Tilraunavefurinn
laugardagur, júlí 28
  Húsgangur

Margur sá sem dansar dátt
um dimmar nætur,
daginn eftir dapur grætur
og dregst með ólund seint á fætur.
 
föstudagur, júlí 27
  Fegurð Vestfjarða


Ég les stundum heimasíðu þessa manns sem ég þykist þekkja á mynd þessari. Bak við þetta gráa skegg held ég að sé að finna andlitið á Hlyni Þór Magnússyni frá Leirvogstungu í Mosfellssveit. Hlynur Þór er frændi hennar Grétu minnar. En við þekkjum hann nú ekki. En hann er Vestfirðingum mörgum kunnugur vegna þess að hann kenndi annað slagið við Menntaskólann á Ísafirði og var svo blaðamaður á héraðsfréttablöðunum þar vestra árum saman. Hlynur Þór er afburðastílisti.

Á síðunni hans (www.mable123.blog.is) sá ég link frá ljósmyndaranum Kjartani Pétri Sigurðssyni frá ferð hans á fisi vestur til Ísafjarðar. Hann skrapp þangað í rauðsprettu hjá Magga Hauks í Tjöruhúsinu í Neðsta. Kjartan Pétur tók ljósmyndir úr fisinu sem eru hver annarri flottari. Smellið á linkinn og gefið ykkur tíma til að líta fegurð Vestfjarða úr lofti.
 
miðvikudagur, júlí 25
  The Megas
Þegar ég sló Megasi upp í myndaleit á Vefnum (Google images search), áður en ég birti færsluna hér að framan, kom ýmislegt í ljós. Þar á meðal mynd af bringu með áletruninni The Megas og gítartegund með þessu heiti. Þetta er glæsilegur gítar. Sá sem ætlar að kaupa sér slíkan grip og flytja til landsins þarf að greiða fyrir það rúmar 700 þúsund krónur. Það hlýtur að vera góður gítar.

Ég tel litlar líkur á að Megas eigi eftir að sjást leika á Megas gítar.
 
  Útvarpsviðtal við Megas

Dr. Gunni var að hvetja lesendur bloggsíðu sinnar til að hlusta á viðtal Freys Eyjólfssonar við Megas sem var á dagskrá Síðdegisútvarpsins á Rás 2 í gær, þriðjudag. Það gerði ég. Viðtalið er átakanlegt fyrir Frey. Megas lætur hann hafa fyrir þessu.

Sá gamli er á stundum bitur út í nokkra einstaklinga í Útvarpinu og virðist ætla að taka það út á öllu liðinu sem þar starfar. Einu sinni var ég á æfingu með honum þar sem hann lék á alls oddi; sagði sögur og brandara, sagði kórstúlkunum til í söng og framburði gamalla orða sem þær ekki þekktu, Settist við flygil og spilaði fyrir þátttakendur æfingarinnar, var bæði glaður og skemmtilegur. Á æfinguna hafði verið boðaður Haukur Hauksson frá morgunútvarpi Ríkisútvarpsins. Á meðan á þessu stóð var hann þarna úti í horni að taka viðtal við gömlu Þeysarana, en þannig vildi til að þeir voru allir saman komnir í þessari hljómsveit sem þarna æfði. Því næst ætlaði hann að taka viðtal við Megas, en þá brá svo við að Megas sýndi Hauki ekkert af þessari þægilegu og kurteisu framkomu, skemmtilegheitum og kæti, sem hann hafði sýnt af sér aðeins fáeinum mínútum fyrr. Hann var bæði leiðinlegur og fúll við útvarpsmanninn og lét svo greinilega í veðri vaka að hann væri að trufla æfinguna. Aumingja Haukur vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og fékk ekkert af viti út úr tónskáldinu. Ég heyrði svo aldrei hvernig hann vann umfjöllun sína úr þessu. Það hefur eflaust verið vel gert, en erfitt hefur það verið. Svo mikið er víst.

Svona lét Megas við Frey í gær. Hann sneri út úr öllu sem hann sagði, þóttist ekki skilja spurningar hans og reyndi að slá hann út af laginu. Þar fyrir utan var hann greinilega undir áhrifum. Mér fannst Freyr bara komast ágætlega frá þessari erfiðu raun.
Þið sem nennið getið hlustað á þetta á Netinu á www.ruv.is.
 
þriðjudagur, júlí 24
  Nýtt mandólín

Svona hljóðfæri er á leiðinni til mín frá Ameríku.

Ég lét sem sagt verða af því að endurnýja. Ég er að vona að þetta sé ægileg fín græja. Það tók langan tíma að finna það og álíka langan tíma að ganga frá kaupunum og sendingunni til Íslands. Ég er sko hálfgerður nýgræðingur þegar kemur að viðskiptum við erlendar verslanir á Internetinu. En þetta á sem sagt að vera frágengið og mér var að berast tilkynning um að sendingin sé komin af stað til Íslands.

Gamla mandólínið mitt keypti ég í Kaupmannahöfn í ágúst árið 1992. Ég tók heilan dag í að leita að mandólíni. Hringdi fyrst í hljóðfæraverslanir og gekk svo góðan spöl. Eina mandólínið í búðinni, sem mig minnir að hafi heitið Musikværkstedet og var á Smallegade 25, keypti ég fyrir 150 danskar krónur og fékk gamlan og lúinn taupoka utan um það í kaupbæti. Það hljóðfæri er af Zegovia gerð (sem er merki sem ég þekki ekki og hef aldrei rekist á síðan). Taupokann, sem var merktur einhverjum Viggo, skreytti Gréta með tússpennateikningu og seinna stækkaði mamma hann fyrir mig svo hann passaði betur fyrir hljóðfærið. Því eftir að sett hafði verið pick-up í það lengdist það um sentimetra eða einn og hálfan og þá passaði pokinn illa fyrir það. Pick-up-inn og ísetninguna á honum gaf Gréta mér í afmælisgjöf þegar ég varð tvítugur sumarið 1993.


Hér er mynd af mér, Hemma og Jóni Árna. Þarna er ég að spila á gamla mandólínið mitt.

Ég er búinn að nota þetta mandólín frekar mikið. Fyrst var það bara notað í partíum og alltaf með hljómsveitinni Abbababb á Skaganum. Ég var fljótur að komast upp á lag með að spila hljóma á mandólínið og smám saman gat ég nú aðeins gert fleira og notað það til skreytinga í þessari músík með Abbababb. Svo liðu mörg ár sem ég spilaði lítið á mandólínið en í hitteðfyrra tók ég það fram aftur og er búinn að spila og spila og spila og taka miklum framförum. Ég hef verið svo heppinn að fá tækifæri til að spila alla vega músík með ólíkum tónlistarmönnum. Það er kominn tími á vissar endurbætur á mandólíninu mínu og þegar ég fór að kanna hvað það kostaði mig að kaupa í það nýja íhluti sem hefði þurft að láta skipta um í því kom í ljós að það svaraði ekki kostnaði. Þess vegna kaupi ég nú nýtt og gott hljóðfæri.


Þessi mynd af af rafmagnsmandólíni sem mér leist vel á og langaði svolítið til að kaupa. En ég hafði vissar efasemdir um gæði þess og eftir að hafa ráðfært mig við einn aðalmandólínsérfræðing landsins snéri ég alveg frá þeirri hugmynd að kaupa mér rafmafnsmandólín og valdi heldur þetta MK mandólín (reyndar eftir ábendingu sérfræðingsins). En þetta nýja mandólín sem ég er að fá er að sjálfsögðu hægt að tengja við magnara.

Í fyrrasumar keypti ég mér virkilega vandaðan og góðan kassagítar. Það er ofboðslega gaman að hafa yfir að ráða svona gæðahljóðfæri. Ég er ofboðslega ánægður með þann gítar. Ef til vill er það þess vegna sem ég kaupi mér nú alvöru mandólín. Þegar maður er búinn að kynnast af eigin raun muninum á sæmilegu hljóðfæri og virkilega góðu hljóðfæri langar mann alltaf að hafa gott hljóðfæri í höndunum.
 
  Dagbókarfærsla með mynd

Ég var að koma heim úr vinnu. Búinn að vera í 4 vikur við smíðar án þess að missa svo mikið sem fingur.
Í kvöld verður svo kóræfing.
Á morgun fer ég vestur með krakkana.
Svo áður en ég fer í kórferðalagið verð ég að ganga frá einu hljóðvinnsluverkefni sem ég tók að mér fyrir fólk sem var að opna aðstöðu til sýninga á hestum. Þegar það verður búið liggur leiðin til Milano, Rómar, Kaprí, Sikileyjar og fleiri staða á Ítalíu með þessu fólki sem er með mér á myndinni hér að ofan og nokkrum öðrum hressum Tungnamönnum.
 
mánudagur, júlí 23
  Sendið mynd
Krakkarnir mínir eru að fara vestur til afa síns og ömmu. Þá ætlar Hákon að leggja UMFB lið í fótboltamóti sem verður haldið í Víkinni á laugardaginn. Það verður gaman hjá honum. Þið Bolvíkingar verðið að taka af honum mynd og senda mér í pósti og netfangið karlinn@simnet.is

VIð Gréta ætlum til Ítalíu með Skálholtskórnum.

Tengdamamma verður eitthvað hér í húsinu okkar á meðan.
 
sunnudagur, júlí 22
  Yngri deildin

Perla María og Hringur
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Flottir krakkar
 
laugardagur, júlí 21
  唐子(からこ)-流し-兎-御凌(みそぎ)
唐子(からこ)-流し-兎-御凌(みそぎ) er titill á japönsku tónverki sem sonurinn minn var að setja á geisladisk sem hann var að búa sér til úr I-Tunes-inu í tölvunni minni. á plötunni hans eru líka tvö Elvislög, Rúdólf með Þeysurunum, Íslenskir karlmenn með Stuðmönnum, We will rock you og Blister in the sun, svo dæmi séu tekin.

Annars er Queen alltaf uppáhaldið hans, þótt smekkurinn sé svona breiður.
 
föstudagur, júlí 20
  Kórtónleikar í Skálholtskirkju
Þeir sem hyggja á bíltúr um helgina ættu að hafa í huga að á laugardaginn klukkan 17 verða tónleikar í Skálholtskirkju þar sem Skálholtskórinn syngur nokkur laganna sem búið er að æfa fyrir Ítalíuferð sem farin verður seinna í sumar. Dagskráin er reglulega vel samansett og tónlistin falleg. Ég vona að flutningurinn verði líka góður. Æfingin í kvöld gekk alla vega reglulega vel. Það er búið að vera mikið að gera við æfingar og annan undirbúning síðustu vikur og helgin er alveg undirlögð vegna þessara tónleika og messunnar á Skálholtshátíð á sunnudaginn.

Ég lofa ykkur því að það er vel þess virði að skjótast austur fyrir fjall til að upplifa kórtónleika í Skálholtskirkju.
 
  Fótboltafélagið Vík

Fótboltafélagið Vík
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Mynd af okkur frá því sirka 1984. Ég er í Stuttgard búningi eins og aðalhetjan okkar, Ásgeir Sigurvinsson lék í. Rúnar hlýtur að hafa verið með okkur í þessu félagi þótt hann sé ekki á þessari mynd.
 
mánudagur, júlí 16
  Orðið á smíðaverkstæðinu
Smíðaverkstæðið er nýr vinnuvettvangur fyrir mér. Þar er ég búinn að læra nýmerkingar gamalla orða. Það er alltaf skemmtilegt. Ein töngin er t.a.m. kölluð mella.

En hvað haldiði að Þingeyingur sé?
 
sunnudagur, júlí 15
  Frá upptökukvöldi

Steina og kompónistinn Bjarni frá Geysi
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Ég setti myndir á vefinn frá þvi þegar Maggi Kjartans kom í Skálholt til að taka upp söng og trompet í lagið hans Bjarna Sigurðssonar frá Geysi, Biskupstungur. Hér eru Steina í búðinni, tónskáldið og Aðalheiður.
 
  Sólsetur við Djúp

Þessa mynd fékk ég senda fljótlega eftir miðnætti. Hún er tekin í Óshólum. Þaðan er gott á þssum árstíma að sjá sólina sökkva í sjóinn og koma svo upp úr honum aftur skömmu síðar. Fjallið á myndinni heitir Traðarhyrna. Konan á myndinni er litla systir mín.

Okkur Grétu var boðið í partí í gærkvöldi. En það var haldið vestur í Súgandafirði og þar gátum við ekki verið. Það hefur eflaust verið mikið fjör á Suðureyri í gær úr því að veðrið hefur verið svona eins og sést á þessari mynd. Þetta var nefni garðveisla. Mér var líka boðið í annað partí hér í sveitinni. Þar var staddur heimsfrægur skoskur sagnamaður, eldri maður með sítt grátt hár og í pilsi og með whiskey glas í hönd. Þangað hafði ég nú ætlað, þótti vænt um að vera boðið, en komst svo ekki af bæ.

Í kvöld verður kóræfing. Það styttist í tónleika Skálholtskórsins á Skálholtshátíð. Hún verður um næstu helgi.
 
laugardagur, júlí 14
  Sumargetraun tónlistarunnendanna
Þetta er vísbendingaspurning. 1. vísbending:

Spurt er um íslenskt dægurlag frá níunda áratug síðustu aldar.
Lagið kom fyrst út á plötu með dúett. Platan er eina plata dúettsins. Í heiti plötunnar eru tvö atviksorð og samtenging.
Lagið varð vinsælt. Vinsælasta lag plötunnar. Viðlagið er grípandi og textinn sniðugur. Viðlagið heyrist tvisvar í þessari frumútgáfu lagsins. Tóntegundin er A dúr.
Skráður höfundur lagsins er gítarleikari, en í þessu lagið leikur hann á bassann, Björn Thoroddsen á gítar, Ásgeir Óskarsson á trommur. Dúettinn syngur viðlagið saman í nokkrum röddum.
Bæði gítarleikurinn og bassaleikurinn í laginu er afskaplega skemmtilega útfærður.
Ég hef heyrt höfundinn segja frá því í viðtali að lag þetta hafi orðið til á Ísafirði, nánar tiltekið á Hótel Mánakaffi.
 
fimmtudagur, júlí 12
  Fúli kallinn í hverfinu
Það er mikil gúrkutíð hjá fréttastofunum þessa dagana. Allt verða fréttir. Á héraðsfréttablöðunum hringja blaðamennirnir í sveitarstjóra og oddvita hreppanna og reyna að gera fréttir úr tíðindaleysinu. Í Glugganum, sem er dreift hér á Suðurlandi, eru þrjár litlar fréttir úr hreppnum sem ég bý í, Bláskógabyggð. Á tvemur stöðum er vitnað til samtals við oddvita hreppsins.

Fyrst er það frétt um umgengni á landi og lóðum í sveitarfélaginu. Margeir oddviti segir að átak hafi verið í gangi í vor til að ýta á eftir betri umgengni. Því verði fylgt á eftir þar sem frekri aðgerða sé þörf. Ég held þeir ættu þá fyrst að líta í eigin barm ráðamenn hreppsins. Í þéttbýlinu sem hér hefur myndast hefur ekki verið gengið frá nema einni götu þannig að ekki sé skömm að. Göturnar hafa verið gerðar sem einhverjir slóðar til að hægt væri að koma þangað vörubílum svo hægt hafi verið að byggja húsin við þær. Þessir slóðar verða aldrei neitt annað eða meira en slóðar. Það koma holur í þetta og rykið þyrlast upp um bílana, yfir gangandi vegfarendur, hús og garða. Slóðinn hingað heim til mín var í marga mánuði þannig að hann hefði verið merktur af Vegagerðinni eingöngu fær fjórhjóladrifnum bílum, en nú er búið að lagfæra það svolítið, en ekki meir en það. Hér í hverfinu er engin gangstétt og lýsing er ekki fyrir hendi nema á stöku stað. Ryk og moldrok setur ljótan svip á allt hverfið. Moldarhrúgur eru á víð og dreif og ófrágengin lóð í mýrarfeni sem enginn kærir sig um að kaupa og opin byggingasvæði sem eru valda stórhættu fyrir börn sem vilja leika sér úti í drullunni. Þau vilja leika sér úti í drullunni af því að um annað er ekki að ræða. Það er val milli drullufenjanna, moldarhrúganna, vegarslóðans eða þessara hálffrágengnu og illa frágengnu lóða við þessi hús sem hér standa. Fyrir utan þetta framtaksleysi um frágang opinna svæða, gatna og göngustíga eru það svo opinberu byggingarnar sem setja afskaplega ljótan blett á umhverfið. Fasteignum sveitarfélagsins er lítið sem ekkert haldið við. Hér blasa við stórar og áberandi byggingar sem ekki hafa verið málaðar árum saman, húsþök sem liggja undir skemmdum vog sum hafa verið eyðilögð með vanrækslu.

Ég skil svo sem að til sé fólk sem kæri sig ekki um að ganga neitt sér staklega vel um þegar sóðaskapurinn, metnaðarleysið og vanrækslan hjá þeim sem boða bætta umgengni blasir alls staðar við manni. Hvert sem litið er. Ég get látið þetta fara afskaplega mikið í taugarnar á mér. Lanbesta leiðin fyrir sveitarfélagið til að fá almenning til að huga að umhverfinu og snyrta í kringum heimili sín er að ganga á undan með góðu fordæmi.

Þessi þéttbýlishverfi í sveitarfélaginu, Reykholt og Laugarás, eru eins og æxli í þessari fallegu sveit. Þetta er skelfilegt til afspurnar og alls ekki ekki aðlaðandi. Laugarvatn lítur miklu betur út. Enda hefur sá gamli hreppur einhverntíma í firndinni gengið sæmilega frá götum, steypt gangstéttar og snyrt í kringum opin svæði. Þar eru líka stór svæði sem tilheyra stóru skólunum tveimur, KHÍ og ML, og þau líta ágætlega út.

Önnur frétt er í blaðinu um aðgerðir sveitarfélagsins Bláskógabyggðar. Hún er um ákvörðun sveitarstjórnarinnar um 3,7 % hækkun leikskólagjalda. Hækkunun er sögð vera í samræmi við breytingar á neysluverðsvísitölu. Í þessu sambandi vil ég aðeins taka fram að þann 1. mars sl., þegar vaskurinn á matvælum lækkaði verulega sá sveitarstjórnin ekki ástæðu til að lækka leikskólagjöldin eða verðið á matnum í mötuneyti grunnskólans. Samt var lögð á það rík áhersla að sú lækkun ætti að skila sér til neytenda. Þetta er merkilegt.

Á dögunum barst mér undirskriftalisti frá fólkinu hér í öðrum hluta þéttbýlisins í Reykholti þar sem skorað var á yfirvöld að ganga frá einu og öðru hér í umhverfi okkar sem börnunum stafar hætta af og öðru sem veldur okkur fullorðna fólkinu óþægindum. Þetta voru allt saman góðar tillögur og þarfar ábendingar, kurteisislega orðað bréf og hvaðeina, en samt neitaði ég að skrifa undir. Þar var nefnilega farið fram á að götuslóðinn yrði saltaður til að rykbinda hann. Göturnar saltaðar! Það er ekki það sem ég vil. Ég vil miklu varanlegri aðgerð.
 
  Á puttanum
Ég hafði ekki bílinn í dag. Gréta fór á honum á Akranes að sækja Hákon en þar hefur hann verið í viku hjá Daða vini sínum í Víðigerðinu. Ég húkkaði mér far heim eftir vinnu. Stóð á þjóðveginum með puttann út í loftið. Fyrsti bíllinn fór fram hjá. Næsti stoppaði. Það var hún Lauga frænka mín! Hún hafði þekkt mig og beðið manninn sinn að stoppa. Þau Guðbrandur skutluðu mér heim. Svona leikur lánið stundum við mann.
 
  Hver er Víkarinn? 2. visbending
Spurt er um hjón.

Karlinn er úr einum alstærsta systkinahópi Bolungavíkur. En sennilega er hann sá eini úr þeim hópi sem býr í Víkinni.
Konan á landsfræg systkini. Eina systur sem hefur verið mjög áberandi í allri umræðu um notkun tölva til kennslu og annarrar notkunar í skólum í áraraðir. Hún vann í Gagnasmiðju Kennaraháskólans þegar ég var að læra þar. Konan sem ég spyr um á líka bróður, fræðimann og rithöfund, sem oft er rætt við í sjónvarpi og útvarpi.
 
miðvikudagur, júlí 11
  Hver er Víkarinn?
Hitti bolvísk hjón í Bjarnabúð í gær. Með þeim voru tvær af dætrum þeirra. Karlinn hef ég þekkt mun lengur, enda eyddi ég talsverðum tíma í næsta nágrenni við heimii hans þegar ég var strákur. Mig minnir eins og þá hafi hann verið meðlimur í félagi bolvískra piparsveina með Begga Karls, Gumma Lassa og einhverjum fleirum. Þegar við Gréta fluttum vestur eftir að hafa lokið námi 1997 tók ég við starfi konunnar.

Hvaða fólk er þetta?
 
mánudagur, júlí 9
  LEITIN AÐ LYKLUNUM


Gærdagurinn er einn fallegasti sumardagurinn þetta sumarið. Hjá mér hafði þessi dagur þema. Þemað var LEITIN AÐ BÍLLYKLUNUM.

Ég byrjaði strax um hálffimmleytið um morguninn, leitaði þá í kukkutíma. Svo þegar ég vaknaði hófst önnur leit og sú þriðja eftir hádegið. Um miðjan dag var gerð sérstök ferð til að leita og svo fóru Gréta og Hófý vinkona okkar með mér að leita fyrir kvöldmat af því að þær töldu að ég væri of mikill sauður til að finna lyklana. Allan tímann hafði mig grunað að einhver hefði tekið lyklana upp úr gólfinu og stungið þeim á sig, annað hvort af góðmennsku sinni og ætlað að finna eigandann eða hreinlega í misgripum fyrir sína eigin lykla. Og einn mikið ölvaður piltur sem þarna var staddur lá sterklega undir grun. Hann sór af sér allt slíkt, en þegar hann var kominn almennilega til rænu eftir kvöldmatinn í gær fann hann í vösum sínum bíllykla sem hann kannaðist ekki við, reyndar líkir hans eigin. Þá vissi hann hver saknaði lyklanna sinna og hann skilaði okkur þeim í gærkvöldi. Mikið varð ég feginn.
 
sunnudagur, júlí 8
  Stóriðjulausir Vestfirðir
Jafnvel þótt olíuhreinsistöð myndi ekkert menga teldi ég það glapræði að koma slíkum iðnaði fyrir á Vestfjörðum. Ég held að einmitt hrein, lítið menguð og að miklu leyti ósnortin náttúra Vestfjarða geti gefið þjóðinni meiri tekjur og en slík stöð, þrátt fyrir 700 ný störf. Ég hef það tilfinningunni að það sé vaxandi áhugi á landssvæðum eins og Vestfjörðum, ekki aðeins meðal ferðamanna, heldur líka vísindamanna og þeirra sem nýta sér landslagið og mannlífið til sköpunar af ýmsu tagi. Þetta tvennt, þ.e. stóriðnaðurinn og ímynd hins hreina lands, samræmist illa.
 
  070707

Í gær var mikill brúðkaupsdagur, 070707. Sennilega hafa margir heyrt presta landsins tala um sjöið og merkingu þess. Kannski eitthvað um að sjö séu þrír og fjórir, guðdómurinn og jörðin. Guðdómurinn vegna heilalgrar þrenningar, sonurinn, faðirinn og heilagi andinn, jörðin vegna höfðuáttanna fjögurra. Ég fór ekki í neitt brúðkaup í gær en ég spilaði í brúðkaupsveislu. Fyrst spilaði ég dinnermúsík í veislu á Hótel Geysi og svo fyrir dansi á eftir. Hilmar lék með mér dinnerinn á píanó, ég lék á mandólínið. Við höfum stundum gert þetta. Fyrir dansi lékum við á gítar og bassa og ég söng líka. Trommarinn sem við fengum með okkur í þetta skiptið var Steingrímur Guðmundsson úr Milljónamæringunum. Það var mjög skemmtilegt að spila með honum. Við erum nú ekki alveg á sömu línunni í músíkinni en það skipti engu, verkaskiptingin var klár: Ég réð lagavalinu! Þetta var skemmtileg veisla, reglulega almennilegt fólk og svona.

Þegar ég var búinn að skutla félaga mínum heim eftir spileríið og var sjálfur á leiðinni heim til mín ók ég fram hjá félagsheimili þar sem önnur brúðkaupsveisla var í gangi. Ég skrúfaði niður rúðuna til að heyra hvort enn væri stuð í húsinu. Viti menn, alveg brjálað stuð. Ég lagði því bílnum, greip með mér mandólín og snúru, hoppaði beint inn á sviðið, stakk í samband og djammaði með hljómsveitinni Veðurguðunum alveg fram undir morgun. Það var virkilega gaman.

Mér hegndist fyrir þetta útstáelsi því nú er ég svo sár í fingurgómum vinstri handar að ég er við það að fá blöðrur eftir allt spileríið og það sem verra er; ég finn hvergi bíllyklana!
 
fimmtudagur, júlí 5
  Skoða þennan
Það er nýr tengill hér til hægri. Hann er inn á bloggsíðu Kristjáns Freys Halldórssonar frá Hnífsdal. Þið munið eftir honum í plötubúðinni í Ljóninu. Alltaf hress og kátur. En hann er hundlatur bloggari.
 
miðvikudagur, júlí 4
  Springlerar
„Vorum að fá nýja sendingu af springlerum, gott verð."

Þetta heyri ég í útvarpinu þegar lesnar eru auglýsingar.
Er ég algjör vitleysingur eða er einhver annar sem ekki veit hvað það er sem hér er verið að auglýsa?
 
mánudagur, júlí 2
  Hljómsveitarmynd

Trióið sem lék fyrir dansi í brúðkaupsveislunni í Réttinni í Úthlíð um síðustu helgi, Hilmar Örn, ég og Kristján Freyr. Með okkur á myndinni er stelpa sem var gestur í veislunni og tók með okkur nokkur lög. Hún heitir Silla og er víst vinsæll skemmtikraftur, kallar sig Mr. Silla og mér skilst að hún sé nýlega gengin í krúttbandið Múm.
 
  En håndværker

En håndværker
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Svona var í vinnunni í dag.


 
  Afmæli

Afmæli
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Amma Stína bað um mydnir úr afmælisveislunni. Nú hefur henni orðið að óskinni. Nokkrar nýjar myndir á myndasíðunni.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]