Fullt af Víkurum á ferð í Eyjafirði
Ég hitti eldri borgara frá Vestfjörðum sem voru í Rauða kross ferð hér á Eyjafjarðarsvæðinu. Í þeim hópi var amma mín. Hún tók sér frí frá skipulögðum ferðum hópsins dagspart og varði honum með okkur í staðinn. Það var virkilega ánægjulegt. Amma gekk með mér um Listigarðinn þar sem hún hafði verið daglegur gestur sumarið 1934. Þá var hún ráðin í vist til að gæta barns á Akureyri, 11 ára gömul. En um vorið kom jarðskjalftinn frægi og fólkið sem hún var í vist hjá óttaðist að kæmi annar skjálfti mynda það ríða húsi þess að fullu og því átti hún að vera úti með barnið allan daginn. Þá var Listigarðurinn oftast fyrir valinu.
Kvöldið áður en hópurinn hélt heim heimsótti ég hann og var með þeim á kvöldvökunni. Þar spilaði kunningi minn úr Mývatnssveit á harmónikku og ég sló á mandólínið með honum. Ég hafði virkilega gaman af því. Í þessum hópi voru nokkrir Bolvíkingar sem ég þekki náttúrulega alla alveg hreint ágætlega. Og fararstjórarnir tveir voru frænkur mínar, Jóna Valgerður og Þrúður.