Kóresk bifreið, sænskur gítar og Eiríkur frændi minn
Mér sýnist það vera að komast aftur í tísku að blogga fullur. Ég ætla ekki að taka þátt í því. Læt öðrum það eftir.
Þess vegna hef ég ekkert bloggað í vikunni.
Nei, djók.
Ég skrapp í bæinn í gær og upp á Skaga líka. Sinnti þar erindum. Lenti í ævintýrum með bilaðan bílinn bæði í dag og í gær. Það er eitthvað að honum. En við skoðun finnst meinið ekki. Það er bagalegt.
Ég sótti tvo gítara til viðgerðarmanns. Annar þeirra hefur legið ónotaður upp á skáp á Holtastíg 12 í Bolungavík í 14 ár. Hann fékk yfirhalningu og smurning, einskonar endurhæfingu. Þetta er gamli sænski klassíski Levin gítarinn sem móðir mín átti. Já, ég segi átti, því hún hefur gefið mér hann. Ég held að Bjarni bróðir hennar hafi gefið henni þennan gítar í fermingargjöf vorið 1963. Ef það er einhver vitleysa mun hún vafalaust leiðrétta það hér í athugasemdakerfinu.
„Levin er besta gítarmerkið í heiminum sem framleitt er utan Spánar," mun Eiríkur frændi minn hafa sagt um þennan gítar. Hann skrollar og þannig heyri ég þessa setningu hljóma í höfðinu á mér þegar ég skrifa hana nú. Eiríkur frændi minn hefur heilmikið vit á músík. Hann hlustar mikið á tónlist og í gamla daga lék hann á orgel og harmóníku. Í stofunni heima hjá honum í Geitlandinu var flygill. Aðeins einu sinni man ég eftir því að hann léki á hann þegar ég var þar í heimsókn sem krakki. Þá gisti ég þar. Það var snælduvitlaust veður í Reykjavík. Þakplötur fuku um loftið, það var rafmangslaust og Eiríkur las nótur við kertaljós og spilaði þær á flygilinn. Veðurhamurinn setti svip sinn á tónlistina. Mikið rosalega fannst mér mikið til hans frænda míns koma þá.
Levin gítarinn minn er loksins orðinn góður aftur. Síðan ég var unglingur, og misbauð þessu góða hljóðfæri með því að setja í það stálstrengi og leika á þá með gítarnögl hefur það ekki notið sín. Ég á eina upptöku þar sem heyrist í því. Það er í lagi eftir Bjögga vin minn sem við tókum upp í Reykjavík fyrir 14 árum. Þá notaði ég þennan gítar bæði til að ná fram nælonstrengja-áhrifunum og eins til að leika bassalínu. Það kom sérstaklega skemmtilega út að nota hann fyrir bassagítar.