Líf og fjör á Núpi í Dýrafirði 1985
Meistarar í 5. flokki í fótbolta á æskulýðshátíðinni Líf og fjör á Núpi í Dýrafirði 1985: UMFB.
Hér kemur færsla fyrir Bolvíkingana. Ég bið þá sem léku með mér í 5. flokki UMFB árið 1985 og lesa þetta að kvitta í kommentin. Svo væri líka gaman ef einhver gæti rifjað upp eitthvert skemmtilegt atvik frá þessu móti. Ég man alveg heilmargt, bæði af fótboltamótinu og öðru sem við gerðum þessa helgi á Núpi. Hvað munið þið?
Fótboltinn var leikinn á túninu fyrir framan skólahúsið á Núpi. Annar hálfleikurinn var leikinn niðurámóti en í hinum hálfleiknum þurfti að sækja á brattann. Úrslitaleikurinn var leikinn á stórum grasvelli að viðstöddu fjölmenni. Ég var á eldra árinu. Jafngamlir mér í liðinu voru Rúnar frændi minn og Gummi Hrafn (Pétur Pé var örugglega ekki með okkur á þessu móti). Ég man ekki alveg hvernig liðið var í úrslitaleiknum en ég man þó að Albert þjálfari lét okkur kjósa um tvær mögulegar uppstillingar. Ég var í marki í annarri þeirra en hin varð hlutskarpari. Ég hafði verið sviptur fyrirliðatigninni í þessu móti. Fyrirliði var Jónas Vilhelms. Hann lyfti bikarnum sem við fengum. Ég man að mér þótti það svolítð súrt því yfirleitt var ég fyrirliði þegar ég var á eldra árinu, en ég lét lítið á því bera og reyndi að bera mig karlmannlega. Jónas var alltaf svo fínn náungi. Vinur minn, Halli Pé, var okkar langbesti maður, þó hann væri á yngra ári. Hann átti stórleik í úrslitaleiknum gegn ÍBÍ.
Við hljótum að hafa leikið 4-4-2. Man einhver hvernig liðið var skipað?