Tilraunavefurinn
laugardagur, júní 30
  Veisla

Hér stendur yfir afmælisveisla. Það eru komnir nokkrir krakkar og konur úr sveitinni og frænkur úr Hafnarfirði og gæða sér á kökum og kræsingum sem Gréta er búin að bera á borð. Perla María verður 5 ára í næstu viku, 3. júlí.
 
fimmtudagur, júní 28
  Hver er Skagamaðurinn?
Nýr liður á dagskrá handa Heiðrúnunum sem alltaf lesa bloggið mitt og hinum Skagamönnunum sem kíkja hingað inn. Það var hópur af Skagastelpum á ballinu með Bleki og byttum í Úthlíð um síðustu helgi. Tvær þeirra kannast ég aðeins við. Önnur þeirra var í Grundó fyrsta veturinn sem ég var að kenna þar, en sú sem hér verður fyrir því að um nafn hennar er spurt var búin með Grundó þá. En lengi vel sáumst við næstum daglega, ekki vegna þess að ég hafi verslað svo oft í sjoppunni þar sem hún vann, heldur af því að hún vandi um langan tíma komur sínar í húsið sem stendur beint á móti gamla húsinu mínu á Akranesi. Hver er þessi stúlka?
 
miðvikudagur, júní 27
  Smiður og raddlaus söngvari
Í gær hóf ég störf á smíðaverkstæði. Þar ætla ég að starfa næstu 4 - 5 vikurnar. Eftir tvo daga hef ég ekkert smíðað. Ég hef verið við gamalkunna iðju. Ég er búinn að mála og mála og mála. Það er fínt - ég kann það mjög vel.

Ég verð að spila á morgun og á föstudaginn á Kaffi Krús á Selfossi og á laugardaginn í veislu í sveitinni. Ég á ennþá eftir að endurheimta röddina sem ég tapaði enn einu sinni um síðustu helgi. Nú verð ég að fara að gera eitthvað í málunum. Heitt vatn, engiferrót, hungang og kamfórudropar gera sitt en það nægir ekki. Ég er í slæmum málum ef þetta raddleysi verður viðvarandi.
 
þriðjudagur, júní 26
  Vísnagáta
Drósir ganga, dreyrinn niðar
drjúpa skúrir.

Getraun dagsins er í þremur liðum:

1. Hvað heitir þessi gerð af vísu?
2. Hvernig er seinni hluti vísunnar?
3. Hver orti?
 
  Sléttubönd
Fyrst þakka ég skagakonunni sem sendi mér þessi sléttubönd í athugasemdadálkinn.

skagakona said...

Grundar dóma, hvergi hann
hallar réttu máli.
Stundar sóma, aldrei ann
illu pretta táli


Þessi vísa er fullkomin.

Amma Gunna kann önnur sléttubönd sem mamma sendi mér í tölvupósti í gær. Þau eru eftir Svein Halldórsson sem, eftir því sem ég best veit, var skólastjóri heima í Víkinni í gamla daga. Vísan hans er svona:

Mögur kerling, lotin, ljót
lífsins sleppti taki.
Fögur, hnellin, snotur snót,
snéri niður baki.
 
laugardagur, júní 23
  Vísa og getraun
Sólin gyllir Gölt og Spilli
Geislar fylla fjörðinn minn
Nú er stilla stranda á milli
Stéli dillar æðurinn.


Getraun:
Hvaðan er skáldið og hver er bragarhátturinn?
 
miðvikudagur, júní 20
  Trommari og rödd
Ég er svo djarfur að bóka þegar ég er beðinn að spila að ég bókaði fyrir mörgum mánuðum tríóið mitt til að spila í brúðkaupsveislu 30. júní. En málið er að ég á ekkert tríó. En það var stofnað í dag. Ég réð til mín bassaleikara fyrir löngu, en hef átt erfitt með að finna góðan trommara sem er laus þetta kvöld. Eftir að vera búinn að reyna við flesta sem eitthvað geta spilað hér í sýslunni leitaði ég til stuðbolta og gæðablóðs frá Hnífsdal sem býr í höfuðborginni. Ég treysti fáum trommuleikurum betur í þetta verkefni og svo verður virkilega gaman að hitta manninn því hann er bæði vænn og skemmtilegur. Ég vona að ég geti platað hann eða bassaleikarann til að syngja eitthvað með mér því ég verð að spila og syngja tvö kvöld á undan þessu.

Ég hef átt í basli með röddina upp á síðkastið. Ég missi hana stundum svo til alveg eftir að hafa sungið mikið og er oft svo lengi að fá hana aftur. Þannig reikna ég ekki með að ég geti sungið með Skálhotskórnum í útvarpsmessunni næsta sunnudag. En kannski það hafist.
 
þriðjudagur, júní 19
 
Veðrið leikur við okkur hér í Tungunum. Það er búin að vera einmunablíða dögum saman.

17. júní hátíðarhöldin í sveitinni fóru fram með glæsibrag. Við í fjölskyldunni tókum þátt í þeim eins og flestir aðrir. Gréta málaði andlit krakkanna, ég spilaði og söng og seldi sjálfum mér kaffi og með því eins og allir hinir í kirkjukórnum. Hilmar kom með óvænt atriði á kaffisamsætið. Vinur hans, sem er frábær bassasöngvari, hafði litið við í kaffi til hans daginn áður. Hann slapp ekki heim til sín aftur fyrr en daginn eftir, eftir að hann hafði sungið nokkur lög við hátíðarhöldin í Aratungu. Þar söng líka fræg sópransöngkona sem hafði sömuleiðis ratað á sviðið eftir að hafa hringt í Hilmar vin sinn til að láta vita af því að hún væri í sveitinni. Heimamaðurinn Egill Árni er tenórsöngvari og söng líka. Hilmar lék svo undir hjá þeim öllum og allt var þetta eins og það væri margæft, sem það hefur örugglega ekki verið. Þetta var virkilega óvænt og skemmtilegt.

Um kvöldið var mikið stuð á Klettinum. Ég spilaði á mandólín, Hilmar og Hermann á gítara og svo kom Ingólfur kryddjurtabóndi á Engi og spilaði á bassa. Við lékum langt fram eftir kvöldi lögin sem fólkið vildi heyra. Nokkrir komu og sungu með okkur sólónúmer - Jannika og María Sól, svissneskur verkamaður í Laugarási og Camilla bankastjóri tók Strax í dag og Húfuna.

Næsta spilerí verður á ættarmóti hér í Reykholti á laugardagskvöldið og svo starx á eftir á balli með Bleki og byttum í Úthlíð.

Hákon er kominn heim frá Áströlunum.
 
laugardagur, júní 16
  Af boltanum
Ég er með áskrift að Sýn þennan mánuðinn og sá leik Vals og Víkings í fótboltanum í vikunni. Þar sýndi sig hve reynsla manna af því að spila fótbolta er mikilvægur liður í því að ná árangri. Helgi Sigurðsson og Guðmundur Benediktsson, sem eru báðir 33 ára á þessu ári, voru algjörir yfirburðamenn á vellinum. Þeir gerðu allt einfalt og flest af útsjónarsemi og skynsemi. Þessir tveir voru langbestir.

Það er ekki alveg sanngjarnt að taka einstaka menn úr liðum og hefja leik þeirra svona upp til skýjanna. Því auðvitað gætu þessir tveir leikmenn ekki leyft sér að spila eins og þeir gera ef þeir hefðu ekki viljuga, snögga og kraftmikla stráklinga með sér til að vinna fyrir þá skítverkin út um allan völl. Það er líka mikilvægt fyrir liðið. Því má svo ekki gleyma þættir eins og mikil barátta, góðar staðsetningar á vellinum, lestur leiksins og yfirferð á vellinum sjást illa í sjónvarpinu. Sjónvarpið er jú alltaf að sýna það sem gerist í kringum boltann.

Í eina skiptið sem ég hef farið á stórleik í útlöndum fór ég að sjá Inter Milan og Juventus leika í Mílanó. Þetta var í desember árið 2000. Þar var ég hrifnastur af sweeper Inter-liðsins, Frakkanum Lauren Blanc. Það var alltaf eins og hann vissi hvað myndi gerast næst í leiknum. Hann var mjög oft í leiknum fyrir löngu búinn að taka sér stöðu á vellinum þangað sem Juventus leikmennirnir léku boltanum skömmu síðar. Hann var magnaður. Þetta hefði maður aldrei átt möguleika á að sjá í sjónvarpinu - þrátt fyrir allar myndavélarnar.
 
  Frá Wagga Wagga til Bláskógabyggðar
Ég er Bolvíkingur. Foreldrar mínir eru báðir fæddir í Bolungavík eins og foreldrar mömmu og föðurafi minn. Það er ekkert flókið fyrir mig að segja til mín og benda á landakort. Hún Gréta mín á ekki eins gott með þetta. Hún er svona héðan og þaðan og ættingjar hennar eru dreifðir út um allar trissur. Nokkrir eru í Svíþjóð og einn ættleggurinn hefur skotið rótum í Ástralíu. Við höfum haft Wagga Wagga-búa ættaða af Kjalarnesinu í heimsóknum hér í sveitinni í vikunni. Hákon varð eftir hjá þeim þegar Gréta ók þeim í sumarhús í Rangárvallasýslu. Þeir ná svo vel saman hann og þessir áströlsku frændur hans.

Ég hitti Guðna kórfélaga minn í dag þar sem ég var í göngutúr með Hringi syni mínum, sem er þriggja ára, og Patty, 5 ára frænda hans. Guðni spurði mig hvort ég ætti báða þessa stráka. Þegar ég sagði honum að sá ljóshærði væri nú kominn alla leið frá Ástralíu hváði hann: „Og snýr hann samt svona?"

Við Hringur röðuðum borðum og stólum, skreyttum salinn í Aratungu og blésum í blöðrur í dag. Kórinn sér um kaffisölu í þjóðhátíðardaginn. Annað kvöld fer öll fjölskyldan svo á Kaffi Klett, borðar grillmat og svo borga ég fyrir okkur með því að syngja og spila með góðum vinum fram eftir kvöldi. Síðustu tvö ár hefur þetta verið gert og verður endurtekið nú. Ég held svei mér þá að það verði fjölmennt band og hvaðeina!
 
  Spilverk
Ég spilaði í Þorlákshöfn í gærkvöldi. Var í stórum og nýjum sal þar sem hljómaði vel. En hann var svolítið erfiður í svona spilerí vegna þess hve erfitt var að komast nálægt fólkinu. Fram eftir kvöldi voru örfáir mættir en svo glæddist aðsóknin þegar líða tók á nóttina. En það var nú langt frá því að vera fullt hús.
 
sunnudagur, júní 10
  Jóðlandi menn

Í vikunni fór ég á tónleika með karlakór frá Tíról. Þeir jóðluðu. Það var mjög skemmtilegt að heyra. Í gær voru þessir sömu menn (eða einhverjir þeirra a.m.k.) í upptöku með Baggalútum. Nú bíður maður bara spenntur eftir næsta lagi þeirra sem verður með ekta jóðli.

Þessi söngstíll ku vera að deyja út. Það jóðluðu ekki nema 3 menn úr kórnum. Þei munu vera í fámennum hópi allra síðustu jóðlara í Tíról. Einn kunnungi minn og hljómsveitarfélagi er áhugamaður um jóðl. Ég keypti handa honum disk með kórnum, sá held ég verði nú glaður. Hann segir mér að í Ameríku sé iðkuð önnur tegund jóðls en þessi sem þekkist í Tíról. Þuríður Sigurðar jóðlar í einu lagi sem hún tekur stundum með okkur í Bleki og byttum. Hún gerir það afskaplega skemmtilega. Það er víst þessi ameríska tækni sem hún beitir. Ekki heyri ég muninn eða kann að skýra út í hverju hann er fólginn. En Austuríkismennirnir jóðluðu sem sagt fyrir Baggalút í gær. Spennandi!
 
laugardagur, júní 9
  Málverkasýning í eldhúskróknum hjá ömmu Stínu

Málverkasýning í eldhúskróknum hjá ömmu Stínu
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Hér er stoltur listamaðurinn í náttkjólnum við verkin sín. Ætli sýningin standi ekki enn?

Með því að smella á myndina kemstu á myndasíðu þar sem eru nokkrar nýjar myndir. Værsgo!
 
fimmtudagur, júní 7
  Gigg á heimaslóðum

Kjallaranum 1. júní 2007
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Ég lék og söng fyrir gesti Kjallarans í síðustu viku. Þessi mynd er tekin þar af henni Rögnu Manga Ragg. Hún er vertinn í Kjallarnum og ég fann þess mynd á blogginu hennar. Þetta var fínt kvöld. Það var talsverð ölvun og þá er er nú alltaf erfitt að finna réttu blönduna ofan í fólkið. En þetta tókst bara vel og stemmningin síðasta hálftímann var algjörlega frábær - þökk sé heiðursstuðboltum úr Víkinni sem smituðu frá sér með söng og sannri gleði.

Það má segja að giggið í Kjallaranum hafi verið upphaf á törn sem verður í þessum mánuði. Ég er búinn að bóka slatta næstu helgar. Ég ætla að bjóða unnustunni með mér og hinu fólkinu í Skálholtskórnum til Ítalíu í sumar. Það þarf að skrapa saman fyrir því með öllum tiltækum ráðum. Það eru afmæli og brúðkaupsveislur, venjuleg pöbbakvöld, stjórn fjöldasöngs, trall í tilefni af þjóðhátíðardeginum, íslensk rútubílalög fyrir útlenda bissnesskarla, niðjamót og ball með Bleki og byttum. Swing ding!
 
miðvikudagur, júní 6
  Til hvers?
Lýður læknir spyr réttmætrar spurningar á bloggi sínu í dag.
 
  Hjá afa og ömmu í Bolungavík

Sjómannadagurinn í Bolungavík
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Öll fjölskyldan kom með mér vestur um síðustu helgi. Krakkarnir eru hændir að afa sínum og ömmu. Hákon hélt reyndar til á Brjótnum við veiðar, eins og oftast áður þegar hann hefur komist vestur. Litlu börnin vilja bara vera með afa sínum. Hér er hann með þau við hátíðarhöldin í tilefni sjómannadagsins.
 
þriðjudagur, júní 5
  Helgin


Fleiri myndir hér: 1973bolungarvik.blog.is

Þá er maður kominn heim á ný, kom að heiman samt.

Helgin var frábær. Virkilega gaman að hitta pabba og mömmu, ömmu og Sirrý og allar hinar frænkurnar og frændurna. Skemmtilegast var þó að hitt aftur gamla bekkjarfélaga sem fermdust í Hólskirkju í maí 1987. Suma hef ég nánast ekkert hitt árum saman. Aðra hittir maður þegar maður fer vestur. Við nokkra hef ég eiginlega aldrei tapað kontaktinum. Við kepptum i róðri á höfninni. Einn í strákaliðinu þurfti að hvíla sig og safna kröftum fyrir seinna kvöldið. Við fengum afleysingamann úr árgangnum fyrir ofan okkur. Sá gerði það að leik sínum að stýra bátnum af leið, langleiðina upp í fjöru.Hann gat ekki látið það vera að stríða litlu strákunum. Vakti þetta tiltæki hans almennan hlátur og kátínu meðal Bolvíkinga á Brjótnum. En aftur að endurfundum fermingarbarnanna. Þessir mættu:

Ásgerður
Baldur Guðmundur
Björg Hildur
Fjóla Benný
Guðmundur Hrafn
Gunnhildur Linda
Hagbarður
Halldóra
Hálfdán
Heiðrún
Helga Svandís
Jenný
Karl
Lilja Brynja
Margrét Helga
Pétur
Ragnhildur Helga
Rúnar
Vignir

Þessir gátu ekki hitt okkur:

Birgitta
Diana Dröfn
Guðleifur
Ketill Már

Góð mæting!
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]