Upptaka
Eftir hádegið slæptist ég í vinnunni og í stað þess að vinna nokkuð lék ég mér við að taka upp lag sem ég samdi fyrir nokkru. Ég hætti ekki fyrr en það var komin einhver mynd á þetta hjá mér. Þá brenndi ég útkomuna á disk og sendi í Sjómannalagakeppni Rásar 2. Ég þykist vera mjög mikill sjóari í þessum texta. Og það er vísað í heimahagana og líka á Skipaskaga. Það er hljómsveitin B-vaktin sem flytur lagið. Mér finnst það svo frystitogaralegt nafn. Lítur ekki út fyrir að það séu meðlimir áhafnar einhvers togara sem skipi hljómsveit með nafni eins og því? En ég er bara einn í hljómsveitinni. Ég samdi lagið og textann, púslaði saman trommulúpum, spilaði píanó og hljómborðsbassa, munnhörpur og gítara, söng og raddaði, hljóðblandaði og skilaði geisladiski með laginu á í eigin persónu í Útvarpshúsið. Auðvitað hefði ég viljað gera þetta betur en frestur til að skila laginu rennur út á morgun og svo átti ég erindi til Reykjavíkur í dag.
Ef lagið mitt kemst í úrslit þessarar keppni fer það í spilun innan skamms og þið sem þekkið mig munuð þekkja það á djúpu barritónröddinni og vísununum í útvegssögu Bolungavíkur og Akraness.