Tilraunavefurinn
sunnudagur, apríl 30
  Norðlenskar söngkonur
Kristjana Arngrímsdóttir var æðisleg í Skálholtskirkju. Mér þótti hljómsveitin hennar líka mjög góð.

Kristjana býr í Eyjafirði. Í haust komu líka eyfirskir skemmtikraftar til okkar í sveitina og buðu okkur upp á fína dagskrá. Þá var líka hörkusöngkona í þeirra röðum, dóttir séra Hannesar Blandons, ég man ekki nafnið. Hún hafði gríðarlegt raddsvið og var flottust á lága registerinu. Í dag fengum við líka að heyra í einhverri Ösp Kristjánsdóttur. Hún var barasta þrælgóð. Þeir eru ríkir af söngkonum þarna fyrir norðan.

Vinur minn einn starfar við tónlistarstjórn af ýmsu tagi á Akureyri. Hann þarf ekki að leita út úr héraðinu að söngkonu þegar hann þarf á svoleiðis að halda. Svo mikið er víst!
 
laugardagur, apríl 29
  Dagbók
Við vorum að koma heim úr afmælisveislu í Hafnarfirðinum. Andrea systurdóttir mín var að halda upp á fjögurra ára afmælið. Þær eru svo til jafngamlar hún og Perla María og eru yfirleitt góðar vinkonur þegar þær hittast. Það var gaman að hitta systkini mín og fjölskyldur þeirra. Þarna var líka fleira fólk sem var gaman að hitta.

Á morgun ætlum við á vorhátíð í leikskólanum okkar hérna í sveitinni. Svo ætla ég að fara í Skálholtskirkju á tónleika með Kristjönu Arngrímsdóttur. Hún hefur fallega rödd og er með skemmtileg lög á efnisskránni og dúndurgóða hljóðfæraleikara. Hún heufr stundum sungið lög eftir Valgeir Guðjóns sem heyrast annars ekki. Það er mjög falleg músík. Ég ætla ekki að láta þetta fram hjá mér fara.

iTunes er að leika fyrir mig lagið Sumarauki með Ellý Vilhjálms. Dásemd!
 
  Ekkert fyrir viðkvæmar sálir
Glæpurinn sem gaurinn var dæmdur fyrir að fremja:

„Den srilankanske dreng tvang som 15-årig en 82-årig dame til sex i hendes hjem."

Ég á ekki orð!
 
föstudagur, apríl 28
  Einum of gott
„Ég er félagshyggjumaður eins og hann afi minn", söng Jakob Frímann í myndinni Með allt á hreinu um árið. Ég er líka
félagshyggjumaður. Mér þótti margt gott sem ég kynntist í Danmörku af þeirri þjónustu sem ríkið og sveitarfélögin veita þegnunum. En öllu má nú ofgera og verð að vera sammála dönsku pressunni sem er að fetta fingur út í eitt úrræði félagsmálayfirvalda þar.

Ég var að lesa frétt á vef danska ríkisútvarpsins um 16 ára dreng sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot, en betrunarvist hans gerir hann að þeim afbrotamanni dönskum sem hæst er gert undir höfði og kostar danska ríkið meira fé en nokkur annar fangi. Hann er eini vistmaður stofnunar þar sem 17 fastráðnir uppeldisfræðingar veita honum meðferð allan sólarhringinn. Félagsmálaráðherrann er ekki frá því að þetta sé alltof dýrt úrræði!

Vá!
 
  Mér langar
Ég var að lesa bók sem ég á og glugga reglulega í. Hún heitir Textar Megasar. Þar kemur æ ofan í æ fyrir það sem yfirleitt er kallað þágufallssýki í íslensku máli. Það er sú tilhneiging að hafa fornöfn og önnur fallorð í þágufalli þegar flestir nota þolfall.
Dæmi: „Mér vantar" í stað „mig vantar" og „Hákoni langar í kók" í stað „Hákon langar í kók".

Ég veit ekki hvers vegna skáldið vill hafa þetta svona. En það blundar bersýnilega rebell í Magnúsi svo e.t.v. hefur hann á einhverju tímabili verið hrifnari af þessari leið? Mér þykir það þó afar ólíklegt. Miklu líklegra er að þetta málsnið sé liður í persónusköpuninni. Persónusköpunun er ekki aðeins fólgin í því hvað persónan er látin upplifa eða segja frá eða orðunum sem persónan mælir, heldur skiptir ekki síður máli hvernig persónan er látin koma setningunum út úr sér.
 
  Aha!
Varðandi síðustu færslu verð ég að bæta því við að mér sýnist það alfarið vera okkur Bjögga að þakka að Öddi er í dag eftirsóttasta kvikmyndatónskáld þjóðarinnar. Við höfum komið honum á bragðið!
 
fimmtudagur, apríl 27
  Stuttmyndatónlist
Einu sinni fékk Bjöggi vinur minn mig til að hjálpa sér við að spila og syngja tónlist inn á stuttmynd sem hann var að gera í Kvikmyndaskóla Íslands. Þá fékk ég Ödda frænda minn og Önna Páls til að hjálpa okkur við upptökurnar. Það endaði náttúruelga með því að önfirski trommarinn hjálpaði okkur nú talsvert við flutninginn líka. Þetta var frekar glatað soundtrack hjá okkur. En það var skemmtilegt að fara og vera við frumsýningu (og reyndar einu sýningu) myndarinnar í Tjarnarbíói.
 
miðvikudagur, apríl 26
  Kvæðið um ökuferð skólastjórahjónanna í Víkinni um Djúp
Nú man ég ekki hvað þetta kvæði heitir.
En það var örugglega svona:

Það gerðist hérna sumarið áttatíu og sjö
að Anna Skarpa bílhurðinni skellti.
Gunnar fór þá með hana, þau voru bara tvö,
inn í Djúp og bíldruslunni velti.

Eigum við ekki að hætta þessum hildafulla leik?
Sögðu þau og tók´upp blað og penna.
Nú er bíllinn ónýtur og Anna fór í steik.
Samt komu þau í september að kenna.

Tralla ralla ralla ralla tralla la la lei
tralla ralla tralla ralla ralla.
Tralla ralla ralla ralla tralla la la lei
tralla ralla tralla ralla ralla.


Svona gátum við Ingólfur ort 14 og 15 ára gamlir. Það er ekkert ljóttíessu, erða? Ég meina, þau hjónin lentu þarna í óhappi um sumarið en það fór betur en á horfðist og þau sluppu bara vel. Ég man að ég sótti Gunnsa á kontorinn svo að hann missti ekki af frumflutningi á þessu. Og ég man ekki betur en að honum hafi bara fundist þetta allt í lagi hjá okkur.

Þessi texti og þriggja hljóma lag við hann (sem ég man líka) voru frumflutt á diskóteki unglingadeildarinnar í skólanum í Víkinni haustið 1987, þegar ég var í 8. bekk. Þetta var sennilega í fyrsta skipti sem ég kom fram með gítar. Við Ingólfur lékum báðir og sungum og sömdum bæði lag og texta saman. Ég held að krökkunum hafi ekkert þótt um þetta. Þeim þótti þetta ekkert merkilegt, ekkert fyndið og ekki einu sinni djarft af okkur. Þessi uppákoma var ekkert nema bara tveir lúðar að reyna að vekja á sér athygli með glötuðum aðferðum! Mér fannst þetta stórmerkilegt!

Hildafullur
Ég man líka að ég ber meiri ábyrgð á textasmíðinni en félagi minn og að orðið hildafullur, sem þarna kemur fyrir, var eitthvað sem ég vildi absalút hafa með. Ég hafði örugglega ekki fyrir að fletta því upp í orðabókinni og gá hvað það þýddi, en það á þarna að vera samheiti orðsins hættulegur. Þegar ég fletti þessu upp núna um leið og ég er að skrifa þetta hérna inn sé ég að orðið er til í málinu, svo sennilega hafði ég heyrt það. En það merkir að vera fullur af hildum, en þá eiga menn víst að hríðskjálfa. Dæmi er tekið í Orðabókinni um hildafullan hund. Þá er þessi orðanotkun út í hött hjá mér þvi leikur getur náttúrulega aldrei hríðskolfið. En þau hjónin hafa sjálfsagt orðið hildafull við bílveltuna.
 
  Komin i kjólinn

Á leið í fermingarveislu frænda síns.
 
mánudagur, apríl 24
  Ingólfur

Ég var að skoða myndirnar frá Rokkhátíðinni á Ísafirði á BB-vefnum. Þar sá ég þessa mynd. En þessi rokkari byrjaði að spila með mér. Við sömdum lag sem byrjar svona: „Það gerðist hérna sumarið áttíu og sjö að Anna Skarpa bílhurðinni skellti". Það var flutt á skemmtun í skólanum.
 
sunnudagur, apríl 23
  Góður framburður
Dóttir mín getur ekki sagt eignarfallsmynd orðsins heimur, með greini: „HEIMSINS".
Það verður því hálfkómískt þegar hún ætlar að syngja fyrir mig stefið úr Kalla á þakinu til að gleðja mig: „Kalli, Kalli, heimski besti Kalli".
 
  Kórhelgi
Þessi helgi var kórhelgi. Á laugardaginn var jarðarför. Séra Gunnar sá um verkið. Það var bara eins og að vera kominn heim að hitta hann. Ég hef alltaf kunnað svo vel við hann. Það er líka gaman að hitta hann á götu. Og svo er hann besti söngvarinn í íslenskri prestastétt sem ég hef heyrt syngja messu. Þetta var vel gert hjá honum í gær. Hann er mælskur kallinn!

Í dag var svo brunað að Sólheimum og sungið með nokkrum félögum við fermingu.

Gréta var að mála í dag. Hún var að fá tvö spennandi verkefni. Stórar myndir - það þykir henni gaman. Sennilega af því að það er svo sjaldan sem óskað er eftir slíku.
 
föstudagur, apríl 21
  Mest spilað
Svona lítur þetta út hjá mér. Þetta eru mest spiluðu lögin í heimilistölvunni:

2 birds Mugison
Volcano Damien Rice
What I Would say in your.... Mugison
Perfect day Lou Reed
Ther blowers daughter Damien Rice
 
fimmtudagur, apríl 20
  Á námskeiði

Ég var að skoða tónlsitarsíður og hálfpartinn að leita mér að stað til að komast á námskeið. Ég fann skóla sem ég ætla að skoða miklu betur því við fyrstu sýn virðist hann vera mjög spennandi möguleiki. Þar er boðið upp stutt og löng sumarnámskeið og hljóðfæraleikarar fá kennslu sem miðast við getu þeirra. Ég sé á þessari mynd sem hér fylgir að þarna hefur fólk tekið alla fjölskylduna með sér. Það geymir hana bara á bakinu á meðan á samspili stendur.
 
  Bloggsíður fyrrverandi nemenda #2
(Sami inngangur og á hinni færslunni.)

Ég skoða stundum bloggsíður fyrrverandi nemenda minna. Það er alltaf gaman en það er nú afar mismunandi upplifun. Þetta er fólk í blóma lífsins og er að upplifa svo skemmtilega tíma. Vissulega fyllist ég stolti yfir því að hafa verið um tíma samferða þessu skemmtilega fólki sem er upptekið við svo ólík en frábærlega skemmtileg viðfangsefni. En það er eitthvað furðulegt og hálfleiðinlegt að lesa um fyllleríin á því.

(Og svo kemur það.)

Ein stelpan skrifar núna um SUS ball á Skaganum. Þar á að vera frítt bús og allir eiga að mæta. Ég þoli þetta ekki! Þetta er ógeðslegt. Mér verður hálfillt og hugsa: Svakalega höfum við Gunni verið líbó og farið varlega í stjórnmálaumræðurnar. Sennilega hefur það verið til að koma ekki upp um okkur og láta ekki hanka okkur á því að við værum að innræta börnunum hugmyndir sem við sjálfir aðhylltumst. Eða kannski hefur bara ekkert verið tekið mark á okkur? Við lögðum alltaf svo ríka áherslu á að maður ætti ekki að láta aðra ákveða fyrir sig hluti sem skipta mann máli og alls ekki að láta selja sér skoðun fyrir sig sjálfan (Það fóru margar stundirnar í gallabuxnamerkjasnobbumræðurnar!).

Af hverju beita menn þessum brögðum? Við hvað eru þeir hræddir? Hugmyndir þeirra eru viðkenndar í samfélaginu og það er meira að segja hátt hlutfall þjóðarinnar sem aðhyllist þær eða styður að minnsta kosti þá sem aðhyllast þær til valda í landinu. Þurfa þeir að sverta hreyfinguna með svona lúalegum áróðursbrögðum? Ég held ekki. Ég held að þeir gætu með heiðarlegri hætti fengið fullt af unglingum til liðs við sig bara út á hugmyndafræðina - hún á upp á pallborðið hjá (alltof) mörgum. Þetta er eitthvað svo aulalegt: Þeir sem nenna ekki að pæla í stjórnmálum eiga að styðja Sjálfstæðisflokkinn frekar en aðra flokka því SUS veitir bús á balli. Ojbara!
 
  Bloggsíður fyrrverandi nemenda
Ég skoða stundum bloggsíður fyrrverandi nemenda minna. Það er alltaf gaman en það er nú afar mismunandi upplifun. Þetta er fólk í blóma lífsins og er að upplifa svo skemmtilega tíma. Vissulega fyllist ég stolti yfir því að hafa verið um tíma samferða þessu skemmtilega fólki sem er upptekið við svo ólík en frábærlega skemmtileg viðfangsefni. En það er eitthvað furðulegt og hálfleiðinlegt að lesa um fyllleríin á því.

Skagakrakkarnir fóru sumir saman á sumarbústaðaferð um síðustu helgi. Það finnst mér alveg æðislegt að vita. Þeir halda hópinn og þeim er ekki sama hvert um annað. Skemmta sér saman. Frábært - þetta er rétti andinn! Þetta eru æðislegir krakkar. Ég vona að þeir passi upp á hvert annað í ferðum eins og þessari og geri sem fæsta mega-skandala.

Krakkarnir mínir úr Víkinni eru eldri. Það er fólk sem er komið aðeins lengra á skemmtanabrautinni. Það er á endasprettinum við að hlaupa af sér hornin. Þeir eru farnir að skemmta sér eins og fullorðið fólk. Það horfir aðeins öðrum augum á lífið en hinir gríslingarnir. Þar var einn að verða pabbi um daginn. Ein stelpan í þeim hópi var að skrifa um þær vangaveltur sínar hvort hún ætti að helga næsta vetur stjórnarsetu í nemendafélagi MA eða taka upp þráðinn í tónlistarnámi. Ég get ekki ráðið henni heilt í því. Hún metur þetta svo hárrétt og skynsamlega: Hvort sem er yrði gaman, en hún verður að velja annað. Hvað ég þekki svona klemmu!
 
mánudagur, apríl 17
  Orðskviðirnir
Málshættirnir sem voru í eggjum okkar í fjölskyldunni voru eftirfarandi:

Heimskur maður sýnir fljótt reiði sína.
Sínum gjöfum er hver líkastur.
Ekki er synd í sönnum auði.
Hafðu ekki of mörg járn í eldinum.
Umgengni lýsir innri manni.
 
sunnudagur, apríl 16
  Fótboltafélagið Vík

Fótboltafélagið Vík
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.

 
  Passíusálmarnir (í síðasta sinn)
Það var merkisviðburður í rokksögu þjóðarinnar á tónleikunum í gær. Í fimmtugasta og síðasta sálmi stigu fram Magnús Guðmundsson, söngvari og Þorsteinn Magnússon, gítarleikari. Þar með var hljómsveitin Þeyr öll komin saman, en það er komið hátt á þriðja áratug síðan það gerðist síðast. Hinir í hljómsveitinni, þeir Gulli, Sigtryggur og Hilmar Örn voru í Píslasveitinni sem lék undir í öllum sálmunum.
 
  Passíusálmarnir (í næstsíðasta sinn)
Jæja, þá er búið að flytja Passíusálmana. Það hefur aldrei komið fleira fólk í Skálholtskirkju.

Flutningurinn heppnaðist vel (reyndar var ég sjálfur ekki eins einbeittur og ég var þegar við fluttum þetta í Hallgrímskirkju um daginn og ég var lengi í gang í gær). En annars var þetta betri konsert en sá fyrri. Hljóðið var miklu betra og hljóðfæraleikararnir miklu hugrakkari að gefa hver öðrum rými og spila ekki, til að leggja áherslu á eitthvað sem var að gerast hjá öðru hljóðfæri í vissum lagpörtum. Hugrekki af þessu tagi er mikilvægt í öllu samspili og kannski það element sem á stærstan þátt í að hljóð verða tónlist.

Mér hefur þótt sérstaklega ánægjulegt að fá að vera þátttakandi í þessu verkefni. Mér hefur farið mikið fram í nótnalestri á meðan á því hefur staðið og ég hef kynnst skemmtulegu fólki. Svo er nú hver klukkustund á spjalli við tónskáldið eins og að sitja heilt námskeið í einhverri fræðigrein. Karlinn er fjölfróður, stálminnugur, snjall sögumaður og hann hefur góða nærveru.
 
föstudagur, apríl 14
  Fermingarveisla
Þá er eldri bróðursonur minn fermdur. Jakob Freyr Atlason var fermdur á skírdag og bauð til þessarar fínu veislu í Kópavogi. Takk fyrir okkur frændi.
 
fimmtudagur, apríl 13
  Fótboltastrákar

Litli og stóri
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Vinirnir Halli og Kalli í glænýjum UMFB búningum. Þetta hlýtur eiginlega að vera mynd frá sumrinu 1983. Ég er tíu ára og Halli níu.
 
miðvikudagur, apríl 12
  Fíflagangur

Photo 36
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Það má líka fíflast á ýmsa vegu með þessa mendavél að vopni. Ef þú smellir á myndina sérðu dæmi um fleiri fíflalæti.
 
  Ég

Photo 28
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com.
Ég var að læra á innbyggðu myndavélina á tölvunni minni. Þetta er sem sagt ég sjálfur á þessari mynd.
 
  Laugardagurinn næsti: Skálholt
Það var æft fyrir Passíusálmana í gærkvöldi. Nú var verið að bæta sálmum við dagskrána. Þetta verða flottir tónleikar í Skálholti á laugardaginn. Á undan tónleikunum verður fyrirlestur um Passíusálmana og Hallgrím Pétursson fyrir þá sem vilja. Þá mæta þeir bara klukkatíma áður en konsertinn byrjar, klukkan 16:00. Tónleikarnir hefjast svo klukkan 17:00.

Ég veit um marga sem ætla að mæta í Skálholt og upplifa Megas og Hallgrím áður en hátíðin gengur í garð. ÉG held samt að enn sé ekki orðið uppselt. Látið mig vita ef ég á að taka frá miða fyrir ykkur. Ég skal redda því, alla vega meðan miðar eru til. Kirkjan tekur ekki marga í sæti svo það verður engin örtröð. En það verður húsfyllir og ég get lofað góðum tónleikum.
 
þriðjudagur, apríl 11
  Söngkeppni framhaldsskólanna
Mér fannst stelpan af Skaganum best. Enda vann hún þetta! Þetta er fótboltastelpa. Hún var í samsöngstímum með mér þegar ég var að læra að syngja í Tónó á Akranesi. Hún er miklu betri núna en hún var þá, enda munar miklu um hvert ár þegar maður er á þessum aldri.

Orri var að blogga um að hann hafi verið hrifinn af stelpunni sem söng fyrir MH. Ég man nú eftir því atriði, en tók ekki eftir því að hún syngi betur en Skagastelpan.

Mamma sendi mér sms þegar keppninni var lokið: LOKSINS. Hún hefur sjálfsagt verið að skjóta á mig því ég tók þátt í þessari keppni fyrir FVA tvívegis án þess að bera neitt úr bítum.
 
  Uppgötvanir (framhald)
Maður á náttúrulega að skrifa Grettis saga í tveimur orðum; saga Grettis.

Þess skal getið að ég er ekki fyrsti maðurinn sem uppgötvar að málshættir einkenna stíl Grettis sögu. Það er alþekkt. Það er meira að segja tilgáta sumra áhugamanna um málið að höfundur Grettis sögu hafi jafnvel haft orðskviðasafn við höndina þegar hann skrifaði söguna.


Nokkrir málshættir úr Grettis sögu

Ber er hver á baki nema sér bróður eigi (þennan málshátt er reyndar lika að finna í Njálu)
Illt mun af illum hljóta
Það verður tamast sem í æskunni nemur
Margur fer í geitarhús ullar að biðja
Engi er allheimskur, ef þegja má
Oft er í holti heyrandi nær
Eigi er það að launa sem eigi er gjört
Móðir er barni bezt
Vinur er sá annars er ills varnar
 
  Uppgötvanir
Ég gerði uppgötvun í desember 1994. Þá var ég að lesa undir próf í Kennaraháskólanum. Þetta var eftir fyrsta misserið og ég var að uppgötva, eftir fjóran og hálfan vetur í aðgerðarleysi og skólaleiða í framhaldsskóla og annan eins tíma þar á undan í grunnskóla, að ég gat bara víst lært. Það kom sem sagt á daginn. Ég var í fyrsta sinn síðan í tólf ára bekk á góðu róli í náminu.

En þetta gat ekki orðið of gott. Úr því að ég var svona vel staddur í náminu var alveg dæmigert fyrir mig að í miðjum próflestri, sem var nú mestur í amerískri þróunarsálfræðiskruddu (og ég var þá og hef alltaf verið með eindæmum seinlæs, einkum á ensku, svo ekki veitti mér nú af tímanum), lagðist ég í lestur Grettissögu. Ég hafði margsinnis lesið sögur úr Grettissögu í einhverri barnaútgáfu þegar ég var púki. Þá var ég nefnilega með bókmenntalega kraftadellu. Las þetta og sögurnar af Finnboga ramma og Tarzanblöðin á Miðdal hafði ég líka lesið margoft.

Í þessum Grettissögulestri gerði ég svo aðra uppgötvun. Hún er sú að Grettissaga er svo hlaðin málsháttum og orðtökum sem enn þann dag í dag eru bráðlifandi í málinu að það er útilokað fyrir fullorðinn mann að komast í gegnum daginn án þess að vitna einhverntíma í Grettissögu.

Í næstu færslu ætla ég að vera búinn að taka saman örfá dæmi um þetta af handahófi.
 
sunnudagur, apríl 9
  Skólastjóri
Bolvíkingar eru að auglýsa eftir skólastjóra til að stjórna grunnskólanum. Ég veit um einn sem ætlar að sækja um starfið. Það er annálaður baráttumaður fyrir skapandi skólastarfi, maður sem flestir skólar landsins myndu þakka fyrir að hafa í sínum röðum. Ég óska þess að Bolvíkingar ráði hann í starfið. Ég trúi að það yrði heillaspor fyrir þá.
 
  Heilsufarið
Hringur er búinn að vera lasinn alla síðustu viku. Hann er varla orðinn hress enn. Svo fékk Perla María þessa pest líka um daginn og á enn í þessu. Svo hér eru tvö börn hálfslöpp. Hákon er hressari.
 
fimmtudagur, apríl 6
  Um ráðstefnu prestanna yfir Kristó
Sálmur 15

7. vers af 17

Margir upp árla rísa,
ei geta sofið vært,
eftir auð heimsins hnýsa,
holds gagnið er þeim kært.
Sálin í brjósti sofnuð
sýnist að mestu dauð,
til allra dyggða dofnuð,
sem drottinn helst þó bauð.
 
  Lif og fjör #1 (framhald)
Árið 1985 lék 5. flokkur á stóran völl á stór mörk.
Liðið í úrslitaleiknum gæti hafa verið svona:

4-4-2
Markvörður: Friggi tvíburi
Hægri bakvörður: Gummi Hrafn
Vinstri bakvörður: Þorlákur
Hafsentar: Ég og Rúnar
Hægri kantur: Brynjar
Vinstri kantur: Guffi tvíburi
Miðja: Halli Pé og Jónas
Framherjar: Emmi og Aggi.

Aðrir sem gætu hafa verið þarna eru Gummi Bj., Elli Ket, Raggi I, Hálfdán og e.t.v. einhverjir fleiri.

(Rosalega vildi ég að hér gæti ég haft myndina sem er til heima af mér og Halla Pé í nýju rauðu UMFB-búningunum sem var tekin við húsvegg heima á Holtastíg sennilega þetta sama sumar.)
 
miðvikudagur, apríl 5
  Sút fló í brjóstið inn
Hugrenningar um skáldskap.

11. passíusálmur fjallar um afneitun Péturs. Hann er 17 vers. Það áttunda er svona:

Pétur með bljúgu bragði
bráðlega sagði nei,
sór sig og sárt við lagði,
svoddan mann þekkti hann ei.
Glöggt þegar gerðist þetta,
gól haninn annað sinn.
Síst mátti sorgum létta.
Sút flaug í brjóstið inn.

Það er bara ekki hægt að toppa þetta. Þetta er svo fallegt mál.

Hallgrími tekst allt í senn:
- að taka inn í versið orðréttar hendingar úr Biblúþýðingu Guðbrands, eins og t.d. 3. ljóðlínuna hérna sem er úr Markúsarguðspjalli (14. kafli, 71. vers)
- að búa til svona snilldar setningu eins og: „Sút fló í brjóstið inn", sem er náttúrulega miklu meira töff en að segja að Pétur hafi grátið, eins og Markús gerir (Takið eftir að tvær þátíðarmyndir af sagnorðinu fljúga eru þekktar úr þessari ljóðlínu. Ég þekkti þá sem er í fyrirsögninni (fló) úr texta eftir Megas þar sem hann notar þennan frasa Hallgríms í samnefnu lagi, mig minnir að það sé á plötunni Fram og aftur blindgötuna. Sömuleiðis syngur hann „fló" í þessu versi á upptöku sem ég komst yfir frá tónleikunum frægu í Gamla bíói 1985.)
- að hafa stíl Passíusálmanna svo kúl að hann er ekki einu sinni gamaldags árið 2006, rúmum 300 árum eftir að hann yrkir þetta.

Bravó Grímur!
 
mánudagur, apríl 3
  Lif og fjör #2
Ég er mjög ánægður með að fá viðbrögð við síðustu færslu. Vonandi verða þær enn fleiri. Nesi man eftir GRAFÍK á laugardagskveldinu. Grafík var mjög heitt band á þessum tíma og spilaði sannarlega þarna. Helgi Björns lék sér svo í fótbolta við okkur púkana einn daginn og sló hvergi af í baráttunni þótt mótherjarnir væru þetta 11-16 ára. Hann var harður í horn að taka.

Svo var hljómsveitakeppni sem ég fylgdist með fullur aðdáunar. Þar fór með sigur hljómsveit sem var skipuð lúðum (nördum með gleraugu) úr Hnífsdal. Þar fóru fremstir í flokki þeir Venni og Hjölli, sem ég átti eftir að kynnast að góðu einu saman síðar. Þeir eru báðir afburðahæfileikaríkir tónlistarmenn. Þeir sungu um afa sem var jarðaður við Ísafjarðardjúp. Ég man viðlagið enn!
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]