Maður kannst við eitt og eitt andlit herna
Hér á Akureyri búa nokkrir Víkarar. Fáa þeirra hef ég hitt, en séð nokkrum bregða fyrir á förnum vegi. Þeirra á meðal eru Daði og Ráðhildur og Elín Kjartans, sem er gamall nemandi minn. Svo veit ég að Gummi Gunnars á helminginn í einum bekkjarbróður Perlu Maríu í 1. bekk. Þá hitti ég Betu Árna á Sjúkrahúsinu um daginn og Huldu Péturs á bílastæðinu við leikskólann. Á sunnudaginn heimsótti ég svo Möggu mömmu Huldu og Péturs vinar míns.
Hér eru líka Ísfirðingar og Hnífsdælingar. Ég hitti Gísla Árna á vellinum og sá líka Gunnar sem var nú barasta þjálfari hjá Reyni Hnífsdal þegar við Gísli lékum saman með þeim ´97. Og málarinn sem ég vinn hjá þessa dagana er líka Ísfirðingur.
Í morgun heyrði ég viðtal í útvarpinu við skemmtilegan mann af Skaganum sem einu sinni var yfirmaður minn í sumarvinnu fyrir sunnan. Hann var kynntur til sögunnar sem lektor við HA. Hann hlýtur þá að búa hér. Vonandi hitti ég hann einhverntíma.