Sértækt tungutak
Innan afmarkaðra greina mannlífstrésins.... Nei þetta er nú of háfleygt. Ég byrja aftur.
Sko. Orð sem á einum stað þýða eitthvað ákveðið þýða stundum eitthvað allt annað á öðrum stöðum. Til dæmis merkir orðið mjúkt ekki það sama þegar talað er um bragð af mat og þegar það er notað um söng.
Innan fótboltans er alveg sérstakt tungumál sem er mjög myndrænt en samt rosalega sértækt. Það er því ekkert skrítið við það að börn sem fara að æfa fótbolta hjá einhverjum unglingum sem tala við þá þetta fótboltatungumál, eins og allir eigi að skilja það, skilji það bara alls ekki.
Halli Pé og Hannes Már þjálfuðu bolvísk börn og segja oft á góðum stundum sögur af ferð þeirra á Skagann á eitthvert krakkamót með lið UMFB. Langskemmtilegust finnst mér sagan af því þegar þeim leiddist að sjá að einn strákurinn sýndi grasinu og þúfunum á vellinum meiri áhuga en boltanum og leiknum. Þá kallaði annar þeirra inn á völlinn skilaboð til stráksa um að hann ætti að hreyfa sig. Drengurinn hlýddi þjálfaranum alveg á stundinni og fór að dansa. Það var kannski ekki alveg það sem þjálfarinn var að fara fram á. En hvernig gat krakkinn vitað það?