
 
mánudagur, júlí 17
  Á ferð og flugi
Mjög stutt ferðalag að baki hjá mér. Ég fór til Svíðþjóðar, var heilan dag á leiðinni þangað, spilaði með hljómsveit í afmæli, sem breyttist nú reyndar óvænt í brúðkaupsveislu, og flaug svo heim daginn eftir.

Þetta er lítill heimur sem við lifum í. Ég hafði ekki hugmynd um fyrir hvaða fólk ég væri að fara að spila. Haldiði svo að þetta hafi ekki verið hálfsystir hans Þórs (þess sem kommenteraði hér á síðustu færslu), en ég var umsjónarkennari hans í 4 ár á Akranesi. Ég hitti þarna foreldra hans, fólk sem ég kannast ágætlega við. Auðvitað fékk ég Birgi, pabba hans, til að spila svolítið með okkur á gítar. Það jók gæði hljómsveitarinnar um helming. Biggi er nefnilega alveg ektafínn gítaristi. Þetta var alveg frábær ferð, þótt hún hafi verið með styttra lagi. Ég átti að sofa í tjaldvagni, en þar var mér svo kalt að ég fór bara út og svaf þar. Það var ekki leiðinlegt að vakna í 24 stiga hita, á bryggju við spegilslétt stöðuvatn í Svíþjóð.
 
fimmtudagur, júlí 13
  Bílprófið og eftirminnileg ökuferð
Ég var að mála á bæ hér í sveit þar sem heimasætan var að ræða um ótta sinn við að aka í umferðinni í Reykjavík. Hún er 17 ára og er tiltölulega nýkomin með bílpróf. Þá fór ég að hugsa til þess tíma þegar ég var sjálfur nýkominn með bílpróf og um ökuprófið sjálft.

Ég lærði á bíl hjá Gunnari Halls heima í Bolungavík. Prófið tók ég á Ísafirði, inni í Firði, uppi á lofti í einhverri skemmu. Ég man ekki eftir öllum krökkunum sem tóku prófið á sama tíma og ég, en ég man þó að í þeim hópi var bekkjarsystir mín úr Víkinni, Helga Svandís og bekkjarbróðir minn úr 1. bekk í Menntaskólanum, Ragnar Torfi Jónasson. Þau voru alveg örugglega í þessum hópi. Prófdómarinn bað Helgu Svandísi að sýna sér hvar hún ætti heima. Það tók næstum því klukkutíma að prófa hana, því hún ók út í Vík og til baka. Svo eru það þeir sem mér finnst að hafi verið í þessum hópi, en ég man það ekki alveg fyrir víst. Það eru Heiða, systir Ingu Sólveigar og Jóns Steinars, Eygló, sem núna er konan hans Eyba, Hófý, konan hans Bensa Egils. Og svo finnst mér eins og það hafi verið einhverjar stelpur í hópnum sem voru sumarstarfsmenn í Íshúsinu, en voru að sunnan. Kannski Ragna Lilja hafa verið í hópnum, það gæti hafa verið. Þetta var 15. eða 16. júní árið 1990.

Fyrsta ökuferð mín um götur Reykjavíkur var skrautleg. Þá fór ég í sendiferð fyrir Mugga og Kiddý. Ég átti að sækja Erlu Sonju, dóttur þeirra, í afmæli í Grafarvogi. Þetta átti ekki að vera flókið, stuttur rúntur úr Efra-Breiðholti og yfir í Grafarvog, sem þá var nýtt hverfi. Strákurinn þeirra, Örn Elías, sem var á 14. ári, var sendur með mér, svo ég rataði örugglega. Þau áttu Lödu Samara og hún var ekki alveg í fullkomnu ásigkomulagi. Þessi ökuferð á sjálfsagt aldrei eftir að líða þeim systkinum úr minni, alla vega ekki Ödda. Hann hló svo mikið að vandræðunum sem ég kom mér í að hann átti orðið erfitt með að draga andann. Það var ekki til að hann vorkenndi frænda sínum eða skammaðist sín fyrir hann. Nei, hann sá bara að það var hægt að gleðjast yfir þessu.

Það væri krefjandi verkefni fyrir strákinn að túlka þessa ökuferð í tónverki. Það yrðu í því óvæntar þagnir, nokkuð um hik og taktskipti, sennilega tóntegundaskipti, einhverjir lúðrar og rammfalskir strengir til að túlka stressaða og pirraða vegfarendur og einhverjar miklar andstæður til að túlka öran hjartslátt sveitamannsins að vestan og kvíðann sem hann bar í brjósti á móti glaðværð og háði Breiðholtsvillingsins.
 
mánudagur, júlí 10
  Sjóarinn að leggja úr höfn

Hákon með Mugga
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Hákon fór um borð í morgun hjá Mugga og Jónasi á lóðsinum. Þeir ætla að vera á Súganda í dag og skipta um baujur í innsiglingunni inn í Suðureyrarhöfn. Hákon var mjög spenntur. Hann tók með sér veiðistöngina. Þetta verður vafalítið skemmtilegt fyrir hann. Hann á eftir að segja vinunum fyir sunnan frá þessari sjóferð með Mugga.
 
sunnudagur, júlí 9
  Myndir
Nýjar myndir á myndasvæðinu.
 
  Hótel mamma

Ég er staddur í Bolungavík og krakkarnir eru með mér. Hákon hefur farið daglega á Brjótinn að veiða og á morgun ætlar hann á sjóinn með Mugga frænda. Það er mikill spenningur í gangi og hann var lengi að sofna. Perla María hefur félagsskap af Andreu frænku sinni og líður vel. Hringur og Andrea ná ekki eins vel saman. Það var gott veður hjá okkur í dag en annars hefur veðrið verið skítt.

Gréta er fyrir sunnan. Tvö móðursystkini hennar féllu frá í vikunni og fjölskyldan heldur saman og fólkið styður hvert annað í sorginni. Það er nóg að gera þegar svona stendur á og Gréta, eins og aðrir í fjölskyldunni, hefur haft nóg fyrir stafni í vikunni.

Ég ætlaði að fara til Gautaborgar á miðvikudag en er búinn að fresta ferðinni til laugardags til að getað verið við jarðarför. Þá flýg ég til Köben og tek rútu til Gautaborgar. Það á að spila á bryggjuballi í Gautaborg um kvöldið og koma svo heim í hádeginu á sunnudag.
 
sunnudagur, júlí 2
  Hanabit

Hringur stillir strengina
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Ég átti afmæli í gær, varð 33 ára. Perla María verður 4 ára á morgun. Þessi strákur fór í Slakka í dag og var bitinn í fingurinn af hananum. Maður verður að passa sig í dýragarðinum! Það er ekki hægt að spila mikið á gítar eða ukulele með sundurbitinn vísifingur.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]