Nýr skólastjóri
Selvadore Rähni var metinn hæfasti umsækjandinn um stöðu skólastjóran Tónlistarskóla Bolungavíkur. Eftir gúgl-rúnt veit ég að hann hefur verið búsettur á Íslandi síðan 2005. Hann á börn og konu. Hann hefur verið skólastjóri Tónlistarskólans að Laugum í Reykjadal. Hann er frá Eistlandi. Hefur verið talinn einn hæfasti klarinettleikari Eistlands og sá þekktasti utan landssteinanna. Áður en hann kom til Íslands var hann fastráðinn hljóðfæraleikari hjá Sinfóníunni í Kyoto í Japan. Svo þetta er enginn smákarl sem Bolvíkingar eru að fá. Þá er bara að vona að honum gangi vel að stýra skólanum og kenna og vinna með börnunum. Og að hann og fjölskyldan finni sig í Bolungavík.
Mér fannst gaman að sjá Sólrún og Ásta höfðu sótt um stöðuna. Djarft af Ástu, nýútskrifuðum tónmenntakennara og sniðugt hjá Sólrúnu - ég er viss um að hún hefði vel getað staðið sig í þessari stöðu. Með umsókninni senda þær frá sér jákvæð skilaboð um eigin metnað og viðhorfið til staðarins.
Hér á svæðinu í kringum mig eru nokkrir eistneskir tónlistarmenn starfandi. Þeir eru víst allir miklir snillingar og geta spilað á og kennt á fjölda hljóðfæra. Þeir hafa verið duglegir að taka þátt í ólíkum verkefnum sem hafa verið lyftistöng fyrir menningarlífið. Hér ganga sögur af hæfileikum þeirra sem eru lyginni líkastar.