13.02.2008
Kærastan mín er 35 ára í dag. Hún er í USA. Daginn sem hún varð 19 ára var ég ekki hjá henni, af því ég var í skóla á Akranesi, en hún í Reykjavík. En alla afmælisdaga síðan og þangað til núna hef ég verið hjá henni. En ég hitti hana nú á morgun. Hún er væntanleg til landsins þá.
Vestfirskar vinkonur mínar höfðu kynnst Grétu á undan mér. Og fyrir 17 árum, þegar Gréta var 18 ára, gáfu þær henni mig í afmælisgjöf. Þetta vissi ég ekki fyrr en fáeinum vikum síðar. Sennilega hafa þessar vinkonur mínar ekki talið líklegt að þessi brandari þeirra yrði að veruleika. En það gerðist samt. Það eru bráðum 17 ár frá því við Gréta hittumst fyrst og við höfum verið par síðan.
Fréttir af börnunum
Börnin fengu pakka með póstinum í dag. Þau eiga langaömmu í Svíþjóð. Hún var að senda þeim sænskar teiknimyndabækur og sænskt sælgæti. Það var mjög spennandi að opna pakkann.
Hringur fer í litla aðgerð á Selfossi á morgun. Það á að setja rör í eyrun á honum. Þetta verður í þriðja sinn sem það verður gert.
Hákon var að keppa í glímu í dag. Það var skólamót HSK. Hann hafði ekki tapað glímu þegar hann mætti strák í undanúrslitum. Þeirri glímu gat hann ekki lokið því hann tognaði á ökkla. Þannig að hann endaði í fjórða sæti. Mér finnst það góður árangur hjá honum því hann hefur ekki æft glímu síðan í fyrra. Þá nennti hann engan veginn að æfa og hætti. Síðan hefur þjálfarinn fengið hann til að taka þátt í einu og einu móti og hann stendur sig miklu betur en hann gerði í fyrra. Það er merkilegt. Mér skilst að hann sé laginn að nota það sem þeim er kennt krökkunum. En ég veit að hann er jafnlaus við keppnisskap og ég hef alltaf verið og það hlýtur að vera verra í íþrótt eins glímu.
Nú situr Hákon með bláan fótinn á kodda og tekur því rólega í Fifa 2008 leiknum í Play Station tölvunni sinni.
Perla María liggur hér á gólfinu hjá mér og litar í litabók. Bríet vinkona hennar er hjá henni. Bróðir hennar, Alex Bjarni, er að leika við Hring.