Tilraunavefurinn
fimmtudagur, febrúar 28
  Tími árshátíðanna
Það er búið að vera heldur rólegt hjá mér að gera í spileríi undanfarnar vikur. En nú er allt að fara í gang aftur. Um helgina verð ég með dinnerspil, undirleik hjá söngkonu og ball á föstudagskvöldið og á laugardagskvöldið verð ég að skemmta á tveimur árshátíðum með Gunnari Sturlu. Svona er þetta. Stundnum hefur maður lítið að gera og svo koma tarnir á milli.
 
miðvikudagur, febrúar 27
  Nýjar myndir

Bræður sleikja kremið
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Það eru nokkrar nýjar myndir komnar inn á myndavef fjölskyldunnar.
 
sunnudagur, febrúar 24
  Hver er Vikarinn?
Þessi er erfið.

Ég hitti líka Bolvíking sem ég þekki þegar ég fór á Næstabar eftir tónleikana.
Hann á fleira sameiginlegt með mér og Jónasi Pétri, frænda mínum, sem ég spurði um hér í síðustu færslu, en það að vera Bolvíkingur. Ég get ekki tekið fram hér hvað það er því þá væri þrautin orðin of létt. Hann er þó ekki frændi okkar. En hann á mjög marga frændur og frænkur í Víkinni. Hann flutti úr Víkinni fyrir fermingu.

Ég er ekki viss um að svo margir Bolvíkingar þekki þennan Víkara. Flestir Skagavinir mínir þekkja hann. Ein vísbending kemur hér í viðbót og hún er svona: Sómasamloka með roastbeef og remúlaði.
 
  Hver er Víkarinn?
Nú spyr ég um hjón.

Ég fór á tónleika Þursaflokksins og Caput í Laugardalshöllinni í gærkvöldi. Þetta voru frábærir tónleikar. Þar hitti ég marga Skagamenn sem ég þekki en fáa Víkara. Þar hitti ég þó bolvísk hjón sem ég þekki. Þau eru bæði eldri en ég. Það er tveggja ára aldursmunur á þeim. Þursar léku eitt lag sem ég heyrði fyrst í flutningi karlsins sem ég spyr hér um. Það er lagið Jón var kræfur karl og hraustur.

Hver eru þessi hjón?
 
laugardagur, febrúar 23
  Víkarar
Ég var að skoða myndasíðu Grunnskóla Bolungavíkur á Netinu. Þetta er gamli skólinn minn og vinnustaður til skamms tíma. Mér þótti gaman að sjá glaða og brosandi krakkana í skólanum. Það er greinilega nóg um að vera. Það eru þarna 5 eða 6 myndaalbúm frá einhverjum viðburði í skólanum og þau eru öll frá þessu ári sýnist mér.

Það kom mér á óvart hversu fá andlit ég þekki á þessum myndum. Ég þekki auðvitað starfsfólkið og get getið mér til um það, út frá útliti einstaka púka, hver eigi hann. En ég þekki ekki nema tvo frændur mína, eina frænku og svo krakkana sem búa í næsta nágrenni við mömmu og pabba á Holtastígnum.

Það sést kannski að þessi færsla er sett inn á vefinn klukkan 6:50 á laugardagsmorgni. Af því tilefni skal tekið fram að ég er ófullur - ég er bara orðinn gamall - kominn á fætur.
 
föstudagur, febrúar 22
  Kóresk bifreið, sænskur gítar og Eiríkur frændi minn
Mér sýnist það vera að komast aftur í tísku að blogga fullur. Ég ætla ekki að taka þátt í því. Læt öðrum það eftir.
Þess vegna hef ég ekkert bloggað í vikunni.

Nei, djók.

Ég skrapp í bæinn í gær og upp á Skaga líka. Sinnti þar erindum. Lenti í ævintýrum með bilaðan bílinn bæði í dag og í gær. Það er eitthvað að honum. En við skoðun finnst meinið ekki. Það er bagalegt.

Ég sótti tvo gítara til viðgerðarmanns. Annar þeirra hefur legið ónotaður upp á skáp á Holtastíg 12 í Bolungavík í 14 ár. Hann fékk yfirhalningu og smurning, einskonar endurhæfingu. Þetta er gamli sænski klassíski Levin gítarinn sem móðir mín átti. Já, ég segi átti, því hún hefur gefið mér hann. Ég held að Bjarni bróðir hennar hafi gefið henni þennan gítar í fermingargjöf vorið 1963. Ef það er einhver vitleysa mun hún vafalaust leiðrétta það hér í athugasemdakerfinu.

„Levin er besta gítarmerkið í heiminum sem framleitt er utan Spánar," mun Eiríkur frændi minn hafa sagt um þennan gítar. Hann skrollar og þannig heyri ég þessa setningu hljóma í höfðinu á mér þegar ég skrifa hana nú. Eiríkur frændi minn hefur heilmikið vit á músík. Hann hlustar mikið á tónlist og í gamla daga lék hann á orgel og harmóníku. Í stofunni heima hjá honum í Geitlandinu var flygill. Aðeins einu sinni man ég eftir því að hann léki á hann þegar ég var þar í heimsókn sem krakki. Þá gisti ég þar. Það var snælduvitlaust veður í Reykjavík. Þakplötur fuku um loftið, það var rafmangslaust og Eiríkur las nótur við kertaljós og spilaði þær á flygilinn. Veðurhamurinn setti svip sinn á tónlistina. Mikið rosalega fannst mér mikið til hans frænda míns koma þá.

Levin gítarinn minn er loksins orðinn góður aftur. Síðan ég var unglingur, og misbauð þessu góða hljóðfæri með því að setja í það stálstrengi og leika á þá með gítarnögl hefur það ekki notið sín. Ég á eina upptöku þar sem heyrist í því. Það er í lagi eftir Bjögga vin minn sem við tókum upp í Reykjavík fyrir 14 árum. Þá notaði ég þennan gítar bæði til að ná fram nælonstrengja-áhrifunum og eins til að leika bassalínu. Það kom sérstaklega skemmtilega út að nota hann fyrir bassagítar.
 
mánudagur, febrúar 18
  500x21,01
Jæja, 500 kallinn sem ég eyddi í Lengjuna varð að rúmum 10 þúsundum (10.505 kr.). Þetta er þá ekki flóknara reiknisdæmi en það að upphæðin sem lögð er undir í veðmálinu er margfölduð við stuðulinn sem gefinn er upp á miðanum. Að tippa á úrslit sem teljast heldur ólíkleg gefur hærri stuðul. Til dæmis eins og að lið úr neðri deild vinni sigursælasta lið ensku bikarkeppninnar.
 
sunnudagur, febrúar 17
  Bjargið deginum
og skemmtið ykkur yfir þessu svolitla stund.
 
  Lengjan
Fyrir mörgum árum spilaði ég einu sinni eða tvisvar í Lengjunni, leiknum sem Íslenskar getraunir bjóða áhugamönnum um íþróttir upp á í viku hverri. Svo vildi þannig til í gær að ég fékk hugboð. Þar sem ég hef haft viðvarandi áhyggjur á síðustu misserum að eiga ekki peninga til að geta keypt mér hús fannst mér ekki annað hægt en að bregðast við hugboðinu og tók áhættuna. Ég keypti mér miða í Lengjunni.

Hugboðið var að Barnsley myndi sigra Liverpool í bikarkeppninni í ensku knattspyrnunni. Stuðullinn var hár. Svo ef þau úrslit gengju eftir þyrfti ég aðeins að veðja rétt á úrslit tveggja til fjögurra auðveldra leikja. Hinir leikirnir þyrftu sem sagt að vera leikir þar sem gott lið léki við lélegt lið og ég gerði ráð fyrir því að góða liðið ynni það lélega. Og viti menn - ég vann!


Heimasíðan hjá Íslenskum getraunum er ekki í lagi þannig að ég hef ekki getað sótt mér upplýsingar þangað um hvað ég hef unnið háa upphæð. Ég veit ekkert um það hvernig þetta er reiknað út. En ég sé náttúrulega eftir því að hafa ekki lagt hærri upphæð undir. Það er útilokað að ég vinni upphæð sem komi að nokkru gagni við húskaup. Ég lagði bara 500 kall undir.

Maður á náttúrulega að treysta svona hugboði og taka séns!
 
laugardagur, febrúar 16
  BOSTON
Þá hef ég endurheimt kærustuna frá USA. Hún fór út með eina stóra, hálftóma ferðatösku. Hún kom svo heim með þrjár misstórar úttroðnar töskur og hafði auk þess hlaðið á sjálfa sig þyngsta fatnaðinum sem hún keypti sér í einhverju mollinu þarna í Boston. Þetta var annars engin skemmtiferð hjá henni. Hún er algjörlega útkeyrð blessunin. En þær systur gáfu sér þó tíma til að koma við í mollinu. Mér lék því forvitni á að vita hvort þær hefðu þá ekki heimsótt Staupastein og gert ferðina þannig að menningarferð svona í leiðinni. „Er hann í Boston?", svaraði Gréta.

Ég veit eiginlega ekkert um Boston.
Ég þekki 6 staðreyndir um staðinn;
ég hef nokkra hugmynd um það hvar hann er á landakortinu,
ég veit að þar er þessi frægi spítali sem hjartveik börn frá Íslandi hafa mörg heimsótt,
ég veit að þar er Harvard haskólinn,
ég veit að einhvers staðar þarna í borginni er frægur tónlistarháskóli sem heitir Berkley
ég man að körfuboltasnillingurinn Larry Bird lék með Boston Celtic og að þeir léku í hvítum og grænum búningum
og ég veit að þættirnir um Staupastein áttu að gerast á samnefndri krá sem er í Boston og leikmyndin var nákvæm eftirlíking af henni.

Nú veit ég líka að henni Grétu minni þykir verðlag á fatnaði í Boston vera njög hagstætt.
 
miðvikudagur, febrúar 13
  Norður?
Það var gaman að fá kveðjur frá Hallgrími leikara Ólafssyni hér á athugasemdakerfinu. Ætli við Gunni tökum hann ekki á orðinu og skellum okkur norður í leikhús þegar líður fram á vorið? Það væri nú vit í því!
 
  13.02.2008
Kærastan mín er 35 ára í dag. Hún er í USA. Daginn sem hún varð 19 ára var ég ekki hjá henni, af því ég var í skóla á Akranesi, en hún í Reykjavík. En alla afmælisdaga síðan og þangað til núna hef ég verið hjá henni. En ég hitti hana nú á morgun. Hún er væntanleg til landsins þá.

Vestfirskar vinkonur mínar höfðu kynnst Grétu á undan mér. Og fyrir 17 árum, þegar Gréta var 18 ára, gáfu þær henni mig í afmælisgjöf. Þetta vissi ég ekki fyrr en fáeinum vikum síðar. Sennilega hafa þessar vinkonur mínar ekki talið líklegt að þessi brandari þeirra yrði að veruleika. En það gerðist samt. Það eru bráðum 17 ár frá því við Gréta hittumst fyrst og við höfum verið par síðan.

Fréttir af börnunum
Börnin fengu pakka með póstinum í dag. Þau eiga langaömmu í Svíþjóð. Hún var að senda þeim sænskar teiknimyndabækur og sænskt sælgæti. Það var mjög spennandi að opna pakkann.

Hringur fer í litla aðgerð á Selfossi á morgun. Það á að setja rör í eyrun á honum. Þetta verður í þriðja sinn sem það verður gert.

Hákon var að keppa í glímu í dag. Það var skólamót HSK. Hann hafði ekki tapað glímu þegar hann mætti strák í undanúrslitum. Þeirri glímu gat hann ekki lokið því hann tognaði á ökkla. Þannig að hann endaði í fjórða sæti. Mér finnst það góður árangur hjá honum því hann hefur ekki æft glímu síðan í fyrra. Þá nennti hann engan veginn að æfa og hætti. Síðan hefur þjálfarinn fengið hann til að taka þátt í einu og einu móti og hann stendur sig miklu betur en hann gerði í fyrra. Það er merkilegt. Mér skilst að hann sé laginn að nota það sem þeim er kennt krökkunum. En ég veit að hann er jafnlaus við keppnisskap og ég hef alltaf verið og það hlýtur að vera verra í íþrótt eins glímu.

Nú situr Hákon með bláan fótinn á kodda og tekur því rólega í Fifa 2008 leiknum í Play Station tölvunni sinni.

Perla María liggur hér á gólfinu hjá mér og litar í litabók. Bríet vinkona hennar er hjá henni. Bróðir hennar, Alex Bjarni, er að leika við Hring.
 
mánudagur, febrúar 11
  Sandra frænka

Þessi fallega stelpa heitir Sandra Dögg Birkisdóttir. Hún er frænka barnanna minna. Þau eru systrabörn. Sandra Dögg er stóra systir Emelíu Rakelar sem á morgun mun gangast undir mikla hjartaaðgerð í Boston.

Sandra Dögg og Hringur Karlsson voru skírð saman í Selfosskirkju.
 
sunnudagur, febrúar 10
  Gréta er í Boston

Nú er ég búinn að vera grasekkill alla vikuna. Gréta fór til Hjördísar systur sinnar, Birkis barnsföður hennar og Emelíu dóttur þeirra, alla leiðina til Boston í Bandaríkjunum. Þar er Emelía á barnaspítala. Þegar hún var nýfædd dvaldi fjölskyldan lengi lengi þarna úti þar sem litla stelpan fór í hverja hjartaaðgerðina á fætur annarri. Nú, rúmum tveimur árum síðar, er komið að næstu aðgerð. Eftir reynsluna frá því síðast, langar foreldrana að hafa Grétu hjá sér, þeim til stuðnings.

Gréta safnaði þónokkrum peningum handa fjölskyldunni fyrir síðustu jól með því að gefa þeim myndir sem hún lét prenta á jólakort og lét svo framleiða nokkur hundruð stykki sem hún svo seldi. Ágóðann lagði hún í banka og það var hægt að greiða fargjaldið handa öllum til þessarar ferðar og það var svolítið afgangs sem Gréta gaf foreldrum stelpunnar núna áður en farið var til Boston. Það var vitað að það kæmi til þess að þau þyrftu að fylgja dótturinni aftur til Boston til frekari lækninga. Þannig að þetta er ekki nein skemmtiferð hjá Grétu til Bandaríkjanna, en vonandi upplifir hún einhverjar ánægjulegar stundir í þessari ferð.

Nú átti að framkvæma stóra aðgerð á Emilíu litlu síðastliðinn fimmtudag, en það þurfti að fresta þeirri aðgerð um fáeina daga. Gréta ætlar því að vera lengur úti hjá þeim en til stóð og vera með þeim þangað til búið er að framkvæma þessa miklu aðgerð.
 
  Nafnið og giggið
Ég vil þakka Kristjáni og Elmari Erni fyrir tillögurnar að nafngift á dúettinn okkar Gunnars Sturlu. Ég er sérstaklega hrifinn af tillögu Elmars Ernis, Tæglega tríó - það á sérstaklega vel við okkur félagana. Auk þess að vísa til stærðar okkar á alla vegu ber þetta nafn með sér karlagrobb um að við tveir séum, þegar við leggjum saman, þriggja manna makar, eða næstum því. Við ætlum að hafa hljóðfæri með okkur svo það er ekki svo fjarri sanni að við séum tæplega tríó.

Það gekk bara prýðilega hjá kvartettnum í gærkvöldi. Það var ófalskur söngurinn. Sjálfur var ég ekki að syngja bassalínuna eins og hún var skrifuð í einu laginu, alla vega ekki í öllum versunum, en ég var örugglega að syngja tóna sem pössuðu inn í hljóminn, svo það kom ekki mikið að sök. Svo þurftum við að byrja aftur á einu laginu, eftir að byrjunin hafði farið út um þúfur. Vel var látið af atriðinu. Þetta var góð upphitun fyrir eitthvað meira. Annars vorum við að syngja lög sem eru mjög þekkt og við þekktum tiltölulega vel. En við erum búin að vera að æfa okkur á öðru með, en það var bara ekki farið að renna nógu vel hjá okkur til þess að hægt væri að bjóða upp á það í þetta skipti.

Mig langar að láta útsetja fyrir kvartettinn a.m.k. eitt lag. Heiðrún, þig vantar ekki verkefni ? Geturðu ekki tengt það við skólann þinn að útsetja íslenskt söng/dægurlag fyrir blandaðan kvartett?
 
laugardagur, febrúar 9
  Af skemmtunum
Eitthvað klikkaði þarna hjá mér í færslunni á undan með linkana. Það skiptir ekki máli. Ég er búinn að skoða margt á YOUTUBE upp á síðkastið. Þetta var svona sýnishorn af afmörkuðum þætti sem ég hef verið að kynna mér. Það vill þannig til að ég var að bæta við þjónustuna sem ég býð upp á þegar fólk pantar skemmtun á árshátíð eða aðrar samkomur.

Ég er, í félagi við vin minn Gunnar Sturlu, að setja saman skemmtidagskrá sem byggir á gríni og tónlist í bland. Eins konar uppistandi með gítar. Two guitar comedians. Við sækjum einhverjar hugmyndir nokkur ár aftur í tímann og rifjum upp lög sem við sömdum bæði saman og sitt hvoru lagi og heyrðust stundum með hljómsveitinni Abbababb. En það verður bara lítið brot af atriðinu okkar. Við erum að setja saman nýja dagskrá. Þess vegna er ég búinn að vera að skoða á Youtube hvað menn eru að gera í útlandinu. Svo hef ég verið að þýða og staðfæra góða brandara og stela hugmyndum að textum og semja nýtt efni og blanda því saman við góðar sögur. Svo tölum við Gunnar saman í síma á hverjum degi og förum yfir málin.

Ég hef verið í samstarfi við umboðsskrifstofu sem útvegar fólki lifandi tónlist, veislustjóra, hljóðkerfi og allt til skemmtanahalds. Það var mikið verið að óska eftir því að skrifstofan útvegaði atriði sem væri bland af tónlist og gríni. Það er fyrir áskorun þaðan sem ég er að bæta þessu við hjá mér. Svo fékk ég Gunnar til að vera með mér, því hann er fyndinn og bæði hugmyndaríkur og snjall á sviði. Við getum gert gott atriði saman.

Það vantar nafn á þetta dúó. Það er byrjað að bóka og það eru aðeins þrjár vikur í fyrstu giggin. Við urðum að senda frá okkur einhverja fáránlega hugmynd að nafni til að setja á auglýsingu vegna árshátíðar sem við verðum að skemmta á þessa fyrstu helgi. En okkur vantar betra nafn. Eitthvað sem vísar til þess sem við erum að gera og kannski líka þess að við erum tveir saman í þessu. Tillögur eru vel þegnar í athugasemdakerfið.

Það er svo fleira á dagskrá í skemmtibransanum. Skálholtskórinn er ekkert að syngja þessa dagana svo við tókum okkur saman eitt úr hverri rödd í kórnum og æfðum upp í kvartett nokkur létt lög. Við komum fram í fyrsta sinn í kvöld á skemmtun í Aratungu. Þar er kvöldvaka á vegum ungmennafélagsins í sveitinni sem, eins og mörg önnur ungmennafélög í landinu, fagnar hundrað ára afmæli í ár.
 
þriðjudagur, febrúar 5
  Munnharpan

Munnharpan er einfalt hljóðfæri. Það er ekkert mál að koma út úr henni lagi. En það er ekki jafnlétt að spila allt á munnhörpu. Hér koma þrjár munnhörpufærslur í röð. Undir þessari fyrirsögn er skemmtiatriði þar sem margar munnhörpur leika saman, þá kemur lag frá Bonnie Raitt með skemmtilegu munnhörpusólói og að lokum er snillingur að leika sér að klassíkinni.
 
  Þessu

myndi ég svo sem alveg nenna að reyna að ná. Prófaði þetta í gærkvöld og mér þetta virðist nú ekkert vera stórmál. Hann er svolítið að láta þetta líta út fyrir að vera erfitt. Gerir svona show úr þessu sólói - sem er bara partur af þessu. En þessi gaur, Norton Buffalo, er annars mjög þekkt nafn og með færgari munnhörpuleikurum. En þetta flotta sóló hans er alveg hægt að herma eftir honum, alla vega nokkurn veginn. Þetta er skemmtilegt hljóðfæri.
 
  Aldrei

myndi ég nenna að æfa mig svo mikið að ég gæti spilað svona. Þetta er ótrúlegt afrek að gera þetta. Það er hægt að spila hvað sem er á munnhörpu. En þetta er gríðarlega erfitt og sannarlega þess virði að hlusta á og skoða. Njótið vel.
 
laugardagur, febrúar 2
  Snjóvirkið hlaðið

Snjóvirkið hlaðið
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Mynd frá í dag. Fleiri þarna fyrir innan.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]