Hver er Víkarinn? (Önnur vísbending)
Ég man reyndar ekkert hvar Víkarinn þessi bjó, en Jón Óli, móðurbróðir minn, sagði mér, þegar ég var púki, sögu af honum, sem ég, einhverra hluta vegna, tengi við íbúðina í kjallaranum hjá Óla málara og Lillý. Jón Óli sagði mér sem sagt að þessi ágæti Víkari hefði fyllst einhverjum ofurkröftum á neyðarstundu. Hann hefði getað spennt í sundur rimla í rimlarúmi þar sem sonurinn litli hafði fest höfuðið á milli. Þegar hann hafði jafnað sig á sjokkinu fór hann að hissa sig á kröftum sínum og hefði hann þá reynt að endurtaka leikinn, en þá ekki getað bifað rimlunum. Þessi saga hefur setið í minni mínu alla tíð síðan. Ef til vill er sögusviðið ekki Völusteinsstræti og kannski er alls enginn fótur fyrir henni.
Hnífsdælingarnir, Kristján Freyr, Venni og Kristján Þór, sem allir hafa reynt að spreyta sig í þessari getraun, ættu að eiga meiri séns í þetta skiptið en nokkru sinni fyrr. Soninn í rimlarúminu, þennan sem heitir tveimur tveggja atkvæða biblílunöfnum og er alltaf kallaður síðara nafninu, þekkja þeir miklu betur en nokkur Víkari.
Ég hitti pabba hans og mömmu. Þekkið þið pabba hans?
Koma svo!
Hver er Víkarinn?