Gréta er í Boston
Nú er ég búinn að vera grasekkill alla vikuna. Gréta fór til Hjördísar systur sinnar, Birkis barnsföður hennar og Emelíu dóttur þeirra, alla leiðina til Boston í Bandaríkjunum. Þar er Emelía á barnaspítala. Þegar hún var nýfædd dvaldi fjölskyldan lengi lengi þarna úti þar sem litla stelpan fór í hverja hjartaaðgerðina á fætur annarri. Nú, rúmum tveimur árum síðar, er komið að næstu aðgerð. Eftir reynsluna frá því síðast, langar foreldrana að hafa Grétu hjá sér, þeim til stuðnings.
Gréta safnaði þónokkrum peningum handa fjölskyldunni fyrir síðustu jól með því að gefa þeim myndir sem hún lét prenta á jólakort og lét svo framleiða nokkur hundruð stykki sem hún svo seldi. Ágóðann lagði hún í banka og það var hægt að greiða fargjaldið handa öllum til þessarar ferðar og það var svolítið afgangs sem Gréta gaf foreldrum stelpunnar núna áður en farið var til Boston. Það var vitað að það kæmi til þess að þau þyrftu að fylgja dótturinni aftur til Boston til frekari lækninga. Þannig að þetta er ekki nein skemmtiferð hjá Grétu til Bandaríkjanna, en vonandi upplifir hún einhverjar ánægjulegar stundir í þessari ferð.
Nú átti að framkvæma stóra aðgerð á Emilíu litlu síðastliðinn fimmtudag, en það þurfti að fresta þeirri aðgerð um fáeina daga. Gréta ætlar því að vera lengur úti hjá þeim en til stóð og vera með þeim þangað til búið er að framkvæma þessa miklu aðgerð.