Munnhörpudýrið gengur laust

Ég fann á flakki á Netinu lag sem hefur að geyma munnhörpuleik minn. Ef mig misminnir ekki er það fyrsta sessionspilamennska mín sem hljóðfæraleikari í hljóðveri fyrir annan en sjálfan mig. Það er Hilmar Garðarsson sem er höfundur lags og texta og hann syngur jafnframt lagið. Orri Harðarson tók þetta upp og stjórnaði upptökunum og fékk mig í verkið (af því ég á réttu munnhörpuna). Orri leikur á gítar og bassa og ég held að Halldór G. Hauksson sé trommarinn.
Lagið er af plötu sem er fullkláruð en hefur aldrei komið út. Ég söng líka bakraddir í öðrum lögum á þessari plötu og hafði óskaplega gaman af því. Það kom líka svo vel út. Það var líka skemmtilegt að taka upp þessa munnhörpu því það er verið að teygja og toga tóna til og frá af því að einn tónninn sem Orri vildi fá er ekki til í munnhörpunni sem var notuð, en það er hægt að mynda hann með lagni svo þetta var býsna krefjandi. Áhugasamir getað hlustað á lagið af MySpace síðu Hilmars Garðarssonar með því að
smella hér. Það heitir Tónarnir dimmu.