Alnetið og apotekið
Internetið er opið öllum. Maður gleymir því stundum þegar um svona blogg er að ræða. Þetta blogg hérna átti í upphafi ekki að vera annað en ÖMMUBLOGG - fréttir af fjölskyldunni þannig að ömmur og frænkur úr fjarlægum landshornum og útlöndum gætu til gamans lesið fréttir af krökkunum. En svo í páskafríinu í fyrra fylltist ég metnaði til að fá fleiri lesendur og fór að skrifa sögur frá uppvaxtarárum mínum í Bolungavík. Þá læddi ég slóðinni inn í gestabækur hér og þar og fékk heimsóknir. Já, svona er ég lúmskur og hégómagjarn! Núna má segja að bloggið sé hvorki ömmublogg né tilraun til að krækja í lesendur. Sem sagt - hvorki fugl né fiskur.
En alnetið teygir þræði sína út um allt og nú er svo komið að maður hefur skrifað í gestabókina mína sem ég þekki ekki haus né sporð á. Eins gott að ég sagði ekkert slæmt um hann!
Hver ykkar lesenda hefur komið Breiðbandinu á sporið?
Talandi um uppvöxtinn í Bolungavík: Það eru nokkrar frásagnir í nýlegri bók Eiríks Guðmundssonar, 39 þrep til glötunar, þar sem sögusviðið er Bolungavík. Þið munið... Eiríkur hans Gumma Simm og hennar Finnu í apótekinu. og af því að apótekið ber á góma langar mig að enda á þessu:
Einu sinni fórum við Rúnar frændi minn í apótekið til Finnu í frímínútunum til kaupa smokka fyrir Kristján bróður Rúnars. Honum hefur sjálfsagt fundist þessi sendiferð veraof vandræðalega til þess að hægt væri að fara hana einn síns liðs og fengið mig þess vegna í lið með sér. Við höfum verið sirka 9 ára. Mér er minnistætt að Rúnari þótti ástæða til að taka það fram eftir að hafa rétt Finnu miðann (sem hann átti örugglega ekki að lesa sjálfur) að þetta væri sko fyrir Kristján.
... og nú fær Rúnar að vita af slóðinni minni og Kristján og Anna svo það má búast við að lesendunum fjölgi.....
(ég bara vona að þeir muni að kvitta í gestabókina).
Kveðja frá einum lúmskum og hégómagjörnum Bolvíkingi