Lengjan
Fyrir mörgum árum spilaði ég einu sinni eða tvisvar í Lengjunni, leiknum sem Íslenskar getraunir bjóða áhugamönnum um íþróttir upp á í viku hverri. Svo vildi þannig til í gær að ég fékk hugboð. Þar sem ég hef haft viðvarandi áhyggjur á síðustu misserum að eiga ekki peninga til að geta keypt mér hús fannst mér ekki annað hægt en að bregðast við hugboðinu og tók áhættuna. Ég keypti mér miða í Lengjunni.
Hugboðið var að Barnsley myndi sigra Liverpool í bikarkeppninni í ensku knattspyrnunni. Stuðullinn var hár. Svo ef þau úrslit gengju eftir þyrfti ég aðeins að veðja rétt á úrslit tveggja til fjögurra auðveldra leikja. Hinir leikirnir þyrftu sem sagt að vera leikir þar sem gott lið léki við lélegt lið og ég gerði ráð fyrir því að góða liðið ynni það lélega. Og viti menn - ég vann!
Heimasíðan hjá Íslenskum getraunum er ekki í lagi þannig að ég hef ekki getað sótt mér upplýsingar þangað um hvað ég hef unnið háa upphæð. Ég veit ekkert um það hvernig þetta er reiknað út. En ég sé náttúrulega eftir því að hafa ekki lagt hærri upphæð undir. Það er útilokað að ég vinni upphæð sem komi að nokkru gagni við húskaup. Ég lagði bara 500 kall undir.
Maður á náttúrulega að treysta svona hugboði og taka séns!