Tilraunavefurinn
mánudagur, október 29
  Hnífsdælsk kímni
Bragi Valdimar er alltaf sniðugur. Nú yrkir hann um tíu litla kynvillinga.
 
  Hver er Víkarinn? (önnur vísbending)
Þessi Víkari býr reyndar ekki í Víkinni og hefur ekki gert í um það bil 25 ár. Frá því hann flutti þaðan hefur hann flakkað talsvert um heiminn og hitt margt merkisfólk. Sá sem honum er þó efst í huga núna er friðarverðlaunahafi Nóbels frá 1996, Jose Ramos-Horta. Þá komu til hans einhverjir menn, þar hann var staddur á ráðstefnu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Austur-Tímor, og tilkynntu honum að þjóðarleiðtoginn vildi hitta hann.

Hver er Víkarinn?
 
sunnudagur, október 28
  Fréttir af síðasta giggi
 
  Hver er Víkarinn?
Það var nú ekki meiningin að fara að spyrja um Víkara núna af því að ég er nú staddur heima í Víkinni. Ég er búinn að hitta marga Víkara. En nú sit ég með einum Víkara sem heimtar að fá að vera viðfangsefni í getrauninni hérna á síðunni. Hann er sem sagt hérna með mér að semja þessa vísbendingu. Ég held að þetta dugi sem fyrsta vísbending.
(Dóra systir má ekki vera með núna.)
 
þriðjudagur, október 23
  Popppunktur
Hvaða dægurlag er þetta?

Þetta er fyrsta vers.

Ég loka hurðinni,
bíð með að brenna.
En vírarnir hitna,
lófarnir glóa.


P.s. Hemmi hressi var aldrei búinn að upplýsa okkur um rétt svar við svínslega erfiðu gátunni hans um daginn. Ég var aðeins búinn að nálgast svarið en ekki kominn alveg til botns. Á ekki að draga okkur að landi?
 
  Góðir gítarleikarar
Ég var að fylgjast með þætti í sjónvarpinu þar sem Ólöf Arnalds lék og söng lögin sín. Svakalega fannst mér hún flinkur gítarleikari. Það er alveg makalaust hvað það eru margir krakkar að koma fram á sjónarsviðið sem kunna svona líka ofboðslega vel að spila á gítar. Gaman af því.
 
  Hver er Víkarinn? 2. visbending
Þá er komið að annarri vísbendingunni.
Þessi Víkari er kona.
 
mánudagur, október 22
  Hver er Víkarinn?
Það urðu fleiri Víkarar á vegi mínum um helgina. Einn hitti ég í Smárabíói. Þann Víkara kannast ég nú ágætlega við. Hann hefur ekki búið í Víkinni lengi, lengi en er alinn þar upp og kemur oft í heimsókn. Við eigum börn á líkum aldri. Hann er hins vegar aðeins eldri en ég en á systur sem er jafngömul mér og líka tvö önnur systkini sem eru eilítið eldri en hann sjálfur.
Hver er Víkarinn?

Dóra systir má ekki taka þátt. Hún var með mér þegar ég hitti þennan Víkara.
 
  Kráarsöngvarinn

Jæja, nú er best að standa sig hér á blogginu. Ég sá að það var vísað á bloggið mitt á síðu sem er með fréttum og ýmsu skemmtilegu efni frá Bolungavík. Þetta er síða sem er á slóðinni www.vikari.is. Það er hlekkur á hana hér til hægri á síðunni minni.

Ég hef einmitt oft hagað skrifum mínum hér á síðunni eins og um væri að ræða bréf heim, opið sendibréf til Bolvíkinga um hvað á daga mína drífur í „útlegðinni". Mér hefur fundist það eðlilegur útgangspunktur.

Fjölskyldan er einmitt á leið til Bolungavíkur um næstu helgi, eða á næstu helgi, eins og sagt er fyrir vestan. Það verður frí í skólanum hér í sveitinni dagana eftir þá helgi og við ætlum að nota fríið til að fara vestur og hitta fólkið okkar þar.

Ég ætla að spila og syngja í Kjallaranum í Bolungavík á föstudagskvöldið næsta. Strax á eftir félagsvistinni.

Mér finnst gaman að spila heima í Víkinni. Þar byrjaði ég að spila. Ég var enn í grunnskóla þegar ég var farinn að spila á pöbb sem var í kaffisalnum í félagsheimilinu. Þá var bara nýlega búið að leyfa sölu á bjór og ekki svo margir farnir að gera út á kráarspilamennsku. Þannig að ég var fenginn í þetta. Vertinn sótti um undanþágu fyrir mig til sýslumanns. Hann veitti hana alltaf. Þetta spilerí gerði mér ekkert nema gott. Ég hafði svo sem ekki umgengist ölvað fólk en það var ekkert svo mikið mál. Og aldrei drakk ég þegar ég spilaði og ég fór alltaf beint heim eftir að hafa spilað. Það var ekki vesenið á manni í þá daga.

Ég var ekki sá eini sem spilaði í kaffisalnum þessa fyrstu bjórvetur. Jónas Pétur spilaði einhverntíma, oftast með öðrum. Sundum með Óla Fjalari (held ég), stundum Kristjáni Jóni. Kristján Jón og Jómmi fóru að spila saman og Hjödda í Tungu var nokkuð dugleg við þetta á tímabili. Svo komu Ísfirðingar; Halli gítarleiki og Gummi Hjalta, og enskur strákur sem heitir Eric og var lengi að spila á Íslandi á árunum á eftir. Einu sinni man ég eftir að hafa spilað í Félagsheimilinu sama kvöldið til skiptis í kaffisalnum og á svölunum uppi. Þá voru tveir spilarar, ég man ekki hvort sá sem spilaði á móti mér var Jónas Pétur eða þessi enski Eric. Gunnar Bjarni, sem var vert í Félagsheimilinu á þessum árum, leyfði mér að koma og sjá og heyra þessa menn skemmta. Það var gott hjá honum. ég hafði gott af því. Bæði gat ég lært af þeim og eins heyrt að þeir voru ekkert betri en ég í þessu. Þess vegna þorði maður að halda þessu áfram. Maður verður að hafa eitthvað að bera sig saman við til að geta fengist við svona lagað. En í sannleika sagt þá var ég engan veginn kominn á þann stað, hvorki sem gítarleikari né skemmtikraftur að ég hefði átt að vera að selja mig út sem slíkan á þessum árum. Ég hafði leikið á gítar í nokkra mánuði. En ég gat alveg sungið. Sennilega var ég óvenjugóður söngvari miðað við aldur. En mig skorti tónlistarþekkingu til að vera að fást við söng svona upp á eigin spýtur. Ég gat ekki einu sinni tónflutt þriggja hljóma lög. Hvað þá annað. En það var bara enginn annar betri í boði og svo var þetta svo nýtt, að skemmta kráargestum. Það vissi enginn hvernig ætti að skemmta íslenskum kráargestum. Það var sennilega stærsti munurinn á því að byrja þá eða að byrja í þessu í dag. Ég hafði nákvæmlega engan að leita til. Þeir sem kunnu að spila á gítar höfðu ekki spilað á pöbb og fæstir þeirra treystu sér til þess.

Þetta var nú ekki mikil útgerð hjá mér á þessum árum. Ég spilaði aldrei nema heima í Bolungavík. En síðan hef ég tekið nokkur tímabil þar sem ég hef verið duglegur að trúbadorast. Það er einmitt eitt slíkt tímabil að ganga yfir þessi misserin.

Þetta er oftast skemmtilegt en mjög erfitt. Þrátt fyrir að tónlistin sem ég er að flytja á kránum krefjist ekki mikillar hæfni í hljóðfæraleik við flutninginn þá er engu að síður gríðarlega erfitt að gera þetta vel. Sá sem leikur á gítarinn og syngur í míkrafóninn verður að spila það sem fólkið vill heyra, en ekki bara það sem hann sjálfur vill spila. Þannig að maður þarf að kunna mörg lög og getað spilað ólíka tónlistarstíla. Svo verður að passa sig á að gera ekki bara fólki á einu borði til geðs en sinna ekki hinu fólkinu í salnum. En maður verður líka að hafa vit á því að láta ekki vaða í hvað sem er. Mér fer til dæmis ekki að syngja sumt af því rokki sem ég er stundum beðinn um að spila. Ég bara gæti ekki gert það vel og þess vegna verð ég að hafa vit og kjark til að sleppa því bara. Það er líka erfitt fyrir líkamann að sitja eða standa lengi og skemmta. Svo ég tali nú ekki um fyrir fingurna að spila á gítar í nokkra klukkutíma og ennþá erfiðara er það fyrir röddina að syngja svona lengi án þess að hvílast. Maður verður líka að gefa sig allan í þetta. Það krefst einbeitingar og er orkufrekt að skemmta fólki, sérstaklega ölvuðu fólki. Það er alveg sama hvort ég hef verið að skemmta fáu fólki í litlum sal eða mörgu í stórum sal, þegar ég kem heim á eftir er ég óratíma að ná mér niður.
Það væri gaman að sjá Víkara fjölmenna í Kjallarann á föstudaginn. Það er ekkert að því að líta bara aðeins við og tékka á stemmningunni. Það er auðveldara nú en áður. Ekki verður maður gegnsósa af reyk lengur. Mér þótti mjög vænt um það síðast þegar spilaði í Víkinni að það kom talsvert af fólki á miðjum aldri og fólk eldra en það og leit aðeins við. Pantaði sér kannski einn kaffibolla eða bjórglas og naut þess að hlusta á tónlistana svolitla stund. Svo kvaddi það bara og gekk út. Það var virkilega ánægjulegt að skemmta þeim. Svo voru líka hópur ungra karla um tvítugt sem hélt uppi gríðarlegri stemmningu með því að syngja með í hverju lagi undir lokin hjá mér. Þeir voru virkilega skemmtilegir. Ég ætla bara rétt að vona að þeir láti sjá sig í þetta skiptið.
 
sunnudagur, október 21
  Sungið
Ég söng tónleika í dag í kirkjunni í Skálholti. Þetta voru tónleikar sem kallaðir voru „Austrið mætir vestrinu". Egypsk söngkona og hörpuleikari (leikur á einhverja ævaforna hörpu og slagverk) söng og lék og Kammerkór Suðurlands söng. Dagskráin var þannig, eins og svo oft þegar leidd eru saman svona atriði, að hún söng ein, kórinn söng einn og svo var þeim blandað saman í sumum laganna. Auk þess sem hún söng og lék með tríói sem þeir skipa ásamt henni, Hilmar Örn og Steingrímur tablaleikari.

Stjórnandinn bað mig að vera með í þessu verkefni í síðustu viku, þar sem hann sá fram á að karlarnir í kórnum yrðu eitthvað fáir í þetta skiptið. Annars er ég ekkert í þessum kór. Hann er skipaður hörkuliði af Suðurlandi. Fólki sem allt les nótur af blaði af miklu öryggi og flest er það starfandi við tónlist. Það var bara gaman og lærdómsríkt að fá að syngja með þeim. Sum laganna þekkti ég og hef sungið með Skálholtskórnum, en önnur hafði ég ekki einu sinni heyrt fyrr. Það var nú aðeins snúnara en ég hef vanist en ofboðslega flott músík.

Skálholtskórinn er svo að æfa mjög flott verk eftir Jón Ásgeirsson. Það er skrifað fyrir blandaðan kór, barnakór, einsöngvara og orgel. Þetta verður flutt í Skálholtskirkju 17. nóvember klukkan 17. Með kórnum verða Barna- og Kammerkór Biskupstungna (með Hákon Karlsson innan borðs) og baritónsöngvarinn frábæri, Hrólfur Sæmundsson. Þessir tónleikar eru í leiðinni útgáfutónleikar kórsins. Skálholtskórinn hefur nefnilega nýlega sent frá sér disk með 20 fallegum sálmalögum. Mér finnst hann alveg frábær. Mæli með honum. Virkilega flottur hljómur og vönduð útgáfa að öllu leyti.

Árlegir aðventutónleikar Skálholtskórsins verða svo 8. desember. Þá syngja með kórnum Diddú og ungur tenór úr Laugarási, Egill Árni Pálsson. Hjörleifur fiðluleikari kemur með strengjasveit og væntanlega verður hörpuleikari með okkur líka. Það verður alla vega nóg að gera þangað til þetta allt er yfirstaðið.
 
  Hver er Víkarinn? (2. vísbending)
Ég gæti hafa spurt um þennan Víkara áður eða hálfsysturina. Ég man það ekki. Þessi stelpa hefur aldrei búið í Víkinni eftir að hún fullorðnaðist. Mig minnir að ég hafi séð í blöðunum fyrir einhverjum árum að hún ynni hjá Slysavarnafélaginu. Gott ef hún var ekki ritstjóri blaðsins þeirra eða framkvæmdastjóri félagsins eða eitthvað slíkt. Hún býr ekki á höfuðborgarsvæðinu. Hún er yngri en ég en eldri en Halldóra systir.

Hver er Víkarinn?
 
  Horft á RÚV
Ég hef ekki hitt Barða Jóhannsson frá því hann frussaði freyðivíni yfir mig í Bergen í hitteðfyrra. En ég sá hann í sjónvarpinu í gærkvöldi. Maðurinn er algjör snillingur. Lagið hans var algjörlega frábærlega samið, valið á flytjendunum fullkomið og framkoman flott. Þetta var svo vondur texti, lélegt lag og illa flutt að hann hefur örugglega komið í veg fyrir það að hann verði aftur beðinn um að vera hress. Þetta var algjör hörmung og gekk þannig fullkomlega upp hjá honum. Hann passaði sig samt á því að vera ekki að sóa almannafé. Ég meina, þetta var þrælskemmtilegt sjónvarpsefni og á eftir að verða í minnum haft.

Það voru aðrir snillingar á ferð í þessum sjónvarpsþætti á RÚV í gær. Það voru Sigurjón og Jón Gnarr. Margræðir leikþættir þeirra eru svo miklu meira en brandarar. Þegar þeim tekst best upp eru þetta afburðagóð listaverk. Þannig fannst mér viðtalið við öfundsjúklinginn í gær vera. Frábært.
 
laugardagur, október 20
  Teitur gleymist
Það eru miklar umræður um það út um allt og skrifaðar um það greinar í blöðin að nú sé kominn tími til að ráða nýjan mann í stöðu landsliðsþjálfara. Þá eru nefndir til sögunnar hinir ýmsu þjálfarar. Einn sá sem ég hefði haldið að væri góður í starfið hefur aldrei verið nefndur á nafn. En það er Teitur Þórðarson. Hann náði góðum árangri með KR liðið í fyrra. Hann hefur menntun og gríðarlega reynslu sem þjálfari og áður sem leikmaður. Hann virkar þannig á mann að hann sé fær í sínu fagi. Hann náði reyndar engum árangri nú í sumar, en það var nú svo lélegt að það getur nú ekki hafa verið honum einum að kenna hvernig komið var fyrir KR liðinu. Ég vona að hann verði alla vega inni í myndinni þegar þjálfarinn verður ráðinn. Það verður náttúrlega ekki farið út í að endurráða þann sem stjórnar liðinu núna. Hans tími er liðinn, alla vega í bili.
 
  Hver er Víkarinn?
Hitti konu frá Bolungavík í verslun í dag. Með henni voru maður og sonur. Hún er yngri en ég og yngst systkina. Hún á albróður sem er á næstum jafnaldra mér. Ég hitti hálfsystur hennar einu sinni þegar ég var að spila á Flúðum. Sú er eldri en ég. Hver er Víkarinn?
 
  Ljótsstaðir
Ég hef verið að lesa Skáldalíf, bók um rithöfundana Þórberg Þórðarson og Gunnar Gunnarsson. Og nú veit ég að ættaróðal fjölskyldu Örvars mágs míns austur í Vopnafirði, Ljótsstaðir, er æskuheimili Gunnars Gunnarssonar.

Og svo lítil játnig: Ég man ekki eftir að hafa lesið neitt eftir Gunnar Gunnarsson. Finnst samt eins og einhverntíma hafi ég lesið í Svartfugli, en ég man samt ekkert eftir henni. Ég veit um hvað hún er en það vita nú flestir hvort sem þeir hafa lesið hana eða ekki.
 
fimmtudagur, október 18
  Hver er Víkarinn?
Ég var næstum búinn að gleyma þessu. Ég hitti Bolvíking í gær og það var bara í vinnunni. Ég hef hitt hann árlega síðan ég flutti hingað austur. Hann þjónustar okkur sveitamennina með sérstökum hætti. Hann vissi vel að pabbi og mamma væru að koma heim frá útlöndum í gær. Foreldrar hans höfðu sagt honum það. Einn vetur var hann kennarinn minn, ekki þó umsjónarkennari.

Hver er maðurinn?
 
  Popppunktur Kalla - 1. visbending (fyrir lengra komna)
Þetta er fjörugur leikur. Nú er komið að spurningu um lag. Spurt er um þekkt íslenskt dægurlag. 1. vísbendingin er aðeins fyrir algjöra nörda.

1. vísbending

Lagið og textinn eru hvort tveggja samin af þeim sem söng það fyrst inn á plötu. Ég minnist þess reyndar ekki að lagið hafi verið endurgert eða komið út í annarri útgáfu en þeirri upprunalegu. Lagið hefst á því að slegnir eru inngangshljómar á kassagítar, sándið er bjart og hreint, en alls ekki hart, heldur mjúkt og hlýtt eins og ásláttur gítarleikarans og raunar allur annar hljóðfæraleikur og söngur í laginu allt til enda. Með kassagítarnum er reyndar leikið á kontrabassa, en einn hljóminn á kassagítarinn alveg einn. Ég á nótnaskrift af þessu lagi, en ég er ekki með hana við höndina þegar ég skrifa þetta. En ég ætla nú samt að reyna að útskýra aðeins formið á intróinu. Ég bara vona að ég fari ekki rangt með. En svona heyri ég það:

Þessi inngangur er 5 taktar, (reyndar slær gítarleikarinn vott af upptakti áður en fyrsta slag er leikið). Á þriðja og fjórða slagi annars takts er þögn, utan óms frá fyrsta slaginu og á fjórða og síðasta slagi þessa annars takts er slegið með bursta eitt létt högg á symbala. Það gerist svo aftur á fyrsta slagi fjórða takts. Síðasti taktur þessa forspils er leikinn á gítar, kontrabassa, trommur og hammond-orgel. Þar með er komin hljóðfæraskipanin sem er grunnur alls undirleiksins. Hammondinn er greinilega að imprófisera (spinna) í kringum hljóma lagsins. Bassinn leikur jazzaðan gang og trommuleikarinn slær mest bara létt á sneriltrommu með burstum. Ofan á þennan grunn er svo annar effekt sem er eitt helsta einkenni útsetningarinnar. Það er imprófessjón framkvæmd af einstökum hæfileikamanni á sínu sviði. Listamanni sem mér finnst bera höfuð og herðar yfir alla þá Íslendinga sem fást við það sama og hann í tónlist mörg undanfarin ár. Samskonar spuna hefur þessi listamaður nokkrum sinnum leikið eftir í öðrum lögum. Yfirleitt er það mjög flott en mér finnst þessi frumraun samt bera af. Mér finnst þetta gott lag og einkar fallega útsett, en það sama á reyndar við öll lögin á þeirri plötu sem þetta lag kom út á. Þessi plata er til á mörgum íslenskum heimilum. Ég man fyrst eftir að hafa séð hana á heimili Bjarna, móðurbróður míns, á Lindargötunni á Seltjarnarnesi, þegar ég var svona um það bil níu ára. Þá var það umslagið og uppstillingin á hljómsveitinni á myndunum á umslaginu sem heilluðu mig. Það var ekki fyrr en seinna að ég gaf tónlistinni gaum og þá féll ég gjörsamlega kylliflatur fyrir snilldinni. Þetta er ein af mínum uppáhalds hljómplötum.

Hvert er lagið?
 
miðvikudagur, október 17
  Íslensk tunga
„ ... Við verðum að vera gríðarlega þéttir þar svo að það verði ekki niðurlægt okkur þar líka."

Haft eftir Eyjólfi Sverrissyni á síðunni www.fotbolti.net í kvöld.

Ég trúi því ekki að hér sé orðrétt haft eftir.
 
  Vinsælt lag
Glúmur
Sprengjuhöllin

Ég mætti honum á Miklatúninu dm – em – C - C7
Hann mælti til mín orð í húminu dm – em – C - C7
Að sögn hann bjó í sautján ár Bb
á sveitabæ með full hús fjár dm
sem riða skók að sláturhúsinu. gm – Eb – C – C7

Svo keypti hann bát og dró sandhverfur úr sjó
og sæddi snót sem á Tálknafirði bjó
hún var ekki átján þá
þó það erfitt væri að sjá
en nú er hún löngu búin að fá af honum nóg.

Hann þekkti víst Geirfinn og Ciesielski. G – G7 – C – C7
Var með þeim báðum í Breiðuvík. am – G – F - D
Það var lærdómsríkt. F - G

Síðar hóf hann störf við frystihús
hlutverk hans var að plokka orm og lús.
Svo var hann sendur til Kamisjaka
til að selja hrogn og klaka,
berja menn og bera á jarðir grús.

Hann sagðist eiga son sem frægur er
sem syngur rapp og í blaðaviðtöl fer.
Hann kallar sig víst MC – Chrone
og kann að senda mönnum tón.
En lyktar víst sem rót af engifer.

Í Saltvík lá hann með séniver.
Í Freeport lá hann í október
með gerjuð ber.

úhú hú......... (A-kafla millistef)

Eftir að hann heim kom hann fann Guð.
Hlýddi honum eins og barn með snuð
Ó, en Guð hans anda allan skók
svo hann orti um ljóðabók.
En hún ku vera meira en stórmögnuð.

Glúmur er róni frá Neskaupstað.
Hann drakk í sig lífið óblandað.
Og hvað með það?
...... úhú hú!

Lag: Snorri Helgason
Texti: Snorri og Bergur Ebbi
 
  Nýr Popppunktur Kalla - 1. vísbending
Spurt er um íslenskan hljóðfæraleikara.

Af áhugamönnum um íslenskt rokk og popp er hann almennt talinn meðal allra færustu hljóðfæraleikara landsins.
Á heimasíðu hans kemur fram að hann hafi leikið sitt fyrsta gigg með hljómsveit tíu ára gamall (sem ég get ekki nefnt hér því þá væri svo auðvelt að gúggla því og fá rétta svarið þannig) á sjöunda áratugnum. 20 árum síðar gerði hann einu sólóplötu sína.
Hann á systkin í sama bransa. Það er líka meðal þeirra bestu á sitt hljóðfæri.
Tengsl mín við þennan hljóðfæraleikara eru aðeins þau að hafa leikið með honum í hljómsveit eitt lag á stórum tónleikum. Nú svo hefur hann leikið á hljóðfæri sitt með uppáhaldstónlistarmönnum mínum, bæði á tónleikum og á plötum, þannig að ég hef hrifist af hljóðfæraleik hans frá barnæsku.
 
mánudagur, október 15
  Johnny
Næsta vísbending hefði verið um Þingeyjarsýslu, að hann væri frændi Birgittu Haukdal, að hann gerði út skemmtarahljómsveit og eitthvað um lagið hans fræga um Lukku-Láka.
Orri þurfti þetta ekki, enda er Jón sennilega fyrrum sveitungi hans á Húsavík.
 
  Popppunktur Kalla - 2. visbending
Tónlistarmaðurinn sem spurt er um notar listamannnsnafn eða svona einhverskonar alterego þegar hann kemur fram. Þegar því nafni er gúgglað koma aðallega upp einhverjir útlendir nafnar hans. Sumir þeirra eru reyndar tónlistarmenn. Tónlistarmaðurinn er landsbyggðarmaður eins og ég, en hann er fluttur á höfðuborgarsvæðið. Ég held að hann hafi bæði gefið út sólóplötu og plötu með öðrum. Alla vega lék Sniglabandið í útvarpsþætti einu sinni í sumar lag af plötu sem hann hafði gert ásamt öðrum tónlistarmanni í þeim lið þáttarins sem þeir kölluðu (ef ég man rétt): Hvað voru þeir að hugsa og hvar eru þeir nú?

Hver er maðurinn?
 
  Popppunkturinn - ítarefni og leiðréttingar
Í fyrstu vísbendingunni var ég ekki með allt alveg rétt. Það leiðréttist hér með, eða ég vona að nú sé þetta rétt. Textinn sem ég vísaði til í vísbendingunni, þessi sem hvert mannsbarn kann, er líklega ekki eftir þennan tónlistarmann, heldur er það lagið við þennan texta sem hann hefur samið. En það kann líka hvert mannsbarn. Í upptalningunni um það á hvaða hljóðfæri hann leikur nefndi ég gítar. Ég hef enga heimild fyrir því að hann leiki á gítar aðra en þá að mér finnst eins og ég muni það rétt að hann hafi sagt mér það í spjallinu sem ég átti við hann um daginn að hann leiki á gítar. Ég er þó ekki alveg viss um að það sé rétt munað þannig að þið skuluð taka því með fyrirvara að hér sé um gítarleikara að ræða. Í dag er aðalhljóðfæri hans aftur á móti hljómborð og svo syngur hann auðvitað.

Hver er maðurinn?
 
sunnudagur, október 14
  Popppunktur Kalla - Ny getraun
Ég bara get ekki skorast undan. Popppunktur. Vísbendingaspurning.

Spurt er um íslenskan tónlistarmann.

1. vísbending
Þessi listamaður varð, eftir því sem ég best veit, ekki landsþekktur fyrr en hann hafði komið fram í merkilegri kvikmynd. En áður hafði hann lengi fengist við tónlistarflutning. Bæði sem trommuleikari og gítarleikari, söngvari, laga- og textahöfundur. Hann hefur samið texta sem hvert mannsbarn á Íslandi þekkir. Hann starfar enn við tónlist og hann er þekktur fyrir vönduð vinnubrögð í þeim geira tónlistar sem hann starfar í. Sjálfur minnist ég þess ekki að hafa séð hann performera, en ég hef hitt hann í eigin persónu og spjallað við hann um tónlist. Það er stutt síðan.

Verið nú ekki feimin og skjótið á rétta svarið.
 
laugardagur, október 13
  Stori hvellur i æpotti
Ég hef verið að fara í göngutúra upp á síðkastið. Eða hvað skal segja; Gréta er búin að reka mig út að hreyfa mig tvisvar í þessari viku og svo fór ég einu sinni eða tvisar að sjálfsdáðun fyrir um mánuði síðan. Í þessi skipti hef ég haft æpottinn minn nýja meðferðis og hlustað. Eitt skiptið var það gamalt Queen stöff, Í langa göngutúrnum nú í vikunni var það The Klezmatics og í morgun var það Dr. Gunni og platan frá þeirri hljómsveit. Þetta er svona sirka 5 ára gömul plata. Mér finnst hún alltaf jafnskemmtileg. Mér skilst að ég sé einn örfárra sem eiga þessa plötu. Ég mæli með henni. Þetta eru allt fín lög og útsetningarnar bráðfjörugar og skemmtilegar. Helmingur laganna er hreinlega tær snilld. 4 stjörnu rokkplata! Mig minnir að hún heiti Stóri hvellur.
 
  Tómlegt
Ég hef verið hálflatur við að blogga nú um nokkurt skeið. En ég er þó duglegri en þeir bloggarar sem ég vísa á hér á síðunni. Kristján Jóns bloggar vikulega, Baldur Smári er eiginlega alveg steinhættur að blogga, Öddi setur inn færslu ársfjórðungslega, Heiðrún hefur ekkert skrifað frá í júní og Kristján Freyr er mjög lítið í blogginu. Chrisel bloggar ekki oft og Gummir Hrafn er algjörlega búinn á því. Orri skrifar um það bil vikulega pistla. Þetta er allt háfltómlegt.
 
  Popptónleikar í Austurbæ
Við Hákon brugðum okkur til Reykjavíkur með feðgum sem við þekkjum vel, Hilmari og Gabríeli Daða, á tónleika með Sprengjuhöllinni. Þetta var ágætis skemmtun. Músíkin stóð alla vega fyrir sínu. Laglegur og fjörugur flutningur hjá hljómsveitinni.

Það var gaman fyrir Hákon sem er á tíunda ári að fara á popptónleika með vinsælli hljómsveit í Austurbæ. Það voru bæði strengjasveit og lúðrasveit með Sprengjuhöllinni á sviðinu og það gerði sig vel. Þetta var gaman.
 
fimmtudagur, október 11
  Trompetleikur

Í Andrarímum á Rás 1 síðastliðið sunnudagskvöld var Guðmundur Andri að fjalla um Karlakórinn Vísi á Siglufirði, hljómsveitina Gauta sem lék undir hjá þeim á plötunni sem þeir sendu frá sér, og þennan austurríska snilling sem stjórnaði þeim á 7. áratugnum. Hét hann ekki Geirharður Valtýsson? Það er alltaf svo gaman þegar svona séni, eins og hann hefur bersýnilega verið, láta til sín taka í smáu samfélagi.

Hljómplatan sem kórinn gerði á sínum tíma var endurútgefinn á geisladiski 2004. Sá diskur er til hjá vini mínum og hljómsveitarfélaga í Bleki og byttum. Við félagarnir hlustum ævinlega á þennan disk þegar við komum saman til að gera okkur glaðan dag og njótum stórkostlegs trompetsleiks og skemmtilegra útsetninga sem í blöndu við rammíslenskar karlaraddir frá Siglufirði gera sig með eindæmum vel. Ég þarf að eignast þennan disk. Þvílíkur trompetleikari! Lúðrablásarnir í hópi okkar hljómsveitarfélaganna hrista bara hausinn af öfund yfir snilldinni að norðan.
 
þriðjudagur, október 9
  Hver er Víkarinn? (2. vísbending)
Hús þessa Bolvíkings sást m.a. úr herbergisglugganum mínum. Hann og pabbi eru náfrændur.
 
mánudagur, október 8
  Hver er Víkarinn?
Ég hitti Bolvíking í gær og lofaði honum að nú myndi hann lenda í þessu.
Hann er fluttur burt úr Víkinni. Hann bjó í húsi sem ég gat séð úr húsinu okkar á Holtastíg 12. Hann er frændi minn og hann var einn þeirra Víkara sem fór til og frá vinnu á reiðhjóli.
Hver er Víkarinn?
 
sunnudagur, október 7
  Söngur, söngur, söngur

Ég held barasta að ég hafi slegið persónulegt met í dag. Sko, í brúðkaupsveislu sem ég spilaði í með tríói í Svíþjóð í fyrrasumar söng ég og spilaði á gítar í 7 klukkatíma (reyndar með 2 stuttum pásum). Þetta var toppað í dag. Klukkan 11 byrjaði kóræfing. Hún stóð til klukkan hálf fjögur. Klukkan16:50 var ég byrjaður að spila og syngja dinnermúsík og svo svolítið fjörugra stöff þegar líða tók á veislu á hóteli í sveitinni. Þetta stóð til klukkan 21:00. Klukkan 22:00 byrjaði ball með tríói á öðrum stað í annarri sveit þar sem ég söng og lék á gítar. Það stóð til hálf tvö. Ég var sem sagt syngjandi meira og minna allt frá klukkan ellefu um morgun til klukkan hálf tvö um nótt.
 
föstudagur, október 5
  Þjófnaður?
Ég hef nú lítið vit á því hvernig hlutirnir eiga að ganga eðlilega fyrir sig í viðskiptaheiminum, en pólítíkusarnir og þeir sem sitja sem fulltrúar flokkanna í stjórn OR og þessara félaga sem voru að sameinast í Reykjavík hljóta að vera á gráu svæði með aðferðunum sem þeir beita við hlutafjárútsöluna. Svona sæmilega vel gefið fólk sem heyrir af þessu fréttirnar sér varla annað en spillingu í þessum gjörningi. Ögmundur segir mennina stela almannfé. Að þetta sé hreinn og klár þjófnaður. Ég játa það að ég skil þetta dæmi nú ekki vel, en ég skil þó að hér er ekki allt með felldu. Loksins nóg að gera hjá rannsóknarblaðamönnunum. Hvað segja borgarar í Reykjavík um þetta? Má þetta?
 
fimmtudagur, október 4
  Blogg á síðu Baggalúts
Það léttir lundina að lesa blogg þessara heiðursmanna eins og Jónasar Hallgrímssonar, Hallgríms sáluga Péturssonar, Egils Skalla-Gríms og þeirra félaga allra.
 
  Popppunktur Kalla - 3. vísbending
Ég þakka HMS fyrir tilgátuna. Gott hjá honum.

Listamaðurinn sem spurt er um er leikari að atvinnu. Hann hefur leikið í fjölmörgum íslenskum kvikmyndum. Meðal persóna sem hann hefur túlkað á hvíta tjaldinu eru Ásgeir, Egill, Samúel, Albert, Haraldur og Aggi. Í hans túlkun hefur karakter í kvikmynd, sungið og leikið á hljóðfæri, a.m.k. í einni kvikmynd.
 
þriðjudagur, október 2
  Heim
Ég var að lesa á Skagabloggi frá Danmörku að vinir mínir Christel Björg og Gunnar Sturla væru að flytja heim á Skagann eftir nokkurra ára vist í Danmörku. Christel er orðinn kennari, Gunnar hefur lært leikhúsfræði einhverskonar. Það verður spennandi að fylgjast með því hvað þau fara að starfa á Íslandi.

Velkomin heim.
 
  Popppunktur Kalla - 2. vísbending
Söngvarinn og hljóðfæraleikarinn sem um er spurt hefur sagt í útvarpsviðtali að tónlist sé tvímælalaust það listform sem hann hafi mest yndi af. Engu að síður hefur hann lengstum haft atvinnu af annarri listgrein. Þar hefur hann notið umtalsverðrar velgengni um langt árabil.

Sumarið 1991 spilaði ég stöku sinnum á Vagninum á Flateyri, þeim rómaða stað. Þar var þessi listamaður eitt sinn ásamt hópi samverkamanna, en þetta sumar voru þeir að vinna að listaverki víðsvegar um Vestfirði. Ég man að hann dansaði ekki upp á borðum (eins og margir gerðum jafnan á Vagninum) heldur stóð til hliðar við mesta fjörið, með rauðan vökva í glasi sem hann saup stöku sinnum úr og fylgdist með.

Hver er maðurinn?
 
mánudagur, október 1
  Popppunktur Kalla
Vísbendingaspurning.
Sendið tilgátur ykkur inn í athugasemdakerfið.

Spurt er um íslenskan söngvara og hljóðfæraleikara.

1. vísbending
Hljóðfæraleikarinn hefur leikið á aðalhljóðfæri sitt með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur líka leikið á það hljóðfæri og fleiri skyld hljóðfæri inn á nokkrar íslenskar hljómplötur. Hann er frábær söngvari og hin síðari ár hefur meira borið á honum syngjandi en leikandi á hljóðfæri.
 
 
Ekki kemur svar við lið 3 í spurningunni frá í síðustu viku. Gef ykkur smá séns. Koma svo! Og spurningu Hemma hressa er ekki fullsvarað. Getið þið hjálpað mér við að leysa þrautina hans? Ég gúgglaði og fann þannig framhaldið á kvæðinu en ekki flytjandanna eða titil þess.

Annars er allt sæmilegt að frétta. Hákon og Perla María fóru bæði í tíma hjá Guðmundi fiðlara í dag. Hákon er áhugasamari en í fyrra. Kannski er það vegna þess að mamma hans borgar honum meðan hann stundar tónlistarnámið vel. Hann er atvinnumaður í tónlistarnámi!

Mamma og pabbi heimsóttu okkur í gær. Þau voru á leið til útlanda í sumarfríið. Málarar taka ekki sumarfrí á sumrin. Það var virkilega gott að hitta þau eins og alltaf og krakkarnir eru alltaf jafn hændir að þeim. Oft vildi ég að ég væri nær þeim. Andrea systurdóttir mín ætlar að vera hjá okkur um næstu helgi. Foreldrar hennar eru í vinnuferð í útlöndum. Hún er hjá Atla bróður núna en verður svo hjá okkur um helgina. Það er gott að geta komið svona að liði. Okkur munar nú lítið um einn gríslinginn enn yfir eina helgi.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]