Útvarpshlustun

Ég fíla svakalega vel að hlusta á útvarpið. Sérstaklega þegar þar er eitthvað bitastætt á dagskránni. Þar sem ég kenni á daginn, annast þrjú hávær börn þegar ég kem heim og stunda áhugamál þar sem ekki er valkostur að hlusta á útvarpið á meðan því er sinnt get ég lítið hlustað á útvarpið á réttum útsendingatímum þáttanna. En ég get notað vef útvarpsins og hlusta á þætti sem mig langar að hlusta á þegar ég hef tíma og næði til að hlusta. Ég missi helst aldrei af þáttunum Orð skulu standa og Síðdegi skógarpúkanna á Rás 1. Kvöldgesti Jónasar hlusta ég oft á og Geymt en ekki gleymt á Rás 2 reyni ég að hlusta á þegar áhugaverðar plötur eru teknar þar fyrir. Svo eru aðrir þættir sem verða annað slagið fyrir valinu.
Á aðrar stöðvar hlusta ég lítið. Einstaka sinnum fer ég á vef danska ríkisútvarpsins og hlusta í beinni, aðallega til að tékka á þvi hvort ég geti enn fylgst með dönskunni. Og stöku sinnum kemur það fyrir þegar ég er að keyra að ég stilli á Bylgjuna.