Draumur um koss
Nýjasti textinn er hérna. Þetta hefur verið löng fæðing. Ég er ákaflega sáttur við útkomuna. Kveikjan er ljóð Sigurbjargar Þrastardóttur sem heitir Berdreymi. Þar koma fyrir hendingarnar þrjár sem mynda upphaf versanna hjá mér: „draumur um koss", „andartök heit" og „náttblint og hrjúft hraunið.." Þessi orð Sigurbjargar tengi ég svo við dýrmætar minningar frá því við Gréta vorum ungir og barnslausir námsmenn í Reykjavík. Ég hef fengið grænt ljós hjá skáldinu fyrir þessari notkun minni á orðum þess. Lagið er hægt blúsað kántrí-folk svona eins og sum laganna á plötunni voru. Það er samið með hljómsveit í huga og ákveðna skipan hennar. Því pósta ég síðar. Nú birti ég textann.
Draumur um koss
eftir Karl Hallgrímsson
draumur um koss
í dagrenningu víkur
fyrir kossi um nótt
hvíslandi rödd
og ráma ég nem
þó að drauminn rjúfi um stund
hún hljómaði hvort eð var
í huga er festi blund
andartök heit
hendur kaldar strjúka
hörundið hlýtt
hratt líður stund
hvíslandi rödd
verður heit og eldfim glóð
hef varðveitt þá minningu
og fest í ljóð
um að unað veiti
brauð úr hveiti
dagar dásemda
reistar stoðir
hvítar voðir
blakti án grunsemda
um hvað bíði
er tíminn líði
vökunæturnar
með mildu mali
leik og hjali
við syni og dæturnar
náttblint og hrjúft
hraunið losar svefninn
lífið er ljúft
lukka í för
sofandi fugl
stingur höfði undir væng
sæl hvílir perla
undir mjúkri sæng