Tilraunavefurinn
miðvikudagur, maí 31
  Heimsókn
Það komu hingað í gærkvöld krakkar úr Bolungavík og gistu hérna í Reykholti. Þetta voru 10. bekkingar í skólaferðalagi. Þeir höfðu fyrr um daginn brunað niður Hvítá, séð Gullfoss og Geysi og fleira sem krakkar í skólaferðalagi gera. Ég hitti þau aðeins (ég tók reyndar ekki á móti þeim því ég var búinn að steingleyma heimsókn þeirra - ég var búinn að redda þeim gistingu og ætlaði svo sannarlega að taka vel á móti sveitungum mínum!).

En svo hitti ég liðið. Ég sýndi þeim skólann hérna og sagði þeim aðeins frá sveitasamfélaginu, sem er töluvert frábrugðið því sem þeir þekkja úr sjávarplássinu.

Fyrir ykkur Bolvíkinga sem lesið vefinn tek ég fram að krakkarnir komu mjög vel fyrir, voru hressir, kurteisir og gengu vel um. Þeir voru líka mjög þreyttir eftir allt sem þeir höfðu gert um daginn. Þessir krakkar voru Bolungavík til sóma!
 
þriðjudagur, maí 30
  Opið bréf til Bolvíkinga
Þótt ég búi í Biskupstungum er ég Bolvíkingur. Þar eru rætur mínar. Þar óx ég úr grasi og kynntist mörgu og mörgum og upplifði svo margt sem hefur gert mig að þeim manni sem ég er. Þess vegna fylgist ég með mannlífinu í Bolungavík, eins og kostur er, m.a. á Víkari.is og nýjum vef Bolungavíkurkaupstaðar. Mér er annt um Bolungavík og að Bolvíkingar hafi það gott heima í Víkinni.

Mér þykir æðislegt að Sossa hafi fengið starf skólastjóra í Víkinni. Önnur eins hugmyndamaskína fyrirfinnst varla. Í alvöru talað; ég þekki skólafólk víða um landið sem öfundar fólkið sem vinnur í skólunum í Víkinni fyrir að hafa aðgang að Sossu næstum daglega. Mig grunar samt að það hafi ekki nýtt sér það í eins miklu mæli og hægt væri. Ætli hún hafi verið fengin til að halda fyrirlestra eða námskeið fyrir kennara á starfsdögum? Hún heldur fyrirlestra og námskeið fyrir starfsfólk grunnskóla og leikskóla annars staðar á landinu og víðast hvar hrífur hún fólk með sér og kemur því af stað í vinnu sem yfirleitt tengist tónlist, myndlist eða leikrænni tjáningu. Hún var hér hjá okkur í Tungunum í fyrra. Þær voru yfir sig hrifnar konurnar á leikskólanum og eru enn að sækja í hennar brunn og allt efnið sem hún hefur útbúið og skildi eftir handa þeim. Leikskólakennarar á Akranesi fengu líka námskeið hjá henni þegar við bjuggum þar og það var talað um það á afar jákvæðum nótum í marga mánuði á eftir.

Um hæfni Sossu til að nálgast börn, virkja þau til skapandi hugsunar og kenna þeim þarf ekki að fjölyrða, þið þekkið það flest sem lesið þennan vef. Ég leita til hennar endrum og sinnum þegar ég er að fást við eitthvað sem snýr að tónlist eða leiklist í starfi mínu í skólanum. Hún er með eindæmum hvetjandi ráðgjafi. Það er einn af helstu kostum hennar. Við hittumst stundum og þá ræðum við alltaf um skólastarf, uppeldi og tónlist - og fólk. Við tölum mikið um fólk. Sýn Sossu á listmenntun og manngildi í skólastarfi er fjörleg og uppeldislega útpæld. Þið eruð í góðum málum bolvískir grunnskólanemendur og bolvískir foreldrar.

Fræðin segja að góður skóli sé glaður skóli. Öðru slagorði var mikið flaggað í Grundó, þar sem ég var að kenna áður: Það er einhvernveginn svona: Góð líðan nemanda er forsenda þess að nokkuð nám fari fram hjá honum. Og ég segi: Ef Sossa getur ekki lagt sitthvað til sem stuðlað getur að glöðum skóla og góðri líðan nemendanna, þá getur það enginn!

Ég held aftur á móti að sigur Sossu og þeirra í K-listanum í bæjarstjórnarkosningum skipti Bolvíkinga ekki nokkru máli. Það skiptir litlu hvort það er Sossa, Elías Jónatans eða Anna Ed. sem ræður ferðinni þar. Ég hef unnið með þeim öllum og þykist vita að ef þau leggja sig fram um að stýra þessu battaríi þannig að velferð íbúanna sé alltaf að leiðarljósi, sem ég treysti þeim öllum til að gera, og gæti þess, við hverja ákvörðun sem þau standa frammi fyrir, að huga alltaf að hagsmunum heildarinnar, er framtíð Bolungavíkur björt. Þetta er allt sómafólk sem komið er í bæjarstjórnina heima. En mér finnst gott til þess að hugsa að Sossa skuli vera orðin skólastjóri. Ég ætla að þessi ráðning sé heillaspor fyrir samfélagið.

Ég óska bolvískum grunnskólanemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki Grunnskóla Bolungavíkur til hamingju með nýja skólastjórann. Skilaboð mín til þeirra eru þessi: Takið Sossu eins og hún er. Hana langar rosalega mikið að bjarga heiminum og þið mununð þurfa að hægja á henni stöku sinnum og biðja hana að taka eitt skref í einu. En þannig er hún bara gerð, þið breytið því ekki, sættið ykkur heldur við það. Hjálpið henni að nýta hæfileikana sem hún hefur þannig að þeir komi að góðu fyrir skólastarfið. Vinnið saman og minnið hana á að færast ekki of mikið fang. Verið jákvæð, eins og hún, og opin fyrir fríkuðum hugmyndum. Verið mátulega dugleg að toga hana niður á jörðina þegar hún fer á mesta flugið, en verið líka tilbúin endrum og sinnum að fljúga með henni. Mikið óskaplega held ég að það geti orðið gaman hjá ykkur í vinnunni!

Kveðja, Kalli kennari
 
mánudagur, maí 29
  Stoltur frændi
Ég er að hlusta á Mugison complete. Hann er bara alveg frábær.
En hvað haldiði? Ég gleymdi að hlusta á beina útsendingu frá tónleikum hans á Listahátíð í útvarpinu í gær (fyrradag).
Og eitt til gamans: Megas segir að maður eigi að bera Mugison fram þannig að g-ið verði joð, eins og í Hugi. Er það ekki soldið íslenskt og töff?
 
sunnudagur, maí 28
  Allir á völlinn!
Hvort ætlar þú að sjá kvennalið Bí/Bolungavíkur leika gegn Haukum á Ásvöllum klukkan 14:00 í dag eða sjá strákana mæta Létti á Framvellinum á sama tíma?
 
  Stjórnmálarýni Kalla
Jæja, þá er búið að kjósa. Það fór 4-3 hjá okkur í Bláskógabyggð. Þ-listinn fékk 4 menn í sveitarstjórn en T-listinn 3.

Heima í Bolungavík komst klofningsframboðið í oddastöðu eins og við var að búast. Baldur frændi minn slapp inn í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Sossa fór fyrir K-listanum sem fékk flest atkvæðin.

Á Skaganum urðu miklar breytingar. VG fékk góða kosningu og sömuleiðis Frjálslyndir. Sveinn og Hrönn komu illa út og Guðmundur Páll fór einn inn frá Framsókn. SJálfstæðismenn fengu ágæta útkomu. Þar var Hildur Karen, frænka mín, á lista.

Það gladdi mig að sjá hvað VG fær víða góða útkomu. Þar kemst að fólk sem hefur alveg hreinar línur í umhverfismálunum
nokkuð klárar líka í velferðarmálum. Og oft er þarna á ferðinni fólk sem hefur skilning á hlutverki menningarstarfsemi í heimabyggðinni (auðvitað á þetta nú við um fleira sveitarstjórnarfólk en VG-liða). Með tilkomu VG í sveitarstjórnir í landinu heyrist rödd sem mér finnst mikilvægt að heyrist sem víðast.

Annars finnst mér það merkilegasta í fréttum frá kosningunum vera úrslitin í bláu bæjunum. Seltjarnarnes og Garðabær eru nánast einlit sveitarfélög. Þar vinna Sjálfstæðismenn sko sigra. Reyndar grunar mig að flest atkvæðin þeirra séu frá fólki sem myndi alltaf kjósa þá, alveg sama hvaða vitleysu þeir tækju upp á á kjörtímabilinu. Í Reykjanesbæ vinna þeir aftur á móti alvöru sigur. Ég held að þar sé ekki um svona áskriftarfylgi að ræða. Þar veðjuðu þeir á réttan hest síðast og fengu virkilega góðan mann í bæjarstjórastólinn sem hefur hrifið fólkið með sér, verið jákvæður, sýnilegur og greinilega staðið sig mjög vel í starfi. Ef það á að taka einhvern einn út sem sigurvegara þessara kosninga, þá er það Árni Sigfússon.

Í Hafnarfirði vinnur Samfylkingin einmitt samskonar sigur og Sjálfstæðismenn gera í Reykjanesbæ. Reyndar eiga Kratar þar langa og farsæla sögu. Þar fór einn frændi minn í bæjarstjórn, hann var síðasti maður inn. Það var aumkunnarvert að fylgjast með baráttu Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði. Þar hafa menn veitt þjónustu sem íbúarnir eru ánægðir með, sinna þessum málaflokkum sem skipta fjölskyldur máli, skólamálin, menningarmálin og æskulýðsmálin eru málaflokkar sem skipta fjölskyldur máli og þarna hafa þeir staðið sig vel, t.a.m. mað ákvörðunum eins og að greiða niður þátttöku barna á einhverju aldursbili í íþrótta- og tómstundastarfi. Í Hafnarfirði áttu minnihlutaflokkarnir aldrei séns, ja, nema VG, sem hélt á lofti skoðun sem hlýtur að hafa hljómgrunn meðal einhverra Hafnfirðinga; nefnilega að setja fyrirvara á þá ákvörðun að leyfa stækkun álversins sem er í sveitarfélaginu.

Það er líka gaman þegar menn leggja allt undir í kosningum. Þannig fór það hjá Ísólfi Gylfa í Rangárþingi eystra. Hann lagði sjálfan sig að veði. Hann hefði þurft að finna þrjá Framsóknarmenn í viðbót í sveitnni og keyra þá á kjörstað til að sleppa inn og verða sveitarstjóri á eigin heimavelli. Það er spurning hvort hann heldur áfram sem sveitarstjóri hjá nágrönnum mínum hérna hérna austan megin við Hvítána, úr því að svona fór fyrir honum heima á Hvolsvelli.
 
laugardagur, maí 27
  Söngur
Jarðarför í dag. Það er góður kórinn sem ég syng með og það eru forréttindi að fá að syngja í þessu húsi. Skálholtskirkja sándar vel!
 
  Kosið
Það voru tveir listar í boði hjá okkur í sveitinni. T-listinn og Þ-listinn.

Þ-listinn hefur haft meirihluta síðasta kjörtímabil. Þeir segjast hafa þor. Þar er ég þeim ekki sammála, þeir hafa nefnilega ekki haft þor til að taka ákvarðanir sem yrðu óvinsælar hjá einhverjum í sveitinni. Nú vilja þeir hafa sveitarstjórnarmann í hverri nefnd sveitarfélagsins til að auðvelda boðleiðir. Það líst mér ekki á. Ég tel að það dragi úr fólki að koma með djarfar og ferskar hugmyndir. Þær fái síður tækifæri til að þróast og verða að veruleika. Þeir hafa ekkert talað um að fegra umhverfið i þéttbýlinu eða að malbika göturnar (ég þekki örugglega einhvern sem hefur skrifað svipaðar pælingar í dagbók á áttunda áratug síðustu aldar).

Hitt framboðið talar heldur ekkert um þessi umhverfismál sem ég ætlaði að láta ráða úrslitum um hvort framboðið fengi mitt atkvæði. Oddviti þeirra hefur farið offörum í fjölmiðlum og það hefur jaðrað við dónaskap sumt af því sem hann hefur skrifað. Þeir hafa mann á listanum sem mér líst vel á og Gréta þekkir frá því hún var krakki. Það eru kórfélagar á báðum listum. Ég þekki þetta náttúrulega ekki mjög vel þar sem ég hef nú bara búið hér í tæp tvö ár.

Ég þekki ekki alla á listunum. En ég tók ákvörðun í gær um hvort framboðið ég kysi og í dag þegar ég vaknaði var ég enn sömu skoðunar og ég kaus og sé enn ekki eftir atkvæðinu. Það á svo eftir að koma í ljós hvort ég verði ánægður með störf þeirra sem munu stjórna næstu fjögur árin.

Pabbi kenndi mér mikilvæga lexíu um að maður ætti að vera þeim þakklátur sem bjóðast til að sitja í sveitarstjórnum. Það sá vanþakklátt starf en samt sem áður starf sem einhverjir þurfi að sinna. Þetta er hárrétt. Auðvitað hafa allir sem stija í sveitarstjórnum það sama að markmiði: Að gera búsetu í sveitarfélaginu eins góða og kostur er. Auðvitað!
 
fimmtudagur, maí 25
  Hringur í boltalandi

Hringur í boltalandi
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Þetta er gaman!
 
  Tónlistardagur (enn og aftur)
Uppstigningardagur (Kristi himmelfarsdag sögðu þeir í Dk) og við Hákon ætlum á Selfoss þar sem von er á Suzuki fiðlunemum úr Reykjavík í heimsókn til okkar Árnesinga. Það á að spila með þeim og eitthvað. Svo er nú ætlunin að reyna að vinna svolítið í dag.

Klukkan fjögur verður svo byrjað á upptökum í Skálholtskirkju með kórnum. Það er svolítið merkilegt verkefni. Þannig er að Skálholtsstóll á afmæli á þessu ári og af því tilefni eru vígslubiskup og kantorinn búnir að velja nokkra uppáhaldssálma sem eiga að fara á plötu. Þessir sálmar hafa ekkert endilega verið gefnir út. Margir þeirra eru náttúrulega alþekktir og hafa heyrst í útvarpsmessum árum saman, en aðrir eru minna þekktir. Sumir þeirra tengjast Skálholti sérstaklega. Róbert Abraham hefur samið þá marga. Hann var mikið í Skálholti á sumrin og þeir elstu í kórnum hjá okkur sungu þessi lög Róberts undir hans stjórn fyrir nokkrum áratugum síðan.

Við erum búin að fara í eina upptökusession. Það var í haust. Þá voru einföldustu lögin á dagskrá. Núna verður flóknara stöff tekið fyrir. Ég er svo mikill Vestfirðingur að mitt uppáhaldslag er eftir Hjálmar H. Hann hefur útsett svo fjöruga bassalínu í þennan sálm sem við ætlum að taka upp.
 
miðvikudagur, maí 24
  Hakon fiðlari

Hákon var að spila á tónleikum í Aratungu í gær. Þarna er hann að flytja lagið Mér um hug og hjarta nú.
 
þriðjudagur, maí 23
  Chordie
Ég fann alveg frábæran vef handa okkur sem spilum á gítar og syngjum. Þar er ógrynni af textum með gítarhljómum. Það sem þessi síða hefur umfram þær margar aðrar er að hún býður upp á tónflutninga með einni aðgerð. Að auki birtist mynd við hlið textans þar sem sýnt er hvernig gripin líta út á gítarhálsinum og með einu músarsmelli breytast gítargripin í mandólíngrip eða banjógrip, ukulelegrip, gítargrip fyrir örvhenda og svo videre. Tékkið á þessu með því að smella á fyrirsögnina
 
mánudagur, maí 22
  Rámur og hás
Ég var ekki sérstaklega skynsamur um helgina. Á balli á föstudagskvöldið með Bleki og byttum söng ég af öllum lífs og sálarkröftum lög eins og Twist and Shout með Bítlunum. En við erum ekkert að hafa fyrir því að tónflytja þetta og mér finnst ég syngja þetta svo vel. Líður alveg stórkostlega á meðan ég þen mig allan og rembast við þetta. En formið er ekki betra en svo að á eftir svona rembingi kem ég varla upp hljóði og giggið á laugardagskvöldið var hálfundarlegt með ráman forsöngvarann og flest lögin lækkuð um a.m.k. heiltón, og það kostar mig talsverða einbeitingu að spila lög sem ég hef spilað hugsunarlaust árum saman allt í einu í nýrri tóntegund Úff, man.

Maður lætur sig hafa þetta og þjösnast á raddböndunum þangað til allt er gjörsamlega búið að vera þar. Ég hef sjálfsagt hljómað eins róni þar sem ég reyndi að syngja með í sálmunum við skírnina í hádeginu á sunnudaginn.
 
  Valdimar Atlason
Litli bróðursonurinn var skírður um helgina. Eins og gengur og gerist var honum gefið nafn í leiðinni. Hann heitir Valdimar.
 
  Musik
Ég hef verið að fást við frábæra hluti. Við höfum verið að taka upp tónlist með unglingum. Ég fór með tölvuna mína og öll hljóðfærin upp í skóla. Þar breyttum við tónlistarstofunni í hljóðver og þar erum við búnir að vera, við Hilmar, að spila og hlusta og pæla og taka upp söng krakkanna. Þetta fer svo á plötu sem við dreifum á heimilin í sveitinni.

Þess utan hefur verið svolítið um spilerí. Klettur á föstudag, Geysir á laugardag.

Nóg að gera.
 
miðvikudagur, maí 17
  Annir
Þegar lítið er bloggað er mikið að gera.
 
laugardagur, maí 13
  Námskeið hvað!

Námskeið hvað!
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Það var verið að segja frá námskeiði í hárgreiðslu fyrir feður í frétttunum í gærkvöldi. Það varð til þess að ég lét reyna á hæfni mína í morgun og fléttaði Perlu Maríu.
 
föstudagur, maí 12
  Geim handa tveim
Ég man eftir sjónvarpsþáttum, mjög skemmtilegum þáttum, um félagslíf í framhaldsskólum landsins sem hér Annir og appelsínur. Þá þótti það örugglega svakalega ferskt og flott heiti á sjónvarpsþætti. Það þætti ógeðslega lélegt núna. Þannig er nú það.

Mér finnst eins og ég hafi einhverntíma áður minnst á það hérna á síðunni, e.t.v. fyrir löngu síðan, hvað ég var stoltur af Jónasi frænda mínum þegar hann söng og lék lagð sitt Geim handa tveim í þessum þætti fyrir sirka 22 árum síðan. Það var svona (þori þó ekki að ábyrgjast að þetta sé nákvæmlega rétt):

Geim handa tveim
geim um allan heim
geim handa tveim
aðeins þeim tveim

Ó, komdu með mér heim
í geim handa tveim
við svífum inn í draumaheim
geim handa tveim

Oh, I love you
you love me too
I love you three
and you love me

P.s. Ekki láta Jónas Pétur vita af þessari birtingu ljóðsins hans. Ég hef svolitlar áhyggjur af því hvernig stefgjöldin yrðu innheimt!
 
  Spáin
Ég hef áður spáð um röð liðanna í efstu deild í fótboltanum í upphafi móts. Kristján Jóns gerir þetta líka hérna www.bolviskastallid.blogspot.com. Hann heldur með KR. Ég held með ÍA og Danna (sem er fótbrotinn og spilar kannski ekki mikið þetta sumarið - hann er í Val).

Ég hef ekkert fylgst með boltanum í vor. Ég veit lítið um það hvernig liðin í deildinni eru mönnuð eða hvernig þau hafa verið að spila. En það verður að spá, er það ekki? Keflvíkingar og Breiðablik munu koma allra liða mest á óvart. Keflvíkingarnir eru með gott lið og mér líst vel á þjálfarann hjá þeim, hann veit greinilega sínu viti. Breiðblik verður liðið sem grísar og grísar á hagstæð úrslit. mér segir svo hugur að Marel Baldvinsson eigi eftir að reynast þeim drjúgur.

Bolvískir knattspyrnumenn verða ekki mikið áberandi. Pési Run mun sjálfsagt spila meira með ÍBV en hann hfur gert síðustu ár en liðið hans fellur, því miður. Ég held að Danni verði ekkert með Val í sumar. Hann er fótbrotinn og mun í mesta lagi sprika fyrir einhvern úthverfaklúbb og þá fyrsta lagi í ágústmánuði þetta árið. Æ, ég vona nú samt að hann jafni sig fljótt og verði fastamaður í Valsliðunu í seinni umferðinni.

Spáin er þá svona.

1. Akranes
2. Keflavík
3. FH
4. KR
5. Breiðablik
6. Valur
7. Fylkir
8. Víkingur
9. Gríndavík
10. ÍBV
 
  Atkvæðið mitt


Ég var svona að spá hvað ég ætti að láta ráða úrslitum þegar ég vel hvar krossinn minn fer á atkvæðaseðilinn í sveitarstjórnarkosningunum. Kannski ég ætti að láta umhverfismálin ráða. Þá myndi ég kjósa þá sem vilja flikka upp á útlit þéttbýlisins í sveitinni. Á myndunum sjást skólalóðin og gatan sem ég bý við.
 
fimmtudagur, maí 11
  Textarnir #4 (rétt svör)
Jæja, ég var alveg að gera mér vonir um 15 ágiskanir í þessum leik. En svona er þetta. Hér koma síðustu réttu svörin og svo er hættur.

Búið að vera mikið að gera í vinnunni. Margt að hugsa.

Svör:

16. Þeyr
17. Abbababb
18. Nylon
19. Ný dönsk
20. Bjartmar
 
þriðjudagur, maí 9
  Textarnir #3 (rétt svör)
11. Sykurmolarnir
12. Spaðar
13. REM
14. Donovan
15. Miðnes
 
  Textarnir #4
Rosalega hefur mér nú fundist þátttakan dræm í leiknum mínum. Ég ætla nú samt að klára að birta þá texta sem ég var búinn að hafa til. Hér koma síðustu fimm dæmin.

Hverjir flytja lögin þar sem textinn hefst á þessum orðum?

16. Það er engin leið út - engin leið út - úr þessu rassgati...
17. Vá þarna koma vífin - viljug en nokkuð stríðin...
18. Ég veit það vel - allskostar ekkert - sem að við eigum sameiginlegt....
19. Hölluðum hurðum er best að loka - þó veggirnir hafi ekki eyru eru eyru á bakvið...
20. Þegar fyrirmyndarbarnið hætti að læra heima og skellti sér með dúndurkrafti í trukkið...
 
mánudagur, maí 8
  Textarnir #3
Og enn er spurt: Hverjir flytja lögin þar sem textinn hefst á þessum orðum?

11. Rrrrrrrrrrrrrestmanvibration ua ua positive - ég kvarta ekki ef....
12. Gekk ég um garð - með gömbuna mína - á vegi mínum varð - vífið Sigurlína.
13. That's great, it starts with an earthquake - birds and snakes, an aeroplane - Lenny Bruce is not afraid....
14. In the chilly hours and minutes - of uncertainty I want to be - in the warm hold of your lovin' mind...
15. Misskilið hjálparstarf er allt hér sem ég þarf alls engar áhyggjur af þér að hafa...
 
  Textarnir #2 (rétt svör)
6. Stuðmenn
7. Bítlarnir
8. Elvis
9. Odd Nordstuga
10. Keane
 
  Blessað veðurfarið
Biskupstungur í dag:
Stafalogn, mistur og 24°hiti. Toppiði það.
 
sunnudagur, maí 7
  Textarnir #2
Leikurinn heldur áfram. Heldur var þátttakan dræm í upphafi en rosalega góðar lausnir hjá Bigga og Skagakonunni. Látið vaða ef þið hafið minnsta grun. Það er svo gaman. Enn er spurt: Hverjir flytja lögin þar sem textinn hefst á þessum orðum?


6. Út á stoppistöð ég skunda nú með flösku í hendi...
7. Got a good reason, for taking the easy way out....
8. It's now or never, come hold me tight...
9. Ute hev karane grave i dag, men eg er her i mitt hus...
10. I hold you in my hands - A little animal - And only some dumb idiot - Would let you go
 
  Textarnir #1 (rétt svör)
1. The The
2. Stones
3. Geir Harðar
4. Spilverkið
5. Bubbi (Bellmanvísa)
 
  Góður kennari
Ef sá kennari sem maður lærir mest hjá er besti kennarinn þá er einn besti kennari sem ég hef haft maður sem lítur örugglega ekki á sig sem kennara.

Þegar ég var kominn í Menntaskólann á Ísafirði keypti ég mér 7 tíma í gítarkennslu hjá Magga Hávarðar, sem þá var nýkominn aftur heim í Víkina. Hann hafði verið að læra í FíH og spilað töluvert í hljómsveitum um nokkurt skeið. Ég lærði alveg rosalega mikið af honum. Ég lærði eiginlega það sem hefur gagnast mér þangað til núna - í 16 ár.

Nú langar mig að læra meira í tónlist. Mig langar að verða hraðlæsari á nótur. Með það að markmiði skiptir kannski ekki öllu máli á hvaða hljóðfæri ég læri. Ég er að hugsa málið.
 
  Bekkurinn minn.
Frænka mín og bekkjarsystir, Dóra Óskars, átti afmæli í gær.
Bekkjarbróðir okkar, Gummi Hrafn átti afmæli 1. maí.

Ég held að það standi til að bekkurinn hittist næsta vor. Þá verður 20 ára fermingarafmæli. Við erum örugglega slappasti bekkur í heimi í að halda kontakt eftir að leiðir skilja. En nú er þó alla vega hugur í okkur.
 
  Venni

Þessi hérna er úr hópi þeirra tónlistarmanna sem mér hefur þótt skemmtilegast að spila með. Hann er gríðarlega músíkalskur. Hann spilar bæði á gítar og bassa. Við höfum reyndar ekkert spilað saman í mörg ár, en það var alltaf þrælskemmtilegt að spila með honum , hvort sem stigið var á svið eða bara trallað í partíi. Ég vona að við eigum eftir að spila saman aftur. Venni var alltaf seigur að gera flottu gítarlínurnar á einfaldan og að því að manni virtist afar kæruleysislegan hátt, en samt var svo margt hjá honum verulega fágað, enda hæfileikarnir miklir.

Ég rakst á þessa mynd á Netinu. Ég hef ekki heyrt Venna spila á flygil en mér skilst að hann hafi verið mikið efni þegar hann lærði á píanó í Tónó á Ísó þegar hann var smápúki.
 
laugardagur, maí 6
  Gula húsið?
Ég sá á BB síðunni að Bæjarmálafélagið í Bolungavík var með einhverja dagskrá í Gula húsinu. Nú verða bolískir lesendur þessarar síðu að upplýsa mig um hvaða hús gengur undir nafninu Gula húsið.

Og þeir mega líka henda kommentum inn á færslurnar hér að neðan. Þetta lítur svo aumingjalega út þegar enginn bregst við.
 
  Textarnir #1
Það var einhver leikur í gangi á bloggum um daginn sem gekk út á að taka af handahófi lög úr iTunes og seklla fyrstu línunni af textanum á bloggið. Það er svo lesendanna að finna út úr því hvert lagið er og flytjandinn. Ég er búinn að gera svona tilbrigði við þennan leik og ætla að birta fyrstu fimm dæmin. Ég valdi reyndar úr hjá mér, þetta er ekki alveg af handahófi.

Reynið ykkur við þetta. Hver er flytjandinn?

1. The more I see the less I know - about all those thing I thought were wrong...
2. Childhood living is easy to do - the things you want to I bought them for you...
3. Ég heyri fuglasöng - á skorsteini og loftnetastöng....
4. uuuutakaetttaeinusinni enn - já! - Ókei. - já já já já já já já já já já - já já já já .....
5. Ansa mér móðir hví æddirðu forðum upp í til bónda þíns?..
 
  Skák og mát
Hákon náði að máta mig áðan.
 
föstudagur, maí 5
  Góður kennari
Er besti kennarinn sá sem maður lærir mest hjá?
 
miðvikudagur, maí 3
  Sértækt tungutak
Innan afmarkaðra greina mannlífstrésins.... Nei þetta er nú of háfleygt. Ég byrja aftur.

Sko. Orð sem á einum stað þýða eitthvað ákveðið þýða stundum eitthvað allt annað á öðrum stöðum. Til dæmis merkir orðið mjúkt ekki það sama þegar talað er um bragð af mat og þegar það er notað um söng.

Innan fótboltans er alveg sérstakt tungumál sem er mjög myndrænt en samt rosalega sértækt. Það er því ekkert skrítið við það að börn sem fara að æfa fótbolta hjá einhverjum unglingum sem tala við þá þetta fótboltatungumál, eins og allir eigi að skilja það, skilji það bara alls ekki.

Halli Pé og Hannes Már þjálfuðu bolvísk börn og segja oft á góðum stundum sögur af ferð þeirra á Skagann á eitthvert krakkamót með lið UMFB. Langskemmtilegust finnst mér sagan af því þegar þeim leiddist að sjá að einn strákurinn sýndi grasinu og þúfunum á vellinum meiri áhuga en boltanum og leiknum. Þá kallaði annar þeirra inn á völlinn skilaboð til stráksa um að hann ætti að hreyfa sig. Drengurinn hlýddi þjálfaranum alveg á stundinni og fór að dansa. Það var kannski ekki alveg það sem þjálfarinn var að fara fram á. En hvernig gat krakkinn vitað það?
 
  Hrafnablöðkur
Í þættinum Orð skulu standa á Rás 1 sl. laugardag var spurt um orðið „hrafnablaðka". Orðabókin segir „blöð ætifífils". Stórnandinn sagði að þetta væru blöð túnfífils, þessi fínu gulu. Ég get ekki alveg verið sammála stjórnandanum.

Þegar ég var að alast upp í Víkinni þekktu þetta orð allir krakkar. Í okkar skilningi voru hrafnablöðkur blöðin sem vaxa með og í kringum túnfífilinn. Þessi blöð eru skörðótt og minna sennilega á hrafnsvæng. Þau eru skuggalega beisk á bragðið og það þótti skemmtilegur leikur að gefa þetta púkunum sem héldu í sakleysi sínu að þeir væru að fara að japla á safaríkum súrblöðkum (hundasúrum).

Ég finn orðið „súrblaðka" ekki í oðrabókinni.
 
mánudagur, maí 1
  Trúverðugt útlit

Þegar ég var á fyrsta ári í Kennaraháskólanum og Gréta í Fósturskólanum háttaði þannig til hjá okkur að við áttum ekki tölvu. Og til að vera ekki öllum stundum tölvustofunni í skólanum fengum sið stundum að skjóta okkur inn til Kiddýjar og Mugga föðurbróður míns, og nota tölvuna þeirra til að prenta út blaðsíðu og blaðsíðu eða lagfæra eitthvert atriði í ritgerð eða verkefni. Þau bjuggu í næstu götu við okkur. Sonur þeirra, Öddi, er aðeins litlu yngri en ég og hafði svipuð áhugamál svo við náðum ágætlega saman.

Við vorum báðir að fást við tónlist og textasmíðar. Lásum ljóð og reyndum að fylgjast með því sem ungu skáldin í borginni voru að færa fram. Ég hafði kynnst lítillega einu efnilegasta ungskáldinu, Andra Snæ Magnasyni, og var að reyna að koma nýútgefinni ljóðabók hans inn á Ödda. En honum fannst myndin af skáldinu á kápu bókarinnar ekki nógu trúverðug fyrir mann sem vildi láta taka sig alvarlega sem skáld. „Þetta er eins og einhver handboltakappi!", sagði hann og kærði sig ekkert um að kynna sér ljóðin hans.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]