Nafnið og giggið
Ég vil þakka Kristjáni og Elmari Erni fyrir tillögurnar að nafngift á dúettinn okkar Gunnars Sturlu. Ég er sérstaklega hrifinn af tillögu Elmars Ernis, Tæglega tríó - það á sérstaklega vel við okkur félagana. Auk þess að vísa til stærðar okkar á alla vegu ber þetta nafn með sér karlagrobb um að við tveir séum, þegar við leggjum saman, þriggja manna makar, eða næstum því. Við ætlum að hafa hljóðfæri með okkur svo það er ekki svo fjarri sanni að við séum tæplega tríó.
Það gekk bara prýðilega hjá kvartettnum í gærkvöldi. Það var ófalskur söngurinn. Sjálfur var ég ekki að syngja bassalínuna eins og hún var skrifuð í einu laginu, alla vega ekki í öllum versunum, en ég var örugglega að syngja tóna sem pössuðu inn í hljóminn, svo það kom ekki mikið að sök. Svo þurftum við að byrja aftur á einu laginu, eftir að byrjunin hafði farið út um þúfur. Vel var látið af atriðinu. Þetta var góð upphitun fyrir eitthvað meira. Annars vorum við að syngja lög sem eru mjög þekkt og við þekktum tiltölulega vel. En við erum búin að vera að æfa okkur á öðru með, en það var bara ekki farið að renna nógu vel hjá okkur til þess að hægt væri að bjóða upp á það í þetta skipti.
Mig langar að láta útsetja fyrir kvartettinn a.m.k. eitt lag. Heiðrún, þig vantar ekki verkefni ? Geturðu ekki tengt það við skólann þinn að útsetja íslenskt söng/dægurlag fyrir blandaðan kvartett?