Tilraunavefurinn
fimmtudagur, janúar 31
  Þetta er mjög fyndið
Af síðu Baggalúts í dag:

„Egill Skallagrímsson
egillskall.omniblog.no

Leið á lífi Breiðný
liggur hás í ræsi.
Frægðar fall af stalli
– fokk hvat þetta sökkar."
 
miðvikudagur, janúar 30
  Hver er Víkarinn? (önnur vísbending)
Það eru fáar ágiskanir enn sem komið er. Ég held þá áfram og er að hugsa um að hafa næstu vísbendingu þannig að sá sem nefnir sig Hannibal hér á athugasemdakerfinu eigi séns í þetta skiptið. En hann er líka gamall íþróttamaður og er frá Hnífsdal, en ættaður úr Víkinni í móðurætt.

Víkarinn sem ég spyr um var á sínum unglinsárum, og fram á fullorðinsaldur mikill íþróttamaður. Hann lagði stund á sund, skíði, fótbolta og körfubolta. Ég hygg til að mynda að fáir Bolvíkingar hafi náð eins miklum frama í körfuboltanum og hann. Hann hefur leikið með liði (eða liðum) í efstu deild. Hann vann til verðlauna í flest skipti sem hann tók þátt í íþróttakeppni. Á skíðunum hafði þessi íþróttamaður fallegan og yfirvegaðan stíl. Hann er ekki eini íþróttamaðurinn í fjölskyldu sinni. Á vestfirskan mælikvarða eru fleiri afreksmenn í íþróttum í þeirri fjölskyldu. Foreldrar hans sóttu jafnan velflesta íþróttaviðburði í bænum og lögðu oft land undir fót í þeim tilgangi að fylgjast með keppni annars staðar á landinu. Hann heitir tveimur nöfnum.

Hver er Víkarinn?
 
þriðjudagur, janúar 29
  Hver er Vikarinn?
Það er orðið langt síðan ég hitti Bolvíking á förnum vegi. Ég er hreinlega farinn að finna fyrir fráhvörfum vegna þess að ég hef ekki skrifað lengi lengi færslu undir fyrirsögninni „Hver er Víkarinn?" Þess vegna verður núna færð á síðuna spurning um hvaða Víkara ég fann á Skype í gærkvöldi.

Við feðgar vorum að tengjast veröldinni með þessum snilldarbúnaði á dögunum. Ef þið viljið slá á þráðinn erum við þarna undir nafni Hákonar Karlssonar.

En Víkarinn sem ég hringdi til í gær:

Þessi Bolvíkingur er Víkari í báðar ættir og raunar eru báðir foreldrar hans það líka. Þess vegna er það svo að í frændgarði
hans er annar hver íbúi staðarins. A.m.k. fjórir í gamla bekknum mínum eru þeim hópi.

Hann náði góðum árangri í mörgum íþróttagreinum á uppvaxtarárunum.

Hann lærði á hljóðfæri.

Hver er Víkarinn?
 
mánudagur, janúar 28
  Tórum
Systir mín hringdi í mig. Hún hélt að það hlyti að vera eitthvað að úr því ég hafði ekki skrifað færslu í nokkra daga.
Það er sem sagt allt í lagi með okkur öll. Reyndar hafa yngri krakkarnir verið veikir dögum saman. En eftir að þeir fengu lyfjameðferð hafa þeir smám saman verið að ná heilsu. Fóru í leikskólann í dag og hvaðeina.

Hér hefur snjóað eins og annars staðar á Suðurlandi. Færðin hefur verið heldur leiðinleg af þeim völdum. Skólanum var meira að segja aflýst tvo daga í vikunni sem leið.

Þorrablótið er afstaðið. Það var þrælskemmtilegt.

Haldiði að það yrði bein útsending frá sveitarstjórnarfundi hér í Bláskógabyggð ef það yrðu meirihlutaskipti á miðju kjörtímabili?
 
miðvikudagur, janúar 23
  Sjörklípuaðferðin

Baggalútur skrifar hér um það að hann skilji ekki hvað átt sé við þegar talað er um pólitík og smjörklípur í einhverju óræðu samhengi. Ég hef nú aldrei tekið eftir þessu orði í umræðunni. En ég heyrði viðtal í Kiljunni við Hannes Hólmstein vegna útgáfu myndabókar um Davíð Oddsson þar sem Hannes útskýrði hvernig þetta orðasamband komst inn í íslenska pólitík. Það mun Davíð hafa lært af ömmu sinni. Hún mun hafa notað þetta þannig að það sem hún ræddi um líktist þeirri aðferð sem mun hafa þekkst á gömlu íslenskum heimilum; að stinga smjörklípu upp í einhvern til að fá hann til þess að þegja, ja nú man ég ekki hvort það var geltandi hundur eða grenjandi smákrakki sem þetta átti við um. Hugsunin er sem sagt sú að sá sem smjörklípuna fær verði svo upptekinn við að njóta þessa góða bragðs að hann gleymi því yfir hverju hann var að væla. Þetta tíðkast víst í pólitíkinni.
 
mánudagur, janúar 21
  Af Youtube
Þessi strákur er 14 ára.
Hann er mjög flinkur spilari. Hann spilar líka á fiðlu og gítar, en mandólínið er aðalhljóðfæri hans.
Mig langar að reyna að komast á námskeið þar sem þessi lærði í fyrra. Eftir að hafa heyrt þetta og fleira frá honum er ég ekki alveg eins viss um að ég hafi nokkuð erindi á það. Ef menn geta spilað svona vel 14 ára hvað gera þá jafnaldrar mínir? En sjáum nú samt til, Kannski ég skelli mér bara.

Það er eitt myndbrot af Youtube í fyrirsögninni og hér er svo annað.
 
  Skemmtilegt
Það er fámuna tilgangslaus iðja að blogga og álíka tilgangslaust að lesa bloggsíður. Ég ætla nú samt ekkert að ráðleggja þér að hætta því nú á stundinni. Sjálfur geri ég hvort tveggja og oft eyði ég meiri tíma í þessa tilgangslausu iðju en ég ætti að gera. Stundum er þetta svo skemmtilegt. Eins og þegar maður rekst á gullkorn eins og þessi:

Ég las færslu á bloggi blaðamanns og sjánvarpsmanns um að eftir að hafa tekið viðtal við Garry Kasparov og Bobby Fisher sé hann staðráðinn í að kenna syni sínum ekki skák.

Ég hef lesið spádóma um Framsóknarflokkurinn muni ekki ná því að verða 100 ára. Því hefði ég líka spáð hefði ég aldrei átt heima í sveitinni. En hér í sveitinni eru framsóknarmennirnir fleiri en rollurnar. Þeir vita ekki, frekar en aðrir Íslendingar, hvað það þýðir að vera framsóknarmaður, en þeir eru það engu að síður. Og þeir eru sauðþráir í þokkabót. Það verður Framsóknarflokkur áfram. Ég veit þið skiljið það ekki - en ég er alveg viss. Það eru meiri líkur á að bloggið leggist af en að Framsóknarflokkurinn leggi sig niður.

Fótboltaáhugamaður einn var orðinn svo vanur þvi úr Séð og heyrt að aldur þess sem um væri fjallað stæði i sviga á eftir nafni hans (Bubbi (51)) að hann hélt að í fótboltafréttunum táknaði talan í sviganum það sama: „Mörk Manchester skoruðu Rooney (23) og Giggs (34)". Þetta fannst honum alveg geta staðist. En „Ronaldo (90)" gat bara ekki passað.
 
föstudagur, janúar 18
  Stálið mætir í EM stofuna

Mesta íþróttanörd landsins verður í sjónvarpinu á sunnudaginn. Kristján Jónsson verður sérfræðingur í EM stofunni. Kannski hann fari yfir feril sinn sem handboltastjarna í Herði á Ísafirði og ÍR í Reykjavík. Hann var hornamaður. Ég sá hann ekki leika með þeim liðum. En ég er nokkuð viss um að hafa verið fyrsti handboltaþjálfarinn sem hann hafði. Það var í UMFB. Þá var hann gríðarlega áhugasamur og æfði upp fyrir sig, með eldri drengjum. Hann var sérstaklega útsjónarsamur og snjall að skjóta á markið. Kunni að setja snúning á boltann og alls konar þannig listir fór hann létt með.

Ég tel víst að íþróttafréttamennirnir hjá RÚV muni ekki reka Kristján Jónsson á gat þegar kemur að handbolta. Hann getur sagt þeim margt um íþróttina sem ekki er á allra vitorði.

Myndina af KJ tók ég í algjöru leyfisleysi af vef annars íþróttafréttamanns, Elvars af Skaganum.
 
  Spaugileg innsláttarvilla

Reimar á Hreggnasanum var valinn Víkari ársins af vefmiðlinum Víkari.is., sem er einn af mínum uppáhaldsfjölmiðlum. Þar rak ég augun í þetta:

„Einnig var hann fyrstur á staðinn er bátur strandaði við Klakka og dró Reimar bátinn til hafnar á Ísafjörð, en báturinn marraði í kaffi alla leiðina..."

www.vikari.is
 
  Ferðadagbók
Hér er mikil og löng lesning. Sennilega nennir enginn að lesa þetta. Enda ekki til þess ætlast - ég var bara að hugsa til mömmu. Hún nennir að lesa.

Þetta er sem sagt ferðasaga sem einn ferðafélagi okkar frá Ítalalíuferðinni sl. sumar, Skúli Sæland, ritaði samviskusamlega.
 
miðvikudagur, janúar 16
  Bók og brennivínssjúklingar


Ég var að lesa bók Einars Más Guðmundssonar, Rimlar hugans. Það er fjári vel skrifuð skrudda. Hún hélt mér vel og mér þótti hún, ja kannski ekki skemmtileg, en áhugaverð, og það er ánægjuleg upplifun að lesa vel skrifaðan texta. Hún fjallar um drykkjusýki. Maður hefur nú lesið nokkrar bækur um það efni. Það er einhverra hluta vegna þannig að hún vekur oft hjá mér einhvern áhuga, þótt ég sé nú afar þakklátur fyrir að vera laus við hana.

Þeir sem taka á drykkjusýki virðast þurfa að skoða sjálfa sig svo ítarlega, bæði til að átta sig á eigin veikindum og ekki síður til að byggja sig upp og læra að þekkja vítin til að varast þau. Það er forvitnilegt að lesa um slíka sjálfskoðun þegar hún er almennilega skrifuð. Það geta allir fundið samsvörun við sjálfa sig í þessum pælingum, hvort sem þeir eru alkar eða ekki alkar. Þegar ég les svona bókmenntir verður mér líka hugsað til þeirra alka sem ég þekki. Þessi sjúkdómur er alveg makalaus. Honum fylgir afneitun og lygar. Duglegastir eru drykjusjúklingar að ljúga að sjálfum sér. Þeir eiga svo auðvelt með að benda á hvernig það er öðru að kenna en því að þeir eru drykkjusjúklingar hvað þeim líður illa og þeir eiga létt með að komast að þeirri niðurstöðu að þeir séu beittir órétti.

Vinur minn einn hefur margsinnis leitað sér lækninga við þessum sjúkdómi og það er svo merkilegt að jafnvel þótt við séum ekki í sérstaklega miklu sambandi þá tekur það mig ekki nema nokkrar mínútur í símtali að komast að því hvernig heilsa hans er þá stundina. Hvort hann er að standa sig, á niðurleið eða hreinlega illa settur af langvarandi neyslu áfengis. Þó er náttúrulega ekki mark takandi á orði sem hann segir, ef hann er þannig stemmdur. Hann hefur hvað eftir annað talað sig inn á þá skoðun að hann sé ekki veikur fyrir víni. Það getur meira að segja liðið talsverður tími þar sem hann er edrú en er ekki lengur sannfærður um að hann sé áfengissjúklingur. Þá veit ég að það styttist í fallið - og það hefur staðið heima. Þessa stundina gengur honum vel. Sennilega betur en nokkru sinni áður.

Annar alkahólisti úr vinahópnum hefur aldrei leitað sér lækninga við drykkjusýki, Hann sér ekki að það ami nokkuð að sér. Ég get ekki skilið það. Hann er orðinn svo vanur að grípa til lyga, bæði í þeim tilgangi að breiða yfir drykkju og skandala sem eru fylgifiskar hennar, og líka bara svona hversdags, um eitthvað sem engu skiptir, að stundunm er ekki nokkur leið að treysta því hvort einhver meining er á bak við það sem hann segir. Við lestur Rimla hugans var mér hugsað til hans í hvert skipti sem höfundur bókarinnar fór að skrifa um sjálfan sig og hvernig hann fór með áfengi og áfengið fór með hann.

Frændi minn einn sem hringir oft í mig gerir sér grein fyrir því að hann ráði ekkert við að drekka. Hann er búinn að drekka allt frá sér; heilsuna, fjölskylduna, starfsframann, sjálfsvirðinguna og heilmikla peninga. Hann segist ekki þora í meðferð. Telur að hann myndi ekki þola niðurbrotið sem þar eigi sér stað. Ég veit ekkert um það. En það er búið að vera sorglegt að horfa upp á hann fara svona með sig. Kannski er þetta svipað því og að standa í landi og horfa á menn drukkna úti á sjó og geta ekki komið þeim til bjargar vegna veðurs eða annarra aðstæðna. Kannski. Alla vega er mér ljóst hvert stefnir hjá þessum frænda mínum sem mér þykir ákaflega vænt um. En það hefur verið löng leið og ekkert víst að henni fari að ljúka. Áfengið getur verið mjög lengi að drepa fólk.

Þetta eru ekki skemmtileg mál. En það er alltaf jafngaman að heyra og lesa um fólk sem tekst að losa sig við áfengi. Það er alveg á hreinu að það er ekki einfalt mál. Ég mæli með bókinni.
 
  Pólitískar embættisveitingar
Tónlistarmenn að blogga um pólitískar embættisveitingar:
Tékkið á linki hér til hliðar þar sem stendur Orri. Og svo er annar góður ef smellt er á fyrirsögnina
 
þriðjudagur, janúar 15
  Það snjóar
Það snjóar og snjóar í Biskupstungunum í dag. Það þurfti meira að segja að skafa snjó af stéttinni utan við dyrnar hjá okkur í morgun. Þetta veðurlag slær á heimþrána. Hér hefur eiginlega ekkert snjóað síðan ég fluttist hingað fyrir þremur og hálfu ári. Kannski það hafi tvisvar sinnum gert smáskot og svo hefur hlýnað og bráðnað fljótt aftur.
 
mánudagur, janúar 14
  Doktor Gunni
Ég held ég hafi nefnt það áður hér á blogginu hvað mér þykja lög Dr. Gunna í Laugardagslögunum á RÚV sorglega leiðinleg. Eins og ég hef haft gaman af lagasmíðum hans í gegnum tíðina. Allt frá því ég kynntist fyrst lögum hljómsveitanna Bless og S/H Draums. Ég fílaði líka Unun og hljómsveitin sem hét bara Dr. Gunni finnst mér best af þessu öllu. Nú móðgast einhverjir gamlir Bless aðdáendur - en ég er samt á þessu. Það smellur eitthvað í þeirri sveit og platan þeirra er til vitnis um það. Og júróvísjónlagið í fyrra þótti mér frábært - en núna er ég alveg illa vonsvikinn með minn mann. Og nú komst eitt þessara leiðinlegu laga áfram í keppninni um framlag RÚV til Júróvísjón. Ja, hérna!

Mér fannst lagið hennar Hafdísar Huldar allt í lagi - Fabúlulagið fannst mér bara ágætt.

Eina bandið sem Doktorinn hefur verið með og ég hef séð leika læf, alla veg a svo ég muni eftir því, er S/H Draumur. Ég sá þá reyndar aldrei á meðan þeir störfuðu. Þekkti bara nafnið þá - ekki tónlistina. En svona sirka ´92 eða ´93 héldu þeir tónleika í Tunglinu. Þetta var af einhverju tilefni. Það voru bara þessir einu tónleikar sem þeir héldu í það skiptið og þeir fylltu húsið. Ég held að það hafi aldrei annar eins fjöldi komið saman til að sjá þá og heyra á meðan þeir störfuðu - en í þetta skiptið fylltist húsið. Þetta voru skemmtilegir tónleikar. Alveg meiriháttar góðir bara og fín stemmning. Svo sá ég alla vega einu sinni - ef ekki oftar - einmenningsbandið Dr. Gunna koma fram. Það var sem sagt Gunni með rafmagnsgítar og trommuheila, gott ef hann kallaði ekki trommuheilann Kalla! Það fannst mér mjög leiðinlegar uppákomur. Mér tókst ekki að innbirgða þessa músík þannig matreidda. Einu sinni hituðum við í hljómsveitinni Abbababb upp fyrir hann á tónleikum á Akranesi. Við vorum óhemjuslappir í það skiptið. Það var eitthvert ólag á hljóðkerfinu og ég man að gripið var til þess ráðs í miðju prógrammi að setja mig á rafmagnsgítar, sem virkaði ekki - enda kunni ég ekkert að meðhöndla þannig hljóðfæri. Þá skiptum við Svarti-Pétur, ég fór á bassann, en hann á rafmagnsgítarinn - en það var nú ekkert skárrra. Kannski var þetta bara ekki nógu góð upphitun fyrir Gunna.

Þegar ég er að trúbadorast er ég alltaf tilbúinn að flytja lög frá S/H Draumi. En ég geri það nú ekki nema ég viti af einhverjum í salnum sem kann að meta það. Þá renni ég mér í Sóla eða Helmút á mótorhjóli. Við Venni tókum einhventíma gigg fyrir mörgum árum á Frábæ eða Mánakaffi á Ísafirði eða hvað það hét þá, þar sem það náðist stemning fyrir nokkrum af þessum lögum í einni beit.
 
miðvikudagur, janúar 9
  Í ruslið
Ég ætla að henda þessum færslum þar sem tónlistargetraunirnar eru. Ég kann ekki við að láta þetta liggja inni á síðunni hennar Grétu mikið lengur. Þetta kemur kynningu á verkum hennar lítið við. Látið ykkur ekki bregða.
 
föstudagur, janúar 4
  Lífæðin
Lílfæðin er í loftinu. Ég náði að komast að því hver Víkarinn var hjá húsmæðrunum, en það tók nú tímann sinn og ég efa ekki að einhverjir Víkarar hafi verið á undan mér að finna út úr því að Víkarinn var Ómar Skúlason.

En í kvöld er síðasti dagur útsendingarinnar. Ég sendi útvarpsstjóranum 3 tónlistargetraunir sem ég dundaði mér við að semja og taka upp fyrir jólin. Hann ætlar að spila þær á eftir. Ég sit alveg spenntur við tölvuna og hlusta eftir því hver viðbrögð hlustenda verða. Hversu vel þeim tekst að glíma við þessar þrautir. Það er hægt að hlusta á Lífæðina á slóðinni www.24.is núna til miðnættis.
 
miðvikudagur, janúar 2
  Hinu megin
Ég á von á símtali frá útvavarpinu Lífæðinni í Bolungavík. Það eru bolvískar húsmæður sem eru með þátt og ætla að hafa spurninguna „Hver er Víkarinn?" í þættinum. Mér skilst að ég eigi að ráða gátuna. Ég vona að ég ráði fram úr því. Annað væri nú skandall. Bara að þær verði ekki mjög kvikindislegar. Ég þekki núorðið ekki nema helming íbúa Bolungavíkur. Þær spyrja mig kannski um einhvern nýbúann. Nei, þetta verður nú vonandi einhver sem ég kannast við.
 
þriðjudagur, janúar 1
  Tvær bækur
Las báðar bækurnar sem ég fékk í jólagjöf. Var fljótur með þær. Fyrst las ég Arnald. Ekkert spes. Fannst hún aldrei ætla að byrja. Svo var það Hrafn Jökulsson. Helvíti skemmtileg og vel skrifuð bók.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]