BOSTON
Þá hef ég endurheimt kærustuna frá USA. Hún fór út með eina stóra, hálftóma ferðatösku. Hún kom svo heim með þrjár misstórar úttroðnar töskur og hafði auk þess hlaðið á sjálfa sig þyngsta fatnaðinum sem hún keypti sér í einhverju mollinu þarna í Boston. Þetta var annars engin skemmtiferð hjá henni. Hún er algjörlega útkeyrð blessunin. En þær systur gáfu sér þó tíma til að koma við í mollinu. Mér lék því forvitni á að vita hvort þær hefðu þá ekki heimsótt Staupastein og gert ferðina þannig að menningarferð svona í leiðinni. „Er hann í Boston?", svaraði Gréta.
Ég veit eiginlega ekkert um Boston.
Ég þekki 6 staðreyndir um staðinn;
ég hef nokkra hugmynd um það hvar hann er á landakortinu,
ég veit að þar er þessi frægi spítali sem hjartveik börn frá Íslandi hafa mörg heimsótt,
ég veit að þar er Harvard haskólinn,
ég veit að einhvers staðar þarna í borginni er frægur tónlistarháskóli sem heitir Berkley
ég man að körfuboltasnillingurinn Larry Bird lék með Boston Celtic og að þeir léku í hvítum og grænum búningum
og ég veit að þættirnir um Staupastein áttu að gerast á samnefndri krá sem er í Boston og leikmyndin var nákvæm eftirlíking af henni.
Nú veit ég líka að henni Grétu minni þykir verðlag á fatnaði í Boston vera njög hagstætt.