Tilraunavefurinn
mánudagur, desember 29
  Jólablogg
Öll fjölskyldan dvelur í Víkinni um hátíðarnar. Hér höfum við haft það afskaplega gott, eins og gefur að skilja. Í gær fórum við í fjöruferð inn á Sand, lékum okkur að lifandi krabbakríli og allt. Við fórum líka í sund í gær og í jólaboð inn á Ísafjörð með föðurfólkinu mínu. Ég spilaði í Kjallaranum á föstudagskvöldið. Það var fullt af fólki sem mætti og ég var svo heppinn að fá Venna vin minn til að spila með mér. Mér þykir alveg sérstaklega skemmtilegt að spila með honum. Bróðursonur minn hefur verið hérna með okkur á Holtastígnum, en hann fór í gær. Hákon hefur haft félagsskap af honum og liðið vel með það.

Í tveimur jólapakkanna til mín voru geisladiskar. Í báðum var það Nýjasta nýtt með Baggalúti. Hákon var búinn að fá hana í afmælisgjöf, þannig að það lítur út fyrir að ég skipti þeim báðum. Ég hugsa að önnur platan verði Buff-platan, en ég veit ekki hver hin ætti að vera. Ég var búinn að kaupa mér Diddú og Terem og Emilíönu.

Ég fékk ævisögu Gunnars Þórðarsonar, Hljómagang, í einum pakkanna. Hún olli mér vonbrigðum. Hann hefur frá mörgu að segja en mér finnst sagan ekki vel skrifuð og efnistökin yfirborðsleg. Hér er á ferðinni einn vinsælasti, þekktasti og mest metni tónlistarmaður þjóðarinnar fyrr og síðar. Eitt höfðuskáldanna. Ég hefði viljað lesa miklu ítarlegri frásögn og fá að vita meira um samferðamennina. Sem dæmi eru Halli og Laddi afgreiddir í einni eða tveimur málsgreinum, Olga Guðrún einu sinni nefnd á nafn, Jóhann Helgason og Helga Möller sömuleiðis. Bókin svalaði ekki forvitni minni um þennan snilling, sem Gunnar er, heldur langar mig bara að vita meira, miklu meira.

Tíðin hefur ekki verið sérstaklega jólaleg hérna fyrir vestan. Hér er talsverður hiti, auð jörð og rigning; dimmt yfir.
 
mánudagur, desember 22
  Mugiduo
Ég er búinn að vera forvitinn að sjá og heyra hvernig Öddi og Davíð Þór leystu það verkefni að spila Mugiboogie stöffið bara bara tveir. Þeir gerðu það á tónleikaferðalagi um USA nú fyrir nokkrum vikum. Ég var búinn að sjá DÞJ fyrir mér þeysast á milli hljóðfæra um allt svið. En hér er svo komið sýnishorn sem ég fann á Youtube. Smellið á fyrirsögnina til að sjá myndbrotið.
 
fimmtudagur, desember 18
  Kórstarfið
Ég hef alveg sleppt því að fjalla um kórstarfið hér nyrðra á þessum vettvangi. Mér datt svona í hug þegar ég sá umfjöllun á Víkaravefnum (www.vikari.is) að Karlakórinn Ernir hafði haldið tónleika í Safnaðarheimilinu í Bolungavík. einsöngvarinn með þeim var Óskar Pétursson. Við í Kór Akureyrarkirkju vorum einmitt að syngja með Óskari og Björgu Þórhallsdóttur á styrktartónleikum á þriðjudagskvöldið. Á sunnudaginn voru svo Jólasöngvar Kórs Akureyrarkirkju, sem mér skilst að sé árlegur viðburður í kirkjunum hér á Akureyri á aðventunni. Kórinn í Glerárkirkju stendur líka að svipaðri dagskrá.

Báðir tónleikarnir gengu vel. Ég ætla samt ekkert að líkja þessum Jólasöngvum við Aðventutónleikana sem haldnir hafa verið í Skálholti. Þetta var nú langt frá því að vera svo glæsilegt. Kannski munar þar mestu um umgjörðina í kringum kórinn. Það er nú ekkert slor að geta boðið upp á tvo fína einsöngvara, góðan karlsöngvara og sópransöngkonu á heimsmælikvarða, frábæra og samstíga strengjasveit, úrvalsorgelleikara, gott orgel, himneskar barnaraddir og stórgóðan hljómburð kirkjunnar.

En ég held nú samt að kórinn okkar hérna nyrðra sé bara góður. Hann taldi 66 manns á tónleikunum á sunnudaginn. Það er fullt af fínu söngfólki í honum og ég hef ágætis tilfinningu fyrir hljómi kórsins. Reyndar hef ég sjálfur ekki heyrt í honum eins og hann er núna. Ég er alltaf að syngja með og engar upptökur hafa verið gerðar frá því ég gekk í hann.

Það er öðruvísi að syngja í svona fjölmennum kór en litla kórnum okkar í Tungunum. Við í Skálholtskórnum heitnum höfum reyndar prófað það líka þegar við höfum sameinast öðrum kórum í ákveðnum verkefnum. Hér reynir allt öðruvísi á mann og stjórnandinn hefur nýtt sér stærð kórsins, til dæmis með þeim hætti að nokkur laganna á jóladagskránni voru 5- og 6 radda og eitt var 8 radda. Við sungum líka 8 radda verk eða tveggja kóra, eða hvað það er kallað, um daginn, þegar kirkjan átti afmæli. Þetta er allt skemmtilegt og lærdómsríkt.

Ég, sem á engin tengsl hingað norður, hef fundið tvo frændur mína af Viðfjarðarættinni í þessum stóra kór. Í þeirri ætt er fólk Bjarna Eiríkssonar, langafa míns. Pétur læknir hefur ekki verið með kórnum í vetur. Hann tók sér frí. Það er einn Sandari í bassanum með mér. Þarna er líka Tungnamaður, sem er frá Hjarðarlandi og var þar bóndi til skamms tíma. Og kona ættuð úr Kjarnholtum, dóttir Ingimars gleðigjafa. Móðursystir Hjörleifs fiðlara er svo í altinum. Það kemur ýmislegt á daginn.
 
þriðjudagur, desember 16
  Hver er Víkarinn?
Þessi þraut er erfiðari en sú síðasta. Og nú mega foreldrar mínir og systkini ekki taka þátt í leiknum. Ég var nefnilega búinn að segja þeim frá þessum Víkara.

Ég hitti sko Bolvíking á dögunum sem ég þekkti nú varla við fyrstu sýn. Hann átti greinilega jafnerfitt með að þekkja mig. Svo langt er síðan við höfum sést. En eftir að hafa horft með undarlegum svip hvor á annan í nokkrar sekúndur spurði ég hann hvort hann væri ekki örugglega X. „Jú, jú", sagði hann. „Og ert þú ekki bróðir hans Atla?" Í þessari spurningu hans felst helsta vísbendingin.

Þessi Bolvíkingur er ekki frændi unga rakarans sem klippti mig á rakarastofunni í Hofsbót hér á Akureyri á dögunum. En sá rakari er af bolvískum ættum. En hálfbróðir X er hins vegar frændi rakarans. Þeir eru þremenningar.

Eins og hlýtur að vera ljóst þekki ég umræddan Bolvíking sáralítið, en ég þekki systur hans ágætlega.

Hver er X?
 
mánudagur, desember 15
  Hver er Víkarinn?
Ég hitti konu frá Bolungavík í veislu þar sem ég var að spila með Bleki og byttum um helgina. Hún kom seint í veisluna. Ég man eftir henni í verslun þegar ég var krakki þar sem hún afgreiddi matvörur.
Hver er Víkarinn?
 
mánudagur, desember 8
  Trylltur dans
Bassaleikarinn í Bleki og byttum stígur hér trylltan dans!
 
  Bergþóra og HValsson
Svona í framhaldi af færslu hér að neðan þar sem fylgdi ljósmynd af Hjölla Vals finnst mér við hæfi að birta eina gamla kvikmyndaklippu líka. Þetta er greinilega tekið skömmu eftir að ég sá hann syngja með Gult að innan. Hér er þetta.
 
sunnudagur, desember 7
  Nokkrar nýjar myndir

Fyrstu gripin
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Nýjar myndir af krökkunum á myndasíðunni.
 
  Afmæli

Fyrir nákvæmlega 11 árum var ég að staddur á Sjúkrahúsinu á Ísafirði að bíða eftir fæðingu frumburðarins. Það var sunnudagur, eins og nú. Barnið fæddist svo í hádeginu.

Til hamingju með daginn Hákon.
 
laugardagur, desember 6
  Annar góður

Góð mynd úr albúmi Palla Skúla, nýja afans. Hann tók myndir á lokaæfingu tónleikanna í haust.
Hjörleifur, Birgir Braga og Gunnar Þórðar léku megnið af tónleikunum af fingrum fram þótt aðrir hljóðfæraleikarar hefðu alltaf nótur. Hér vildi Hjölli hafa nótur, var bara að fá þær í hendurnar og ekkert annað að gera en að dreifa þeim á gólfið.

Fyrst þegar ég sá Hjölla koma fram var hann söngvari í hljómsveitinni Gult að innan frá Ísafirði. Þar var aðalgæinn Venni vinur minn frá Hnífsdal. Ég sá þá á Núpi þar sem þeir léku m.a. lagið Afi minn var jarðaður við Ísafjarðardjúp. Það er grípandi lag. Hjölli er flottur söngvari og alveg frábær náungi. Ég hitti hann fyrir skömmu. Hann hringdi í mig um hánótt og bauð mér á tónleika sem hann var að leika á hér í Eyjafirði á dögunum. Við Hákon fórum. Það var flottur flutningur eins og þeirra var von og vísa sem þar léku.
 
  Tvær vísur af bloggi meistaranna
Af böggli blóra
SR. HALLGRÍMUR PÉTURSSON
uppupp.blogmasters.ru

Þú siðavandi blóraböggull!
Vér bíðum komu þinnar.
Þú viðvarandi vessaköggull
í vitum þjóðarinnar.



Af skattpínslum
HJÁLMAR JÓNSSON FRÁ BÓLU
bola.blogfrenzy.dk

Skítþurrkaðar skrattatíkur
sköttum mínum torga.
Ætli ég verði aftur ríkur
ef ég hættað borga?


Heimild: www.baggalútur.is 5/12/08
 
  Félgasskapur í lagi

Þetta er nú félagsskapur í lagi. Almáttugur hvað náunginn er snjall gítarleikari. Pamilla er líka fín á flautunni. En það er hreinlega upplifun sem gleymist seint að hafa leikið með GÞ. Þetta var í haust á kveðjutónleikum Hilmars Arnar í Skálholti.
 
  SKemmtilegar náttúru- og mannlífsmyndir

Það eru flottar myndir á myndasíðu Davíðs Þórs. Þar kannast maður við Magga Hallgríms, Svenna og fleiri Skagadrengi; Ödda frænda og fjölskyldu; Villa Valla og einhverja fleiri.
 
  Næstu gigg
Síðustu tvö til þrjú árin hef ég haft talsvert að gera við að spila og syngja. En það hefur lítið farið fyrir því eftir að ég flutti úr sveitinni í sumar. Hér fyrir norðan hef ég enn ekki komið fram nema bara með kirkjukórnum. Ég hef aðeins sungið og tekið í hljóðfæri í hljóðveri og í vinnunni er stundum sungið. Þá hef ég farið suður til að spila þrisvar sinnum eftir að ég flutti norður og um næstu helgi ætla ég líka að gera það. Blekið á þá að spila í veislu í Ölfusinu.

Næsta gigg tengist nú vinnunni. Þar verður jólagleði í næstu viku. Venjan er að enda hana með stuttu balli. Ég er búinn að fá kórfélaga minn til að vera með mér í því og hann ætlar að redda alla vega einum til viðbótar í bandið. Þetta er bara spennandi.

Við ætlum vestur um jólin. Þá ætla ég að spila í Kjallaranum í Einarshúsinu í Bolungavík annan í jólum. Þar hef ég spilað þrisvar á síðustu tveimur árum og alltaf verið góð mæting og mikið fjör. Ég vona að það haldi áfram svoleiðis. Ég er jafnvel að spá í að bjóða upp á dúett eða lítið band hluta úr kvöldinu. Uppáhaldsgítarleikarinn minn býr í nálægu þorpi. Við höfum rætt það að hann hjálpi mér þetta kvöld. Það er þó ekkert ákveðið. Svo er líka orðið langt síðan ég hef verið með í bolvískum tónlistargjörningi og aldrei að vita nema mér takist að plata einhverja góða Víkara til að taka lagið með mér þetta kvöld.

Þrátt fyrir að ég hafi ekki verið að spila trúbadoragigg í nokkrar vikur er ég í fínu formi. Ég hef verið að halda mér við og æft mig. Vikuna fyrir jól verð ég svo einn heima því Gréta og krakkarnir ætla vestur um leið og hún verður búin í skólanum. Þá gefst mér nú aldeilis næði til að vinna í prógramminu.

Enn er svo stefnt að því að leika á dansleik um áramótin með Miðnesi.
 
  Alveg ný reynsla
Alltaf er eitthvað nýtt að henda mann í lífinu. Í gærkvöldi stjórnaði ég kór.

Kórfélagi minn hafði samband. Hann hafði frétt að ég spilaði á gítar og vildi þess vegna biðja mig að hafa gítarinn með mér í giggið svo hægt væri að gefa tóninn. Við yrðum nefnielga að syngja án stjórnanda okkar. Þetta var fjáröflunarsöngur þar sem 25-30 manns úr kórnum sungu jólalög. Svo var hist rétt fyrir gigg og áður en ég vissi af var búið að planta mér fyrir framan kórinn og ég látinn stjórna honum. Fyrir mér var þetta eins og inntökuathöfn. Ég þyrfi að leysa þessa þraut til að teljast fullgildur meðlimur í kirkjukórnum! Ég var eilítið stressaður. Kannski vegna þess að ég þekki fólkið í kórnum ekki neitt og það ekki mig. En þetta gekk nú samt furðuvel.
 
miðvikudagur, desember 3
  Eg held með Megasi
Sumt fólk heldur með einu fótboltaliði af svo mikilli og sannri ástríðu að það getur ekki séð þegar einhver í liðinu brýtur af sér í leik, það er alltaf hinum aulunum í hinum liðnum að kenna. Annað fólk er svo einart stuðningsfólk stjórnmálaflokka að það styður alltaf sama flokkinn, sama á hverju dynur, sama hvaða vitleysu og bulli fólk í þeim flokki tekur upp á að gera eða gera ekki. Svo eru þeir sem halda með tónlistarfólki á sama hátt. Finnst ekki þetta lagið eða hitt vera gott eða vel flutt, heldur bara allt sem einhver hljómsveit sendir frá sér.

Sjálfsagt hef ég einhverntíma látið svona líka.
En þetta finnst mér reyndar vera grútleiðinlegt lag.
 
þriðjudagur, desember 2
  Svefn(g)engill
Einar Pé. heldur að ég hafi gengið í svefni þegar ég var krakki. Ekki minnist ég þess.
Kannast þú eitthvað við það mamma?

Ég vil frekar vera svona svefnEngill eins og þeir í Sigur Rós.
 
mánudagur, desember 1
  Týndi sauðurinn
Geir Harðar af Skaganum hefur gefið út aðra sólóplötu sína..Hún heitir Týndi sauðurinn Fyrri plötuna, Landnám, vann Orri Harðar með honum. Ég fjallaði um hana hér á vefnum á sínum tíma og var hrifinn af henni. Mér líkar svo vel hvað Geir er hreinn og beinn. Hann lætur einhvernveginn bara vaða. Þetta eru ekki merkilegar lagasmíðar og textarnir er svo sem ekkert spes heldur, þótt vissulega sé kjöt á þeim sem bragð er af. Söngur hans er líka svolítið óhreinn og eiginlega bara óttalegt raul, en það er óhemju mikill sjarmi yfir því hvernig hann syngur og mér líkar það á einhvern hátt.

Hér hefur annar Skagamaður, Egill Harðar, fyrrverandi dauðarokkari, sett tvö lög af nýju plötunni hans Geirs á vefinn. http://egillhardar.com/music/

Athyglisvert. Allir sem hér hafa verið nefndir á nafn eru Harðarsynir.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

  • Gréta mín
  • Myndasíða fjölskyldunnar
  • Víkari.is
  • Bæjarins besta
  • Heiðrún Hámundar
  • Kristján Jóns
  • Baggalútur
  • Palli Skúla
  • Sælands
  • Mandolin Symposium
  • Mugison
  • Lög og textar á íslensku
  • Lög og textar á útlensku
  • Bolungavík
  • Kriss Rokk
  • Naustaskóli

    Powered by Blogger

    Gerast áskrifandi að
    Færslur [Atom]