Af tónleikum
Um síðustu helgi fór ég á tónleika með Karlakór Hreppamanna.
Á tónleikunum sungu karlarnir dagskrá sem var helguð Sigurði Ágústssyni í Birtingarholti í Hrunamannahreppi. Hann hafði ýmist samið lag eða ljóð þessara laga eða raddsett þau fyrir kór. Þetta var hin besta skemmtun. Það er flott að sjá og heyra þegar sextíuogeitthvað karlar í sparifötunum raða sér upp og syngja í fjórum röddum, allt utanbókar. Í þessum kór eru nokkrir sveitungar mínir úr Tungunum og ýmsa aðra þarna er ég farinn að kannast við. Sumir þeirra hafa sungið með okkur í Skálholtskórnum við sérstök tækifæri.
Ég held ég hafi aldrei áður farið á karlakórstónleika. Ég hef oft heyrt í karlakór syngja, en aldrei heila tónleika.
Nú fer listahátíð að hefjast í Reykjavík. Þar er tvennt á dagskrá núna sem ég myndi vilja kaupa mig inn á. Í fyrsta lagi er það júgóslavneski gítarleikarinn og tónskáldið Goran Bregovic sem verður með tónleika ásamt kór og hljómsveit í Höllinni þann 19. maí. Hann spilar balkanmúsík og hefur samið frábæra tónlist sem við höfum sér í bíómyndum. Ég kemst því miður ekki. Hins vegar er það síberíski baritónsöngvarinn Dmitri Hvorostovsky sem er víst alveg magnaður. Hann verður með tónleika í Háskólabíói 20. maí. Kannski maður skelli sér.