Tilraunavefurinn
þriðjudagur, janúar 31
  Go Denni
Það var strákur að skrifa í gestabókina. Hann er kallaður Denni og er Ísfirðingur. Denni er aðeins yngri en ég og var mikið með strákunum á Ísafirði sem ég var stundum að syngja með hér áður fyrr. Ég er þakklátur Denna fyrir að skrá nafn sitt í gestabókina. Ég hef grun um að hingað kíki fleiri en þeir sem kommentera eða kvitta. Það er gaman að hafa einhverja hugmynd um hvaða umferð er um síðuna. Sjálfur skrifa ég sjaldnast í gestabækur á heimasíðum. Ég hef t.a.m. heimsótt síðuna hans Denna án þess að kvitta í gestabókina hans.
 
  Frumkvæði barna og unglinga #1
Áfram með Bolvískar sögur.

Mér hefur fundist það aukast á seinni árum að tekin séu frá börnum og unglingum tækifæri til að taka frumkvæði og axla ábyrgð. Þegar ég var að alast upp í Víkinni skorti þau ekki þessi tækifæri. Hér koma nokkrar sögur af þessu. Við byrjum á sögu úr fótboltanum. Þegar ég var á eldra ári í 5. flokki (12 ára) var ég oftast fyrirliði liðsins (Jónas Vilhelms var stundum fyrirliði). Eitt af verkefnum mínum sem fyrirliða var að hafa samband við þjálfara Ísfirðinganna og koma á æfingaleik. Ég hafði samband við Bjössa Helga (Bjössi varð sjötugur á dögunum!) og saman komum við okkur saman um stað og stund. Leikið var á Skeiði á Ísafirði. Ég man ekki úrslit leiksins svo sennilega höfum við legið fyrir þeim.

Það koma fleiri sögur um þetta efni síðar.
 
mánudagur, janúar 30
  Veikindi og maleri
Perla María var lasin alla síðustu viku. Hún er nú orðin hressari. Gréta var heima hjá henni í síðustu viku. Strákarnir eru aftur á móti slappir núna. Hringur ætlar til læknis á eftir. Ég ætla að vera heima hjá gæjunum í dag. Það bíða verkefni eftir að Gréta komist í að sinna þeim. Hún er að mála fyrir innrammarann myndir sem er u senldar í Tékk kristal og flottu blómabúðunum og og svo er hún að myndskreyta barnabók.
 
  Leikur
Ég hætti í Menntaskólanum á Ísafirði um áramótin 90/91 og flutti mig í Fjölbrautarskóla Vesturlands á Akranesi. Á Ísafirði hafði ég verið á heimavistinni en á Akranesi leigði ég kjallaherbergi úti í bæ. Ég þekkti fáa á Akranesi og í skólanum var fjölbrautakerfi þannig að ég hafði hvorki sambýlisfóækið af vistinni né bekkjarfélana til að reiða mig á í upphafi dvalarinnar. En ég var svo heppinn að á Skaganum voru nokkrir Bolvíkingar sem reyndust mér, fávísum sveitamanninum, ákaflega vel fyrstu dagana í þessu framandi umhverfi. Þetta voru m.a. þeir Dóri Daða og Addi Ingvars. En styrkasta stoðin var bekkjarfélagi minn úr grunnskólanum, Gummi Hrafn. Við vorum mikið saman þennan vetur, sérstaklega fyrstu vikurnar eftir að ég kom.

Einn af leikjum okkar var þannig að þegar við gengum um götur bæjarins og mættum fólki, sem við þekktum hvorki haus né sporð á, bentum við hvor öðrum á Bolvíking sem útlit þessa fólks minnti okkur á. Þegar leið á leikinn gat hann orðið þannig að við veltumst um af hlátri við það eitt að annar okkar sagði Kitti Sali, Gauja Summ eða Kári á rétta augnablikinu.
 
sunnudagur, janúar 29
  Reglur
Pabbi lagði á það ríka áherslu að ég setti upp verð þegar ég var beðinn um að skemmta. Hann sagði að það þyrfti ekki að vera hátt verð, en ef ég gerði þetta frítt fengi ég engan frið, það vildu allir fá ókeypis skemmtiatriði. Þessu hlýddi ég og oft var ég að skemmta fyrir 3000 kall eða 5000 kall, stundum fyrir meira. Svo kom fyrir að fólk bæði pabba að syngja einsöng í jarðarförum en það kostaði aldrei neitt!

Ég tók aldrei peninga fyrir að skemmta fyrir Slysavarnarfélagið í Bolungavík og ekki heldur fyrir Alþýðubandalagsfélagið á Akranesi. Annars var reglan að taka eitthvert kaup - þótt oft væri það lágt.

Pabbi gaf fleiri ráð hvað varðar þetta brölt með kassagítarinn. Eitt þeirra var að drekka ekki áfengi þegar ég væri að skemmta fólki. Þetta gerði ég að reglu. Svo fór ég að koma fram með hljómsveitum og þá var maður ekki að fá kaup nema um væri að ræða ball - ég ég var lítið í þeim geira. Svo ég hagræddi reglunni minni og drakk ekki þegar ég fékk kaup fyrir að skemmta.

Í gær var ég að spila (allsgáður) á balli í Hlégarði í Mosó. Það var ágætlega heppnað.
 
föstudagur, janúar 27
  Gott kaup
Ég var rétt nýfarinn að spila á kassagítarinn þegar mamma fékk mig til að spila og syngja á skemmtun sem Slysavarnarkonur stóðu fyrir í Félagsheimili Bolungavíkur eitthvert laugardagssíðdegi haustið 1987 eða snemma árs 1988. Ég var ekki vitund kvíðinn og fannst þetta ekkert mál. Ég labbaði niðureftir með gítarinn í tösku og bros á vör. Á leiðinni mætti ég Gunnari Halls sem var að labba út Miðstrætið. hann spurði mig hvort ég væri farinn að spila á gítar og óskaði mér góðs gengis á skemmtuninni. Það er til mynd sem Kristján Jónatans tók af mér þar sem ég stend þarna á sviðinu í peysu og gallabuxum með bót. Ég fékk ekkert greitt fyrir þessa skemmtun en strax í hádeginu á mánudeginum á eftir fékk ég tilboð um fyrsta djobbið á tónlistarsviðinu.

Ég var á leiðinni heim úr skólanum til að skella í mig grillaðri samloku með skinku, osti og sinnepi sem ég var vanur að skola niður með krækiberjasaft. Það var á Miðstrætinu, fyrir ofan Ráðhúsið, sem Gunnar Halls stoppaði bílinn sinn og bauðst til að skutla mér heim. Mér fannst það fallega gert hjá honum, en ég var nánast kominn heim, svo þetta var eitthvað skrítið. Ég hélt hann ælaði að skamma mig og fyrstu sekúndurnar í framsætinu fóru í að hugsa til baka og reyna að muna hvort ég hefði nýlega gert eitthvað af mér. Gunnar byrjaði á því að segja mér að hann hefði frétt að þetta hefði verið gott hjá mér á skemmtuninni hjá Slysavarnarkonunum. Og hann vildi nú að ég spilaði fyrir Lionsmenn á árshátið þeirra. Ég fengi greitt fyrir það!!!!!

Dagbjartur var gjaldkeri í stjórn Lions og bauð mér kaup sem var ekkert slor. Það væri alveg ásættanlegt kaup enn í dag. Ég spilaði fjögur lög (ég man að eitt þeirra var Frelsarans slóð af plötunni Dögun með Bubba - þetta var nýtt lag). Díllinn var: Þúsundkall fyrir lagið.
 
þriðjudagur, janúar 24
  Þorrablótin #5
... en það sá ekkert á honum þegar þau komu heim.

Þetta var ágætt þorrablót í Aratungu. Skemmtiatriðin heppnuðust vel og fólk var í góðum fíling. Mér leiddist hins vegar á ballinu. Það var dúett að skemmta með skemmtara. Þetta voru tveir karlar sem báðir sungu vel og þeir settu rétta hljóma á lögin og svona en það er eitthvað við þessar gervitrommur sem verður til þess að manni finnst mikið vanta. Léleg hljómsveit er nánast alltaf betri en góður skemmtari!

Það er mergt að breytast í vinnunni hjá mér þessa dagana. Við erum þrjú í kennaraliðinu sem erum að reyna að hressa aðeins upp á starfið hjá okkur með breyttum áherslum og nýju vinnulagi. Það getur ekki annað en virkað! Ég er farinn að hlakka til að sjá hvernig þetta kemur út. Það byrjar í dag.
 
laugardagur, janúar 21
  þorrablótin #4
Þegar ég var orðinn stálpaður krakki þótti mikið sport að vera úti þegar fólkið fór að fara heim af þorrablóti. Það var gaman að sjá fulla karla. Það var nefnilega þannig á þorrablótinu að þá gat maður átt von á að sjá þá karla sem maður hafði aldrei séð drukkna undir sterkum áhrifum. Kvöldið byrjaði á því að fylgst var með mömmu, pabba, Sirrý og Gísla hafa sig til á blótið. Ef ég var hjá Halla Pé voru það Helga og Pétur og Margrét og Jón Friðgeir, ef ég man það rétt, sem gerðu sig fín. Þá var farið af stað og stelpurnar sem við þekktum og höfðu tekið að sér barnapössun heimsóttar hver af annarri. Það var fínt að vera hjá einhverri þeirra þegar borðhaldinu lauk og þorrablótsgestir fóru heim með trogin, stoppuðu þar stutta stund, og fóru loks aftur niðureftir á ballið. Um þrjúleytið var maður kominn út og fylgdist með körlunum sem konurnar studdu upp Vitastíginn, Traðarstíginn og Skólastíginn. Stundum var maður frakkur og gaf sig á tal við þá. Ég man eftir frekar samhengislausu spjalli sem við Hagbarður áttum einhverntíma við Nonna Bjartar á gatnamótum Skólatígs og Völusteinsstrætis.

Einu sinni ákvað ég að vaka eftir pabba og mömmu í þeirri von að ég myndi sjá pabba fullan.......
 
  Þorrablótin #3
Þegar ég var strákur fékk ég oft að sjá generalprufuna á skemmtiatriðunum á þorrablótinu. Það var alltaf svona annáll ársins í spéspegli. Já, maður þekkti oftast einhverja konu í nefndinni sem bauð okkur vinunum að koma til að þær fengju einhver viðbrögð á síðustu æfingu. Einhverntíma var það mamma, í hin skiptin hafa það sennilega verið Sirrý, Helga Aspelund, Björg frænka, Magga mamma hans Péturs, Hidda Einars, Stína Gunnars eða Mumma Lóa. Á þessum gneralprufum voru stundum meðal áhorfenda einhverjir úr hópi þeirra makalausu í bænum sem ekki fengu aðgang að skemmtuninni!

Ég man að ég hafði mikið álit á Mæju Ólafs fyrir það hversu vel hún gat látið röddina hljóma í þessum stóra sal Félagsheimilisins. Svo var Hidda mikill leikari, bæði frökk og skemmtileg. Þarna sá maður konur á sviðinu sem manni fannst skrítið að sjá leika, syngja og dansa. Mömmur og ömmur úti í bæ breyttust í fyndna skemmtikrafta á einni kvöldstund.
 
  Þorrablótin #2

Sælkeri vikunnar
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Ég fann þessa mynd á Netinu og fannst við hæfi að birta hana hér. ÞEssi kona er í þorrablótsnefndinni í Bolungavík. Amma hennar fór fyrir flokki kvenna þar í bæ fyrir mörgum áratugum sem tóku upp á því að halda þorrablót. Þá voru það konurnar í plássinu sem sáu um alla framkvæmd skemmtunarinnar og buðu körlunum að koma. Skemmtunin var eingöngu fyrir fólk í sambúð og konurnar áttu að klæðast íslenskum þjóðbúningi. Þessar hefðir hafa svo viðhaldist og enn í dag er það eingöngu hjón og annað sambúðarfólk sem hefur aðgang að þessari aðalskemmtun fólksins í Bolungavík á ári hverju. Þetta er nú algjör tímaskekkja, það verður ekki annað sagt! En mamma fer í upphlutinn í kvödl og pabbi fer íslenska hátíðabúninginn. Flestir karlarnir í Víkinni tóku það upp fyrir nokkrum árum að vera eins klæddir á þessari skemmtun. Það setur skemmtilegan svip á salinn.

Við Gréta fórum einu sinni á þetta blót. Það var árið 1999, þegar Hákon var rétt rúmlega eins árs. Þá var Peder Kraack heima hjá okkur að passa hann. Við vorum í trogi með Steingrími sjúkraþjálfara og Sigrúnu Elfars, Gunnari Torfa og Hildi Kristínu og Magnúsi Pálma og Önnu. Í kvöld förum við í fyrsta sinn á þorrabót síðan 1999. Nú verðum við í trogi með hjónunum á Engi, Sigrúnu og Ingólfi; hjónunum á Akri, Köllu og Tóta og hjónum úr Skálholti, Hilmari og Hófí. Ég er barasta farinn að hlakka til!
 
þriðjudagur, janúar 17
  Þorrablótin
Þorrablótin fara nú fram næstu helgar. Um næstu helgi verður blótað hérna í Aratungu. Við ætlum að skella okkur. Helgin þar á eftir blóta íbúar Mosfellsdal. Þeir höfðu vit á að fá almennilega hljómsveit til að spila undir dansi, þannig að ég verð líka þar.
 
laugardagur, janúar 14
  Nýtt tæki

G5 mynd
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Það er komin borðtölva á heimilið.

Þegar ég fékk mér fartölvuna gerði ég samning við vinnuveitanda minn um þau kaup. Sú tölva er vinnutækið mitt. Ég borga fyrir hana 2000 krónu leigu á mánuði í 3 ár. Eftir það er tölvan mín eða ég skila henni inn og geri nýjan samning. Síðan ég fékk þessa tölvu hefur ekki verið önnur tölva hérna heima. Og þegar ég er í vinnunni hefur verið tölvulaust á bænum. Það hefur gert Grétu erfitt fyrir í starfi hennar. Hún notar tölvuna og tölvupóst svo mikið í samskiptum við þá sem hún á í samstarfi við og við þá sem eru að eiga við hana viðskipti, fyrir nú utan alla svona persónulega tölvunotkun sem kemur vinnunni ekkert við. Nú hefur verið bætt úr þessu.

 
fimmtudagur, janúar 12
  Jóhannes Jósefsson

Jóhannes Jósefsson
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Ég get ekki hætt að hvetja menn til að lesa bókina um þennan kappa. Ég las hana fyirr um það bil ári síðan og skemmti mér svo vel. Ég er enn að hlæja að sumu sem ég las þar. Ævi Jóhannesar Jósefssonar er ekki bara skemmtilegt söguefni heldur er bókin snilldarlega vel skrifuð. Höfundur hennar er Stefán Jónsson. Bókin heitir bara Jóhannes á Borg og hún hlýtur að vera til á bókasafninu þínu. Hún fer barasta í sama flokk hjá mér og BIblían og Njála, eða svona næstum því. Hún byrjar svona: „Ég er Jósefsson og er fæddur í jötu."
 
  Bætt vinnuaðstaða
Á morgun verður vígð nýbygging við skólann okkar í Reykholti. Í næstu viku mun ég flytja með umsjónarbekknum mínum í nýtt kennslurými. Um leið ætlum við, ég og samstarfsfólk mitt í 5. - og 6. bekk, að breyta skipulaginu á kennslu þessara hópa. Við ætlum að vinna meira saman með allan hópinn en við höfum gert og vera duglegri að mynda litla hópa sem einn kennari vinnur með að ákveðnum námsþáttum eða viðfangsefnum. Að þessu höfum við verið að vinna um nokkurt skeið og nú fer sem sagt að koma að tímamótunum.

Það verður athöfn hér í skólanum á morgun. Hringur verður með mér en þau hin fara á Selfoss. Gréta ætlar að afhenda mynd sem hún var að selja og fara með Hákoni í hóptíma í tónlistarskólanum.
 
þriðjudagur, janúar 10
  Vindlareykingar
Einu sinni létu Agnar Gunnars og Egill Hraunbergs mig reykja vindil. Ég var á þessum óþolandi aldri þegar maður spyr og spyr og spyr og spyr og getur orðið ansi uppáþrengjandi í félagsskap sér eldra fólks. Þeir Agnar og Egill voru orðnir nokkuð fullorðnir. Kannski rétt tæplega þrítugir og voru sennileg farnir að reisa húsin sem standa þarna alveg eins, hlið við hlið, uppi í Tröð. Það var sumar og gott veður (eins og sumrin eru í Víkinni) og þeir sátu á girðingunni hjá Helgu og Gunnari Halldórs og reyktu vindla. Ætli ég hafi ekki verið að skammast í þeim fyrir þennan ósið eða verið orðinn fullspurull um allt og ekki neitt. Ég man það ekki. En alla vega létu þeir mig púa vindil og hlógu svo eins og vitleysingar. Hvort þessi reynsla varð til þess að ég hef aldrei vanið mig á að reykja veit ég ekkert um, en ef ég tryði því væri sagan orðin ægilega flott.
 
  Stóra þríhjólið
Þetta þríhjól sem við höfðum heima til að æfa okkur á að hjóla var alveg meiriháttar fyrirbæri. Það var stórt og með loft í dekkjunum og keðju. Þetta var bara eins og mjög gott og vel smíðað hefðbundið reiðhjól, nema þetta var þríhjól. Ég hitti einu sinni strák úr nágrenni Holtastígsins sem er miklu eldri en ég og eldri en Atli bróðir sem minntist þess sérstaklega hvað honum hefði þótt þetta hjól sem við bræðurnir lékum okkur á vera flott. Og hann margsagði mér það! Við hittumst á Vagninum á Flateyri á trúbador árunum mínum, það skýrir hver vegna hann sagði mér þetta oft. Þetta var Beggi bróðir hans Omma Dadda.

Þegar ég var púki og var að læra að þekkja hjátrúna, sem krökkum þykir svo skemmtileg, var mér sagt (og okkur litlu krökkunum í götunni) að Beggi bróðir hans Ómars hefði drepið járnsmið og síðar sama dag hefði hann hjólað fram af Brjótnum.
 
sunnudagur, janúar 8
  Að þekkja bíl af hljóðinu
Það var annað sem ég gerði oft þegar ég var að mála húsin í Víkinni. Það var að æfa mig að þekkja bílana í bænum af hljóðinu í þeim einu saman. Það er ekki hægt að að snúa sér við í hvert sinn sem bíll ekur fram hjá, þá miðaði manni lítið með verkið. En ég lék mér að þessu; að giska í huganum á það hvaða bíl væri ekið hjá. Ég var mjög í góður í þessu. Að vísu eru ekkert svakalega margir bílar á ferðinni á venjulegum virkum degi í Bolungavík. Og svo fer maður fljótt að þekkja hver ekur hvaða leið og á hvaða tímum dagsins. Þá kemur aksturslagið líka upp um ökumennina. Fljótlega var ég farinn að þekkja bíltegundir af hljóðinu og var næstum óskeikull í þem efnum, en stundum gat ég líka vitað hver væri undir stýri.

Ég veit ekki af hverju ég hef verið að pæla í þessu. Sennileg ahef ég gert þetta til að láta mér ekki leiðast, einn allan daginn og svona. ég hef nefnilega aldrei haft nokkurn áhuga á bílum eða neinu þeim tengt. Nema þetta hafi verið áhrif úr frumbernsku. Þá þurftum við börnin á Holtastígnum að læra að forðast ákveðna bíla. Pétur Guðni ók stórum flutningabílum oft inn í götuna og var þá gjarnan að snúa þeim þar við. Það gat verið varasamt að hætta sér of nærri þá. Bjarni Jóhanns var svakalegur töffari þegar ég var smákrakki að leika mér úti á götu. Hann ók geyst á amerískum kagga og hafði hægri höndina ofan á stýrinu en hina út um gluggann og studdi sér við þakið. Ég man reyndar ekki eftir að hann hafi gert nokkurn óskunda með ökulaginu. En einu sinni keyrði Magga systir hans í veg fyrir hann á horninu við húsið heima. Mér finnst eins og ég muni rétt að Bjarni hafi þá sagt við hana: „Helvítis fíflið þitt!"

En lang, langhættulegasti ökumaðurinn í götunni var Einar gamli Guðfinnsson. Holtastígurinn var ekki lokuð gata fyrr en einhverntíma eftir 1980 þannig að meðan hún var enn opin í báða enda fór gamli maðurinn oft framhjá húsinu heima á leið heim til sín. Og okkur krökkunum var kennt að þegar hann kæmi á Fíatnum ættum við að gæta okkar sérstaklega. Einu sinni kom hann upp götuna þegar ég var að hjóla á stóra þríhjólinu, sem Bjarni móðurbróðir hafði keypt handa Atla í siglingum, varð mér svo mikið um að ég hjólaði á húsvegginn heima og slasaði mig. Ég hef verið þriggja eða fjögurra ára. Mér finnst ég muna eftir þessu, en sennilega hefur mér bara verið sagt svo oft frá þessu að mér finnst að ég muni þetta.
 
laugardagur, janúar 7
  Útvarpið og minnið
Rosalega finnst mér skemmtilegt að geta farið á vef útvarpsins og hlustað á það sem mér þykir áhugavert og spennandi þegar mér sýnist svo. Í mínu starfi gengur ekki að vera að hlusta á útvarpið í vinnunni. Ólíkt því sem gerist í þegar ég er í málningunni. Þá hefur það oft verið svo að maður hefur haft útvarpið í gangi allan daginn. Ég er einn af þeim sem læri vel með því að heyra þannig að margan fróðleik hef ég fengið í kollinn á mér fyirrhafnarlaust á fullu kaupi við að mála glugga, eða þak vestur í Bolungavík. Það er skemmtilegt hvernig minnið vinnur. Þegar ég hugsa um eitthvert ákveðið hús í Bolungavík man ég strax eftir að hafa málað það, með hverjum ég var að vinna þar og oft hvað var í útvarpinu. Sumt man ég meira að segja þannig að ég man við hvaða glugga hússins ég var að vinna við þegar ég heyrði eitthvað tiltekið sagt í útvarpinu og sumt af því get ég munað orðrétt.

Það geta allir sagt frá einhverju svipuðu. Það þekkja það allir að þegar þeir heyra eitthvert lag þá muna þeir eftir einhverju öðru um leið. Það getur kannski verið einhver sem þeir þekkja eða ökuferð, lykt, hús o.s.frv. Ég man hvar ég var þegar það kom í fjölmiðlum að John Lennon hefði verið myrtur. Pabbi og nánast öll hans kynslóð man eftir hvar hún var stödd þegar það komu fréttir í útvarpinu um að JFK hefði verið skotinn.

En það var útvarpið já. Af vefupptökusíðum útvarpsins er ég nýlega búinn að heyra skemmtilegt viðtal við Agnar Gunnars og Döllu, þátt um skrif Jóhanns Hjálmarssonar um sjósókn frá Bolungavík, þátt um för íslenskra glímumanna á Ólympíuleikana í London 1907, símahrekki á Fm 957 og viðtal við handboltakappann Ólaf Stefánsson.
 
föstudagur, janúar 6
  Ælupest og listmunasala
Hringur litli vaknaði snemma í morgun og ældi. Svo kom önnur buna seinna. Greyið litla! Svo sofnaði hann á áðan í svona korter - hann lét það duga. Hann er slappur núna. Ég er heima hjá honum. Gréta þurfti að fara til tannlæknis og taka niður sýningu sem hún var með á Selfossi í desember.

Það seldist ágætlega hjá henni og góður rómur gerður að myndunum hennar. Það var gaman að flestir sem keyptu af henni núna eru að kaupa af henni í fyrsta sinn. Þetta er fólk sem við þekkjum ekki. En svo kynnist hún þessu fólki oft aðeins. Sumir vilja fá hana heim og sýna henni hvað myndin fer vel á veggnum eða vilja skipta um mynd að því að þá grunað að önnur mynd af sýningunni færi betur á veggnum.

Svo kemur hún heim og segir mér allt um það hvað hún hafi verið í æðislegu húsi. „Það var svo flott hjá þeim". Svo er öllu lýst í smáatriðum. Þetta er svo spennandi hjá henni að okkur er farið að langa að byggja og það ekkert venjulegt hús - það verður höll og ekkert minna.
 
mánudagur, janúar 2
  Sandra Dögg & Perla María

Sandra Dögg & Perla María
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Í fyrstu færslu ársins óska ég móðurbróður mínum, Jóni Óla, til hamingju með 45 ára afmælið. Svo segi ég líka frá því að þessa dagana er hjá okkur frænka krakkanna, Sandra Dögg Birkisdóttir. Hún er systurdóttir Grétu. Foreldrar hennar og litla systir eru í Boston í USA á sjúkrahúsi. Það er verið að laga hjartað í litlu systur. Sandra Dögg er svotil jafngömul Hringi svo hún fellur vel inn í rútínuna hjá okkur. Þau gera allt saman og á sama tíma; hún, Hringur og Perla María. Það er í sjálfu sér ekkert svo mikil breyting fyrir okkur að bæta á okkur svona einu barni. Það hlýtur að vera meira mál fyrir afana og ömmurnar sem hafa sofið nokkurn veginn í einni lotu á hverri nóttu í áratugi og hlustað á kvöldfréttirnar óáreitt. Hér er mynd sem ég tók af þeim frænkunum í dag þegar þær komu inn frá því að hafa verið úti að leika sér með Grétu.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]