Tilraunavefurinn
miðvikudagur, febrúar 25
  Upp er runninn öskudagur
Hér er verið að búa út bófa, sjóræninga og álfadís.
Það koma myndir von bráðar.
 
þriðjudagur, febrúar 24
  HVer er Víkarinn?
Það er orðið langt síðan ég hitti einhvern Víkara til að setja í þennan spurningaleik. En um daginn sá ég hjón í Bónus. Ég þekki þau svo sem ekkert og var ekkert að rjúka til þeirra til að heilsa upp á þau. En mér sýndist á svip konunnar að hún kannaðist við mig.

Þau eiga fjóra krakka, bæði stráka og stelpur. Ein dóttir þeirra er á mynd utan á bæklingi frá norðlenskum lífeyrissjóði sem dreift var í hús hér í bæ á haustmánuðum. Ég taldi mig alla vega kannast við svipinn.

Maðurinn er orginal Bolvíkingur. Skyldur öðrum hverjum manni í Víkinni, þ.á.m. Hannesi Má og Bogga. Hún er Ísfirðingur að uppruna.

Hver eru þessi hjón.
 
sunnudagur, febrúar 22
  Koma að vestan (eins og sólin)
Fjölskyldan naut þess að hafa foreldra mína í heimsókn um helgina. Þetta voru ánægjuríkir dagar. Afi og amma eru í miklu uppáhaldi hjá börnunum þremur.
 
fimmtudagur, febrúar 19
  Ábending
Hinn nýverðlaunaði Baggalútur hefur verið í góðu formi síðustu daga. Takið sérstaklega eftir fréttunum um söluna á landvættunum og um manninn sem er hættur á Facebook og svo fréttinni um manninn sem gefur kost á sér í öll sæti allra lista allra flokka.
 
miðvikudagur, febrúar 18
  Nýmerkingar tvær
Tölvuorðanefnd hefur lagt til að á íslensku verði FACEBOOK fyrirbærið nefnt VINAMÓT
og yfir þá athöfn að leita upplýsinga með leitarvélinni Google á Netinu verði notuð sögnin að GLÖGGVA.
Vinamót og glöggva. Hvernig kunna lesendur við þessar tillögur?
 
  Tilvitnun
Á bókasafninu hér í bæ eru letraðar tilvitnanir á límmiðum eða einhverskonar límfilmum sem búið er að koma fyrir af smekkvísi hér og þar innan um bækurnar. Á áberandi stað við eitt þjónustuborðið var tilvitnun sem mér fannst eiga vel við á þessum tímum sem við lifum á. Ég er ekki viss um að ég muni þetta algjörlega orðrétt og hef ekki hugmynd um hvar þessi orð er að finna.

„Þegar gerast stór tíðindi eiga litlir menn að þegja."
(Steinn Steinarr)
 
þriðjudagur, febrúar 17
  Hver er Víkarinn? (Þriðja vísbending)
Kommon!
Pabbi örvhents stráks, sem spilaði handbolta með mér í Bolungavík. Þessi Bolvíkingur á reyndar eitt annað barn. Það býr ekki lengur í Bolungavík.

Þessi Víkari er sem sagt ágætur músíkant, leikur örvhent á gítar og hefur fallega söngrödd. Ég man að í eitt af fyrstu skiptunum sem ég kom fram á Ísafirði sem söngvari og gítarleikari, 15 ára, þátttakandi í söngvarakeppni sem BG-flokkurinn stóð fyrir í Sjallanum, kom til mín kona sem ég þekkti ekki neitt og sagði mér að flutningur minn og framkoma hefði minnt hana á vin hennar sem hún hafði starfað með í Litla leikklúbbnum nokkrum árum áður. Hún var að tala um þennan Víkara sem ég spyr um nú.

Fyrir nokkrum árum var í Tónlistarskóla Bolungavíkur fallegt hljóðfæri sem stóð til skrauts fyrir framan andyrið á Skólastígnum. Það var súsafónn, mikið horn sem nær eiginlega umhverfis þann sem leikur á það. Mér var sagt að þetta hljóðfæri hefði verið notað í lúðrasveit sem hefði verið starfrækt einhverntíma á árum áður og að þessi Bolvíkingur sem ég spyr nú um hefði leikið á súsafóninn í þeirri lúðrasveit.

Hann er næstyngstur í hópi systkina. Aðeins eitt þeirra býr í Bolungavík í dag. Meðal skyldmenna hans í Víkinni eru Högni á Ósi og Árni á Ósi.

Hver er Víkarinn?
 
mánudagur, febrúar 16
  Hver er Víkarinn? (Önnur vísbending)
Sérvaran sem hann verslaði með forðum var próteinrík fæða. Hljóðfærið sem hann leikur á er gítar og röddin er bassbaritón. Hann á son sem búsettur er í Bolungavík. Sá æfði með mér handbolta á unglingsárunum og var bara alveg ágætur. Þeir feðgar eru báðir örvhentir (mig minnir alla vega að sonurinn sé örvhentur, sá gamli er það alveg örugglega).

Hver er Víkarinn?
 
sunnudagur, febrúar 15
  Steingrímur, Doktorinn og Abbababb í Brekkó ´91
Steingrímur nokkur Benediktsson var stærðfræði- og líffræði kennari minn í fjölbraut á Skaganum. Hann er mikill áhugamaður um nútímamenningu. Sérstaklega hefur hann áhuga á rokktónlist og kvikmyndum. Ég stóð mig alla jafna illa í þeim áföngum sem hann kenndi mér. Ekki var þó við hann að sakast. Heldur var það nemandinn sem sinnti náminu illa. En annars kom okkur Steingrími reglulega vel saman, bæði meðan ég var nemandi hans og eins eftir að því námi lauk. Við vorum náttúrulega margir nemenda hans sem deildum tónlistaráhuganum með honum. Hann er líka ákaflega skemmtilegur náungi og naut sín vel í félagsskap við okkur unglingana. Uppáhald Steingríms í rokktónlistinni voru hljómsveitirnar Bless og Svart/hvítur draumur. Mér fannst það alveg magnað. Ég hafði varla heyrt á þessar hljómsveitir minnst þegar Steingrímur kynnti þær fyrir mér. „Besta íslenska rokklagið fyrr og síðar er Helmút á mótorhjóli með S/H Draumi", sagði Steingrímur einu sinni við mig. Þá hafði ég aldrei heyrt það lag. Mér hefur síðan alltaf líkað við þetta lag.

Þessar hljómsveitir tengdust Skaganum svolítið á þessum árum. Fyrir það fyrsta var bróðir Gunna Hjálmars kennari á Skaganum í mörg ár og allir krakkarnir þekktu hann. Þá var Birgir trommari kærasti Sunnu sem var bara nýlega hætt í skólanum okkar og þegar Birgir hætti í Bless var arftaki hans aðaltrommarinn á Skaganum á þessum árum, Logi Guðmunds.

Þegar Dr. Gunni hélt tónleika í sal Brekkubæjarsskóla var Steingrímur mættur að hlusta á sinn mann. Þar vorum við líka, strákarnir í hljómsveitinni Abbababb. Abbababb hitaði upp fyrir Dr. Gunna. Atriði okkar misheppnaðist algjörlega. Það var eitthvert tæknivandamál með kassagítarana okkar og ég gerði tilraun til að leika á rafmagnsgítar í staðinn. Það var ekki að gera sig. Ég kunni ekki að nota rafmagnsgítar og gítarmagnara. Þá var gripið til þess ráðs að Pétur bassaleikari lék á rafmagnsgítarinn en ég á bassann. Það virkaði næstum jafn illa og hitt. En þetta slapp til því við höfðum skapað okkur töluverðar vinsældir meðal elstu grunnskólanemendanna með einhverjum öðrum performans á undan þessum. Þannig að okkur leyfðist þetta alveg bara ef það fylgdi því einhver fíflaskapur. Og sjálfsagt voru tónleikagestirnir ekki sviknir um einhvern fíflaskap. Þannig var Abbababb. Alveg eins og Abbababb platan sem Dr. Gunni gerði seinna. Það var líka fíflaskapur á henni. Nema hvað!

Atriðið sem Dr. Gunni var með á þessum árum var einfaldlega hann sjálfur með rafmagsgítar og trommuheila og svo öskraði hann einhverja þvælu í míkrafón. Mér fannst það algjörlega glatað. Og lítil músík í því. Mig minnir að ég hafi tvisvar séð þannig atriði á tónleikum á Akranesi og verið jafn lítið hrifinn í bæði skiptin. Ég var þó farinn að fíla S/H Draum og sá kombakk hjá þeim í Tunglinu sirka ári eftir þetta. Það var alveg magnað. En þó ég hafi ekki fílað Doktorinn með trommuheilann hef ég verið virkilega hrifinn af hljómsveitunum hans Gunna, bæði Unun og Dr. Gunni. Og nú bíð ég alveg spenntur eftir nýju plötunni sem mér skilst að sé búið að taka upp og sé bara væntanleg í dreifingu.
 
  Hver er Víkarinn?
Víkarinn sem ég spyr um í dag getur sjálfsagt staðið í sumum. Hann hefur sjálfsagt flutt frá Bolungavík þegar hann var um tvítugt, en það var fyrir mitt minni.

Ég á nokkrar minningar um þennan mann frá því ég var krakki. En þegar ég hitti hann í dag var liðinn mjög langur tími frá því ég hafði síðast séð hann. Mörg ár. Meira að segja meira en áratugur. Stundum kom ég með mömmu í verslun þar sem hann afgreiddi hana yfir borðið með sérvöru sem nú er oftast keypt með öðrum hætti. Einu sinni þegar ég var í tannréttingum í Reykjavík og þurfi oft að fljúga þangað til að hitta tannlækninn, fékk ég að sitja við hliðina á honum í flugvélinni þegar ég var að ferðast einn. Þá man ég að við sátum þeim megin í farþegarými flugvélarinnar sem ekki mátti reykja í. Ég hálfvorkenndi honum að þurfa þess, en hann sagist ekkert þurfa að reykja á leiðinni. Ég veit að þessi Víkari hefur alla tíð verið viðloðandi margskonar tónlistarflutning. Hann getur víst svolítið spilað á hljóðfæri og mér finnst hann hafa sérstaklega fallega söngrödd (og ég er ekki einn um þá skoðun).

Hver er Víkarinn?
 
þriðjudagur, febrúar 10
  Omenamahujuoma
Omenamahujuoma gæti verið finnska. Kannski þýðir það eplasafi. Ég veit það ekki.

Ég er mjög slakur í þýskunni, en ég er ekki frá því að maðurinn sem hér syngur Omenamahujuoma segist í upphafi þessa myndskeiðs vera að flytja þýska þýðingu á íslensku sjómannalagi. Eitthvað um það sem gerist á bakborða og á sjórnborða. Ætli það sér rétt hjá mér? Ég er alls ekki viss. Þetta er nú samt ekki íslenskt sjómannalag. Það er víst. Hvorki lagið né textinn. En þetta er skemmtilega einfalt og púkó.
 
  Hver er Víkarinn? (2. vísbending)
Þetta er sem sagt aðkomuskratti sem tók sér eina af stúlkunum okkar fyrir konu. Einn sona þeirra hjóna hefur víst í hyggju að fara í fótspor föðurins með því að næla sér í bolvíska stúlku fyrir konu og þar með bolvíska tengdafjölskyldu.

Í því starfi sem hann gegndi í Bolungavík mun nánasti samstarfsmaður hans örugglega hafa verið Maggý Jónasar. Svo hitti hann líka mig og mömmu á hverjum virkum degi.

Hver er Víkarinn?
 
sunnudagur, febrúar 8
  Hver er Víkarinn?
Þennan Víkara hitti ég á flugvellinum á Akureyri á dögunum. Við vorum báðir á leið til Reykjavíkur og tókum tal saman og spjölluðum meðan við biðum eftir að verða kallaðir út í flugvélina sem átti að flytja okkur suður. Það er svolítið sérstakt að ég skuli þekkja þennan Víkara því hann bjó mjög stutt í Víkinni og þá var ég ekki nema 4-6 ára. En ég kynntist honum samt þá og við bræðurnir báðir. Ég veit ekki til þess að hann eigi skyldmenni í Bolungavík en synir hans eiga nánast annan hvern Bolvíking fyrir frænda eða frænku og einn sonanna ætlar sér jafnvel að fjölga Bolvíkingum enn frekar í fjölskyldunni.

Hver er Víkarinn?
 
laugardagur, febrúar 7
  Frost
Frostið var hart á Norðulandi í dag. Fjölskyldan fór í bíltúr í þessu stillta og fallega veðri. Við ókum austur að Mývatni. Þangað hafði ég ekki komið áður. Ég sá svo sem ekki mikið af landslaginu því frostið var svo rosalegt að mistrið var að þvælast fyrir öllu útsýninu.

Okkur þótt athyglisvert að hitamælirinn í bílnum sýndi frost á bilinu 13 og alveg niður í 25 stig. Aldrei sömu töluna mjög lengi, þ.e.a.s. á meðan bíllinn hreyfðist úr stað. En það var alla vega mjög kalt.
 
fimmtudagur, febrúar 5
  Hver er Víkarinn? (Önnur vísbending)
Þessi kona sem ég spyr nú um er elst þriggja systkina.
Pabbi hennar er núna eigandi Sána, en Sáni er Yamaha-gítarinn sem ég keypti mér í skólaferðalaginu vorið 1988 og spilaði á þangað til haustið 1999. Kona þessi var nú sennilega flutt úr Víkinni fyrir 1988 og farin að raða niður börnum einhvers staðar fyrir sunnan. Kannski Sáni hafi fengið gamla herbergið hennar!

Pabbi minn og mamma hennar eiga það sameiginlegt, fyrir utan það að vera fjarskyld, að þau eru alltaf nefnd seinna nafninu af þeim tveimur nöfnum sem þau bera. Íslendingabók sýnir mér nöfnin Fertram og Silfá í hópi áa hennar. Silfá Jónsdóttir var langa, langa, langaamma hennar og systir Jóhannesar Jónssonar langa, langa, langaafa míns. Þetta er fólk hlýtur að hafa verið úr Grunnavíkurhreppi.

Hver er Víkarinn?
 
  Ferðasögubrot

Paul og félaginn og Matt
Originally uploaded by wwwkarl.blogspot.com
Síðastliðið sumar fór ég á tónlistarnámskeið og ráðstefnu þar sem mandólínið var í forgrunni. Það var haldið í Santa Cruz í Kaliforníu. Hér er lítið ferðasögubrot.

Gaurinn sem er næst okkur á myndinni, sá sem snýr vanganum að myndavélinni og leikur á gítar, heitir Paul (ég þekki ekki eftirnafnið). Hann starfar sjálfstætt við að smíða gítara. Hann var á námskeiðinu með mér í sumar. Konan hans var þar líka. Hún er grunnskólakennari og hún, ásamt fleiri kennurum í þessum hópi fræddi mig um eitt og annað í bandaríska skólakerfinu. Þessi ljósmynd er tekin í herbergi þeirra hjóna á vistinni þar sem við bjuggum. Það var partíherbergið. Þau kölluðu það Tiki Room. Þangað fór ég tvö eða þrjú kvöld og skemmti mér ágætlega. Þá var spilað og sungið hverja mínútu. Fyrir mér voru næstum öll lögin ný. Þau voru teljandi á fingrunum lögin sem ég þekkti. En allir aðrir þekktu þau. En það var yfirleitt ekkert mál að spila með. Þetta voru þannig lög. Aragrúi skemmtilegra kántrí- og gamaldags rútubílalaga.

Einn daginn meðan á námskeiðinu stóð keypti ég mér handhægt og gott upptökutæki. Ég tók upp kennslustundir, æfingar og tónleika. Það er gaman að eiga þetta og ég er búinn að hlusta og það hjálpar mér að rifja upp það sem ég lærði. En mikið sé ég eftir að hafa ekki tekið upp a..m.k. eitt partí í Tiki Room. Það hefði verið gaman að eiga þessi lög og læra einhver þeirra og spila þau fyrir aðra.

Partí í the tiki room fór þannig að fram að gestgjafinn, Paul, ýmist sat eða stóð með gítarinn í kjöltunni og stjórnaði samspili og samsöng gesta sinna með afskaplega mikilli glaðværð en þó röggsemi. Hann stjórnaði með mjög skýrum bendingum, svipbrigðum og stikkorðum sem allir skildu, meira að segja Íslendingurinn sem þó hafði aldrei heyrt þau og hefur þegar gleymt þeim öllum (enda tungumál ekki hans sterkasta hlið).

Þegar inn í herbergið var komið var það fyrsta sem við manni blasti mandólínkassi sem stóð opinn ofan á eldhúsbekknum. Ofan í honum voru smámynt og einsdollarsseðlar. Innan á lok kassans var letrað: Booze found (drykkjarsjóður). Á öllum borðum voru svo björflöskur, léttvínsflöskur og glös. Eldhúsið var í sama rými og stofan. Við endann á stofunni stóð Paul með annan fótinn uppi á stól og söng og spilaði á gítar um leið og hann stýrði glaðværum hópi söngvara og undirleikara í hverju laginu á fætur öðru. Hann var miðpunktur samkomunnar. Tónlistarflutningurinn var drifinn áfram af tveimur mottóum, en þau höfðu verið skrifuð með límbandi á stofuveggina til hvorrar handar gestgjafans. Hægra megin við hann stóð PLAY SOFT en vinstra megin LISTEN HARD. Öðru hverju minnti Paul gestina á þessi mottó með því að benda á veggina. Fyrir framan sig hafði hann hjörðina sme hann stjórnaði í söng og hljóðfæraslætti en fyrir aftan hann var rekki sem hann hafði tekið með sér að heiman. Í þessu sérsmíðaða rekka voru hljóðfæri sem hann hafði smíðað. Honum var mikið i mun að sem flestir léku á þau hljóðfæri og að allir prófuðu sem flest þeirra.

Mennirnir á myndinni eru allir með hljóðfæri sem Paul hefur smíðað. Paul er með venjulegan gítar. Annar hinna mannanna er með octive mandólín (sem er, eins og nafnið gefur til kynna, stillt áttund dýpra en venjulegt mandólín), hinn er með tenórgítar (sem þeir stilltu alveg eins - en það má líka stilla það öðruvísi, standard tuning:
CGDA). Paul hafði vonir um að tenórgítarar hans yrðu vinsælir einhverntíma á næstu mánuðum. Hann sagði mér að tenórgítarinn nyti vinsælda á 40 ára fresti og nú væru 40 ár síðan hann hefði síðast verið vinsælt hljóðfæri (ég ætla að skrifa annan pistil um tenórgítara síðar). Hann sagði að áhuginn væri að vakna. Nú þyrfti bara ein heimsfræg hljómsveit að sjást með tenórgítar í sjónvarpi og þá ætlaði hann að eiga þá á lager, því þá myndu þeir rjúka út. Báðir þessir menn sem við sjáum framan í á myndinni náðu góðum tökum á þessum hljóðfærum og þótti gaman að leika á þau. Mér þykir líklegt að þeir séu búnir að leggja inn pöntun fyrir næsta ár.

Í The Tiki Room léku yfirleitt tveir til þrír á gítara, einn á kontrabassa, tveir til þrír á tenór eða octive og allir aðrir á mandólín. Stöku sinnum var eitt banjó og/eða fiðla, örsjaldan munnharpa. Fyrrihluta nætur var líka verið að spila í öðrum herbergjum með sömu hljóðfæraskipan.

Þótt allt væri fljótandi í bjór og léttvíni í The Tiki Room var þar aldrei neitt fyllerí. Flestir voru aðeins í því og léttir og hressir, an aldrei hitti ég þar einhvern sem var fullur. Kannski einhverjir hafi verið að púa á einhverju grasi. Ég var ekki var við það, nema þetta kvöld sem þessi mynd er tekin. Þá sá ég á eftir þessum tveimur þarna, þeir voru í burtu í tvær mínútur og þegar þeir komu til baka fylgdi þeim óvenjulega sætur reykilmur. Lífernið var ekki rosalegra en svo að allir voru mættir í morgunmat og svo í kennslustundir morguninn eftir.


Í fyrirsögninni er linkur á myndasíðu sem ég fann á Netinu. Þar eru myndir frá lokatónleikum þessarar ráðstefnu og námskeiðs. Ég sést nú ekki á myndunum, en herbergisfélagi minn er á 8. myndinni og það eru myndir frá atriðinu sem ég tók þátt í á þessum tónleikum.
 
miðvikudagur, febrúar 4
  HVer er Víkarinn?
Við Gréta hittum sem sagt Hemma í búð fyrir sunnan um helgina.
Þar hittum við líka annan Bolvíking. Sá er eldri en ég og eldri en Hemmi. Hann virtist stjórna einhverju í þessari verslun sem við vorum stödd í. Einni af uppáhaldsverslunum Grétu. Gréta þekkti ekki þennan Bolvíking. Náfrændi þess sem ég spyr um núna er í bekk með Perlu Maríu, dóttur minni, hérna í Lundarskóla á Akureyri. Heimili þessa Bolvíkings, sem er kona, var ofar í bænum en æskuheimili mitt.

Hver er Víkarinn?
 
þriðjudagur, febrúar 3
  Hver er Víkarinn (önnur vísbending?
Þessi matvandi knattspyrnumaður og fyrrverandi Toyotaeigandi ók brúnni eða öllu heldur gylltri Toyotabifreið sinni töluvert mikið fram eftir aldri, þar sem honum þótti meira varið í að aka en drekka áfengi. Hann vann yfirleitt hjá sama kompaníinu í Víkinni þegar hann kom heim til sumarstarfa. Hann lærði forritun eða einhver álíka fræði í Iðnskólanum í Reykjavík en áður en hann honum tókst að ljúka því námi snéri hann sér alfarið að öðrum bransa, þar sem honum vegnaði vel. Löngu síðar sótti hann sér menntun til útlanda í nýja bransanum, en nú er aftur farinn að vinna í tölvuumhverfinu.

Ég þekki þennan Bolvíking ágætlega. Hver er hann?
 
  Hvernig var þetta hægt?
Lagið á bak við þessa fyrirsögn hér að ofan er stórgott. Það er snilldarlega samið, textinn frábær og virðist höfða til allra aldurshópa, ekki bara heillrar þjóðar, heldur enn fleira fólks. Það er skemmilega sungið og það spilast og syngst vel, hvort sem það er í fjöldasöng eða í minni hópum. En þessi útsetning orginal útgáfunnar er svo smekklaus að það nær ekki nokkurri átt. Hörmulegt synthaspil, steríll og tilkomulítill trommuleikur og leiðinlegt sánd. En lagið er svo gott að þetta dugði ekki til að eyðileggja það. Sennilega hefur ekkert norrænt lag notið annarrar eins velgengni síðustu áratugina og þetta. Stenst tímans tönn. Þetta er auðvitað Papirsklip eftir Kim Larsen.

En annars finnst mér Kim Larsen oft vera með ljót sánd og daufar útsetningar. Hvernig sem á því stendur. Þessi mikli snillingur.
 
mánudagur, febrúar 2
  Endurkoma Fönklistans?
Það er strákur frá Ísafirði, aðeins yngri en ég, sem heitir Kristinn Hermannsson. Ég held að hann sé einhverskonar hagfræðingur eða hagfræðistúdent í Skotlandi. Ég man eftir þessum strák á götunum á Ísafirði, en ég kynntist honum aldrei. Enda hætti ég í MÍ þegar ég var hálfnaður með annað árið þar. Svo ekki vorum við á sama tíma í MÍ. En hvað sem því líður, hef ég annað slagið ratað inn á blogg sem Kristinn heldur úti á Netinu. Það er oft skemmtilegt að lesa það sem hann skrifar. Hann virðist vera klár náungi. Hann skrifar oft um stjórnmál, einkum byggðamál, af meiri skynsemi en maður á að venjast. Og svo er hann hæðinn eins og Össur og fleiri sem skrifa um pólitík. Það gerir lesninguna um hana bara áhugaverðari. Ég veit ekki hvar í flokki hann myndi staðsetja sig, ekki D og örugglega ekki B, sennilega ekki S og varla F og líklega ekki heldur V. Ungur var hann kjörinn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar fyrir Fönklistann. Það er spurning hvort Fönklistinn fari ekki bara fram til Alþingis í vor. Það væri alla vega engin skömm af fulltrúa eins og Kristni fyrir hönd Vestfirðinga á þinginu.

Lesið endilega pistil frá honum sem ég linkaði í fyrirsögnina hér að ofan. Pistillinn er dæmigerður fyrir skrif Kristins og athugasemdin frá Smára Karlssyni (litli bróðir Rúnars Óla) kom mér til að brosa.
 
  Hver er Víkarinn?
Hitti tvo Víkara í sömu versluninni á laugardaginn. Tökum bara einn í einu hérna.
Byrjum á þessum:

Hann er í miðjunni í systkinaröðinni. Hann er eldri en ég. Meðan hann átti enn heima í Bolungavík lék hann fótbolta með UMFB og ók Toyota bifreið. Hann lék venjulega á miðjunni en áður en hann hætti að sparka fyrir alvöru var hann farinn að gera það gott sem hafsent. Á yngri árum þótti mataræði hans svo fábreytt að eftir var tekið.

Hver er Víkarinn?
 
Fréttir af mér og fólkinu mínu

Myndin mín
Nafn:
Staðsetning: Akureyri

Bolvíkingur að heiman.

Söfn
08/01/2003 - 09/01/2003 / 09/01/2003 - 10/01/2003 / 10/01/2003 - 11/01/2003 / 11/01/2003 - 12/01/2003 / 12/01/2003 - 01/01/2004 / 01/01/2004 - 02/01/2004 / 02/01/2004 - 03/01/2004 / 03/01/2004 - 04/01/2004 / 04/01/2004 - 05/01/2004 / 05/01/2004 - 06/01/2004 / 06/01/2004 - 07/01/2004 / 07/01/2004 - 08/01/2004 / 08/01/2004 - 09/01/2004 / 09/01/2004 - 10/01/2004 / 10/01/2004 - 11/01/2004 / 11/01/2004 - 12/01/2004 / 12/01/2004 - 01/01/2005 / 01/01/2005 - 02/01/2005 / 02/01/2005 - 03/01/2005 / 03/01/2005 - 04/01/2005 / 04/01/2005 - 05/01/2005 / 05/01/2005 - 06/01/2005 / 06/01/2005 - 07/01/2005 / 07/01/2005 - 08/01/2005 / 08/01/2005 - 09/01/2005 / 09/01/2005 - 10/01/2005 / 10/01/2005 - 11/01/2005 / 11/01/2005 - 12/01/2005 / 12/01/2005 - 01/01/2006 / 01/01/2006 - 02/01/2006 / 02/01/2006 - 03/01/2006 / 03/01/2006 - 04/01/2006 / 04/01/2006 - 05/01/2006 / 05/01/2006 - 06/01/2006 / 06/01/2006 - 07/01/2006 / 07/01/2006 - 08/01/2006 / 08/01/2006 - 09/01/2006 / 09/01/2006 - 10/01/2006 / 10/01/2006 - 11/01/2006 / 11/01/2006 - 12/01/2006 / 12/01/2006 - 01/01/2007 / 01/01/2007 - 02/01/2007 / 02/01/2007 - 03/01/2007 / 03/01/2007 - 04/01/2007 / 04/01/2007 - 05/01/2007 / 05/01/2007 - 06/01/2007 / 06/01/2007 - 07/01/2007 / 07/01/2007 - 08/01/2007 / 08/01/2007 - 09/01/2007 / 09/01/2007 - 10/01/2007 / 10/01/2007 - 11/01/2007 / 11/01/2007 - 12/01/2007 / 12/01/2007 - 01/01/2008 / 01/01/2008 - 02/01/2008 / 02/01/2008 - 03/01/2008 / 03/01/2008 - 04/01/2008 / 04/01/2008 - 05/01/2008 / 05/01/2008 - 06/01/2008 / 06/01/2008 - 07/01/2008 / 07/01/2008 - 08/01/2008 / 08/01/2008 - 09/01/2008 / 09/01/2008 - 10/01/2008 / 10/01/2008 - 11/01/2008 / 11/01/2008 - 12/01/2008 / 12/01/2008 - 01/01/2009 / 01/01/2009 - 02/01/2009 / 02/01/2009 - 03/01/2009 / 03/01/2009 - 04/01/2009 / 04/01/2009 - 05/01/2009 / 05/01/2009 - 06/01/2009 / 06/01/2009 - 07/01/2009 / 07/01/2009 - 08/01/2009 / 08/01/2009 - 09/01/2009 / 09/01/2009 - 10/01/2009 / 10/01/2009 - 11/01/2009 / 11/01/2009 - 12/01/2009 / 12/01/2009 - 01/01/2010 / 01/01/2010 - 02/01/2010 / 02/01/2010 - 03/01/2010 / 03/01/2010 - 04/01/2010 / 04/01/2010 - 05/01/2010 / 05/01/2010 - 06/01/2010 / 06/01/2010 - 07/01/2010 / 07/01/2010 - 08/01/2010 / 08/01/2010 - 09/01/2010 / 09/01/2010 - 10/01/2010 / 10/01/2010 - 11/01/2010 / 01/01/2011 - 02/01/2011 / 03/01/2011 - 04/01/2011 / 04/01/2011 - 05/01/2011 / 05/01/2011 - 06/01/2011 / 06/01/2011 - 07/01/2011 / 07/01/2011 - 08/01/2011 / 08/01/2011 - 09/01/2011 / 02/01/2012 - 03/01/2012 / 07/01/2012 - 08/01/2012 / 01/01/2013 - 02/01/2013 / 02/01/2013 - 03/01/2013 / 05/01/2013 - 06/01/2013 / 09/01/2013 - 10/01/2013 / 06/01/2014 - 07/01/2014 / 07/01/2014 - 08/01/2014 / 09/01/2014 - 10/01/2014 / 10/01/2014 - 11/01/2014 / 11/01/2014 - 12/01/2014 / 02/01/2015 - 03/01/2015 / 07/01/2015 - 08/01/2015 / 10/01/2015 - 11/01/2015 / 12/01/2015 - 01/01/2016 / 09/01/2017 - 10/01/2017 / 10/01/2017 - 11/01/2017 /

 • Gréta mín
 • Myndasíða fjölskyldunnar
 • Víkari.is
 • Bæjarins besta
 • Heiðrún Hámundar
 • Kristján Jóns
 • Baggalútur
 • Palli Skúla
 • Sælands
 • Mandolin Symposium
 • Mugison
 • Lög og textar á íslensku
 • Lög og textar á útlensku
 • Bolungavík
 • Kriss Rokk
 • Naustaskóli

  Powered by Blogger

  Gerast áskrifandi að
  Færslur [Atom]