Tilraunavefurinn
þriðjudagur, nóvember 30
  Plötuskápur Atla
Plöturnar hans Atla var stundum hægt að læðast í. Hann er 4 árum eldri en ég og var farinn að eignast plötur aðeins á undan mér. Það var reyndar ekki sjálfsagt mál af hans hálfu að leyfa litla bróður að hlusta. Hann hefur alla tíð farið vel með dótið sitt og gengið betur um en ég og verið frekar laus við umburðarlyndi í þeim efnum að deila með litla bróður eigum sínum eða tíma. En við höfum nú lagast báðir tveir. Hann er ekki eins leiðinlegur og hann var og ég kurteisari og tillitsamari núorðið.

Í safni Atla var þetta sem heillaði mig:
Dire Straits, Brother in arms
Bruce SPRINGSTEEN, Made in USA
Bubbi, Frelsi til sölu
Friðryk á samnefndri kasettu
Susie Quatro, líka á kasettu
The Rembrants
Baraflokkurinn, þar var lagið eftir hann Baldvin, sem seinna kokkaði ofan í mig í Kennó, I don´t like your style.
 
mánudagur, nóvember 29
  Plöturnar hans Jóns Óla
Jón Óli móðurbróðir minn á ágætt safn af vinylplötum. Þegar ég var púki var hann í siglingum og lítið heima. Það var því ágætis næði til að hlulsta á tónlist í stóra herberginu hans í kjallaranum hjá afa og ömmu. Jón ÓIi er fæddur ´61 svo að hjá honum komst maður í svolítið annað stöff en til var heima hjá mér. Ég man eftir Mannkornsplötunni fyrstu, Brunaliðsplötunum, Megasi, Eik, Þursunum, Grafík og heilum haug af Eric Clapton plötum. Svo átti Jón Óli Rock´n roll plötu Johns Lennon. Það er merkilegur gripur. Og annar merkisgripur var þarna: Platan með Blind Faith. Þar er Steve Winwood (er það skrifað svona?) táningur á píanóinu og Clapton svo illa farinn af eitri og fylleríi að sagt var að hann hafi ekki uppgötvað að hann hafi komið nálægt þessari plötu fyrr nokkrum árum eftir að hún kom út.

Í safni Jóns Óla var plata sem í dag er hægt að selja fyrir fúlgur fjár. Hún var reyndar merkt öðrum frænda mínum og ég held að hún sé í plötuskápnum heima hjá pabba og mömmu núna.

Nú set ég af stað getraun:
Hvaða plata er þetta?
 
sunnudagur, nóvember 28
  Plöturnar heima
Fyrsti geisladiskurinn sem ég eignaðist var Loftmynd með Megasi.
Fyrsta hljómplatan sem ég keypti mér var Make it Big með WHAM. Ég keypti hana fyrir jólin einhverntíma þegar hún var ný. ´84 eða ´85 held ég. Ég man vel hvar plöturnar héngu upp á vegg í versluninni og að afgreiðslumaðurinn var kominn til að veita Magga Hans lið í jólatörninni. Það var æskulýðskirkjuogskólafrömuðurinn Oddur Albertsson sem seldi mér þessa plötu í verslun EG í Bolungavík.
En ég hafði eignast plötur áður þótt ég hefði ekki keypt þær sjálfur. Halli og Laddi höfðu reglulega ratað í jólapakkana.

Heima á Holtastíg á ég kassa fullan af hljómplötum. Þar kennir ýmissa grasa. Og í frekar litlu safni foreldra minna eru mjög góðar plötur sem maður hlustaði mikið á með headphone, liggjandi á gólfinu inni í skoti, horfandi á hvítan snjóvegginn á rúðunni. Þar voru til þessar plötur:

Bítlarnir Help
Bítlarnir Abbey Road
Bítlarnir Safnplata með ballöðum Bítlanna
The Rolling Stones - After math
Gilbert O Sullivan
Best of Shadows
Dave Brubeck quintett - Take Five
Hvíta platan með Trúbrot
Þórir Baldursson leikur vinsæl dægurlög á Hammond orgel
Þrjú á palli
Þokkabót
Tónleikaplata með Ríó tríó
ofl. ofl.
 
  Reykjavik - Reykholt
Í gær var farið í undirbúningsleiðangur vegna jólanna til Reykjavíkur og Kópavogs. Penninn, Exit, Zara og Hagkaup voru heimsótt. Krakkarnir fara þá ekki í blessaðan köttinn og Gréta á orðið nógan striga til að mála á. Það er alltaf jafnfallegt í Reykjavík. En mikið er ég alltaf feginn eftir að hafa heimsótt höfðuborgina að ég þurfi ekki að búa þar sjálfur.

Hákon og Perla María fegnur að vera með ömmu Perlu á meðan við Gréta og Hringur versluðum. Það held ég að hafi bara gegnið vel. Amma Perla er reyndar heimilislaus eins og stendur því hún var að selja íbúð og hefur ekki enn fengið afhanda þá nýju sem hún var að kaupa. Hún heldur til hjá systur sinni og dóttur hennar sem er háskólanemi. Það er mikill samgangur á milli þessara fjölskyldna þannig að krakkarnir þekkkja sig vel heima hjá þessum frænkum sínum.

Í fyrrakvöld komu afi Gilli og amma Þóra með stofuskáp til okkar sem þau lánuðu okkur. Gréta var að raða í hann. Þá kom í ljós að ég á einhvern helling af geisladiskum. Það er nefnilega þannig að þessu heimili eins og mörgum öðrum að það er konan á bænum, húsmóðirin, sem stillir upp. Hér er ákaflega fátt sem minnir á mig eða áhugamál mín. Og geisladiskarnir hafa verið inni í skáp inni í svefnherbergi eða hreinlega í pappakössum og aldrei ég hef ekki haft þá fyrir augunum. Geisladiskasafnið er flott safn. Þar er fullt af endurútgáfum og meirihluti þess eru íslenskar plötur. Fyrsta diskinn keypti ég í Verlsun EG haustið 1988. Þá hafði ég keypt mér Samsung steríógræjur fyrir fermingarpeningana og hluta sumarhýrunnar. Það var platan Loftmynd með Megasi.

Nýjasta platan er svo frá einhverjum sem heitir Þórir. Það er fín plata.
 
mánudagur, nóvember 22
  Swing Ding
Á nýju Mugison plötunni hans Ödda er lítið stef þar sem pabbi hans rymur eins og þurs: „Rock´n roll. Swing, dinga dong."

Það er bara flott!
 
sunnudagur, nóvember 21
  af familien
Hringi hefur verið vikið úr vistinni.
Hér er leitað út um allt að nýrri lausn svo Gréta geti haldið áfram að vinna.
Gréta hefur legið veik í rúminu í þrjá daga og er enn ekki orðin fullfrísk.
Ég lá síðasta sólarhring með höfuðið ofan í klósettinu og ældi eins og múkki. Þess á milli lá ég og hvíldist. Gat reyndar lesið pínulítið í Keifarvatni.
Gærdagurinn var fáránlegur. Krakkarnir heima með foreldrum sem alls ekki voru færir um að sinna þeim að nokkru gagni.
Þetta er skárra í dag. Mér líður betur og Gréta komin fram úr bælinu.
Nú verður gerð langþráð tiltekt og hreingerning.

Hallilúja
 
föstudagur, nóvember 19
  Frost
Það er kalt úti.
 
miðvikudagur, nóvember 17
  Krakkarnir í skólanum, Hringur i dagvistun
Nú er Gréta að vinna eftir hádegi 4 daga vikunnar. Í dag kom Hákon til mín eftir skóla og sat hjá mér og ýmist lék sér eða sinnti heimanáminu í skólastofu 4. bekkjar þar sem ég hef verið að vinna í dag. Klukkan 5 sótti ég svo Perlu Maríu í leikskólann og tók hana með mér í stofuna til okkar Hákonar. Hún hefur verið að lita og leikið sér í LEGO. gréta og Hringur hafa þá getað verið ein saman smástund.

Hringur hefur verið í dagvistun þrjá daga í þessari viku. Hún hefur gengið illa. Hann er búinn að grenja og öskra á dagmömmuna. Það tekur alltaf tíma að aðlaðast nýjum aðstæðum og lítil börn eru viðkvæm fyrir breytingum eins og allir þekkja. En við höfum haft af þessu verulegar áhyggjur. Ég bara vona svo innilega að þetta fari allt vel.
 
þriðjudagur, nóvember 16
  Hlutverk RÚV
Ég held að ég hafi einhverntíma skrifað um þetta áður..... en samt það kemur hér aftur af því mér finnst það mikilvægt.

Í gærkvöldi var fundur í sjónvarpssal um Ríkisútvarpið. Ég er náttúrulega ákaflega hrifinn af þeirri þjónustu sem sú stofnun veitir. Fíla útvarpsrásirnar báðar mjög vel og kann ágætlega við sjónvarpið líka. En ég varð svo reiður þegar úrslitakeppni heimsmeistaramóts kvennalandsliða í fótbolta var síðast að RÚV skyldi ekki vera með beinar útsendingar frá leikjunum á því. RÚV hefur ákveðið menningarlegt hlutverk og í ljósi jafnréttis kynjanna ætti það að vera skylda stofnunarinnar að sýna frá þvílíkum viðburði. RÚV þarf ekki að sýna frá karlakeppninni því sjónvarpsstöðvarnar munu alltaf bítast um sýningarréttinn af henni og auglýsendur munu alltaf kosta hana af miklu leyti. Öðru máli gegnir með kvennakeppnina og því finnst mér að RÚV eigi að ganga fram fyrir sköldu og splæsa í hana.

Sama máli gegnir um annað sport. Hlutverk RÚV finnst mér að eigi að vera að sýna myndir frá og halda uppi umfjöllun um þær greinar sem ekki er sinnt annars staðar. Og að sjálsögðu kvennaíþróttirnar.

Á meðan menn hafa hátt um brottfall unglingsstúlkna úr íþróttum, um mikilvægi hreyfingar og um íþróttaiðkun sem forvörn gegn vímuefnaneyslu og einelti gengur ekki að helmingur barna fái ekki tækifæri til að eignast fyrirmyndir sem eru í fremstu röð í heiminum. Það er ósköp einfaldlega liður í því að viðhalda áhuganum á íþróttinni.

Hvað segið þið um þetta?
 
sunnudagur, nóvember 14
  7,9,13
Hákon liggur í bælinu með 38,9 stiga hita.
 
laugardagur, nóvember 13
  Af púkunum
Hringur er enn á lyfjum. Perla María er svo sem í ágætisstandi og Hákon er hress að vanda. Í gær fékk PM samt einhver útbrot um allan skrokk. Hún gat ekki sofið. Hún lagaðist smám saman þegar mamma hennar hafði tekið hana úr náttfötunum. Líklegasta skýringin á þessu höldum við að sé sú að ég álpaðið til að kaupa eitthvert Ariel þvottaefni. Við höfum alla tíð notað þvottaefni sem hentar vel fyri viðkvæma húð enda eru þau mægin Gréta og Hákon einstaklega næm fyrir svona efnum og skepnuhárum og slíku.Perla María missti niðursuðudós ofan á stórutá og í dag var verið að tappa blóði undan nöglinni. Hér er staðið í stórræðum á sjúkravaktinni.

Vinkona Grétu úr Mosó leit í heimsókn í dag og maður hennar með henni. Hann er frá Flúðum og þau litu hérna við á leiðinni í heimsókn til foreldra hans á Flúðum. Þetta fólk, Kitta og Gústi, munu ættleiða barn á næstu mánuðum og eru búin að hlakka mikið til þess eins og gefur að skilja. Það var allt með tiltölulega kyrrum kjörum hérna á heimilinu meðan þau stoppuðu enda eins gott, ef þau hefðu komið á mómenti þar sem Hringur hefði verið að öskra og PM líka, Hákon með munnræpu og við Gréta þreytt á ástandinu og yfirmáta leiðinleg, hefðu þau etv hætt við ættleiðinguna. Annars getur Perla María verið svo mikil á förunum bara ein og sér að við veigrum okkur við að heimsækja Guddu gömlu á Sólbakka (ömmu hennar Grétu) af ótta við að Perla leggi þá gömlu í gröfina með fyrirgangi og hávaða.

Blessuð börnin.
 
föstudagur, nóvember 12
  Ritræpa, marþonfótsnyrting tónlistarvefs & tækifærismennska á þinginu
Margt breyst frá síðasta vefrúnti: Kristjáni er batnað af stíflunni (www.boviskastalid.blogspot.com) og Öddi er búinn að láta lagfæra Mugison-vefinn (www.mugison.com) sem hefur verið heldur dauft yfir undanfarnar vikur. Kristján heldur áfram ómálefnalegu hjali um stjórnmálamenn í Reykjavík og skemmtilegum kommentum um lífið og tilveruna, eins og t.d fótbolta og fjölmiðla. Skemmtilegt blogg hjá honum. Öddi gefur áhugafólki um tónlist hans tækifæri á að fylgjast með störfum hans. Hann birtir tónleikaplanið, linka þar sem fjallað er um tónleika hans og á síðunni er einnig hægt að nálgast tónlistina, textana og fleira í þeim dúr. Breytingarnar sem nú voru gerðar á síðunni eru ágætar og líta einkar vel út.

Ég var að hlusta á stjórnarandstöðuþingmennina tjá sig um væntanleg lög á aðgerðir okkar grunnskólakennara. Mér finnst tækifærismennska Samfylkingarinnar og Frjálslyndra einum of ríkur liður í málflutningi þeirra. Þeir uppskáru meira að segja klapp af þingpöllum enda tala þeir eins og frá hjarta okkar kennara. Það finnst mér ábyrgðarlaust. Mínir menn í VG hafa þó að minnsta kosti ekki þurft að breyta áherslum sínum vegna þessa máls. Þeira hafa mánuðum saman bent á að auka þurfi tekjustofna sveitarfélanna og tengt það þessu máli. VG - þar sem málefnin ráða!

Öllum má vera ljóst að Launanefnd sveitarfélaga hefur unnið fullnægðarsigur í baráttunni. Hún hefur náð fram því eina sem lagt var upp með þegar að samningaborðinu kom. Nefnilega að fá ríkið til að koma að málinu og vonast eftir því að það skaffi sveitarfélögunum auknar tekjur. Kennarastéttin spilar það hlutverk í þessum leik að vera kylfa í höndum Sambands íslenskra sveitarfélaga og með henni er lamið á ríkinu. Bang bang! Ég hef bent á þetta fyrr.

Annars held ég mig til hlés í þessu máli. Sveitarfélagið ég starfa hjá greiðir mér ágætis bónus í því formi að það greiðir um það bil helming leiguverðsins á móti mér fyrir íbúðina sem ég bý í. Þess vegna held ég mig á mottunni. Þetta er myndarleg kjarabót og í sannleika sagt ástæða þess að ég fór að litast um eftir starfi í sveitaskóla á sínum tíma.
 
  Skyr með rjóma & menning
Í Grímsnesinu verður sviðaveislan á morgun og í eftirrétt fá gestir skyr með rjóma og svo tónleika með Johnny Money í ábæti. Mig langar nú svolítið til þess að skella mér er ég kann ekki við að fara einn þar sem ég þekki eiginlega engan í Grímsnesinu. Hefði verið tl í að fara með fleira fólki en það var lítil stemmning fyrir því á kennarastofunni.

Í kvöld er svo léttmenningarkvöld á Klettinum (veitingahúsið hérna í Reykholti). Ætli ég mæti ekki þangað og prófi í fyrsta sinn að blanda geðí við Tungnamenn á mannamóti.

Annars er ástandið á vefrúntinum mínum frekar slæmt. Kristján Jóns er með ritstíflu og lítið að gerast í fótboltanum.
 
fimmtudagur, nóvember 11
  Síðasti kafli útvarpsþemans
Sumarið í hitteðfyrra var ágætt útvarpssumar. Ég náði Einari Kárasyni lesa Kiljansfólkið, báðar bækurnar. Og ég náði leikgerð af spennusögunni Flateyjargátan. Þá var ég að mála hjá Hraunberg og Helgu Svönu og hjá Flosa og Brynju. Sumarið 2000, þegar ég flutti til Íslands eftir ársdvöl í Danmörku, náði ég leikgerð af Dauðarósum eftir Arnald Indriðason. Það var mjög gaman. Þá var ég að mála hjá Gumma Addýjar.

Í sumar málaði ég aðeins á Seltjarnarnesi (m.a. heima hjá frænda mínum sem mikið er í fréttunum þessa dagana). Þá hlustaði ég mikið á Skonrokk. Sérstaklega á íþróttaþáttinn. Ég man alveg fullt. Nákvæmlega hver sagði hvað og hvaða fjöl hússins ég var að pússa eða mála þá stundina. Að hugsa sér: Og svo get ég ekki munað hvar ég lét frá mér fjarstýringuna af sjónvarpinu áðan!
 
miðvikudagur, nóvember 10
  Bláskógatíðindi - veikindi og frændfólkið í sveitinni
Hringur er búinn að vera með einhvern fjanda í hálsinum, eyrunum, nefinu og öndunarveginum. Hægt gengur að fá bata og í dag fórum við með hann í þriðju heimskóknina til Gylfa læknis í Laugarási. Nú bætti Gylfi í og bætti innöndunarpústi við meðalapakkann sem auminginn litli hefur verið að taka inn síðusta daga og vikur. Svo leit hann á Perlu Maríu sem er búin að vera að hósta sl. nætur. Hún kemur til með að ná sér, mun fá mixtúru af risaskammti bróður síns og þá mun hún víst öll braggast á skömmum tíma. Þá hefur Gréta verið drulluslöpp en er að hressast. Það er vonandi að við Hákon sleppum í þetta skiptið.

Við hittum frænku Grétu á Heilsugæslustöðunni í Laugarási í dag. Það er hún María Karmen sem er búsett á Laugarvatni þar sem hún er nemi í Kennaraháskólanum. Þær Gréta eru systkinabörn. Hún virtist vera ánægð með lífið og var barasta hress. Það eru töggur í henni. Við eigum eflaust eftir að hitta hana einhverntíma aftur í bráð.

Svo fékk ég þær fréttir í apótekinu að Halli Guðfinns sé kominn heim til vetursetu. Ég verð að gera mér ferð upp í Miðhús og heilsa upp á hann sem allra fyrst.
 
  Enn og aftur um miðdegissöguna sumarið 1995
Ekki kveikti Þorsteinn G. í mér áhuga á Greatful Death en hins vegar tók við hjá mér mikið Einars Más æði. Ég las allt eftir hann og hef síðan með árunum eignast margar sögurnar hans og ljóðasafnið hans .Hljóðbók á ég eftir hann, geisladisk þar sem hann les ljóð sín við undirleik fusionspuna valinkunnra hljóðfæraleikara. Að þessu viðbættu hef ég svo notið þeirra forréttinda að kenna unglingum ískensku í grunnskóla og farið í gegnum Engla alheimsins með fjórum 10. bekkjum, Riddara hringstigans með 2 áttundu bekkjum auk þess sem ljóð Einars Más hafa margsinnis lent á kennsluáætlun hjá mér og ratað í ljóðasöfn handa nemendum, í ritgerðir þeirra og á tússtöflur kennslustofanna.

 
þriðjudagur, nóvember 9
  Meira um útvarpið og minnið
Að hlusta á útvarpið við störf hefur merkileg áhrif á minnið. Þegar ég var að læra sálarfræði, kennslufræði (m.a. námsmatsfræði) í Kennaraháskólanum las ég um það sem ég var fyrir löngu búinn að reyna á sjálfum mér. Um að það hjálpi til að læra alltaf við sömu aðstæðurnar því minnið geti þannig kallað fram þekkingu sem er til staðar fyrir vegna þess að við þær sömu aðstæður hafi hennar fyrst verið aflað. Heimnám fari sem sagt fram á sama stað. Próf verði tekin í skólustofu nemendanna sem taka prófið o.s.frv.

Sem dæmi um að ég hafi verið búinn að uppgötva þetta sjálfur vil ég nefna að þegar ég sé dúfu verður mér ósjálfrátt hugsað til þessarar sögu Einars Más, til upplesturs hans, til hússins sem ég var að mála þegar ég var að hlusta á þennan upplestur, mér verður hugsað til pabba í vinnugallanum, til fólksins sem vann þarna í húsunum í kring, til þess sem við feðgarnir vorum að ræða dags daglega þetta sumarið. Ég hugsa um bláa litinn á þakinu, litinn framan á lærunum á buxunum mínum þetta sumarið. Og ég man að þegar lestur sögunnar byrjaði í útvarpinu var ég að mála ytri helminginn á þaki nýju byggingarinnar á Björgunarsveitarhúsinu en pabbi var hinu megin. Við máluðum frá Hafnargötunni og að sjónum. Ég málaði sem sagt hægra megin við mig en pabbi vinstra megin við sig.

Ég hugsa líka til annars sem ég heyrði í útvarpinu þarna þegar við vorum að mála þetta tiltekna hús. Ég man eftir að hafa verið einn að vinna þarna rétt eftir hádegið á föstudegi og útvarpsþulurinn Ragnheiður Ásta Pétursdóttir kynnti óvænt að nú yrðu leikin lög af plötunni Götuskór með Spilverki þjóðanna, en sú plata var einmitt í sérstöku uppáhaldi hjá mér um þetta leyti enda nýkomin út aftur á CD. Það var óvenjulegt að heyra þannig tónlist á Rás 1 á þessum tíma dags. Ég var að mála sökkulinn á gamla húsinu, krjúpandi á hnjánum í skotinu innan við innganginn. Það var sól og blíða.

Ég man að hafa verið að mála glugga að neðanverðu seinni part dags og Kristinn R. Ólafsson kom í viðtal en að þessu sinni var hann ekki í Madrid heldur í Reykjavík. þar hafði hann ekki stoppað svo lengi í fjölda ára. Umræðuefnið var íslanska tungan. Honum fannst málfari hafa farið aftur en var þó feginn því að ekki væri eins áberandi að fólk notaði endinguna -ingu á kvenkynsorð í eignarfalli eins og honum hafði fundist vera lenska þegar hann hafði verið á Íslandi síðast, sbr. „ég er að fara til kerlingu" í stað kerlingar. Og þennan sama dag dó bandaríski kvikmyndaleikarinn Dean Martin og fólki gafst færi á að hringja inn og ræða um hann. Ég man að íþróttafréttamaðurinn og grallarinn Arnar Björnsson hringdi í þáttinn eins og hver annar hlustandi og sagði að Dean Martin væri ekki dáinn - hann væri við hestaheilsu og léki fótbolta með KA. Aðalkarlinn í Greatful death dó líka á meðan ég málaði hús Björgunarsveitarinnar og Þorsteinn G. Gunnarsson kom í spjall vegna þess og talaði um þessa hljómsveit sem ég þekkti ekki neitt og þekki lítið betur nú.
 
  Frændi minn - Ligga ligga lái!
Bolvíski tónlistarmaðurinn Mugison, sem réttu nafni heitir Örn Elías Guðmundsson, hefur fengið óhemju góða dóma gagnrýnenda fyrir nýjustu skífu sína „Mugimama, is this monkey music“. Skarphéðinn Guðmundsson, poppskríbent á Morgunblaðinu, gefur Erni 5 stjörnur af 5 mögulegum og heldur mikla lofræðu um plötuna. „Of langt mál væri þó að ætla sér að tala út um alla þá snilld sem platan hefur að geyma, hvert og eitt einasta lag er á sinn hátt það besta sem maður hefur heyrt að manni finnst nokkru sinni. Lesbókin öll dygði vart til þess að gefa hér tæmandi rökstuðning, en mun þó vonandi einn góðan veðurdag verða helguð þessum mikla músíkanti. Vonandi leiðarar líka og Reykjavíkurbréf, stefnuræða forsætisráðherra og nýársávarp forseta“, segir Skarphéðinn.

Þetta er hann Öddi frændi minn sem er svona mikill snillingur. Hann mun hafa sent mér plötu á föstudaginn. Ég bíð spenntur við bréfalúguna og vænti þess að á morgun falli ég í þennan sama trans og plötuskríbentinn á Mogganum féll í.
 
sunnudagur, nóvember 7
  Miðdegissagan í vinnunni
Einar Már er svo skemmtilegur upplesari. Það var pabbi sem kenndi mér að meta hann. Þannig var að eitt góðviðrissumarið í Bolungavík vorum við að mála hús Björgunarsveitarinnar sem stendur við Hafnargötu. Ég held að þetta hafi verið sumarið þegar við Gréta trúlofuðum okkur, sumarið þegar kviknaði í heima á Holtastígnum, sumarið sem ég var einn fyrir vestan en Gréta vann í Hagkaupum í Reykjavík og bjó með Bensa bróður sínum í Skaftahlíðinni, sumarið þegar ég las svo mikið. Sumarið 1995. Þetta var síðasta verkið mitt þetta sumar og við feðgarnir vorum, eins og við erum yfirleitt, með vasaútvarp á okkur. Þá bendir karlinn mér á að skipta yfir á Rás 1 því þar var að hefjast lestur nýrrar miðdegissögu. Ég meðtók náttúrulega orð föður míns og hlustaði á Einar Má lesa fyrsta lestur Vængjasláttar í þakrennum.

Það er skemmst frá því að segja að það var fastur liður allt þetta sumar að hlusta á miðdegissöguna og samskipti okkar feðganna í vinnunni voru ákaflega lituð af þessum upplestri Einars og við töluðum gjarnan með frösum úr sögunni, hermdum eftir rödd Einars Más og tónfalli raddarinnar. Persónur sögunnar bar oft á góma eins og t.d. Anton rakari sem ekki hafði mikið að gera í sínu fagi í miðju bítlaæðinu og tók að rækta dúfur og varð einskonur dúfnaræktarráðunautur Voga- og Heimahverfisins í Reykjavík.

 
laugardagur, nóvember 6
  útvarpið i bilnum
Í dag skrapp ég í búðina um hálfsexleytið og þegar ég ók heim á leið var Víðsjá í umsjón Eiríks, sem minnst var á hérna fyrr í vikunni. Hann er mikill áhugamaður um bókmenntir, er raunar bókmenntafræðingur, og þegar hann fjallar um bókmenntir í þættinum gerir hann það af svo einlægum áhuga að hlustendur geta ekki annað en haft gaman af. Í dag var Einar Már Guðmundsson í viðtali hjá Eiríki og þeir ræddu um nýútkomið Bítlaávarp Einars Más. Þar er víst kominn á kreik söguhetjan úr Riddurum hringstigans og Vængjaslættinum og því öllu. Hét hann ekki Jóhann Pétursson? Í upphafi Riddaranna kynnir hann sig til sögunnar með klaufhamar föður síns í hendi, nýbúinn að lemja með honum Óla vin sinn í hausinn. Let´s spend the night together með Stones kom við sögu í kaflanum sem hann las upp. Ég var sem sagt að hlusta á þetta í dag og tókst á meðan að aka allar götur og vegaslóða í Reykholti tvisvar sinnum.
 
  Vel leikinn fótbolti
Aston Villa er í sjónvarpinu að leika á Villa Park (sem er einmitt sama nafn og gamli malarvöllurinn í Víkinni bar á meðan Villi á Hreggnasanum bjó aftan við annað markið og Villi Annasar bak við hitt markið). Það er langt síðan maður hefur séð annað lið en Arsenal spila svona skemmtilegan fótbolta eins og Aston Villa er að spila núna í fyrri hálfleiknum. Mér verður hugsað til þjálfarans sem ég hafði í 5. flokki, Alberts Haraldssonar. Hann styður Aston Villa. Það gerði líka Jónas Vihelms. Ég man nú ekki eftir fleiri Víkurum sem héldu með Aston Villa. En Pálmi vinur minn á Akranesi æfði einu sinni með þeim í nokkrar vikur fyrir svona 10 árum. Hann hitti aldrei Paul McGrath því Írinn var þannig stemmdur í þá daga að hann kom bara á fimmtudögum og tók smá skallaæfingu með einkaþjálfara og svo mætti hann í leikinn á laugardegi. Þetta var undir lok ferilsins hjá Paul McGrath.
 
  Að hlusta á útvarpið með öllum líkamanum
Langar blogg-færslur les maður ekki. Þess vegna ætla ég að skipta því í nokkra kafla semég skrifaði í einhverju skrifæði í gærkvöldi. Svona byrjar það:

Einhverntíma heyrði ég Valgeir Guðjónsson tala um gamla daga og hann lýsti þeim á þann veg að þá hefðu menn hlustað á útvarp með öllum líkamanum. Mér verður stundum hugsað til þessara orða Valgeirs þegar ég ek ekki rakleiðis heim heldur tek aukarúnt um hverfið vegna þess að mig langar að klára að hlusta á útvarpsþáttinn sem er í gangi. Þetta kemur stundum fyrir. Það er hvergi eins gott næði til að hlusta á útvarpið eins og í bílnum. Ég hækka stundum vel í græjunum og nýt þess alveg í botn að hlusta á fólk tala um menn og málefni. Langmest hlusta ég á Rás 2 en uppáhaldsþættirnir eru margir á Rás 1 og ég stilli oft á Rás 1.

Ég hef tekið ákvörðun um nýtt þema sem mun vara í nokkra daga.
Þemað er: Ég að hlusta á útvarpið.

Megináherslan verður á minni mitt og hvernig ég tengi ýmislegt sem ég hef framkvæmt við það sem ég heyrði í úvarpinu á meðan á framkvæmdinni stóð.

Fyrsta færsla síðar í dag.


 
fimmtudagur, nóvember 4
  Myndir
Jæja, þetta ætti að veita áhugasömu fólki aðgang að ljósmyndum af Hákoni, Perlu Maríu og Hringi.

http://public.fotki.com/wwwkarl/gakka_ging_majia/
 
  Stór og dökkhærð
Við vorum búin að bíða í nokkra daga eftir þeim skilaboðum sem voru að berast okkur á sms rétt í þessu:
Frænka mín, Anna Svandís og Atli hennar, eignuðust stóra, dökkhærða stelpu miðvikudagskvöldið 3. nóvember. Við sendum þeim og öllum hinum í fjölskyldunni hamingjuóskir.
 
þriðjudagur, nóvember 2
  Miðlunartillagan #2
Sumir kennarar hafa haldið fram þeirri skoðun að þeir lækki í launum verði miðlunartillaga ríkissáttasemjara samþykkt. Það er reyndar frekar óvarlegt að fullyrða að einhver lækki í launum. Því sá sem telur sig gera það hefur fram til þessa haft traust yfirmanna sinna til að bera talsverða ábyrgð eða að framlag hans hefur verið vel metið og hann hlotið fyrir það ákveðna umbun í formi nokkurskonar bónus-launa. Hann lækkar ekki nema að hann njóti ekki sama trausts á næsta ári.

Jæja, það gæti svo sem gerst t.d. með breyttum áherslum í starfi viðkomandi skóla eða nýjum stjórnendum með nýjar útdeilingarreglur launapottsins. En engu að síður held ég að næstum enginn komi til með að lækka í launum, þótt hækkunin verði reyndar óveruleg. Í mínu tilfelli er það þannig að laun mín lagast svolítið á þessu skólaári en versna svo í upphafi þess næsta. En fái ég eitthvað úr potti skólastjórans, 2-3 flokka, lækka ég ekki heldur standa laun mín nokkrun veginn í stað frá hækkuninni þar á undan.

Ég veit ekki hvort hægt verður að ná meiri árangri að þessu sinni en mig langar til að láta sverfa til stáls. Leiðrétta þetta í eitt skipti fyrir öll. Það er ekki víst að farið verði í viðlíka baráttu í bráð. Mér finnst að laun grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og hjúkrunarfræðinga ættu að vera svipuð. Þau voru það einhverntíma. Nú ber nokkuð í milli. Það vil ég að verði lagað. Eftir það getum við gengist inn á sömu próesentuhækkanir launa og þær stéttir. Því meðan laun okkar eru lærri en þessara viðmiðunastétta breikkar bilið sífellt jafnvel þótt prósentuhækkun launanna verði sú sama á löngu tímabili. Það segir sig sjálft!

Næsta blogg verður að vera um eitthvert skemmtilegra efni!

Hilsen
 
  Alnetið og apotekið
Internetið er opið öllum. Maður gleymir því stundum þegar um svona blogg er að ræða. Þetta blogg hérna átti í upphafi ekki að vera annað en ÖMMUBLOGG - fréttir af fjölskyldunni þannig að ömmur og frænkur úr fjarlægum landshornum og útlöndum gætu til gamans lesið fréttir af krökkunum. En svo í páskafríinu í fyrra fylltist ég metnaði til að fá fleiri lesendur og fór að skrifa sögur frá uppvaxtarárum mínum í Bolungavík. Þá læddi ég slóðinni inn í gestabækur hér og þar og fékk heimsóknir. Já, svona er ég lúmskur og hégómagjarn! Núna má segja að bloggið sé hvorki ömmublogg né tilraun til að krækja í lesendur. Sem sagt - hvorki fugl né fiskur.

En alnetið teygir þræði sína út um allt og nú er svo komið að maður hefur skrifað í gestabókina mína sem ég þekki ekki haus né sporð á. Eins gott að ég sagði ekkert slæmt um hann!
Hver ykkar lesenda hefur komið Breiðbandinu á sporið?

Talandi um uppvöxtinn í Bolungavík: Það eru nokkrar frásagnir í nýlegri bók Eiríks Guðmundssonar, 39 þrep til glötunar, þar sem sögusviðið er Bolungavík. Þið munið... Eiríkur hans Gumma Simm og hennar Finnu í apótekinu. og af því að apótekið ber á góma langar mig að enda á þessu:

Einu sinni fórum við Rúnar frændi minn í apótekið til Finnu í frímínútunum til kaupa smokka fyrir Kristján bróður Rúnars. Honum hefur sjálfsagt fundist þessi sendiferð veraof vandræðalega til þess að hægt væri að fara hana einn síns liðs og fengið mig þess vegna í lið með sér. Við höfum verið sirka 9 ára. Mér er minnistætt að Rúnari þótti ástæða til að taka það fram eftir að hafa rétt Finnu miðann (sem hann átti örugglega ekki að lesa sjálfur) að þetta væri sko fyrir Kristján.

... og nú fær Rúnar að vita af slóðinni minni og Kristján og Anna svo það má búast við að lesendunum fjölgi.....
(ég bara vona að þeir muni að kvitta í gestabókina).

Kveðja frá einum lúmskum og hégómagjörnum Bolvíkingi
 
mánudagur, nóvember 1
  Miðlunartillagan
Hvað er verið að reyna að segja manni með þessu?

Skv. tillögunni mun ég:
- Fá 130.000 krónu bætur fyrir að hafa verið „samningslaus" og án launahækkunar frá því í janúar sl.
- fá kauphækkun upp á rúmar 9.000 kr.
- Missa ákveðin laun fyrir ábyrgð sem skólastjórinn var búinn að fela mér.
- Skríða yfir 200 þúsund krónu þröskuldinn á næsta skólaári.
- Fá 213 þúsund í laun á mánuði í ársbyrjun árið 2008.

Árið 2008 verð ég 35 ára og mun hafa starfað í faginu í 10 og 1/2 ár. Séu árin í KHÍ talin með verða þau 13 og 1/2.

Er starf mitt ekki meira virði?
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]