Tilraunavefurinn
þriðjudagur, mars 31
  Hver er Víkarinn (önnur vísbending?
Já, hann er frændi systkinanna á Miðdal. Hann er líka frændi Sigrúnar Pálma og Möggu Gunnars.
Þegar ég var í stjórn knattspyrnudeildar UMFB fyrir nokkrum árum var hann í stjórn annars félags sem við sendum lið til að leika gegn á Íslandsmótinu í þriðja flokki. Það er blár litur í merki og aðalbúningi þess félags.
Ég man aldrei eftir að hafa komið á heimili foreldra hans í Víkinni, en Atli bróðir minn kom þar alveg örugglega nokkrum sinnum til að leika sér eða drekka mjólk og borða kex.
 
mánudagur, mars 30
  Skúffuskáldið skríður fram
Jæja.

Nú er tímabært að gera opinbert að ég mun koma fram á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður sem haldin verður á Ísafirði um páskana. Ég mun koma fram með tónlist sem ég hef samið sjálfur. Flest laganna eru ný, en ég mun líka flytja lög sem ég gerði ´94 og ´95. Þau hafa samt ekki heyrst áður.

Það er búið að skipa hljómsveit sem aðstoðar mig við flutning laganna. Það var æft í gærkvöldi og gekk alveg hreint ljómandi vel. Kristján Freyr og Geiri úr Reykjavík! verða með mér, ásamt Venna Jobba og Davíð Þór. Svo er ég að vonast eftir að fá annan söngvara í dúett í einu laganna. Sjáum til hvernig það gengur.

Atriðið mitt heitir Karl og mennirnir.
Það er linkur í fyrirsögninni inn á síðu þar sem fjallað er í stuttu máli um atriðin á hátíðinni í ár.
 
  Hver er Víkarinn
Ég er búinn að vera í Reykjavík yfir helgina. Á laugardagskvöldið var ég að spila á árshátíð starfsfólks fyrirtækis sem er með starfsemi víða um landið. Þar voru nokkrir Ísfirðingar og a.m.k. tveir Bolvíkingar. Annar þeirra vatt sér að mér og kynnti sig. Við þekkjumst sem sagt ekki. En ég áttaði mig nú strax á því hver hann væri. Ég hef oft séð hann fyrir vestan og ættarsvipurinn leynir sér ekki. Hann á eina systur og þrjá bræður (ég vona að þetta sé rétt talið hjá mér). Ég er ekkert skyldur honum. Við eigum samt sömu frændsystkin í systkinum sem fædd eru ´59, ´62 og ´65.

Hver er Víkarinn?
 
fimmtudagur, mars 26
  Nýjar myndir á myndasíðunni

Í Kjarnaskógi
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com

 
  Úr söngbókinni
Í Óshólum
(2008) Lag & texti: Karl Hallgrímsson

undir risastórum steini
stóð ég einn um bjartan dag
horfði ráðþrota á rústirnar
rifjaði upp lag
um gengdarlausar fiskveiðar og formenn
fagnaðarbrag

sést frá gríðarstóru grjóti
hvar gamall bátur færist nær
læðist inn á lygnum sjó
og lendingu fær
hljótt í hafið röðullinn þá rennur
rjóður og skær

um leið og sólin er sest
syngja fjöllin víkinni óð
og fjaran ómar undir
angistarljóð

uppi á risastórum steini
stend ég einn um bjarta nótt
horfi þögull yfir þorpið
þegar allt er orðið hljótt
það gætti mín og gaf í veganesti
af gæfunni gnótt
 
þriðjudagur, mars 24
  Afmæli

Hringur Karlsson er 5 ára í dag.
 
mánudagur, mars 23
  Aftur kennari
Erla Rán óskar mér til hamingju með nýtt starf í athugasemdakerfinu við færsluna hér á undan. Hún er ekkert að bulla. Ég ákvað að fara aftur að kenna. Það var ekki auðveld ákvörðun. Veturinn í vetur hefur verið kærkomið frí frá kennslu. Ég þurfti á því að halda. Seinni árin í Tungunum var ég ekki eins áhugasamur og góður kennari og ég hafði verið áður. Það er leiðinlegt að finna ekki neistann. Mér hefur liðið ágætlega í því starfi sem ég hef gegnt sl. mánuði. Mér hefur verið vel tekið og fólkið þar hefur reynst mér vel. En sem sagt, hér var tækifæri til að endurheimta ánægjuna af því að kenna börnum og unglingum. Naustaskóli mun hefja starfsemi nú í haust. Þetta er nýr skóli sem mun byggja á hugmyndafræði sem kallaðist einu sinni opinn skóli, sem er umhverfi sem ég þekki ágætlega frá því ég var kennari í Grundaskóla á Akranesi.

Það hlýtur að vera leið til að endurheimta áhugann á kennarastarfinu að starfa í nýjum skóla með áhugasömu fólki og skólastjóra sem ég held að geti gert góða hluti. Ég verð, í félagi við annan kennara, umsjónarkennari elstu nemendanna, þeim í 6.- og 7. bekk. Auk þess mun ég sjá um að kenna öllum nemendum tónmennt og vonandi eitthvað fleira tónlistartengt. Ég geri mér vonir um að geta haft áhrif á það hvernig tónlistarstarfinu í skólanum verður háttað og hvaða þátt tónlistin og þá kannski sérstaklega söngurinn muni hafa í skólaþróuninni.

Ég þekki engan af tilvonandi vinnufélögum. Reyndar er ein kona í þessu starfsliði sem syngur með mér í kór kirkjunnar og þarna munu líka starfa karlar sem ég veit það eitt um að þeir hafa verið framarlega á íþróttasviðinu, handbolta- og fótboltakarlar. Ég þekki nöfnin. Skólastjórinn var að klára Kennó þegar ég var að byrja. Við þekkjumst nú svo sem ekkert, en ég man vel eftir honum úr skólanum þennan vetur. Hann var fyrsti formaður félags sem stofnað var í skólanum þennan vetur og hafði það hlutverk að efla karllæg gildi og gera þátt karlmennsku hátt undir höfði í námi og kennslu grunnskólabarna. Þetta var félag verðandi skólastjóra, Skólastjórafélagið Skarphéðinn. Við eigum sameiginlegan vin í Jóni Páli fyrrverandi körfuboltaþjálfara UMFB. Þetta verður örugglega bara gaman. Mikið starf framundan og ég ætla bara að reyna að sinna því þannig að það verði gefandi og skemmtilegt.

Link á síðu Naustaskóla má finna hérna hægra megin á síðunni.
 
sunnudagur, mars 22
  Hver er Víkarinn?
Jæja, loksins rakst ég á Bolvíking. Hann var mikið íþróttafrík. Hann var í fótboltaliðinu. Spilaði senter og skoraði þónokkuð. En fótbolti var aldrei aðalgreinin hans. Hann var betri í öðru sporti. Og síðar náði hann ágætisárangri á landsvísu í enn einni íþróttagreininni. En þá var hann farinn úr Víkinni.

Hver er Víkarinn?
 
laugardagur, mars 21
  Spariskórnir glansa
Spariskórnir glansa
(2009) lag & texti: Karl Hallgrímsson


Berst með Toyotu TwinCam GT-i,
tekst að laum´onum inn í herbergi.
Mér dugar fleygur af Finlandia
finnst hann betri en Stolichnaya.

Gamla settið er með vesen, því er verr,
það veit af pokanum úr Á.T.V.R.
Ég verð að finna undir rifjunum ráð.
Reyna hvort má væla út náð.

Í stofunni er hækkað í steríógræjum,
stelpa dregur mig út á gólf.
Það er fáheyrður galsi á gúanópæjum,
gestkvæmt mjög á Holtastíg 12.
Halir og sprundir í glimrandi gír,
Geislavirkum smeygt undir nál.
Spariskórnir glansa,
eftirvænting í hverri sál.

Verð ég krafinn um nafnskírteinuð nú?
Neitað aðgangi - staðreyndin er sú
að skilríkis myndi ég aldrei vera án
ef ég væri orðinn sextán.

Það er dúndrandi stemning hjá Dúa í kvöld,
drífur einhver mig út á gólf.
Hér er fáheyrður glaumur og gleði við völd,
gengin langt er klukkan í tólf.
Halir og sprundir í glimrandi gír,
gítarhljómur sleginn með stæl.
Spariskórnir glansa.
Allt frá tánni aftur á hæl.

Tek eftir þér og þú beinir þessum blágrænu augum
beint í augun á mér og við það fer ég á taugum.

Stend líkt og álfur í einskismannslandi,
álkulegur stari ég á
þig sem ert drottning í óhemju djörfum
dansi er mér er ætlað að sjá.
Ég lauma að þér miða eins og Módelið gerði
og merki með x-i til þín.
Spariskórnir glansa,
fingurkoss þú sendir til mín.
 
föstudagur, mars 20
  Kompónerað og grætt á tá og fingri
Undanfarið hef ég sama og ekkert verið að spila þessi hefðbundnu trúbadorgogg sem ég var farinn að gera talsvert af fyrir sunnan. Ég hef verið eitthvað feiminn við að kynna mig sem þannig tónlistarmann á nýju markaðssvæði. Þarf náttúruelga að fara að gera eitthvað í því. En hvort sem það er vegna þessa takmarkaða spileríis á mér eða einhvers annars, þá hef ég verið að semja ný lög og texta og verið að móta þau í huganum daginn út og inn. Kvöldunum eyði ég svo í að taka þessar hugmyndir mínar upp til að varðveita þær. Ég hef líka verið að vinna úr 14 ára gömlu efni sem ég átti í möppu frá því ég var í Kennaraháskólanum. Þá stundaði ég þetta aðeins. Sumt af því man ég enn og hef nú loksins tekið það upp. Svo var líka í þessu texti við lag sem ég mundi ekki. Það hefur nú orðið til nýtt lag við hann.

Ég er búinn að gera lagalista í tölvunni hjá mér þar sem öll lögin eru eftir mig. Á hann er ég búinn að safna flestum laganna - eða öllum sem ég hef tekið upp. Svona lítur hann út:

Leit 4:25
amollinn 3:12
Tilfinning 3:37
Uppgjöf 4:10
Svik 6:10
hjartatorg 3:30
Saman á sjó 2:36
emollvalsgrismanlegur 2:43
Bbmaj7 mp3 3:39
Spariskor nr.2 5:27

Þetta eru vinnuheiti sem þurfa að vera á þessu til að hægt sé að vista það inni í tölvunni og finna þegar á þarf að halda. Það heitir ekkert lag amollinn eða emollvalsgrismanlegur!

Undanfarna viku hefur allur tími farið í síðasta lagið á listanum. Textinn við það (eins og hann er núna) fjallar um tilveru mínu á unglingsárunum. Ég blanda saman minningum frá sumrunum 88, 89 og 90 með smá ýkjum og tilfærslum hér og þar. Þetta fjallar um djamm þáttinn í þeirri tilveru, sem var reyndar ekki mjög fyrirferðarmikill. En um þetta eru svo margir dægurlegatextar. Ég varð að prufa líka að gera einn þannig.

Hann var lengi að fæðast þessi texti. Texti um svona efni þarf að hljóma eins og ekkert hafi verið haft fyrir því að semja hann, en svo er maður fastur í þeirri hugmynd að allt bundið mál eigi að binda eftir kúnstarinnar reglum - jafnvel þótt það sé alls ekki venja í dægurlagatextum - frekar undantekning. Þannig að ég hef verið óratíma að vinna í þessum texta.

Ég lýk þessari færslu um popptónlistina mína með því að greina frá þvi að í síðustu viku fékk ég greiddar út 3.036 krónur í Stefgjöld. Segið svo að þetta borgi sig ekki!
 
miðvikudagur, mars 18
  Danni og Unnar
Þegar ég var að spila fyrstu fótboltaleikina á ferli mínum sem knattspyrnumaður með UMFB mynduðu mennirnir sem skrifuðu þessa grein hafsentaparið í liði andstæðinganna frá Ísafirði. Ég kynntist þeim svolítið strax og enn betur síðar. Þetta eru toppmenn. Ég veit ekki hvað gerðist hjá þeim. Hvers vegna þeir eru farnir að hvetja fólk til að taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Kannski hafa þeir í alvörunni trú á að Sjálfstæðisflokknum sé best treystandi til að stjórna þjóðinni.

Aðra mótherja í liði ÍBÍ á þessum árum þekkti maður svo sem ekkert. Nema ég þekkti svolítið Pétur Grétars, af því afi hans og amma voru nágrannar af míns og ömmu niðri á Mölum. Og svo var markvörðurinn ÍBÍ kallaður Siggi Sam. Það var auðvelt að muna það nafn. Og einn heitir Jói Bæring. Hann var sígjammandi og algjörlega ófeiminn, svo maður þekkti hann fljótt. Jói var líka keppnismaður og mótherji sem gaman var að kljást við. Þessir strákar urðu líka ágætir kunningjar mínir þegar við urðum eldri og hittumst oftar en bara þegar við öttum kappi á fótboltavöllum.

Unnar Hermanns kvæntist svo Siggu Harðar, vinkonu minni og skólasystur úr MÍ og KHÍ. Maður rekst nú annað slagið á hann, en Daníel göngugarp hef ég ekkert hitt í mörg ár.
 
mánudagur, mars 9
  Hvar er Víkarinn?
Ég hef ekki rekist á Bolvíking í lengri tíma. Hvar eru þeir allir?

Reyndar hitti ég bæði Bigga Hreins og Axel Erni í sundi um daginn. En ég var búinn að spyrja um þá hérna.

Fátt fréttnæmt hérna um þessar mundir.
 
sunnudagur, mars 1
  Bjórbanninu aflétt
Bjórinn kom fyrir 20 árum. Ég man eftir því. Ég á eina skemmtilega minningu tengda því. 27. mars eða 28. mars 1989 var ég í aðstæðum sem ég hef æði oft verið í síðan. Ég var á skemmtistað á æfingu með hljómsveit. Það var verið að undirbúa söngvarakeppni sem ég sagði frá hér nýlega. BG-flokkurinn rak Sjallann á Ísafirði á þessum árum. Þessi söngvarakeppni var sniðug hugmynd hjá þeim til að gera skemmtilega uppákomu sem myndi fylla húsið. Og svo fylgdi þessari uppákomu umfjöllun í Bæjarins besta og við sem röðuðumst í efstu sætin komum fram eða áttum að koma fram á böllum með hljómsveitinni seinna um veturinn. Óshlíðin var reyndar lokuð þegar ég átti að koma fram með BG. Það voru mér talsverð vonbrigði. Ég man það. Ég var búinn að æfa Bruce Springsteen lög sem ég ætlaði að syngja auk laganna sem ég hafði sungið í keppninni. Þetta uppátæki þeirra blés alla vega einhverju lífi í skemmtanalífið á Ísafirði þennan vetur.

En, sem sagt, á hljómsveitaræfingu með Baldri, Jökli, Kalla, Samma og Skarpa einu eða tveimur kvöldum áður en mátti fara að selja bjór á Íslandi, bauð Kalli Geirmunds hljómsveitarfélögum sínum upp á Lövenbrau í dósum úr Sjallabarnum. Þeim leiddist ekki þjófstartið. Ætli ég hafi ekki fengið kók úr vél með klaka.
 
  Helgin - dagbok
Ég fór á tónleika í gærkvöldi. Þetta voru merkilegir tónleikar. Sjálfur Gunnar Þórðarson söng lög sín og lék sjálfur undir á kassagítar. Þetta var víst í fyrsta sinn á 45 ára tónlistarferli Gunnars sem hann kemur fram einn og óstuddur. Nú, þetta var auðvitað algjörlega frábært hjá honum. Allir vita að eftir hann liggur heill haugur af tónlist og þar innan um eru algjörar perlur. Þetta er fjölbreytt hjá honum, oft tiltölulega flóknar hljómasamsetningar en laglínurnar engu að síður fallegar og auðlærðar. Oft tók salurinn undir með honum. Hann náði upp fínni stemningu. Það sem mér þótti áhugaverðast við tónleikana var að fylgjast með Gunnari leika á gítarinn. Það er alveg hreint fáránlegt hverju hann getur náð út úr hljóðfærinu. Hann er alveg fantagóður hljóðfæraleikari.

Hingað kom frænka mín til að gæta Perlu Maríu og Hrings meðan ég skrapp á tónleikana. Hún heitir Lára og er dóttir Öldu systurdóttur pabba. Fóstrið gekk vel. Ég vona að ég geti aftur leitað til Láru og beðið hana að passa krakkana.

Gréta og Hákon fóru suður til Rvk. Hákon hitti Gabríel Daða, vin sinn úr sveitinni. Þann sem flutti til Þýskalands fyrir rúmu ári síðan. Sá sem Hákon var hjá í sumar í Þýskalandi. Mamma hans var að vinna í Reykjavík í nokkra daga og hann fékk að fylgja henni og hitta fjölskylu og vini sem hann á hérna á Íslandi. Gréta fór aftur á móti til að lyfta sér upp og vera með fjölskyldunni á ánægjulegum tímamótum.
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]