Tilraunavefurinn
föstudagur, júní 20
  Farinn westur

Sungið á Klettinum
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Nú mun líklega ekkert gerast á þessari síðu fyrr en eftir mánaðamótin. Ég ætla að skreppa aðeins norður í land í dag og til baka á morgun. Annað kvöld leik ég með Sólmundi og einhverjum trommara sem hann þekkir í brúðkaupsveislu í Keflavík. Þar ætla ég að gista og fara svo beint á flugvöllinn. Ég flýg til Minneapolis og svo þaðan til San Fransisco. Þar gisti ég yfir blánóttina og hitti svo samnemedur mínu, þá Darren og Todd, á mánudaginn og ætla að verða þeim samferða til Santa Cruz.

Svo verður bara spilað og spilað og hlustað og hlustað í 6 daga. Svo lendi ég aftur í Keflavík snemma morguns daginn sem ég verð 35 ára. Hafið það gott.
 
fimmtudagur, júní 19
  17. júní, kannski var það árið 1981


Það var einu sinni á 17. júní, þegar ég var svona um það bil átta ára, að ég var staddur í lautinni sem er fyrir ofan brekkuna sem er notuð sem áhorfendastæði á íþróttavellinum á Skeiðinu. Það liggur troðinn vegarslóði upp í þessa laut og þennan dag höfðu bolvískir krakkar hjólað á hjólunum sínum alla leið upp í lautina og nokkrir hjólaeigendur voru eitthvað að spá í sjónræna þáttinn á þessum hátíðardegi og settu hjólin í standarana og höfðu röðuðu þeim þétt upp að hvert öðru, í beinni og fallegri röð. Meðan presturinn fór með bænarorðin, kirkjukórinn söng Guðvorslandsinn, fjallkonan las ljóðið, Sæsi afhenti verðlaun fyrir víðavangshlaupið og Bessi Bjarnason eða einhver annar skemmtikraftur að sunnan var eitthvað sniðugur var ég að leika mér í þessari áðurnefndu laut. Við þennan hjólastafla hitti ég Finnboga Sveinbjörns, sem þá hefur verið þetta 15 eða 16 ára. Hann stendur við annan enda þessarar reiðjólarunu og segir við mig glottandi, um leið og hann sýnir með handahreyfingu, að það yrði sniðugt og virkilega flott að sjá, ef hann ýtti aðeins á eitt hjólið því þá myndu þau öll detta hvert um annað.

Finnbogi var náttúrulega bara að grínast. Því hann er algjörlega hrekklaus maður og hefði aldrei gert svona lagað að gamni sínu. En það vissi ég ekkert þá. Í mínum augum var hann bara Bogi, unglingur sem stundum keyrði traktorsgröfu með sementspokum og sandhrúgu í skóflunni um götur bæjarins, og vann við að steypa bílaplön og hlaða bílskúrsveggi með sonum hennar Stínu á bókasafninu, þeim Magnúsi, Unna, Úlla og Bobba, sem fóru úr að ofan þegar sólin skein. Boga gat alveg verið alvara með þessum brandara sínum um að hrinda reiðhjólunum. Þess vegna sætti ég lagi þegar hann fór til að fylgjast með hátíðardagskránni og bjargaði hjóli sem ég þekkti í þessum stafla. Það var hjól Atla bróður míns. Boga skyldi ekki takast að skemma hjólið hans Atla. Ég faldi hjólið hans í skurði við veginn fyrir neðan íþróttavöllinn. Það hefur enginn séð til mín meðan ég var að bauka við þetta því allir voru uppteknir af skemmtuninni á íþróttavellinum. Svo fór ég bara að leika mér við Halla Pé eða Rúnar frænda minn og fannst æðislega gaman þennan dag. Kannski hef ég keppt í strigapokaboðhlaupi eða boðhlaupi þar sem reka átti nagla í rekaviðsdrumb. Sennilega hef síðan farið í kaffiboð til einhvers systkina hans pabba, því þau hittust yfirleitt heima hjá einhverju þeirra á 17. júni, því það var fæðingardagur Kitta Júl.

Um kvöldið fer Atli bróðir að tala um það við pabba að hann hafi ekki upplifað leiðinlegri þjóðhátíðardag. Allur dagurinn hafi farið í að leita að hjólinu hans. Og honum þótti sárt að hafa eyðilagt daginn fyrir fjölskyldu Einars vinar síns, því hún hafði tekið fullan þátt í leitinni að hjólinu. Það var búið að kemba bæinn. Fyrst þorði ég nú ekkert að segja. Þeir voru örugglega ekki í stuði til að skilja að ég hafði falið hjól bróður míns til að forða því frá ægilegum skemmdarvargi. En svo gat ég ekki annað en vísað þeim á hjólið. Ég man að þeir voru ekkert ánægðir með þennan greiða sem ég taldi mig hafa gert bróður mínum.
 
  Æfingin á pallinum og þjóðhátíðardagurinn

Hljómsveitin stillir sér upp
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Um síðustu helgi var boðað til útiæfingar hjá Bleki & byttum í Þorlákshöfn. Við það tækifæri stillti hljómsveitin sér upp til myndatöku. Þetta var reglulega skemmtileg æfing með grillmat og tilheyrandi í pásunni. Það eru myndir á myndasíðunni frá æfingunni.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þessarar hljómsveitar ætla ég að nefna þessar kempur á myndinni. Í efri röð frá vinstri: Keli, Hilmar Örn, Hermann og Jói. Fyrir framan þá sitja ég og Örlygur.

Það eru líka myndir á myndasíðunni frá lokaviðburði hátíðahaldanna hér í sveitinni. Það var grillveisla á Kaffi Kletti. Halldóra systir og fjölskylda flúðu Hafnarfjörð á þjóðhátíðardaginn og komu hingað til okkar og tóku þátt í fjörinu með okkur. Þau sáu t.a.m. þegar sveitarstjórnin vann okkur kennarana í fótboltaleik og komu með okkur í kvenfélagskaffiboðið í Aratungu.
 
föstudagur, júní 13
  Slúðrið í boltanum
Slúðrið um kaup og sölu leikmanna í enska boltanum nær hæstu hæðunum á sumrin. Yfirleitt er eitthvað að marka það sem maður les. Kannski svona 20% af því á sér einhverja stoð í raunveruleikanum. Ég hef nú gaman af því lesa þetta. En tölurnar legg ég ekki á minnið og ég man aldrei hvað leikmenn kosta eða hver er verðmætari en annar. Nú tek ég þó eftir því að mér finnst leikmenn sem pressan segir verðlagða hærra en Eiður Smári okkar, ekkert vera betri en hann, bara síðri leikmenn, í besta falli jafningjar hans. Peter Crouch er sagður falur fyrir 10 milljónir punda. Harry Redknapp hefur áhuga á að fá hann til Portsmouth. Hann er líka sagður vilja fá Eið Smára. En þyrfti ekki að borga nema 4 milljónir punda fyrir hann. Þetta þykir mér einkennilegt verðmat. Og til að toppa þetta hefur Liverpool sett 15 milljón punda verðmiða á miðjumanninn Alonso. Harry gæti því keypt fjóra leikmenn jafngóða Eiði Smára fyrir upphæðina sem sett er á Alonso. Þá er nýr stjóri Chelsea sagður hafa ótakmörkuð fjárráð til að kaupa þá leikmenn sem hann langar að fá nýja í liðið. Ætli Harry viti að Danni er samningslaus?
 
  Ferðalag Hákonar til Munchen
Það gekk ekki þrautalaust að koma Hákoni til Þýskalands. Nafn hans fannst hvergi á listum flugfélagsins yfi farþega í þessu flugi. Við vorum á vellinum rétt fyrir miðnættið og allar skrifstofur löngu lokaðar. Á síðustu stundu tókst að ná sambandi við neyðarnúmer þýska flugfélagsins og þar var hægt að finna hann og staðfestinguna fyrir því að hann hefði keypt miða. Hákon fékk svo fylgd beint inn í vél rétt áður en hún tók á loft.

Upphaflega stóð til að fljúga beint frá Keflavík til Munchen en því var breytt og það var millilent í Dusseldorf. Okkur hafði verið lofað að þar yrðu engin viðlíka vandamál vegna bókunarinnar. Nú væri þetta allt komið á hreint. En mér skildist á Hákoni í morgun að það hefði nú ekki alveg staðist. Ofan á þetta allt saman virðist hafa orðið seinkun á fluginu frá Dusseldorf til Munchen svo hann var ekki kominn þangað fyrr en einum og hálfum tíma síðar en áætlað var. Það var lítið sofinn og þreyttur ferðalangur sem ég talaði við þegar hann var loksins kominn á leiðarenda í morgun.
 
fimmtudagur, júní 12
  Hugað að ferðalagi
Ég hef verið að spila slatta upp á síðkastið. Safna skotsilfri fyrir Ameríkuferðina, maður verður að geta keypt sér kúrekahatt. Í gær var ég að spila fyrir þýska ferðamenn í hvataferð, í síðustu viku spilaði ég fyrir svipaðan hóp. Á morgun er kráargigg á Kaffi Krús á Selfossi, um síðustu helgi var leikið hér heima í Reykholti. Í næstu viku verður fimmtudagskvöldið á kránni á Selfossi og svo brúðkaupsveisla með danstríói í Keflavík. Nóg að gera. Svo hef ég verið að reyna að skrapa inn það sem menn hafa ekki borgað mér síðustu vikurnar. Gengur misjafnlega. En þetta er allt að koma og sennilega verð ég kominn með nóg fyrir kúrekahatti undir lok mánaðarins.

Námskeiðið verður komið á fullt eftir tvær vikur. Nú er verið að senda mér gögn svo ég geti æft mig. En ég er svo upptekinn af ferðalaginu sjálfu að ég er bara að hugsa um það og undirbúa það. Það er nú ekki daglegt verkefni að ferðast, hvað þá til annarrar heimsálfu. En nú fer ég að grípa í mandólínið og æfa mig svolítið.

Svo er annað ferðalag í undirbúningi núna í dag. Hákon er að fara til Þýskalands í kvöld. Þar ætlar hann að vera lungann úr sumrinu hjá Gabríeli vini sínum. Hann fær far með hópnum sem ég var að spila fyrir í gær. Það verður skrítið að vera án hans í svo langan tíma. En hann hefur gott af þessu og vonandi verður þessi vist hans í Þýskalandi honum til gleði.
 
  Update
Gréta hefur verið að lagfæra síðuna sína. Nú er hún farin að fikta í þessu sjálf, sem er miklu meira viðeigandi en að ég sé að krukka í þessu. Sætt af henni að setja mynd af mér á forsíðuna!
 
miðvikudagur, júní 11
  Hver auglýsir svona?
Það var auglýsing í sjónvarpinu áðan. Söguþráðurinn var þessi: Hjón með ungt barn að tala saman í gsm síma. Stressið er mikið, það er verið að púsla saman kvöldinu. Allt á fullu, þau hvort á sínum bílnum, von á manni að gera við uppþvottavélina og ekkert búið að hugsa fyrir matnum. Myndvinnslan: Margir opnir rammar, hreyfing, hreyfing, hreyfing. Eins og í 24 þáttunum.

Ég beið spenntur eftir því hvað væri verið að auglýsa. Var farinn að gruna að þetta væri Bolungavikurkaupstaður að benda á ókosti hraðans í höfuðstaðnum fyrir heilbrigt fjölskyldulíf og auglýsa kosti búsetu í plássi á landsbyggðinni, búsetu í kyrrð og ró en þó með alla þjónustu við höndina - allt til alls í göngufæri. En þá mundi ég eftir að það er búið að skipta um taktík í pólitíkinni þar - svo það gat ekki verið. Kannski var þetta bara eitthvert annað sveitarfélag? Nei, nei, þá er þetta bara matarauglýsing. 1944.
 
  Um úrskurð aganefndar
Það tíska þessa dagana að fjalla um úrskurði aganefnda sérsambanda í íþróttahreyfingunni. Kristján skrifar afar áhugaverða færslu þar sem hann ber saman úrskurð aganefndar HSÍ við úrskurð aganefndar KSÍ í tveimur nýlegum líkum málum. Ég ætla að fjalla um annan úrskurð aganefndar KSÍ. Sá er strangur, en mér finnst það í góðu lagi, því brotið er alvarlegt og örugglega ekkert einsdæmi í hreyfingunni. Um er að ræða þjálfara og leikmann meistaraflokks ÍA í knattspyrnu kvenna. Leikmaðurinn lék leik með 2. flokki, sem þessi þjálfari stýrði líka, þrátt fyrir að vera orðinn eldri en leikmenn 2. flokks mega vera. Ég þekki leikmanninn, hann er gamall nemandi minn, afskaplega skemmtileg og vel gerð stelpa. En hefur svona heldur betur misstigið sig í þessu máli og skilið dómgreindina einhversstaðar við sig þegar hún ákvað að taka þátt í þessum gjörningi. Bæði hún og þjálfarinn hafa verið dæmd í langt keppnisbann og félagið sektað.

Ætli dómurinn sé ekki fordæmisgefandi. Og það góða við hann að nú hugsa menn sig tvisvar um áður en þeir leika þennan leik í knattspynuleikjum um allt land. Þessi leikur er víða stundaður. Eða var það a.m.k. meðan ég var að spila fótbolta. T.a.m. var einn frískasti knattspyrnumaðurinn á mínu reki í Bolungavík heldur lágvaxinn og hefði, miðað við hæð, vel getað verið þetta tveimur árum yngri en hann er. Það kom fyrir að þjálfararnir létu hann spila með yngri flokki og létu bara nafn einhvers annars á leikskýrsluna. Aldrei leið mér vel með þetta. Það er svo mikið óvirðing við íþróttina, félagið, andstæðinginn, svo ég tali nú ekki um iðkendurna sem þurfa að gefa eftir sæti sitt í liðinu vegna þessa svindls. Hefði ég frétt af svona löguðu þegar ég sat í stjórn Knattspyrnudeildar UMFB hefði ég lagt til að þjálfarinn yrði rekinn. Það er mikill skaði fyrir félagið þegur upp um svona lagað kemst. ÍA hefur ekkert með mann að gera í vinnu sem dettur í hug að gera svona lagað. Ég þekki svolítið til hjá félaginu og er nokkuð viss um að þessi þjálfari vinnur ekki meira fyrir ÍA. Leikmaðurinn tekur út refsinguna, en heldur svo vonandi áfram að leika knattspyrnu með meistaraflokki á næsta tímabili.
 
sunnudagur, júní 8
  Hver er Víkarinn?
Ég hitti Víkara sem var á röltinu hér í þorpinu í kvöld.

Vísbendingar:
Er í sumarbústað Landssambands lögreglumanna hér í Reykholti
Bað að heilsa Halldóru systur.

Hver er Víkarinn?
 
fimmtudagur, júní 5
  Fáein mandólínvídeó
Það styttist í námskeiðið og ég er farinn að hlakka til þess. Hér eru fáein áhugaverð myndbrot.

Sam Bush var að kenna á Mandolin Symposium 2007. En hann verður ekki meðal kennara þetta árið.

Aissa Lee getur spilað og sungið þótt hún sé ekki há í loftinu. Ég veit ekki hvort hún verður á námskeiðinu.

Mér skilst að mandólínið sé ekki hátt skrifað hljóðfæri í öllu snobbinu í klassíska geiranum. En það hafa þó verið skrifuð verk fyrir mandólín. Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur leikið þannig verk. Þá tóku einhverjir fiðlarar og víóluleikarar að sér að leika á mandólín. Hér er kammersveit að leika mandólínverk eftir Vivaldi.

Scott Gates er ungur og gríðarlega fær hljóðfæraleikari. Hér er hann að sýna færni sína. Ég held að þetta vídeó sé einmitt tekið á Mandolin Symposium 2007. Þar var Scott Gates meðal nemenda. Áhugasamir ættu að smella nafni hans inn í leitina á Youtube, því þá kemur ýmislegt í ljós. Hann hefur greinilega verið iðinn við spilamennsku síðasta árið.

Það eru ekki allir mandólínleikarar á Youtube góðir hljóðfæraleikarar. Þessi sýnir alla vega ekki neina færni í þessu myndbandi. En hljóðfærið er fallegt.

Chris Thile er svakafrægur mandólín leikari. Hann er með bluegrass band og svo virðist hann vera duglegur að spila klassísk. Hér er hann með bassaleikara. Hann gæti verið skyldur Ómari og Óskari Guðjónssonum.
Meira síðar.
Góðar stundir.
 
þriðjudagur, júní 3
  Gott útvarp
Það er verið að fjalla um eina af uppáhaldshljómsveitum mínum í sérstökum útvarpsþáttum á Rás 2 þessa dagana. Það er gamall skólabróðir minn sem hefur umsjón með þáttunum. Þetta er að sjálfsögðu Ný dönsk og Gulli Jóns. Mér finnst Gulli vinna þættina sérstaklega vel. Viðtölin eru góð og hann kemur með flotta vinkla í umfjölluninni um hljómsveitina. Gulli hefur alla tíð verið mikill aðdáandi þessarar hljómsveitar og gerði örugglega þátt um hana í Fjölbrautarskólaútvarpinu Blóminu, ef mig misminnir ekki. Þeir voru virkilegir aðdáendur Ný dönsk, hann og vinur hans, Gunnar Hjörtur. Það er hægt að hlusta á þættina á heimasíðu RÚV og hlusta næsta sunnudag. Ég held að það séu tveir þættir eftir.
 
  Veikur Hringur og bolvískar hljómplötur
Ringó er enn veikur. Það hefur dregið af honum. Hann heldur engu niðri. Hann er búinn að vera með þessa magakveisu síðan á föstudag.

Þau stórtíðindi urðu í síðustu viku að hljómsveit frá Bolungavík sendi frá sér plötu. Slíkt gerist ekki oft. Óli Kitt gerði plötu fyrir nokkrum árum og þar á undan gerðu Vagns- og Binnubörn tvær vinsælar plötur. Svo kom auðvitað út platan Í ræktinni með Kan 1984. Og Binni heitinn og Jómmi gerðu plötu hjá Hrólla í kringum 1990. Ætli þetta sé þá ekki upp talið. Svo hafa Bolvíkingar gert plötur þegar þeir hafa ekki verið búsettir í Bolungavík. Hrólli hefur gert sólóplötu, kannski fleiri en eina. Edda Borg hefur gert sólóplötu, barnaplötu sem meðal annars hefur að geyma slagara eftir Sossu sem hvert barn á Íslandi syngur oft og mörgum sinnum á skólagöngunni. Hreyfa litla fingur og Hérna koma nokkur risa tröll, hó,hó! Og ekki má gleyma Ödda frænda.

En nú er hljómsveit sem hefur starfað í Bolungavík í nokkra mánuði búin að taka upp plötu og gefa hana út. Ætli hún sé ekki meira að segja tekin upp og hljóðblönduð í Víkinni. Þetta er hljómsveitin Grjóthrun í Hólshreppi. Ég hef heyrt tvö lög og þau eru frábær. Ég þekki þá lítið þessa menn í hljómsveitinni og suma þeirra bara alls ekki neitt. Ég hef svo lítið verið fyrir vestan undanfarin ár. En ég ætla nú samt að kaupa þessa plötu, helst strax í dag.
 
sunnudagur, júní 1
  Sjómaður á þurru landi
Ég bið ykkur Bolvíkingar endilega að minnast á það við Halla Guðfinns þegar hann sést næst fyrir vestan að það hafi sést til hans skröltast á dráttavél á sjálfan sjómannadaginn og það lengst inni í landi. Það er fátt óvirðulegra í augum sjómannsins en að sitja í svona landbúnaðartæki. Mér sýndist hann skammast sín.
 
  Tónlistargetraun
Getraunin er erfið í þetta skiptið.
Í fyrsta lagi: Hver er tónlistarmaðurinn á myndinni?
Og í öðrulagi: Hvað kallast hljóðfærið sem hann heldur á?

Ein vísbending:
Með lagni má finna vísbendingar og hreinlega réttu svörin með svolitlu dundi hér á síðunni.
 
  1. júní
Til hamingju með daginn frænka.
 
  Hirðfífl
Var það ekki þannig við hirð konunganna í gamla daga að fíflið fékk fólkið til að hlæja jafnvel þótt það segði ekkert nema sannleikann? Stundum er ekki sama hvernig sannleikurinn í sagður. Baggalútur brá sér í hlutverk hirðfíflsins í tveimur fréttum á síðunni www.baggalutur.is í síðustu viku. Hér er önnur fréttin - hún fjallar fjölmiðla. Þetta er svo hin.

Þeir eru góðir.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]