Ritræpa, marþonfótsnyrting tónlistarvefs & tækifærismennska á þinginu
Margt breyst frá síðasta vefrúnti: Kristjáni er batnað af stíflunni (www.boviskastalid.blogspot.com) og Öddi er búinn að láta lagfæra Mugison-vefinn (www.mugison.com) sem hefur verið heldur dauft yfir undanfarnar vikur. Kristján heldur áfram ómálefnalegu hjali um stjórnmálamenn í Reykjavík og skemmtilegum kommentum um lífið og tilveruna, eins og t.d fótbolta og fjölmiðla. Skemmtilegt blogg hjá honum. Öddi gefur áhugafólki um tónlist hans tækifæri á að fylgjast með störfum hans. Hann birtir tónleikaplanið, linka þar sem fjallað er um tónleika hans og á síðunni er einnig hægt að nálgast tónlistina, textana og fleira í þeim dúr. Breytingarnar sem nú voru gerðar á síðunni eru ágætar og líta einkar vel út.
Ég var að hlusta á stjórnarandstöðuþingmennina tjá sig um væntanleg lög á aðgerðir okkar grunnskólakennara. Mér finnst tækifærismennska Samfylkingarinnar og Frjálslyndra einum of ríkur liður í málflutningi þeirra. Þeir uppskáru meira að segja klapp af þingpöllum enda tala þeir eins og frá hjarta okkar kennara. Það finnst mér ábyrgðarlaust. Mínir menn í VG hafa þó að minnsta kosti ekki þurft að breyta áherslum sínum vegna þessa máls. Þeira hafa mánuðum saman bent á að auka þurfi tekjustofna sveitarfélanna og tengt það þessu máli. VG - þar sem málefnin ráða!
Öllum má vera ljóst að Launanefnd sveitarfélaga hefur unnið fullnægðarsigur í baráttunni. Hún hefur náð fram því eina sem lagt var upp með þegar að samningaborðinu kom. Nefnilega að fá ríkið til að koma að málinu og vonast eftir því að það skaffi sveitarfélögunum auknar tekjur. Kennarastéttin spilar það hlutverk í þessum leik að vera kylfa í höndum Sambands íslenskra sveitarfélaga og með henni er lamið á ríkinu. Bang bang! Ég hef bent á þetta fyrr.
Annars held ég mig til hlés í þessu máli. Sveitarfélagið ég starfa hjá greiðir mér ágætis bónus í því formi að það greiðir um það bil helming leiguverðsins á móti mér fyrir íbúðina sem ég bý í. Þess vegna held ég mig á mottunni. Þetta er myndarleg kjarabót og í sannleika sagt ástæða þess að ég fór að litast um eftir starfi í sveitaskóla á sínum tíma.