Gömul hús í Bolungavík (frh.#3)

Hótelið er nýbúið að rífa. Það hefur nú sjálfsagt einhverntíma þótt flott hús, þótt ég muni ekki eftir því þannig. Ég held að afi hafi fæðst þar. Þar voru Sævar og Baddý með sjoppu í innri endanum þegar ég var krakki. Á sumrin fylltist þar allt af slorlyktandi unglingum í pásum og kaffitímum frystihússins. Valið stóð á milli þess að kaupa nestið í Bjarnabúð eða á Hótelinu. Ætli ég hafi ekki verið svona sirka 12 ára þegar þau hættu að versla þarna Sævar og Baddý. Það var liður í þroskaferli drengs í Víkinni að vera þarna staddur þegar eldri krakkarnir komu þarna í pásunum. Þarna lærði maður ýmislegt: sitthvað um samskipti unglinganna, orðbragð þeirra og varð vitni af takmarkaðri virðingu sumra þeirra fyrir peningunum sem þeir mokþénuðu af og sólunduðu svo nokkrum mínútum eftir útborgun í sælgæti og spilakassa hinu megin götunnar.
Það voru svo herbergi uppi. Í mínu ungdæmi bjó þar verkafólk sem kom til að vinna í fiski á sumrin. Ég man t.a.m. eftir Hugrúnu þar. Einn kennarinn minn í Kennó, Torfi, sagði mér að hann hafi búið þar í tvö sumur og sjálfur Bubbi segist hafa búið þarna.
Í ytri endanum bjuggu bræðurnir Kitti Sali og Bjarni Sali.