Hvað er i gangi?
Þá eru allir komnir af stað í skólunum sínum. Perla María í 1. bekk, Hákon í 6. bekk og Hringur á Sólardeildinni í leikskólanum. Allt er að færast í fastar skorður. Allir virðast ætla að ganga hratt og vel inn í hverslagsathafnir hvers staðar. Það er vel. Þá er kominn tími til að ég, fyrirvinnan, fari að huga að því sem tekur við hjá mér. Ég stóðst ágjöfina frá skólastjórunum og sagði nei við óskunum sem mér bárust um að kenna við grunnskóla. Fátt annað hefur svo sem rekið á fjörur mínar. Reyndar var eitt starf sem ég kannaði, en við nánari skoðun fannst mér ég hvorki hafa áhuga né þekkingu til að sinna því starfi svo vel væri. Svo var annað sem ég hef takmarkaðan áhuga á að taka að mér og það þriðja sem ég gat vel hugsað mér að sinna en launin reyndust vera um 100% lægri en ég hefði viljað.
Nú svo hef ég borið mig eftir tvennu. Annað er starf þar sem menntun mín og reynsla sem kennari nýtist ágætlega og myndi líka teljast mér til tekna alla leið ofan í launaumslagið. Ég hef sótt um það starf, er reyndar með smábakþanka núna um hvort mig langi í það. Ef svo færi að ég endaði á þeim stað, myndi ég byrja þar um næstu mánaðamót. Þangað til, alla vega, var ég að ráða mig í málningarvinnu.