Tilraunavefurinn
Sjómannadagurinn
Við erum búnir með Víkurplötuna. Næst á dagskrá er að fara heim til Bolungavíkur og hitta bekkjarsystkini mín. Ég ætla að stinga af úr partíinu okkar á föstudagskvöldið til að syngja svolítið fyrir gesti Kjallarans i Einarshúsinu. Á laugardagskvöldið ætlum við svo á sjómannadagsskemmtunina í Félagsheimilinu og á ball á eftir. Ég held ég hafi aldrei farið á sjómannadagsball fyrr. Ég man eftir því þegar ég var unglingur að hafa verið að vinna á þaki í bænum á mánudagsmorgni eftir sjómannadag og getað séð krakkana sem ég þekkti vera að skríða heim til sín úr eftirpartíum. Þá var nefnilega gefið frí í frystihúsinu til kl. 10. En Halli málari gaf ekki frí.
Upptökudagur
Þetta er upptökudagurinn hjá mér. Ég er búinn að sitja við í ellefu klukkutíma og spila inn parta og hljóðblanda.
Það er búið að vera skemmtilegt og mér hefur miðað sæmilega en þó á ég nokkuð mikið eftir. Mig langaði heim um miðjan dag til þess að borða en ég gat ómögulega slitið mig frá þessu. En nú þola eyrun ekki meira í dag. Ég er farinn heim.
Leikmenn umferða 2 og 3 - en engin tengsl
Leikmaður 2. umferðar mun hafa verið markvörður Víkinga, Bjarni Þórður Halldórsson. Ég veit ekkert hver hann er. En ég fletti honum upp í Íslendingabók og sá að við erum sjömenningar. Það er nú ekki mikill skyldleiki. Ég get sem sagt ekki, svona án fyrirhafnar, tengt þann mann við Víkina eða Víkara.
Leikmaður 3. umferðar er Helgi Sigurðsson í Val. Hann þekki ég ekki heldur og hann er ekkert skyldur mér. En sá leikmaður er það nærri mér í aldri að ég man vel eftir því þegar hann var að stíga fyrstu skrefin í efstu deild. Og það upphaf á hans ferli get ég tengt Bolungavík, þótt langsótt séu nú tengslin. Þannig var að árið 1992 vorum við strákarnir í knattspyrnuliði UMFB í keppnisferð fyrir sunnan. Og til að spara voru leiknir tveir leikir í sömu ferðinni. Sá fyrri var leikinn í Reykjavík á laugardegi en seinni leikurinn á Snæfellsnesi á sunnudegi. Það var farið með rútu eftir leik á laugardegi vestur á Nes. Sama dag lék Víkingur við ÍA á Akranesi. Þá skoraði Helgi Sigurðsson fyrstu mörkin sín í deildinni. Í hamborgarastoppi í Þyrli í Hvalfirði mætast þessi tvö fótboltalið, UMFB og Víkingur. Þar sáum við Víkarar þennan unga og upprennandi markaskorara í Víkingi. Einu sinni ók ég kunningja mínum, fótboltaspilara af Akranesi, úr Akraborginni og heim til Helga Sig í The Small Apartment Area í Reykjavík!
Fermingarafmæli
Um sjómannadagshelgina, eða á sjómannadagshelginni, eins og sagt er fyrir vestan, ætlum við að hittast krakkarnir sem fermdumst í Hólskirkju í maí 1987 og fagna 20 ára fermingarafmæli. Ég hlakka mikið til að hitta krakkana. Mætingin verður góð, en það eru nokkrir sem ekki eiga heimangengt sem gaman hefði verið að hitta.
Þegar ég fermdist var þessi ríkisstjórn við völd á Íslandi. Rúmum mánuði síðar var reyndar komin ný ríkisstjórn.
Tónleikar og tengsl
Við Hákon brugðum okkur á tónleika. Drengjakór frá Niðarósi hélt alveg magnaða tónleika í Skálholtskirku í kvöld. Þetta var svakalega góður kór skipaður drengjum frá á að giska níu ára aldri og þeir elstu eru líklega um sextugt.
Ég hef ekki séð á fótboltasíðunum hvaða boltasparkari var leikmaður síðustu umferðar í boltanum svo ekki get ég tengt hann við Víkina strax. Hins vegar munu tengsl okkar Bolvíkinga inn í ríkisstjórn landsins aukast verulega á morgun. Það er ljóst.
Perla María og Andrea
Perla María gisti eina nótt hjá frænku sinni. Bræðurnir voru í bústaðnum hjá Bensa frænda. Hér er ný mynd af frænkunum.
Halli melló syngur í útvarpið
Á Rás 1 í gær var Lísa Páls að tala við útskriftarnemendur úr Leiklistardeild Listaháskólans. Á eftir þessu spjalli var leikið lag úr leikritinu sem er útskriftarverkefni þessara nemenda. Þetta er nýtt leikrit eftir Þorvald Þorsteinsson með nýrri tónlist eftir Megas. Lagið sem var spilað í útvarpinu er algjört æði. Melódían virkilega lífleg og spannar vítt svið, textinn beittur og um leið rómantískur og bráðskemmtilegur. Flutningurinn er líka svo flottur. Lagið er sérstaklega vel sungið. Ég heyrði strax á fyrsta tóni að það er Hallgrímur Ólafsson, Hallli melló, sem syngur. Sá hefur tekið stórstígum framförum í söngnum! Ekki það að mér hafi fundist hann eitthvað slappur fyrir. En þetta er allt annar og betri söngvari en ég þekkti á Skaganum á sínum tíma. Hann hefur greinilega nýtt sér þá leiðsögn í söng sem honum hefur staðið til boða í leiklistarnáminu. Þetta er svo vel gert hjá honum að ég tel líklegt að mikið muni bera á söng Halla á næstu árum.
Ég myndi tippa á að Halli sé fyrir löngu hættur að reykja. Mér finnst ég heyra það á rödd hans. Hæsið sem er á rödd hans er orðið eðlilegt og er bara svona hlýr effekt á hana. Áður var þetta það sem mest bar á þegar Halli söng.
Það er linkur á þáttinn í fyrirsögninni.
Tengja
Ætli það verði hægt að tengja alla þá sem verða leikmenn umferðarinnar á Íslandsmótinu við Bolungavík?
Það gæti orðið nokkuð langsótt. En ætti ég ekki samt að reyna? Þannig vinn ég svo margt í einu. Í fyrsta lagi held ég mig við Víkina, eins og mér þykir svo gaman að gera hér á blogginu. Í öðru lagi hlýt ég að virkja lesendur til að kommenta því þeir þekkja sjálfsagt margir önnur tengsl en ég og geta þannig hjálpað mér að tengja rétt. Í þriðja lagi er ættfræðin svo þjóðlegt skemmtilegt viðfangsefni. Þar að auki hef ég með þessu móti eitthvað að skrifa um í allt sumar.
Leikmaður 1. umferðar
Leikmaður 1. umferðar Íslandsmótsins í knattspyrnu karla er Matthías Guðmundsson í FH. Hann er náttúrulega af bolvísku bergi brotinn. Margrét móðir hans er dóttir Jóns Eggerts og Jónu. Það þýðir að þessi Matthías fótbloltamaður og Valdimar Víðisson eru systkinabörn. Fleiri skyldmenni hans bolvísk eru t.d. (hér er um auðugan garð að gresja): Elvar og Halldóra Sigurgeirs, Dagný og Erla Kristins (systurnar sem hafa stöku sinnum sent komment hingað inn), Stjörnumaðurinn Óttar Bjarnason, Ævar Óla Svans, Pálmi leikari og Sigmar í Kastljósinu. Ef við þynnum skyldleikann örlítið út get ég bætt í þennan hóp æskuvini mínum Halla Pé, Hildi Kristínu og Kristjáni bloggara fólksins. Líka Hemma vini mínum Jóns og The Ingvars - Adda og Ragga.
Ég hef reyndar aldrei séð Matthías í Víkinni, en ég hitti hann einu sinni þegar þeir léku saman í Val hann og Danni frændi minn. Ég gat ekki heyrt annað á honum en hann þekkti ágætlega þennan uppruna sinn, fólkið sem honum tengist og hann kannaðist vel við sig í Víkinni. Allstaðar gera þeir það gott Víkararnir.
Í Mýrdal
Þetta fann ég Netinu. Mynd af mér að taka upp Víkurkrakkana.
Kryddpíubloggið
Ég reikna með að systurnar frá Engi í Laugarási hafi stundum verið uppnefndar kryddpíur því að á Engi eru ræktaðar kryddjurtir. Hér er linkur á bloggið hennar Svanhvítar. Ég vissi að hún bloggaði og ég vissi líka að hún er fær að eiga við texta en ég vissi ekki fyrr en í dag, þegar ég leitaði bloggið hennar uppi í fyrsta sinn, hversu dugleg hún er að benda notendum Netsins á áhugaverða staði til að heimsækja. Ég fann þessa söngkonu sem ég vísa til hér í færslunni á undan á síðunni hennar. Þar er líka hellingur af öðru sniðugu dóti sem hún bendir á.
Við Svanhvít höfum kynnst svolítið í gegnum spilerí. Hún leikur á blokkflautu og hefur líka staðið að tónleikahaldi með myndarbrag. Við Gréta höfum líka kynnst öllu öðru heimilisfólki á Engi. Það er allt sómafólk.
Tékkið endilega á kryddpíublogginu.
Flottur performans
Þegar Öddi frændi var ennþá bara einn í hljómsveitinni Mugison var hann farinn að keyra á svolítið fotvitnilegri aðferð í flutningi sumra laganna. Hann lék einn kafla í einu, eina rödd í einu og tók upp. Raðaði þessu svo saman á meðan á flutningi lagsins stóð. Þannig urðu tónleikagestir vitni að upptökunni um leið og þeir nutu þess að heyra og sjá lagið flutt. Stundum notaði hann meira að segja hljóð frá gestum í sal í lögin. Sjálfur sá ég hann aðeins einu sinni gera þetta og það var þegar hann var tiltölulega nýfarinn að beita þessari aðferð. Það var mjög flott en hann var ekki sérstakega sjóaður í þessu þá. En ég veit að hann þróaði aðferðina enn frekar og var orðinn virkilega klár að beita henni. Það hef ég lesið um, bæði í blöðum hér á Íslandi og á útlendum tónlistarsíðum á Netinu.
Hér er stelpa sem beitir þessari aðferð af mikilli lagni. Mér finnst þetta flott hjá henni.
Ég held að Mugison og þessi stelpa noti bæði tónlistarforrit sem heitir Application Live.
Euro og þingkosningar
Úrslit Eurovision komu svolítið á óvart en ég var glaður yfir því að ófalskur og og bara mjög góður söngvari skyldi sigra. Mér fannst rúmenska lagið skemmtilegt (það var að vísu jafnkunnuglegt og flest hin laganna). Það vakti athygli mína að í viðlagi eins lagsins brá fyrir hendingum úr gamla Greifalaginu Þyrnirós, sem var vinsælt þegar ég var unglingur.
Ég fylgdist um tíma í nótt með kosningasjónvarpinu. Þar var tvennt sem gladdi mig mest:
1) Þegar Ragnhildur Steinunn í Kastljósinu lék á gítar með Baggalútum í laginu Ást á pöbbnum. Mér sýndist hún bara vera velfær gítarleikari.
3) Ritstjóri Bloggs fólksins var enn úti að skemmta sér klukkan hálfsex og tók sig vel út sem leikmynd í viðtali við Illuga Gunnarsson sem tekið var á heimili hans. Þar sáust fleiri Vestfirðingar, þeirra á meðal Pétur Magnússon markvörður.
Úrslit þingkosninganna voru nú frekar eftir bókinni. Fátt kom á óvart.
Ég spái að til verði ríkisstjórn með óvenju sterkan þingmeirihluta á bak við sig. Sjálfstæðismenn taka Samfylkinguna með sér. Þá verður mest spennandi að sjá hverjir verða ráðherrar Samfylkingarinnar.
Stórkostlegur flutningur
Þetta er mjög viðeigandi flutningur og laglega útsett lag úr Eurovision frá árinu 1984. Það gerist ekki betra.
Falskur söngur
Við erum að fylgjast með undankeppninni fyrir Eurovision. Þar hafa flestir söngvararnir verið svo falskir að ég er farinn að fíla þessi fáu atriði sem eru sungin ófalskt, óháð laginu eða útliti atriðisins. Ég geri orðið ekki meiri kröfur. Serbía, Ísland og Tékkland hafa teflt fram fólki sem heldur lagi.
Annað hvort er monitormálum stórlega ábótavant á sviðinu í Helsinki og söngvararnir heyra ekki vel í sér eða þjóðir Evrópu eru hættar að gera þær kröfur til söngvaranna sem þær senda í Eurovision söngvakeppnina að þeir geti sungið.
(Nú er keppninni lokið svo ég kann ekki við annað en að bæta við færsluna þvi söngurinn hefur skánað svolítið í síðari hlutanum.)
Norðmenn héldu lagi (með mömmu Silvíu Nætur í fararbroddi - það er skemmtilega margsamið lagið þeirra). Aðrir sem héldu sig á réttu tónunum voru Ungverjar, Eistar, Slóvenar og Austurríkismenn (með Bon Jovi-lagið).
Einhverjir tveir flytjendur gátu sungið en höfðu falskar bakraddir með sér. Það er óheppilegt. Ísrelski söngvarinn var ófalskur og flestir í pípuhattagenginu, en verður maður ekki að gera svolítið meiri kröfur til söngvara en að þeir söngur þeirra sé ófalskur? Það finnst mér.
Perla María í leikskólanum
Ég fylgdi nemendum mínum út sem voru að taka upp myndband á skólalóðinni í gær. Ég var að taka af þeim ljósmyndir. Þeir voru að gera tilraunir með alla vega tökur og ég vildi eiga myndir af því. Í leiðinni smellti ég þessari mynd af dóttur minni þar sem hún var að leika sér á leikskólalóðinni.
X-hvað?
Það eru náttúrulega ýmsar leiðir til að komast að niðurstöðu um það hvar X-ið fari á kjörseðilinn. Ég tók svona pínulítið próf á Netinu: http://xhvad.bifrost.is/. Ég var nú samt alveg búinn að ákveða mig og niðurstaðan kemur mér ekkert á óvart. Hún er svona:
Stuðningur við Sjálfstæðisflokk: 12.5%
Stuðningur við Framsóknarflokk: 10%
Stuðningur við Samfylkinguna: 12.5%
Stuðningur við Vinstri-Græna: 75%
Stuðningur við Frjálslynda flokkinn: 4%
Stuðningur við Íslandshreyfinguna: 30%
Skoðanir þínar eru í mestu samræmi við skoðanir Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs!
Íslandsmótið í knattspyrnu karla
Það er komið að árlegri spá. Nú veit ég nánast ekkert um hvernig liðin standa. Ég þarf meira að segja að fletta því upp hvaða lið eru í deildinni. En ég spái samt.
1. KR
2. FH
3. Valur
4. Fram
5. Keflavík
6. Fylkir
7. ÍA
8. Breiðablik
9. Víkingur
10. HK
Það á eftir að muna mikið um nýju leikmennina hjá KR og þeir munu falla vel inn í liðið. Þeir munu tryggja sér titilinn fyrir síðustu umferðina. Keflvíkingarnir verða ekki eins góðir og þeir hafa verið undanfarin ár, Skagamenn og Framarar, sem verða spútnikliðið, verða góðir í seinni umferðinni. HK fær innan við 15 stig og fellur. Bestu menn mótsins verða Atli í KR, Bjarni í ÍA, Pálmi Rafn í Val og hafsentarnir í Fram.
Hvað segir Kristján Jóns við þessu?
Vilborg á vellinum
Þegar ég var að kenna á Skaganum fylgdist ég mjög vel með gangi mála í fótboltanum hjá meistaraflokki karla þar í bæ. Ég mætti á langflesta leiki, talaði mikið um fótbolta við vinnufélaga mína, las það sem fjölmiðlarnir skrifuðu um leikina, heimsótti heimasíðu klúbbsins og skrifaði meira að segja pistla þar. Pistlarnir voru skrifaðir undir nafninu Vilborg. Ég var sem sagt það sem nú kallast að vera moldvarpa í netheimum, þ.e. annar en ég þóttist vera. Vilborg var alla jafna jákvæður og bjartsýnn stuðningsmaður ÍA-liðsins. Hún var einn örfárra stuðningsmanna liðsins sem hafði tröllatrú á Danna frænda mínum og stóð alltaf með honum. Hann sagði mér af því að stundum hefðu verið miklar pælingar meðal liðsmannanna hver hún væri þessi Vilborg sem skrifaði aldrei neitt ljótt um þá eða leik þeirra en hvatti þá þeim mun meira til dáða. En það komst aldrei upp. Einu sinni var ég beðinn af klúbbnum og umsjónarmönnum heimasíðunnar til að fara með liðinu í bikarleik til Seyðisfjarðar. Þetta gerði ég og þá skrifaði ég bæði um leikinn og um ferðalagið sjálft. Báðir pistlarnir birtust á síðunni og ég beitti nákvæmlega sömu stílbrögðum og Vilborg hafði alltaf notað. Samt komst ekki upp um mig. Ég var nú alveg undir það búinn. Þetta leyndarmál upplýsist hér með.
Mér fannst þetta skemmilegur leikur. Það var mjög gaman að fara á völlinn og að skrifa svo um leikinn eftir á var bara skemmilegt. Auðvitað er þetta mjög fáránleg hegðun. Mér fannst það og finnst það enn. En hún er ekki hættuleg og bara til gleði. Maður hefur gott af því að skrifa texta. Það þjálfar mann í að koma orðum að hugsunum manns. Jafnvel þótt þær snúist ekki um neitt flóknara en stráka í fótboltaleik. Þetta var að mestu fyrir daga bloggsins. Kannski þessi bloggárátta sé bara einhverskonar framhald af þessu. Ég ætti kannski að loka þessu bloggi og stofna nýtt fyrir hönd knattspyrnuáhugakonunnar Vilborgar. Það yrði forvitnilegt að fylgjast með lífi hennar.
Vilborg hefur ekki skrifað um fótboltaleiki síðan ég flutti frá Akranesi sumarið 2004. En alveg fram að því hafði hún skrifað pistil um hvern einasta heimaleik. Nú sé ég aldrei leik. En í sumar ætla ég einhverntíma á völlinn með Hákoni mínum. Það væri gaman að sjá ÍA eða bara Danna frænda, hvaða liði sem hann mun leika með.
Hver er Víkarinn? (2. vísbending)
Það eru miklar upplýsingar í fyrstu vísbendingunni því þar kemur fram að ég hafi um leið og ég fór úr vinnunni síðastliðinn föstudag hitt þennan Bolvíking þar sem hann var að koma úr tíma í háskólanum þar sem hann er nemandi. Það eru nú ekki margir háskólar hérna í sveitnni. Það þarft bara að finna út úr því hver þessi háskóli er því mér vitanlega eru ekki aðrir Bolvíkingar í þeim skóla núna. En nokkrir Bolvíkingar hafa numið þar í gegnum tíðina. Þeirra á meðal er fólk með þessar skammstafanir FH, EK HMS, SA og frændur mínir, bræðurnir JA og RA.
Hver er Víkarinn?
Já, ég hitti Víkara síðastliðinn föstudag. Það var í hádeginu. Ég, grunnskólakennarinn, var að koma úr vinnunni. Hann, háskólaneminn, var að koma úr tíma.
(Þessi vísbending segir nú mest. En ég gef svolítið meira uppi í þeirri von að þátttakan í leiknum verði góð.)
Víkari þessi er úr elsta árgangi þeirra bolvísku barna sem voru nemendur mínir í Grunnskóla Bolungavíkur. Þá var nú talsverð fyrirferð í honum. Ég man að það kom mér mjög á óvart, því hann á kyn til annars.
Hver er Víkarinn?
Það hafa nokkrir lesendur síðunnar lýst yfir ánægju með það þegar ég spyr hver Víkarinn sé. Það hafa sem sagt fleiri ánægu af þessu en ég sjálfur. Það þykir mér bara gott. Eins og þið hafið sjálfsagt tekið eftir þá spyr ég jafnan að þessu eftir að ég hef hitt Bolvíking á förnum vegi. Ekki samt í hvert sinn sem ég mæti Víkara á götu. Skárra væri það nú. En vegna þess að ég sé nú ekki Bolvíkinga daglega þá er nú ekki mikil regla á þessum dagskrárlið. ég svindla ekkert á þessu. Ég spyr bara um þá sem ég hitti. Ég vona að fólk taki því nú vel og það sé því að meinalausu þó ég sé að þessu.
Að lokum bið ég ykkur Bolvíkingar sem sjáið mig útundan ykkur að taka nú ekki stóran sveig fram hjá mér af ótta við að verða að umfjöllunarefni í Hver er maðurinn á Tilraunavefnum. Er það ekki bara heiður?
Dagbókarfærsla dagsins
Jæja, við feðgarnir erum komnir úr Mýrdalnum. Upptökur gengu ljómandi vel hjá okkur Hilmari. Búið er að ná miklu efni inn í tölvuna og við tekur að hreinsa það og velja, klippa og blanda saman söng krakkanna. Þá þarf að spila inn á þetta einhverja gítara og ýmiss önnur hljóðfæri. Svo munum við finna rétta hljóðið á hverja rás og rétta blæinn á hljóm hvers lags áður en við látum þetta frá okkur í hendur einhvers sem vanari er upptökum en við. Sá mun svo hljóðjafna (mastera) upptökurnar okkar áður en þær fara í framleiðslu. Það er nokkuð ljóst í hvað frístundir mínar fara næstu vikurnar.
Mér hafði verið boðið í sextugsafmæli kórfélaga míns og samstarfskonu í gær. Þangað fór ég, reyndar mætti ég seint af því við vorum þarna fyrir austan og komum seint heim. Það var bara reglulega hugguleg samkoma. Ég drakk bara svart kaffi og ávaxtadjús, fór svo snemma á fætur í morgun og er búinn að vera að vinna í skólanum í allan dag. Búinn að semja próf fyrir 7. bekk og undirbúa mig svolítið fyrir kennslu vikunnar. Næðið sem er hér á þessum sunnudegi hefur nýst mér vel. Úti skín sólin og vindurinn blæs. Það er bjart í Tungunum og túnin eru farin að grænka en það er heldur kalt í dag.
Í Vík
Nú erum við Hákon á Höfðabrekku, hóteli rétt fyrir austan Vík í Mýrdal. Við komum hingað í gær með tölvuna og settum upp hljóðver í grunnskólanum. Það eru aðrir feðgar með okkur, þeir Hilmar Örn og Gabríel Daði. Við karlarnir erum að hjálpa Önnu tónmenntarkennara í Vík að gera plötu með krökkunum. Upptökurnar gengu vel í gær. Við vorum að fram á kvöld. Nú förum við að byrja aftur og það verður sungið eitthvað fram eftir degi.Strákarnir okkar leika sér úti á meðan. Þeir voru heppnir í gær því þá var blíðskaparveður. Í dag er rok og rigning (heyrist mér). En strákarnir tóku með sér leikjatölvu þannig að ef þeir verða leiðir á útiverunni geta þeir komið inn í skóla og leikið sér í tölvunni.
Andrea systurdóttir mín átti afmæli í fyrradag. Hún varð 5 ára.
Af tónleikum
Um síðustu helgi fór ég á tónleika með Karlakór Hreppamanna.
Á tónleikunum sungu karlarnir dagskrá sem var helguð Sigurði Ágústssyni í Birtingarholti í Hrunamannahreppi. Hann hafði ýmist samið lag eða ljóð þessara laga eða raddsett þau fyrir kór. Þetta var hin besta skemmtun. Það er flott að sjá og heyra þegar sextíuogeitthvað karlar í sparifötunum raða sér upp og syngja í fjórum röddum, allt utanbókar. Í þessum kór eru nokkrir sveitungar mínir úr Tungunum og ýmsa aðra þarna er ég farinn að kannast við. Sumir þeirra hafa sungið með okkur í Skálholtskórnum við sérstök tækifæri.
Ég held ég hafi aldrei áður farið á karlakórstónleika. Ég hef oft heyrt í karlakór syngja, en aldrei heila tónleika.
Nú fer listahátíð að hefjast í Reykjavík. Þar er tvennt á dagskrá núna sem ég myndi vilja kaupa mig inn á. Í fyrsta lagi er það júgóslavneski gítarleikarinn og tónskáldið Goran Bregovic sem verður með tónleika ásamt kór og hljómsveit í Höllinni þann 19. maí. Hann spilar balkanmúsík og hefur samið frábæra tónlist sem við höfum sér í bíómyndum. Ég kemst því miður ekki. Hins vegar er það síberíski baritónsöngvarinn Dmitri Hvorostovsky sem er víst alveg magnaður. Hann verður með tónleika í Háskólabíói 20. maí. Kannski maður skelli sér.