Tónlistardagur (enn og aftur)
Uppstigningardagur (Kristi himmelfarsdag sögðu þeir í Dk) og við Hákon ætlum á Selfoss þar sem von er á Suzuki fiðlunemum úr Reykjavík í heimsókn til okkar Árnesinga. Það á að spila með þeim og eitthvað. Svo er nú ætlunin að reyna að vinna svolítið í dag.
Klukkan fjögur verður svo byrjað á upptökum í Skálholtskirkju með kórnum. Það er svolítið merkilegt verkefni. Þannig er að Skálholtsstóll á afmæli á þessu ári og af því tilefni eru vígslubiskup og kantorinn búnir að velja nokkra uppáhaldssálma sem eiga að fara á plötu. Þessir sálmar hafa ekkert endilega verið gefnir út. Margir þeirra eru náttúrulega alþekktir og hafa heyrst í útvarpsmessum árum saman, en aðrir eru minna þekktir. Sumir þeirra tengjast Skálholti sérstaklega. Róbert Abraham hefur samið þá marga. Hann var mikið í Skálholti á sumrin og þeir elstu í kórnum hjá okkur sungu þessi lög Róberts undir hans stjórn fyrir nokkrum áratugum síðan.
Við erum búin að fara í eina upptökusession. Það var í haust. Þá voru einföldustu lögin á dagskrá. Núna verður flóknara stöff tekið fyrir. Ég er svo mikill Vestfirðingur að mitt uppáhaldslag er eftir Hjálmar H. Hann hefur útsett svo fjöruga bassalínu í þennan sálm sem við ætlum að taka upp.