Vel leikinn fótbolti
Aston Villa er í sjónvarpinu að leika á Villa Park (sem er einmitt sama nafn og gamli malarvöllurinn í Víkinni bar á meðan Villi á Hreggnasanum bjó aftan við annað markið og Villi Annasar bak við hitt markið). Það er langt síðan maður hefur séð annað lið en Arsenal spila svona skemmtilegan fótbolta eins og Aston Villa er að spila núna í fyrri hálfleiknum. Mér verður hugsað til þjálfarans sem ég hafði í 5. flokki, Alberts Haraldssonar. Hann styður Aston Villa. Það gerði líka Jónas Vihelms. Ég man nú ekki eftir fleiri Víkurum sem héldu með Aston Villa. En Pálmi vinur minn á Akranesi æfði einu sinni með þeim í nokkrar vikur fyrir svona 10 árum. Hann hitti aldrei Paul McGrath því Írinn var þannig stemmdur í þá daga að hann kom bara á fimmtudögum og tók smá skallaæfingu með einkaþjálfara og svo mætti hann í leikinn á laugardegi. Þetta var undir lok ferilsins hjá Paul McGrath.