Tilraunavefurinn
fimmtudagur, nóvember 30
  Bolvísk tónlistragetraun #3
Ég var nú að vonast eftir meiri þátttöku í þessum lið á síðunni, þar sem ég veit af mörgum Víkurum í lesendahópnum. En það er svona. Ég er þó ekki búinn að gefast upp á að gera skemmtun úr þessari getraun.

Svarið við síðustu getraun er Fram í heiðanna ró.

Nú kemur spurning sem á nú ekki við þessi fyrstu ár pöbbareksturs í Víkinni heldur á hún frekar við síðari tíma, þá tíma þegar Reynir frændi minn Ragnarsson var vert í Félagsheimilinu. Reynir á sér nefnilega uppáhaldslag. Það virkar alltaf á böllum. Hann varð hressari en ella ef við höfðum lagið hans með á efnisskránni. Ef rétt svar við spurningunni verður ekki komið í kvöld ætla ég að kommenta vísbendingu. Nú er spurt:

Hvert er þetta uppáhaldslag Reynis Ragnars?
 
miðvikudagur, nóvember 29
  Aðventutónleikar í SkálholtskirkjuÉg var að koma af kóræfingu hjá Skálholtskórnum.
Það er verið að æfa fyrir aðventutónleikana sem verða 16. desember. Fyrir fáeinum árum skilst mér að aðsóknin á tónleikana hafi verið orðin svo mikil að það varð að hafa tvenna tónleika. Þannig hefur þetta verið í nokkur ár. Ég var með í fyrsta sinn í fyrra. Það var troðfull kirkjan í bæði skiptin. Núna er strax orðið uppselt á þessa tvenna tónleika og þriðju tónleikunum hefur verið bætt við.

Þetta er ofsalega grand. 70 manna blandaður kór, 20 þrautþjálfaðir unglingar, 30 yngri börn, Diddú og Óskar Pétursson, stóra orgelið, Gunni Þórðar á gítarinn, Hjólli Vals með strengjasveit, Keli í Túnfæti og félagar í Hljómskálakvartettnum, hress stjórnandi, frumflutningur á aðventulagi, endurflutningur á fleiri aðventulögum sem samin hafa verið fyrir kórinn á síðustu árum, sígild jólalög, guðdómlegur hljómburður Skálholtskirkju og þessi fallega sveit að vetrarlagi. Þarna byrja jólin!
 
  Svar Baldurs Smára
við grein Frétablaðsins um krummaskuðin. Baldur er sveitarstjórnarmaður og veit hvað hann syngur!
 
  Svar Trausta Salvars
við grein Fréttablaðsins um Mesta krummaskuð landsins. Þar var Bolungavík nenfnd tvisvar.
Smelltu á fyrirsögnina og þá geturðu lesið þessa svargrein Trausta Salvars. Hér tekst Trausta vel upp. Hann er barasta fyndinn.
 
mánudagur, nóvember 27
  Bolvísk tónlistragetraun #2
Auðvitað var það rétt hjá mömmu að Kitti Sali hafi viljað heyra Suður um höfin.
En þá er komið að öðrum lið í þessari getraun. Mér þætti vænt um að menn létu vaða með tilgátur á kommentakerfið.

2) Hvaða lag vildi Elli Hólm heyra flutt?
 
  Hvað er að ske?
Það var tilkynning í Mogganum í dag sem vakti athygli mína. Þar var verið að vekja athygli á tónleikum í Reykjavík. Á tónleikunum áttu að koma fram 7 manna stórsveit af Akranesi, sem heitir einhverju flottu nafni sem ég man ekki lengur (það byrjar á Eff-i) og Vestfirskur karlakór (byrjaði líka á Eff-i).

Getur einhver lesenda síðunnar frætt mig um hvaða fólk er hér á ferðinni?
 
sunnudagur, nóvember 26
  Frá FVA-árunum #2


Þarna er ég með Leifi heitnum Óskarssyni. Við vorum í viðtali í Skagablaðinu veturinn 1992 um spilamennsku okkar á kránum á Akranesi.
 
  Frá FVA-árunum

Góð mynd!
Það er eins og mig minni að þessa mynd hafi ég birt hér áður.
 
  Spaugstofan
Sá Spaugstofuna í endursýningu í morgun. Oft hefur mér sýnst þeir vanda sig lítið við þessa þætti og mér hefur fundist þetta misjafnlega gott hjá þeim í gegnum tíðina. En þeir eru í góðu formi þessi misserin. Af þeim þáttum sem ég hef séð í vetur hafa margir verið mjög vel heppnaðir.

Mikið ofboðslega var ég hrifinn af meðferð þeirra á brandaranum um manninn sem gat ekki setið. Þá skellti ég upp úr.
 
  Bolvísk tónlistragetraun
Eftir að bjórinn var leyfður var ég stundum að skemmta á pöbbnum sem Gunnar Bjarni lét útbúa í kaffisalnum í Félagsheimilinu heima í Víkinni. Þá komu þar menn sem sumir voru ófeimnir að biðja mig um að syngja einhver ákveðin lög sem þeir vildu heyra. Sama fólkið bað um sama lagið í hvert skipti sem ég var þarna að syngja og spila.

Nú er getraun. Hún er í þremur liðum.

1) Hvert var óskalag Kitta Sala?
 
  Getraun
Í mínu ungdæmi var einn yfirlýstur aðdáandi Queen í Bolungavík. Hún fór ekki leynt aðdáun hans á Freddie og félögum.
Vita lesendur hver hann er þessi Queen maður?
 
  Fiðlarinn hlustar á rokktónlist
Hákon pælir svolítið í tónlist sem ég á. Hann hlustar talsvert. Um daginn var hann búinn að pikka upp af sjálfsdáðun á fiðluna riffið í Smoke on the water. Það er svolítið fyndið.

Lengi hefur uppáhaldið hans verið Quarashi. Hann segist ætla að hvetja Sölva Blöndal þegvar þeir hittist til að halda áfram með Quarashi. Ég veit ekki hvar eða hvenær hann ætlar að hitta Sölva. Vissi ekki til þess að þeir þekktust - en þetta segir hann.

Nýjasta uppgötvunin er Queen. Það er Queen-æði á heimilinu. Um daginn var hann svo að hlusta á tónlist úr tölvunni þegar hann uppgötvar að Robbie Williams hefur sent frá sér tónleikaupptöku þar sem hann syngur We will rock you. Það finnst honum lélegt af Robbie. Ég var nú að reyna að taka upp hanskann fyrir söngvarann. Sagði Hákoni að þetta lag gætu bara góðir söngvarar sungið. Robbie væri nú bara góður að ráðast í þetta. Hákon var ekki á því. Þetta er Queen lag og hana nú!

Á fimmtudagskvöldið var Lay low í sjónvarpinu að flytja flotta lagið sitt, Please don´t hate me. Ég kallaði í Hákon og bað hann að taka eftir því hvað stelpan væri flinkur gítaristi. Hann fylgdist aðeins með og gaf svo skít í þetta. „Hún er bara að herma eftir Mugison."
 
  Spilverk helgarinnar

Blek og byttur voru að spila í gærkvöldi, á Selfossi í þetta skiptið. Í annað sinn á þessu ári er ég ráðinn til að spila í fertusgsafmæli sem breytist svo óvænt í afmælis- og brúðkaupsveislu.

Í dag fer ég og syng við skírn með félögum úr kórnum.
 
fimmtudagur, nóvember 23
  Konni fiðlari

Það voru nemendatónleikar í gær í Aratungu. Hákon spilaði lag sem hann er löngu búinn að læra og spila margoft. Þannig að það gekk mjög vel hjá honum að spila. Með honum á myndinni er kennarinn hans, Guðmundur Pálsson. Guðmundur hefur spilað með mér, bæði í Bellman-dagskrá á Klettinum og svo í gyðingahljómsveitinni í fyrravetur.

Hljómsveitin hans Guðmundar er aftur á móti Spaðar. Hann er fiðlari í Spöðum.
 
þriðjudagur, nóvember 21
  Nýjar myndir á MYNDASÍÐUNNI

Hringur og Perla María
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Ég var að setja nýjar myndir inn á myndasíðuna okkar.
 
mánudagur, nóvember 20
  Í mál við mömmu sína
Stórgóð frétt á Baggalútssíðunni í dag.
Mamma mín, þú verður hrifin af þessu.
 
  Passað og passað
Gréta kom með á mannfagnaðinn þar sem ég var að spila á föstudagskvöldið. Krakkarnir gistu hjá Halldóru systur og Örvari í Hafnarfirði. Þegar við fórum heim á laugardaginn tókum við Andreu dóttur þeirra með okkur í sveitina og hún var hjá okkur yfir nótt. Krakkarnir hafa gott af því að kynnast hvert öðru og vera svolítið saman.
 
sunnudagur, nóvember 19
  Who #3
Valdimar Leó Friðriksson

Ég er annað slagið að heyra eða lesa nöfn manna sem bera titilinn alþingismaður án þess að ég kannist nokkuð við þá. Mér finnst það svo skrítið að ég sem hlusta á fréttir og les blöðin, a.m.k. svona annað slagið, skuli ekki kannast við öll nöfn og öll andlit þingmanna. Þeir eru nú ekki nema 63. Reyndar hafa sumir þeirra ekki setið lengi á þingi, eins og konan sem auglýsti svo mikið um daginn og ég kannaðist ekkert við. Hún reynist bara hafa setið á þingi frá í vor. Það er kannski eðlilegt að ég þekki hana ekki. Eins er með þann sem er í Silfri Egils núna. Hann er ekki búinn að vera nema stuttan tíma á þinginu. Ég hef ekki tekið eftir honum fyrr. Ég sé á alþingisvefnum að hann er stúdent frá sama skóla og ég. Hann hefur unnið við umönnun fatlaðra, rekið íþróttafélag, verið í JC og spilað handbolta á Skaganum. Meira veit ég ekki um þennan mann.
 
  Af spileríi helgarinnar
Jæja, mikil músíkhelgi að líða. Blek og byttur spiluðu á balli í Reykjavík á föstudagskvöldið. Á undan lékum við okkur aðeins með dinner-harmóníkukalli. Laugardagskvöldið var ég svo að spila dinnertónlist á Geysi og að loknu borðhaldinu að spila svona dæmigert pöbbastöff. Það var heldur langt úthaldið í gærkvöldi. Mig verkjar í fingurna. En ég var svo séður að ráða mér aðstoðarmann í sönginn í pöbbaprógramminu. Þannig að ég tapaði nú ekki röddinni.

Ég hef verið að spá í að gera mér ferð vestur og spila á Ísafirði. Þar er svona staður sem mér er velkomið að spila á. Það eru liðin mörg ár síðan ég spilaði þar. Ætlarðu að mæta?
 
miðvikudagur, nóvember 15
  Alltaf gott að vera Víkari
Ég hef staðið í því síðustu daga, ásamt öðrum, að halda utan um skipulag þemadaga í skólanum. Liður í dagskránni var heimsókn sem við fengum frá einum sveitunga okkar, Jóni Sigurbjörnssyni, leikara, söngvara og hestamanni. Jón las fyrir krakkana og sagði þeim sögur.

Jón var svo glaður þegar honum var sagt að ég væri Bolvíkingur. Í huga hans var það barasta garantí á manngæsku að vera Bolvíkingur. Besti vinur hans var nefnilega Guðmundur heitinn Pálsson, (sonur Ingu Guðfinns, bróðir Binnu í Binnubúð).
 
  Bolvíkingur í Laufskálanum
Ég var að hlusta á Valdimar Víðisson, skólastjóra á Grenivík, í útvarpinu. Hann var Laufskálagestur á mánudaginn. Það var gaman að hlusta á hann.

Ég hef eitthvað voðalega lítið hitt hann síðan veturinn 1994, þegar ég var starfsmaður félagsmiðstöðvarinnar Tópas heima í Bolungavík. Hann var í hópi þeirra krakka sem voru hvað duglegastir að mæta. Hann hefur átt skjótari frama í kennarastarfinu en ég. Hann fór bara beint úr skólanum í skólastjórastöðu. Og þó á ég að baki þann undirbúning sem hann á ekki: Að hafa verið meðlimur í félagi verðandi skólastjóra, Skólastjórafélaginu Skarphéðni. Ég þarf að athuga minn gang!
 
  Ljóðablogg Páls Ásgeirs
Pál Ásgeir Ásgeirsson þekki ég ekki neitt. En, eins og ég hef áður sagt frá hér, líkar mér vel að lesa bloggið hans. Ég les það nú ekki daglega - ekki einu sinni vikulega - en svona annað slagið. Mér finnst hann búa yfir skemmtilegum og lifandi stíl. Ég heyrði hann einu sinni segja að hann væri Vestfirðingur. Sú yfirlýsing varð nú ekki til þess að fæla mig frá blogginu hans. Nú hefur maðurinn tekið upp þá nýbreytni að blogga eingöngu í ljóðum. Það ætlar hann að gera í 30 daga. Hann byrjaði 5. nóvember. Þann dag ritar hann færslu þar sem hann útskýrir tildrögin að þessum gjörningi.

Aftur mæli ég með blogginu hans Páls Ásgeirs.
 
mánudagur, nóvember 13
  Heima er bezt

Ég fæ oft svona líka svakaleg heimþrárköst. Þá langar mig svo heim í Víkina. Gréta er ekki eins gjörn á þessi köst og ég. En Hákon skilur mig fullkomlega.

Heima er bezt!
 
sunnudagur, nóvember 12
  Útvarpshlustun

Ég fíla svakalega vel að hlusta á útvarpið. Sérstaklega þegar þar er eitthvað bitastætt á dagskránni. Þar sem ég kenni á daginn, annast þrjú hávær börn þegar ég kem heim og stunda áhugamál þar sem ekki er valkostur að hlusta á útvarpið á meðan því er sinnt get ég lítið hlustað á útvarpið á réttum útsendingatímum þáttanna. En ég get notað vef útvarpsins og hlusta á þætti sem mig langar að hlusta á þegar ég hef tíma og næði til að hlusta. Ég missi helst aldrei af þáttunum Orð skulu standa og Síðdegi skógarpúkanna á Rás 1. Kvöldgesti Jónasar hlusta ég oft á og Geymt en ekki gleymt á Rás 2 reyni ég að hlusta á þegar áhugaverðar plötur eru teknar þar fyrir. Svo eru aðrir þættir sem verða annað slagið fyrir valinu.

Á aðrar stöðvar hlusta ég lítið. Einstaka sinnum fer ég á vef danska ríkisútvarpsins og hlusta í beinni, aðallega til að tékka á þvi hvort ég geti enn fylgst með dönskunni. Og stöku sinnum kemur það fyrir þegar ég er að keyra að ég stilli á Bylgjuna.
 
föstudagur, nóvember 10
  Who? #2
Ég sá prófkjörsauglýsingu í sjónvarpinu í gærkvöldi þar sem einhver kona er að sækjast eftir stuðningi í Suðvestur kjördæmi. Hún heitir Sigurrós Þorgrímsdóttir og er sögð vera alþingismaður. Hennar hef ég ALDREI heyrt getið áður.
 
fimmtudagur, nóvember 9
  Þegar Ingólfur datt í sjóinn
Þegar ég var að alast upp í Víkinni voru krakkar í kringum mig sem áttu bágt með að vera kyrrir og voru duglegir að finna sér eitthvað til dundurs sem ekki var allt jafnvinsælt.

Ingólfur Þorleifsson, nú formaður KFÍ á Ísafirði, var einn af þeim sem var á sífelldu iði. Hann var með nefið ofan í hvers manns koppi, uppátækjasamur, hávær, óþekkur og einstaklega málgefinn. En hann var líka hjálpsamur, duglegur og oft orðheppinn og skemmtilegur. Hann þekkti alla Bolvíkinga og allir Bolvíkingar þekktu hann. Allir. Mér skilst að hann hafi getað verið alveg hreint óþolandi.

Auðvitað var það þannig að stóru strákarnir á Holtunum (Boggi og co.) létu hann ekki í friði og gátu verið reglulega andstyggilegir við hann. Og það var auðvitað líka á hinn veginn. Það kom alltof oft fyrir að Ingólfur stríddi krökkunum sem bjuggu í nágrenni við hann. Þá urðu þeir helst fyrir barðinu á honum, trúi ég, þeir strákar sem voru svolítið yngri en hann sjálfur, eins og Kristján Karl, Jóhannes, Bjarni Vals o.fl.

Einhverntíma vildi það til að Ingólfi skrikaði fótur á brjótnum og datt fram af og að því að virtist út í sjó. Þetta var við kranann og einn sjómannanna sem þarna var staddur að landa, Magnús, sem kallaður var Mangi goggur, áttar sig á því að einn púkinn er dottinn í sjóinn. Hann stekkur til, stingur höfðinu út fyrir hafnarkantinn til að kanna hvað hafi orðið af krakkanum. Þá sér hann Ingólf marrandi í hálfu kafi, hangandi í dekki, skjálfandi af kulda og dauðskelkaðan. Verður honum þá að orði: „Nú, það er þessi djöfull, þá læt ég hann eiga sig."
 
þriðjudagur, nóvember 7
  Börn
Ég fór í bíó með vini mínum í gærkvöldi. Við sáum myndina Börn eftir Ragnar Bragason.
Við skemmtum okkur bráðvel. Mér fannst myndin spegla samtímann. Hún verður heimild um tímann sem hún var gerð á, eins og Rokk í Reykjavík var á sínum tíma. Ég hafði líka á tilfinningunni að leikararnir hafi sjálfir unnið með karakterana sem þeir túlka og búið til úr þeim sannfærandi manneskjur. Æi... ég hef ekki vit á því hvernig leikarar vinna svona og hvernig samvinna þeirra við leikstjóra er alla jafna hvað þetta varðar, en mér finnst samt eins og að leikararnir hafi verið vel undirbúnir. Ég mæli með þessari mynd. Hún er flott.
 
  Sögur
Nú er orðið langt síðan ég birti hérna sögu úr Víkinni.
Mér hefur bara ekki dottið neitt sniðugt í hug lengi. Ég var ekki nógu uppátækjasamt ungmenni. Ég hef ekki margar sögur af óþekktinni og maður segir nú ekki sögur af hverju sem er þar sem aðrir eru í aðalhlutverkum. En það er sem sagt á dagskrá að rifja upp eitthvert atvik úr æskunni og birta það hérna. Það er kominn tími til.
 
mánudagur, nóvember 6
  Veisla fyrir augað
Það er alveg hreint ofboðslega fallegt veður í uppsveitunum í dag. Dauðalogn og hiti rétt yfir frostmarki. Svo hefur verið þokuslæðingur í lautum og við ár og vötn. Það lítur alltaf svo vel út ofan frá. Núna er að létta til og hlýna og það gerir aðstæðurnar bara enn betri fyrir augað. Ég ók út að Laugarvatni í morgun. Þar sat ég fund í gróðurhúsi alveg niður við vatnið sjálft og útsýnið var guðdómlegt. Spegill á vatninu og snjóföl á túnunum. Grænt gras og gufa kringum hitasvæðin. Flott mynd.
 
sunnudagur, nóvember 5
  Ummæli dagsins

Ætli Addi Kitta Gau, formaður Fjrálslynda flokksins (og frændi minn), taki Magnús Hafsteinsson ekki á beinið fyrir þau sjónarmið sem sá síðarnefndi talaði fyrir í Silfri Egils í dag. Því ef þau (þ.e. sjónarmið Magnúsar) eru eitthvað sem flokkurinn ætar að standa við og tala fyrir í þinginu er ég hræddur um að frændi minn fái eitthvað lítið að borða heima hjá sér í nánustu framtíð.

Þessar upplýsingar um hjúskaparstöðu Guðjóns Arnars eru teknar af heimasíðu hans:

„K. 2. (31. mars 1989) Maríanna Barbara Kristjánsson (f. 7. okt. 1960) iðnaðarmaður. For.: Theofil Kordek og k. h. Stanislawa Kordek".
 
laugardagur, nóvember 4
  Heimsókn
Fór í heimsókn í dag. Félagi Jón Páll og fjölskylda hans var í bústað í nágrenni við okkur og þangað var okkur boðið. Það var gaman að hitta þau öll. Hákon varð þar eftir og ætlar að eyða með þeim deginum.
 
  Stand-up comedy í sveitinni
Við hérna í sveitinni eigum litla menningarmiðstöð sem stendur fyrir uppákomum á veturna með reglulegu millibili. Þessi miðstöð hefur aðsetur sitt á veitingastaðnum Kaffi Kletti hérna í Reykholti. Í gær var sérstaklega sveitó viðburður. Bjarni Harðarson, frá Lyngási í Laugarási, var með uppistand. Hann sagði sögur af sjálfum sér. Meginþemað í máli hans var óþekkt hans sjálfs. Á milli frásagna Bjarna söng einn Kjóastaðabræðra, Egill Jónasson í Holtakotum, alkunn kvæði.

Þetta var hin besta skemmtan. Það var fullt hús af gestum og stemningin ágæt.
 
föstudagur, nóvember 3
  Vinna
Sit í skólanum og er að taka saman námsmat haustsins og ganga endanlega frá skráningunni.
Ég hverju ári verður þetta að mikilli vinnutörn hjá mér. Ég veit ósköp vel að ég hefði getað verið búinn að vinna mér í haginn og gera þetta fyrr, en það skal samt alltaf enda svona. Jæja, þetta eru nú svo sem engin ósköp.

Góða helgi.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]