Kommahjal
Hvað á maður að segja?
Jú mér fannst góð greinin á bloggi Gríms Atlasonar um þjónustuskerðingu Póstsins. Fólkinu í „hinum dreifðu byggðum", eins og Steingrímur J. segir gjarnan, finnst póstþjónusta í landinu ekki hafa batnað þótt Pósturinn hafi verið seldur. Því er nefnilega öfugt farið. Og það er ekki bara Pósturinn sem hefur versnað. Það hefur líka Síminn gert og þótt framboðið á þjónustunni sé sjálfsagt meira en það var og að nú sé hægt að velja hvar maður kaupir fjarskiptaþjónustuna, hefur verðið hækkað gríðarlega. Alveg gríðarlega. Það var nú öll hagræðingin sem heimilin í landinu höfðu upp úr sölu Símans. Ekkert skipafélag fæst til að sigla með þungavöru um landið. Þar finnst mér að Ríkið ætti að skerast í leikinn. Eitt flugfélag hefur innanlandsflugið í heljargreipum og flýgur aðeins til örfárra staða á landinu og alltaf til Reykjavíkur. Fargjöldin eru svo svimandi há að fæstir hafa efni á að nýta sér þjónustuna. Þarna hafa lögmál hins frjálsa markaðar ekki hjálpað okkur íbúum landsins hót. Svo fannst mér gott að heyra umræðuna í vikunni um að Ríkið ætti að koma að eldsneytisdreifingu og eldsneytissölu. Ég var þá ekki einn um að vera á þeirri skoðun. Það myndi lækka verðið um leið og það verulega.