Gæðatími
Ég var að breyta til í starfi mínu í skólanum. Þennan veturinn verð ég ekki umsjónarkennari. Það getur verið erilsamt starf að vera umsjónarkennari og það getur tekið á sig myndir, vegna þeirrar ábyrgðar sem því fylgir, sem eiga ekkert endilega mikið skylt við kennslu. Í vetur er ég faggreinakennari. Ég kenni íslensku (og reyndar tungumál í forföllum í tvo mánuði) á unglingastigi og svo kenni ég tónmennt í öllu árgöngum. Ég hef talsverða reynslu af íslenskukennslu á unglingastigi og hef haft áhuga á öllu sem henni tengist lengi. Svo það er mér létt verk, að kenna íslenskuna og halda utan um það allt saman. En ég er næstum því nýgræðingur í tónmenntinni og það er heilmikil áskorun að takast á við hana. Og það tekur sinn tíma, en mér finnst það mjög skemmtilegt.
Fyrstu dagana í þessu breytta starfi hef ég komið fyrr heim á daginn en ég var vanur. Og þessi tími, milli hálfsex og sjö, er alveg frábær til að verja með krökkunum og konunni. Reyndar verða krakkarnir stundum þreyttir og pirraðir á þessum tíma, en þau hafa verið svo hress þessa daga. Voðalega gaman.